29.7.2007 | 00:52
ÞÓRUNN OG ÖSSUR, YKKAR TÍMI ER KOMINN EÐA HVAÐ?
Það hefur legið ljóst fyrir síðustu misserin hvernig menn hafa farið á ráði sínu í framkvæmdagleðinni á ýmsum stöðum við virkjanir. Öll kurl eru ekki komin til grafar í Múlavirkjun ef marka má frásögn vinar míns í kvöld sem segir frá mikilli röskun á jarðvegi í Hraunsfjarðarvatni, sem liggur þétt norðan að Baulárvallavatni. Allar götur þaðan norður i Hraunsfjörð blasa við ljótar efnistökunámur og má segja að nú sé allt svæðið frá Straumfjarðará norður í Hraunsfjörð orðið að sorglegu minnismerki um þá framkvæmdagleði á þessu svæði sem hefur skaðað ásýnd þess og orðstír Snæfellinga.
Engu virðist hafa skipt þótt margtuggið hafi verið í fréttum um þessi spjöll öll og er skemmst að minnast algerlega óþarfra spjalla við mynni litfegursta gils á öllu Suðvesturlandi, en það eru Sogin við Trölladyngju.
Um það var fjallað í fréttum Sjónvarpsins með ítarlegri myndvinnslu án þess að það virtist hafa nokkur áhrif.
Afspyrnu vond vegagerð á fráleitu vegastæði og sögun stóreflis borplans inn í græna hlíð við mynni þessa stórkostlega gils kom hvorki á borð Skipulagsstofnunar né Umhverfisráðuneytisins heldur var þetta gert í krafti rannsóknaleyfis.
Það er fyrir löng kominn tími til að nýjir umhverfis- og iðnaðarráðherrar láti til sín taka í að breyta þeim lögum, sem gefa færi á svona framkvæmdum.
Jóhanna Sigurðardóttir segir þessa dagana: Minn tími er kominn!
Hvað um ykkur, Þórunn og Össurar? Er ykkar tími ekki kominn?
![]() |
Ráðherra leggur til að stjórnsýsla lítilla virkjana verði tekin til endurskoðunar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
28.7.2007 | 00:19
EYJAGÖNG OG HÉÐINSFJARÐARGÖNG.
Eitt af fyrstu verkum Kristjáns Möller sem samgönguráðherra um að slá af Eyjagöng vekur upp hugrenningar um þessa hugmynd og göngin sem sami Kristján barðist svo ákaft fyrir á sínum tíma, - Héðinsfjarðargöngin. Þótt Kristján hafi nú staðið að ákvörðunum um hvort tveggja á ýmislegt eftir að koma betur í ljós síðar þegar menn kanna aðdraganda og aðferðir við þessara ákvarðanir. Ég bendi á næsta blogg mitt á undan þessu um þetta mál.
![]() |
Engin jarðgöng til Vestmannaeyja en ferðum Herjólfs fjölgað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
28.7.2007 | 00:04
EYJAGÖNG, - EKKI ÞAU FYRSTU ÚT Á ENDASTÖÐ.
Göng út á endastöð gera ekki eins mikið gagn og göng sem gagnast mörgum landshlutum líkt og Hvalfjarðargöngin gera. Þetta er einn helsti ókostur Héðinsfjarðarganga og hefði verið hægt að komast hjá honum með því að fara þá leið sem Trausti Sveinsson lagði til. Með því að fara þá leið hefði unnist tvennt sem ekki vinnst með Héðinsfjarðargöngum:
1. Siglfirðingar hefðu fengið örugga leið yfir í Skagafjörð í stað hins hættulega og ótrausta vegar um Almenninga.
2. Skapast hefði örugg heilsárs hringleið um Tröllaskaga.
Eyjagöng líta út fyrir að vera göng út á endastöð en yrðu það ekki að öllu leyti ef höfnin þar yrði stækkuð og nýttist þannig til að stytta meginflutningaleiðina á sjó til landsins.
En þá er líka spurningin hvort með því að gera Eyjar að slíkri samgöngumiðstöð erils og hávaða sé fórnað þeim töfrum sem þær hafa eins og þær eru nú, - hvort þær séu að því leyti hliðstæðar Héðinsfirði.
