23.8.2010 | 12:44
Fengu að valsa um í stóriðjuvímunni.
Það blasti við öllum almenningi hvernig stjórnendur Orkuveitu Reykjavíkur völsuðu um og gerðu fyrirtækið að einu allsherjar spilavíti á árum gróðærisbólunnar.
Reist var fáránlega stórt monthús sem auðvitað þurfti að gnæfa yfir öll önnur hús í borgarhlutanum og eytt í það sem svarar um tíu milljörðum króna á núvirði.
Til að hagræða kostnaðartölum voru frágangur lóðar og framkvæmdir þar færðar sem viðhald en ekki stofnkostnaður og annað var eftir því.
REI-málið sýndi í hnotskurn hvert menn voru komnir í takmarkalausri skammtímagræðgi sem hvergi hefur kristallast betur en í stóriðjustefnunni, sem nú hefur beðið algert skipbrot.
Þegar þenslunni var hrundið af stað með framkvæmdum við Kárahnjúka lýstu stjórnvöld því yfir að ekki yrði gert neitt svipað annars staðar sem gæti aukið þensluna svo mikið að hún færi úr böndunum.
En það var einmitt það sem gert var og ekki má gleyma borgarstjórnarfundinum fræga þar sem þrátt fyrir fjölmennustu mótmæli fram að því var það atbeini þáverandi borgarstjórnar Reykjavíkur sem réði úrslitum um að farið var af stað við Kárahnjúka.
Ekki var farið að ráðum núverandi orkumálastjóra og tekið tillit til álits margra mætra vísindamanna og raka andstæðinga þessarar stefnu og finna marga smærri og betur borgandi kaupendur að orku og virkja síðan af öryggi og framsýni á þann hátt að ekki væri hætta á ofnýtingu og rányrkju á virkjunarsvæðunum.
Hið þveröfuga var gert, öll orkan seld á niðursettu verði til stórs kaupanda og tekin erlend stórlán til að fjármagna þetta afbrot gagnvart komandi kynslóðum.
Allt þetta lá fyrir meðan á því stóð en með skipulagðri þöggun á meginatriðum málsins, bæði hvað snerti virkjanirnar og fjármálin fengu menn að valsa um að vild í fílabeinsturninum í Ártúnshverfinu þar sem meira en þrjátíu manns vinna við almannatengsl.
![]() |
Tveggja stafa hækkun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
22.8.2010 | 23:20
Ekkert nema virðing og frægð.
Frá því að gosið á Fimmvörðuhálsi hófst fyrir hálfu ári hef ég verið í samvinnu við og umgengist tugi fjölmiðlamanna, vísindamanna, ljósmyndara og rithöfunda frá löndum í öllum heimsálfum vegna eldgosanna sem kennd eru við Eyjafjallajökul.
Vettvangurinn hefur teygt sig langt út fyrir jökulinn því að þetta fólk hefur meðtekið af aðdáun fróðleik um hinn eldvirka hluta Íslands sem telst vera eitt af 40 mestu náttúruundrum heims þar sem eldstöðin Grímsvötn telst vera ein af sjö merkustu eldfjöllum á yfirborði jarðar.
Yellowstone kemst ekki á listann yfir 40 mestu náttúruundrin og Hekla, Fujijama, Kilimanjaro, Vesuvíus og Etna komast ekki á listann með Grímsvötnum.
Af hálfu þessa fólks hefur ekkert annað verið látið í ljósi en áhugi og hrifning á undralandinu sem við byggjum og það hefur styrkt mig í þeirri trú, sem ég lét strax í ljósi, að þetta eldgos sé eitt það besta sem gerst hefur hér á landi þótt það hafi að vísu bitnað illilega um stund á Eyfellingum og Fljótshlíðingum.
Þremur dögum áður en forsetinn minntist á Kötlu og ræddi um Eyjafjallagosið í samhengi ræddum við Ari Trausti Guðmundsson um það sama í Kastljósi og ég gerði það einnig í beinni sjónvarpsútsendingu til útlanda sama dag.