Það er stór ókostur við Héðinsfjarðargöng, sem aldrei var reiknaður til fjár, að með þeim er eyðilagt sívaxandi gildi Héðinsfjarðar sem eina óbyggða fjarðarins frá Ófeigsfirði á Ströndum allt austur til Loðmundarfjarðar.
Vonandi fara einhverjir síðar ofan í baráttu Trausta Sveinssonar við ofurefli stjórnmálamanna, sem horfðu á samgöngumálin yst við Eyjafjörð út frá þröngum sjónarhóli samgangna um Norðausturkjördæmi, rétt eins og ekkert væri fyrir vestan kjördæmamörkin um miðjan Tröllaskaga.
Í því máli beittu þeir svipaðri þrákelkni og ofurkappi og lagt var í upphafi á hugmyndina um trukkaveg um Stórasand og Arnarvatnsheiði sem góðu heilli hefur ekki fengist fram.
Ég fylgdist á sínum tíma nokkuð vel með baráttu Trausta sem fórnaði öllu sínu fyrir sinn málstað en galt þess að þeir sem höfðu völdin og peningana gátu notað sér hrikalegan aðstöðumun.
Slíkur aðstöðumunur er í raun brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.
Í löggjöf fjölmargra nágrannalanda okkar er hinu opinbera skylt að veita fé til þeirra sem þurfa að greiða fyrir rannsóknir og málafylgju í rökræðu gegn opinberu valdi og berjast í því efni við aðila sem hafa, eins og áður sagði, yfirburði valda, aðstöðu og fjármagns.
Íslendingar eru eina þjóðin í okkar heimshluta sem ekki hafa staðfest svonefndan Árósasáttmála sem kveður á um þetta efni.
Héiðinfjarðargöngin, Kárahnjúkavirkjun og margar aðrar slíkar framkvæmdir eru dæmi um það hvernig þeir sem höfðu yfirburði í völdum, áhrifum og fjármunum, fengu sitt fram og vilja halda áfram að fá sitt fram.
Enda bólar ekkert á staðfestingu á Árósasáttmálanum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
26.7.2007 | 22:38
UTANVEGAAKSTUR - ÓKLÁRAÐ MÁL.
Dómstólar landsins eru að mínum dómi á réttu róli þegar þeir túlka vafa og óljós ákvæði laga um utanvegaakstur hinum ákærða í vil. Í forystugrein Morgunblaðsins í dag kemur fram að höfundur leiðarans fylgist ekki nógu vel með ástandi þeirra mála. Í fyrra kynnti Jónína Bjartmars þáverandi umhverfisráðherra fyrirætlanir um það hvernig staðið yrði að merkingu viðurkenndra vega og slóða og þá kom fram að mikið verk er enn óunnið í þeim efnum.
Það er því ótímabært að hamast í þessu máli fyrr en því verki er lokið, en það felst í því að merkja inn á kort Landmælinga Íslands alla þá vegarslóða sem viðurkenndir eru þannig að eftir það verði hægt að dæma með vissu um það hvort lög hafa verið brotin eða ekki.
Sem dæmi um það verk sem ólokið er má nefna, að þegar ég leit af handahófi á það á þáverandi korti Landmælinga hvort vegarslóði, sem liggur inn að Brúarjökli væri á kortinu, kom í ljós að hann var það ekki.
Það hefði þýtt eftir strangri túlkun laganna að allir þeir fjölmörgu sem óku þá leið á þeim tíma hefðu verið að brjóta lögin.
Afar ósanngjarnt hefði verið á þeim tíma að ákæra allt þetta fólk. Ástæðurnar voru tvær: Þar sem slóðinn byrjaði var og er stórt skilti vegagerðarinnar sem á stendur: "Brúarjökull 8 km."
Þetta skilti er jafn vandað og traust og venjuleg skilti Vegagerðarinnar sem allir helstu þjóðvegir landsins eru merktir með.
Í öðru lagi var það fáránlegt að ekki væri viðurkennd eina slóðin vestan Jökulsár á Dal sem liggur upp að Brúarjökli.
Rétt eins og þessi slembiathugun mín leiddi í ljós að hér þyrfti að vinna betur að verki hefur komið í ljós að engin leið er að klára það á vandaðan hátt nema hafa samráð við kunnugustu menn í héraði sem og önnur samtök ferðamanna svo sem Ferðaklúbbinn 4x4.
Þessi vinna stendur nú yfir og það er ekki fyrr en henni er örugglega lokið sem hægt verður að fara að dæma menn af sanngirni og viti.
Sem dæmi um menn sem hafa allt að hálfrar aldar reynslu af slóðum og leiðum á hálendinu vil ég nefna Völund Jóhannesson á Egilsstöðum sem á sínum tíma vann með Vegagerðinni og öðrum sem fóru um hálendi Austurlands að finna bestu slóðirnar og merkja þær.
Slíka menn þarf að leita uppi og fá til samstarfs um þetta mikilvæga verk.
Mér er kunnugt um að á því svæði sem Völundur hefur verið manna kunnugastur um í nær hálfa öld er ekki enn búið að fara um og ákveða um merkingar slóða en það mun standa til síðar í sumar.
Þangað til held ég að menn ættu að geyma stríðsaxirnar og lofa þeim sem verkið vinna að ljúka því vel og örugglega.
Völundur hefur sagt mér að mjög miklu hafi alltaf skipt að merkja leiðirnar vel og hafa um þær góðar upplýsingar.
Sé það ekki gert villast margir og slóðarnir liggja út um allt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
26.7.2007 | 00:56
MÚLAVIRKJUN,- ÚTSMOGIN FRAMKVÆMD.
Í íslenskum lögum eru ákvæði um mat á umhverfisáhrifum sem sýna gamlan hugsunarhátt, því að í lögunum er miðað er við stærð virkjunar en ekki umfang umhverfisáhrifanna. Mér er minnisstæð virkjun við Hvestu í Arnarfirði þar sem sú virkjun varð að hlíta lögum um mat á umhverfisáhrifum þótt um væri að ræða svo lítið rask að maður varð að leita að virkjuninni úr lofti og sá hana alls ekki af landi.
Ástæðan var gríðarleg fallhæð sem skóp aflið, en aðeins voru beislaðir litlir lækir.
Á sama tíma blasir við hvernig virkja á við Fjarðará í Seyðisfirði með því að skipta ánni í nokkrar virkjanir sem eru undir viðmiðunarmörkum.
Múlavirkjun á Snæfellsnesi er sér kapítuli út af fyrir sig þar sem menn sitja báðum megin við borðið sem virkjunaraðilar og sveitarstjórnarmenn.
Þar með hafa þeir eftirlit með sjálfum sér og skrifa upp á hjá sjálfum sér.
Ef fallhæð virkjunar er nógu lítil er hægt að setja upp virkjun sem er undir viðmiðunarmörkum um afl en hefur samt margfalt meiri umhverfisáhrif en lækjasprænuvirkjunin í Arnarfirði.
Það eru sérkennilegar mótsagnir í því hvort betra sé að hið opinbera eða einstaklingar standi að virkjunum.
Þannig hefði aldrei verið hægt að fara út í Kárahnjúkavirkjun nema með því að láta ríkið ábyrgjast og standa að þessari dæmalausu framkvæmd.
Múlavirkjun og fleiri slíkar sýna hins vegar að draumsýn Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar um að einstaklingar standi ávalt best að nýtingu landsins gengur ekki upp.
Besta dæmið um það er hrikaleg meðferð á afréttum og beitarlöndum um allt land.
Ég kom hér á árum áður oft á svæði þar sem gróðureyðingin af völdum beitar blasti við en bændurnir sögðu alltaf: Þetta hefur alltaf verið svona og ekkert breyst. Þetta vitum við, sem erum kunnugir þessu, þú veist ekki hvað þú ert að tala um.
Ég átti ekkert svar við þessu fyrr en ég kom á svæði fyrir sunnan Hafnarfjörð þar sem fjáreigendur sögðu þetta sama við mig.
Þá loksins gat ég svarað þeim því að ég hafði verið þarna tvo mánuði á sumri í þrjú sumur og vissi sjálfur hve mjög landinu hafði farið aftur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
24.7.2007 | 14:32
FERÐAMENN OG ÁLVER, - ÓJAFN LEIKUR.