Það eru svo mörg atriði sem eru stærst og mest á þessu sviði á Íslandi. Hér hafa orðið tvö stærstu hraungos á jörðinni á sögulegum tíma og á síðustu 700 árum hefur helmingurinn af öllum gosefnum, sem komið hafa upp í eldgosum á jörðinn, komið upp á þessari litlu eyju, Íslandi.
Ég fór með ljóðið "Kóróna landsins" á tveimur stöðum á menningarnótt í gær og var á báðum stöðum inntur eftir því hvort það væri einhvers staðar til á prenti.
Ef einhver vill sjá það er það til á einum stað, í bloggi frá 2007. Hægt er að slá því upp með því að slá inn orðin "Kóróna landsins" í leitarreitinn hér vinstra megin á síðunni.
![]() |
Gosráðstefna fær heimsathygli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.8.2010 | 22:18
Rétti baráttuandinn.
Ég var að velta því fyrir mér í dag hvað geti blásið svonefndum botnliðum baráttuanda í brjóst þegar ljóst virðist að efri hluti deildarinnar sé fjarri, jafnvel svo fjarri að fall sé óhjákvæmilegt.
Var ég þá einkum að hugsa til liðs Hauka sem byrjaði Íslandsmótið ekkert verr en sum önnur lið.
Þar ber eitt hæst í huga mínum: "Botnlið" má aldrei fara að hugsa á þeim nótum að barátta þess sé einskisverð ef það á eftir að leika einhverja leiki.
Ef "botnlið" á eftir að leika við eitthvað af efstu liðunum getur það haft áhrif á stöðu efstu liða ef það nær stigi af einhverju þeirra.
"Botnlið" getur jafnvel ráðið því hver verður Íslandsmeistari og sýnt fram á að það verði taka getu þess alvarlega.
Ef Grindvíkingar halda siglingu sinni áfram, lyfta þeir sér ekki aðeins ofar í röðina, heldur eiga þeir möguleika á að sagt verði í mótslok: Ef þeir hefðu spilað svona allt mótið væru þeir Íslandsmeistarar !
Þetta á ekki aðeins við í keppni hinna efstu í hverri íþrótt.
Ég minnist þess einu sinni úr svokallaðri deildakeppni RUV í innanhússfótbolta hér á árum áður, að fyrir úrslitaleikinn hafði Fréttadeildin misst af möguleikanum á að lenda í efsta sæti.
Staðan var þannig fyrir síðasta leikinn í mótinu að Smíðadeildin, sem hafði fram að því sýnt langbesta frammistöðu, þurfti ekki annað en að innbyrða auðveldan sigur yfir Fréttadeildinni til að fá einu stigi meira en deildin í öðru sætinu, sem ég man ekki lengur hver var.
En við í Fréttadeildarliðinu keyrðum á það að við gætum í þessum síðasta leik ráðið því hver yrði deildameistari, þótt það yrðu ekki við og öllum á óvart unnum við Smíðadeildina og sönnuðum að við vorum með lið sem bera þyrfti fulla virðingu fyrir og að við gætum unnið hvern sem væri.
Íþróttakeppni byggist nefnilega ekki aðeins á því hver vinnur og hver tapar heldur á hugarfarinu, sem ríkir og því að gera sitt besta frá upphafi til enda.
Þetta er hugarfarið sem ég óska að ríki hjá mínum mönnum, Frömurum, það sem eftir lifir móts.
![]() |
Grindvíkingar unnu toppliðið í Eyjum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Pepsi-deildin | Breytt s.d. kl. 22:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.8.2010 | 15:52
Veðrið hætt "að vera svo mikið erlendis."
Jafnvel þótt síðustu dagar ágústmánaðar verði frekar svalir stefnir í að sumarið í heild verði það hlýjasta síðan mælingar hófust."
Svo ég vitni enn einu sinni í skemmtilegt orðfæri Björgvins Halldórssonar hefur veðrið "verið svo mikið erlendis" í sumar, hvað eftir annað 15 til 20 stiga hiti um nær allt land í norðanátt.