Morgunblaðið og fleiri fjölmiðlar hafa dregið upp dökka mynd af þeirri vá sem íslenskri náttúru stafar af ágangi ferðamanna og lagt það að jöfnu við virkjanaframkvæmdir. Á þessu tvennu er þó mikill munur. Kárahnjúkavirkjun veldur mestu óafturkræfu neikvæðu umhverfisáhrifum sem möguleg eru á þessu landi en án virkjunar hefði verið hægt að fá út úr því svæði meiri tekjur með hverfandi umhverfisáhrifum.
Ef svæðið þar sem virkjunin er hefði verið sett á heimsminjaskrá og aðeins broti af því fé sem eytt hefur verið í virkjunina notað til þess að auglýsa og markaðssetja svæðið sem ferðamannasvæði hefði verið hægt að frá af því meiri tekjur og bæta ímynd og orðspor lands og þjóðar í stað þess að að standa að þeirri miklu eyðileggingu náttúruverðmæta sem þarna á sér stað.
Eftir að hafa farið um Hjalladal gangandi, fljúgandi og siglandi get ég fullyrt að hægt hefði verið að hafa í dalnum meira 100 kílómetra langa göngustíga í þremur mismunandi hæðum yfir dalbotninum þar sem ferðamaðurinn hefði getað séð einstæð listaverk og ótrúleg afköst Jöklu.
Tíu dögum fyrir drekkingu dalsins uppgötvaði ég að á botninum tók sköpunargleði Jöklu öllu fram sem hægt er að taka til samaburðar í heiminum.
Í þjóðgörðum erlendis má sjá hvernig höfð er fullkomin stjórn á umferð milljóna ferðamanna án þess að þeir valdi óafturkræfum umhverfisspjöllum.
Þetta er hægt með því að þaulkanna og skipuleggja svæðið og skipta því í minni svæði með mismunandi mikilli umferð.
Yellowstone er 9000 ferkílómetrar og þar tekst mönnum að skipuleggja umferð ferðamanna þannig að ekki hljótist spjöll af af þeim tveimur milljónum ferðamanna sem þangað koma.
Það þarf að vísu að beita ítölu á 1600 km langa göngustíga garðsins en með ítölunni er ferðamanninum tryggð sú einvera eða fámenni sem hann sækist eftir.
Hér á landi er öllum ferðamönnunum beint að örfáum stöðum þar sem ekki er hætta á að þurfi að virkja en forðast að láta nokkurn mann vita eða gera neitt til þess að opna fjölmörg önnur svæði þangað sem hægt væri að dreifa ferðamannastraumnum.
Þess vegna liggur lélegasti malarvegur Suðurlandsundirlendisins að Urriðafossi. Þess vegna er mjög erfitt að komast að hinum stórkostlegu fossum i Þjórsá, sem þurrka á upp með Norðlingaölduveitu.
Þess vegna kostar það daglanga gönguferð að skoða hina tignarlegu fossa í Jökulsá í Fljótsdal sem þurrka á upp að ekki sé talað um hina mögnuðu fossa í Kelduá sem er enn betur varðveitt leyndarmál.
Þess vegna hefur ekkert verið gert með þá stórkostlegu og einstæðu möguleika sem svæðið norðaustan við Mývatn getur boðið upp á ef það verður látið ógert að fara þar frekar fram í virkjunum með tilheyrandi borholum, leiðslum, stöðvarhúsum og raflínum.
Þess vegna gat Samfylkining ekki komið því í gegn í stjórnarsáttmálanum að verðmæti íslenskrar náttúru yrði nú loksins rannsakað ítarlega og endanlega.
Það er notuð tangarsókn gegn íslenskri náttúru.
Úr einni áttinni sækja þeir sem vilja að íslensk náttúra sé sem minnst könnuð og verðmæti hennar ósnortinni haldið kyrfilega leyndri svo að engin hætta sé á að hún ósnortin veiti stóriðjunni samkeppni. Ekki má eyða krónu til þess að ósnortin náttúra njóti jafnræðis gagnvart virkjunum hvað snertir rannsóknir, markaðssetningu og fjárfestingar til framtíðar.
Úr annarri átt sækja þeir sem nýta sér þetta framtaksleysi og benda á að í óefni stefni vegna átroðnings skipulagslausrar og einhæfrar ferðamennsku og leggja það að jöfnu við margfalt verri umhverfisspjöll virkjananna.
Úr þriðju áttinni sækja þeir sem segja: Þarna sjáið þið, - eina leiðin til að nýta landið er að virkja fyrir stóriðjuna.
Síðan er klykkt út með því að segja að ferðamannastraumur til landsins auki á mengun andrúmsloftsins.
Þá gefa menn sér það að ferðamenn sem koma til Íslands hefðu annars ekki ferðast neitt.
En það er ekki rétt. Eldfjallaþjóðgarðar norðan Vatnajökuls allt niður til Húsavíkur og á Reykjanesskaga myndu keppa um ferðamenn við svipuð svæði á Hawai, Nýja-Sjálandi og Kamsjatka.
Til allra þessara staða er miklu lengri leið en til Íslands. Það er styttra frá París til Íslands en frá New York til Yellowstone.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
23.7.2007 | 13:53
SÖMU KJÖR FYRIR ÁL OG KÁL!
Þetta var eitt af slagorðum Íslandshreyfingarinnar fyrir síðustu kosningar, komið úr smiðju Jakobs Frímanns Magnússonar og einkum borið fram að ungliðum hreyfingarinnar, sem dreifðu miða með því.
Ekki þarf að fjölyrða um skeleggan málflutning Ástu Þorleifsdóttur og annarra frambjóðenda hreyfingarinnar í kosningabaráttunni á Suðurlandi þar sem hagsmunir garðyrkjubænda eru mestir.
Nú hefur viðskiptaráðherra tekið undir þetta og er það vel.
Það hefur alla tíð verið notað sem afsökun fyrir óheyrilegum verðmun á rafmagni fyrir ál og almenn not að álverin noti orkuna stöðugt allan sólarhringinn árið um kring en ekki mismunandi mikið eftir aðstæðum.
Þetta á ekki við um garðyrkjubændur í sama mæli og aðra almenna notendur og hefði átt að vera búið að jafna þennan mun fyrir mörgum áratugum.
Nú er bara að sjá hverjar efndirnar verða hjá nýjum viðskiptaráðherra.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
22.7.2007 | 14:34
HVAÐ VEKUR ATHYGLI OG SKAPAR ÁRANGUR?
Ráðstefna um stóriðju og umhverfismála sem haldin var heila helgi á Hótel Hlíð í Ölfusi vakti litla sem enga athygli fjölmiðla. Ég fylgdist með upphafi hennar og kom þar stuttlega við síðar og þann tíma sem ég staldraði þarna við var augljóslega vandað til dagskrár og fólk frá ýmsum heimshornum flutti áhugarverða og fræðandi fyrirlestra fyrir fullum sal áhugasams fólks víðvegar að úr heiminum.
Glæsilegir tónleikar margra af fremstu tónlistarmönnum þjóðarinnar sem haldnir voru við Austurvöll hurfu nánast í fjölmiðlum.
En það var ekki fyrr en nokkrir þátttakendanna hófu mótmælaaðgerðir í öðrum stíl en Íslendingar eiga að venjast að fjölmiðlar brugðust við af áhuga.
Skilaboðin sem send eru þessu mótmælafólki eru dapurleg: Ef þið haldið tónleika og ráðstefnu og boðið til blaðamannafunda um málefni ykkar höfum við ekki áhuga.
Ef þið hlekkið ykkur við vinnuvélar, klifrið upp á krana eða lendið í útstöðum við lögreglu komist þið á forsíður og fáið beinar útsendingar af vettvangi.
Slík mótmæli komast á forsíður.
15 þúsund manna friðsamleg mótmælaganga með öllum tilskyldum leyfum lögreglu í fyrrahaust komst ekki á útsíður Morgunblaðsins ef ég man rétt.
Ég sá nýlega viðtal við Robert Mc Namara sem var varnarmálaráðherra Bandaríkjamanna í Vietnam-stríðinu og var til þess tekið að 50 þúsund manns hefðu mótmælt við þinghúsið og 20 þúsund manns við varnarmálaráðuneytið.
Þetta þótti mikið hjá þjóð sem er þúsund sinnum mannfleiri en Íslendingar og var talið hafa skipt miklu máli um það hvernig Bandaríkjamenn urðu að láta undan síga í Vietnam.