En nú er veðrið aftur orðið eðlilegt og íslenskt, og viðbrigðin eru mikil. En þrátt fyrir það eigum við að vera þakklát fyrir það mikla góðviðrissumar sem þegar er að baki.
Það er bara ósköp venjulegt og hefðbundið sumarveður sem nú er komið og við getum eftir sem áður verið í sumarskapi.
![]() |
Varað við hvössum vindstrengjum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.8.2010 | 08:47
Dýrð í Hallgrímskirkju.
Menningarnóttin geymir mörg ólík fyrirbæri, allt frá "ölvun og ryskingum" sem greint er frá nú í morgunsárið til tónanautnarinnar sem þeir Gunnar Gunnarsson og Sigðurður Flosason buðu upp á í Hallgrímskirkju í gærkvöldi.
Hvílík nautn er það að heyra í þessum snillingum fara höndum um saxófóninn og hið volduga orgel, sem Gunnar laðaði hvers kyns tónaflóð úr, allt frá undirveiku suði tll þess volduga ofurhljóms sem þetta magnaða hljóðfæri getur skilað frá sér.
Já, menningarnóttin stóð fyrir sínu og mikið óskaplega er það gaman að geta búið til svona mikla upplyftingu í þess orðs fyllstu merkingu.
![]() |
Annasöm nótt hjá lögreglunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.8.2010 | 09:44
Upp með steminguna !
Þótt það sé nokkuð svalt miðað við það sem verið hefur á þessu heita sumri er bjart og fallegt um að litast í höfuðborginni í dag.
Við getum þar að auki aukið á stemninguna sjálf með því að njóta þess að vera til í dag og nýta okkur fjölbreytta dagskrá í allan dag út um alla borg.
Bendi á lag á tónlistarspilaranum hér til vinstri á síðunni, sem gefur tóninn. Það heitir Reykjavíkurljóð en er reyndar fyrir misgáning merkt okkur Gunnari Þórðarsyni.
Ragnar Bjarnason borgarlistamaður 2006 syngur með kvartettinum Borgarbörnum og undirleik stórhljómsveitar Gunnars Þórðarsonar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.8.2010 | 09:38
Gamla sagan um lögregluskýrsluna.
Orðræðan núna um skýrslur um lögreglumál minnir á gamla sögu af lögreglumanni sem fann lík í Fishersundi.
Til þess að skýrslan væri pottþétt dró hann líkið upp í Garðastræti af því að hann vissi ekki hvernig ætti að skrifa orðið Fishersund.
Einnig kemur í hugann kjaftasaga frá þeím tíma þegar bandaríska verktakafyrirtækið Bechtel innleiddi byltingarkenndar öryggisreglur við smíði álversins í Reyðarfirði og óhöpp og slys á vinnustaðnum nánast hurfu samkvæmt skýrslum.
Einhverjir gárungar kváðust þá hafa rekið augun í það, að samkvæmt slysaskýrslum hefði samsvarandi slysum stórfjölgað í heimahúsum á svæðinu.
![]() |
Taka undir orð formanns síns |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
20.8.2010 | 11:22
Hvernig væri að líta á meginlínurnar?
Halldór Laxness benti eitt sinn á það eðli Íslendinga að gera smáatriði að aðalatriðum í stórum málum, jafnvel atriði sem engu máli skipta.
Síðan væri allri orkunni eytt í "steingelt þras" um þessi aukaatriði en stóra málinu drepið á dreif.
Hvernig væri nú að líta á aðalatriði Hrunsins:
1. Eðlilegar og þarfar umbætur í frjálsræðisátt á tíunda áratugnum snúast upp í stórfellda sjálftöku og oftöku spilltra afla með tilheyrandi einkavinavæðingu þar sem ofríki tveggja stjórnmálamanna fær að leika lausum hala fram á miðjan fyrsta áratug þessarar aldar.