Þingeyskir bændur fóru mikla för á dráttarvélum til að mótmæla fyrirætlunum um stórfelldar virkjanaframkvæmdir við Laxá og Mývatn.
Þeir komust að þeirri niðurstöðu að slík aðgerð dygði ekki og notuðu því dínamit til að sprengja stíflu í Miðkvísl.
Það er dapurleg staðreynd að slík aðgerð skyldi verða eina mótmælaaðgerðin á Íslandi til þess að duga í svona máli.
Að vísu var hætt við að sökkva Eyjabökkum eftir glæsilega undirskrifaherferð andstæðinga þess og fleiri mótmælaaðgerðir sem halda munu nafni þeirra, sem að því stóðu, á lofti um ókomna tíð.
En í raun hörfuðu virkjanasinnar ekki fet, heldur hættu þeir einungis við að sökkva Eyjabökkum vegna þess að þeir fundu leið til þess að virkja enn stórkarlalegar við Kárahnjúka og fá þar fram meiri miðlun en upphaflega var ætlunin með bæði Hálslóni og Eyjabakkalóni.
Ef sú útsmogna leið hefði ekki fundist væru Eyjabakkar sokknir.
Rétt er að hafa í huga að hvergi sést um það stafur að hætt hafi verið við áformin við Eyjabakka og Laxá, heldur eiga virkjanasinnar það uppi í erminni.
Um hvoruga fyrirætlanina hefur farið fram mat á umhverfisáhrifum og því þarf sífellt að vera á varðbergi.
Niðurstaða: Það er sorgleg staðreynd að nokkrir mótmælendur uppi í krana vekja meiri athygli en 15 þúsund manna mótmælaganga, tónleikar, blaðamannafundir og ráðstefnur og í eina skiptið sem notað hefur verið dínamit í mótmælaskyni voru áhrifin meiri en af ótal ályktunum og mótmælafundum.
Ég segi sorgleg staðreynd því að mér fyndist betra ef þetta væri á hinn veginn.
![]() |
Minni trú á stjórnmálaflokkum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
20.7.2007 | 10:33
LÍTIÐ, FALLEGT LÓN, PRÝÐI LANDSINS.
Hef verið að sigla á Hálslóni og fljúga yfir það síðan í vor. "Lítið fallegt lón" segja margir "og landið hefur fríkkað mikið við það." Skrifaðar hafa verið greinar um hina miklu veiði sem geti verið í lóninu og laxveiðiparadís sem myndist fyrir neðan stífluna. Ég mældi skyggnið í hinu karamellubrúna lóni í gær. Það var 2,5 sentimetrar, ein tomma. Mjög hagstætt fyrir fiskana?
"Lítið lón", segja menn, "aðeins 0,05 prósent af Íslandi." Jú, smáræði, sem tekur varla að minnast á. Þingvellir eru sennilega um 0,005 prósent af Íslandi. Smáræði.
Malargryfja í Esjunni á stærð við gryfjuna í Ingólfsfjalli yrði líklega 0,0001 prósent af Íslandi. Tæki því ekki að minnast á svona smotterí ef mönnum dytti í hug að nýta auðlind Esjunnar.
Rauðhólarnir voru aðeins 0,0005 prósent af Íslandi. Ef það stæði til að nýta þá í dag yrði það að sjálfsögðu gert eins og skot.
Fallegt fjallavatn, Hálsón? Jú, kirkjugarðarnir eru líka fallegir og eiga það sameiginlegt með Hálslóni að vera gröf mikils lífs.
Með því að sökkva Landmannalaugum og Jökulgili mætti gera eitt fegursta vatn landsins, - líka með því að setja stíflu í Jökulsá í Lóni neðan við Illakamb á Lónsöræfum inn af Lóni og gera með því fegursta og raunar eina fjallavatnið á Austfjörðum.
Stíflur í virkjunum í Jökulgili og á Lónsöræfum yrðu mikil prýði.
Það yrði mjög falleg virkjun og vatnið aðeins 0,02 prósent af Íslandi.
Það mætti sökkva Norðurárdal í Borgarfirði og gera með því fallegasta vatnið á Vesturlandi. Flatarmálið aðeins 0,05 prósent af Íslandi.
Í júníbyrjun næsta vor þegar minnst er í Hálslóni, verður yfirborð þess aðeins innan við þriðjungur af því flatarmáli sem vatnið er þegar það hefur fyllst. 40 ferkílómetrar lands verða þá þaktir fíngerðum leir, sem verður eins og hveiti þegar hann þornar.
Vatnið og umhverfi þess verður mjög fallegt á ljósmyndum ferðafólks sem það mun horfa á í hæfilegri fjarlægð frá leirstormunum sem koma mun af svæðinu í hvassri og þurri suðvestanátt.
Leirsvæðið við Hagavatn sem drekkti Suðurlandi í leirfoki á dögunum er aðeins lítill hluti af flatarmáli leirsvæðisins sem verður fram eftir sumri í þurru lónstæði Hálslóns. Enn meira smotterí.
Nei, segja fylgjendurnir, það verður ráðið við þetta með mótvægisaðgerðum og benda á gæðastimpil Sivjar Friðleifsdóttur sem kveður á um það að með því að dreifa rykbindiefnum úr flugvélum og vökva þessa 40 ferkílómetra lands á nokkrum klukkustundum verði sandfokið heft.
Erik Solheim formaður norsku náttúruverndarsamtakanna kom tvívegis til Íslands og kynnti sér Kárahnjúkavirkjun. Hann þekkir mestu og áköfustu umhverfisverndardeilu Noregs til hlítar þegar heimsbyggðin fylgdist með mótmælum við Altavirkjun.
"Sú virkjun er smáræði miðað við þau í óheyrilegu náttúruspjöll sem Káranhnjúkavirkjun veldur" sagði Solheim.
Alta, hin heimsfrægu náttúruspjöll í Noregi er því miklu minna smáræði en Kárahnjúkavirkjun og furðulegt að láta slít smotterí komast í fréttir.
Nú er ég á leið upp að Kirkjufossi til að taka síðustu kvikmyndina af þessum stórfossi sem svo fáir þekkja eða vilja þekkja.
Næsta sumar verður hann þurrkaður upp ásamt öðrum stórfossum Jökulsár í Fljótsdal og Kringilsár.
Eyjabakkar? Er það ekki gata í Breiðholtinu spurði Davíð Oddsson.
Kirkjufoss? Er það ekki prjónaverslun í miðbænum?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (29)
17.7.2007 | 11:59
STÓRIÐJU Í HVERN FJÖRÐ!
Halldór Halldórsson bæjarstjóri á Ísafirði hefur nú komist að sömu niðurstöðu og verið hefur aðal röksemd stóriðjusinna um árabil: Stóriðja er eina lausnin í atvinnumálum landsbyggðarinnar, reynslan sýnir að ekkert annað er framkvæmanlegt. Þegar þessi niðurstaða er krufin til mergjar sést að hún er byggð á vanþekkingu og viljaleysi.
Halldór segir að náttúruverndarsinnar hafi boðið Vestfirðingum upp á þá lausn að leysa vandann með því að auglýsa Vestfirði sem eina stóriðjulausa landsfjórðunginn, nátturuverndarsinnar hafi boðið upp á nokkur hundruð störf við þetta en ekki getað skapað eitt einasta.
Ástæða þess að ekki var hægt að uppfylla "loforðið" var tvíþætt:
1. Það það þarf peninga til að skapa peninga.
Íslenska þjóðin varð að eyða 130 milljörðum króna og fá erlendan aðila til að eyða 100 milljörðum í viðbót til þess að reisa risavirkjun sem verður í raun rekin með tapi og til frambúðar aðeins lítilsháttar fólksfjölgun í næsta nágrenni álverksmiðjunar en fólk og fjármunir sogað frá öðrum byggðum á Austurlandi.
Náttúruverndarsinnar hefðu getað gert sitthvað við 230 milljarða króna í til að frjámagna nýja möguleika á Vestfjörðum sem gætu gefið aðra atvinnu en störf í mengandi stórverksmiðjum.
En þessa peninga höfðu náttúruverndarsinnar ekki og enginn hefur lýst því betur en Kristinn H. Gunnarsson hvernig Vestfirðir hafa verið sveltir af stjórnvöldum í þessu efni. Í eldhúsdagsumræðu sagði hann að með sama áframhaldi þyrftu Vestfirðingar 2000 ár til þess að fá í sinn hlut jafn mikið fé og ausið var í Austfirðinga.