2. Búin er til þensla, að fyrstu með grunn í skammtímahugsun stórfelldra virkjana- og stóriðjuframkvæmda á kostnað komandi kynslóða og með sprengingu í húsnæðislánakerfinu, fyrst hinu opinbera og síðar hinu einkavinavæddda. Þenslan, að mestu innistæðulaus stigmagnast stjórnlaust og verður að stærstu gróðærisbólu miðað við stærð þjóðarinnar, sem um getur. Hún byggist á því að hleypa öllu lausu, skrá gengi krónunnar 30-40% of hátt og halda uppi hávöxtum sem laðar að hættulegt erlent fjármagn (t. d. Jöklabréfin).
3. Í banka- og fjármálakerfinu nýta gróðafíknir menn sér þetta og nota margir hverjir til þess öll tiltæk ráð. Fólk og fyrirtæki eru leynt og ljóst hvött til stærstu lántöku Íslandssögunnar í erlendum myntum. Skuldir heimilanna og fyrirtækjanna fjórfaldast á örfáum árum og vegna þess að mikill meirihluti þjóðarinnar lætur sér þetta vel líka verður til þöggun á meginatriðum sem öllu skipta. Svo sem því að bankakerfið sé orðið margfalt stærra en þjóðarbúið og hin tilbúna og siðlausa gróðærisbóla hljóti að fara úr böndum og springa með hvelli. Tapið er ekki aðeins Íslendinga heldur reiknast tap útlendinga 7000 milljarðar eða fjórföld árleg þjóðarframleiðsla landsins og finnast engin dæmis slíks í veraldarsögunni.
Í stað þess að fara djúpt ofan í grunn þess hvernig þetta allt gat gerst á svonefndri öld fjölmiðlunar eru deilurnar nú komnir niður í það hvort einhver hafi hringt í einhvern á einvhverjum tímapunkti þegar menn menn tókust á um það í örvæntingu hvernig ætti að reyna að bjarga því sem bjargað yrði.
![]() |
Hringdi ekki til Björgólfs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
20.8.2010 | 05:21
Skeytingarleysi um náttúruundur.
Vatnskerfi Þingvallasvæðisins, allt frá Langjökli um gjárnar og vatnið sjálft til Hengils og Hellisheiðar er einstakt undur.
Þrátt fyrir sérstök lög um verndun þessa vatnasvæðis hefur ríkt og ríkir magnað skeytingarleysi um það.
Þegar ég leitaði frétta af því að arsenik hefði fundist í sunnanverðu vatninu fyrir fimm árum mætti mér ísköld þögn og ég fékk engan til að koma í viðtal um það mál.
Eitt og annað smælki var þó nefnt, svo sem að hvað varðaði affallsvatn frá Nesjavallavirkjun væri reiknað með því að það rynni til suðurs.
Fannst mér það sérkennilegt því að landinu hallar upp á við í þá átt.
Þetta skar í augun þegar ég fór austur og tók myndir af tjðrninni sem þetta vatn rá virkjuninni rennur í á milli virkjunarinnar og vatnsins.
Þær myndir voru aldrei birtar og enga frétt gat ég gert um þetta mál vegna skorts á upplýsingum um það.
Menn virðast alveg reiðubúnir til að auka við mannvirki og umferð við vatnið, jafnvel umferð sem ekki tengist Þjóðgarðinum heldur sjálfsagðri vegabót á leiðinni milli uppsveita Árnessýslu og Reykjavíkur og hefði átt að leysa með vegi um Grafningsskarð og Grímsnes.
Þá leið hefði átt að fara og malbika Konungsveginn án umtalsverðra breytinga á honum.
![]() |
Saurmengað vatn á Þingvöllum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.8.2010 | 21:45
Sérkennileg rök lögmanns.
Aldrei fyrr hef ég heyrt lögmann halda því fram að í erfðamáli eigi að gilda sá texti sem hefði staðið í hugsanlegri erfðaskrá hins látna ef hún hefði verið gerð.
En þetta gerir lögmaðurinn í gagnrýni sinni á málsmeðferð í sambandi við faðernismál Jinky Young.
Dylgjur hans um það að líki Fishers hafi verið rænt eru raunar með fádæmum og setur leiðinlegan blæ á það sjálfsagða mál að nota nútíma vísindi til að skera úr deilumáli.
![]() |
Gagnrýnir DNA-rannsókn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 20.8.2010 kl. 05:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)