2, Við núverandi aðstæður eru Vestfirðir sá landshluti sem hvað erfiðast er að markaðsetja sem ferðamannasvæði. Samgöngur við svæðið eru þær langverstu á landinu og fjórðungurinn afræktur með það að erlendir ferðamenn komist þangað með skaplegum hætti frá Keflavíkurflugvelli.
Í nýlegri bók sem inniheldur 100 mestu undur veraldar eru aðéins sex náttúrufyrirbrigði í Evrópu á lista.
Fremst í bókinni eru tvö þessara undra: 1. Norsku firðirnir. 2. Hinn eldvirki hluti Íslands.
Tvennt vekur athygli í sambandi við þetta:
1. Vestfirðír, Tröllaskagi og Austfirðir eiga ofjarl þar sem eru norsku firðirnir.
2. Það er hinn eldvirki hluti Íslands, samspil elds og íss, sem er einstæður og það sést best á því að í Norður-Ameríku er mikill fjöldi náttúrufyrirbæra sem kemst á listann samt kemst frægasti þjóðgarður heims, Yellowstone, ekki á listann. Hvers vegna? Vegna þess að hann kemst ekki í hálfkvisti við hinn eldvirka hluta Íslands.
Til að "selja" hlut þarf tvennt: Hann þarf að vera sá besti, vera einstakur, og það þarf að kynna hann.
Hinn eldvirki hluti Íslands er einstakur en vegna stóriðjufíknar er í raun leitast við að fela þetta mikla verðmæti til þess að geta sagt að svo fáir hafi séð það eða viti á því deili að það skipti ekki máli.
Það nöturlegasta við þetta allt er það að Vestfirðir, sem eru sá landshluti sem erfiðast á að keppa við ofjarla sína í nágrannalöndunum, er sá landshluti þar sem vatnsaflsvirkjanir yllu minnstu umhverfisspjöllum á landinu og að þess vegna hefði fyrsta álverið átt að rísa þar!
Meint "tilboð" náttúruverndarsinna byggðist á ónógri þekkingu á verðmætunum sem málið snerist um.
Halldór segir að nú sé fullreynt að aðeins stóriðja geti bjargað byggð á Vestfjörðum. Það er auðvelt að segja þetta þegar fyrir liggur að engu hefur mátt kosta til til þess að markaðssetja það sem "selja" á.
Það er nefnilega þrátt fyrir allt ekki rétt að Vestfirðir eigi enga möguleika í ferðamennsku.
Ég minntist áðan á nauðsyn þess að bjóða eitthvað einstakt. Á ferð minni um vesturströnd Írlands komst ég að því að Írar auglýsa fuglabjarg eitt sem hið stærsta í Evrópu og græða á því drjúgan skilding.
Á Vestfjörðum eru þrjú miklu stærri fuglabjörg en það er dæmi um hve lítið menn gera með þessi verðmæti að nýlega var flugbraut Patreksfjarðarflugvallar, sem liggur næst Látrabjargi, stytt úr 1400 metrum niður í 800 metra og þar með tryggt að nýjasta flugvél flugfélagsins Ernis gæti ekki notað hana!
Sagnaslóðir og tengsl Vestfirðinga við sjóinn, sérstæð menning Vestfirðinga, eru líka atriði sem vert væri að huga að.
En ekkert af þessu þykir brúklegt. Nei, nú er farið vík úr vík og fjörð úr firði til þess að leita að stöðum fyrir stóriðju Vestfirðinga, olíuhreinsistöðvar.
Ekkert er skeytt um það hvort til sé kvóti samkvæmt Kyoto-samkomulaginu til þess arna, - nei við segjum okkur bara frá því samkomulagi ef þurfa þykir, - annað eins hefur nú verið gert.
Að lokum má benda á dæmi um hugmyndir sem þóttu fáránlegar fyrir 15-20 árum og þeir menn taldir skýjaglópar sem héldu þeim fram: Hvalaskoðun frá Húsavík, gljúfrasiglingar í Jökulsám Skagafjarðar og Vesturfararsetur á Hofsósi.
Ekkert af þessu þrennu er meðal 100 merkustu undra heims og enginn skilningur var hjá stjórnvöldum við þær en samt urðu þær að veruleika.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)