Þeir segja samt að það hlýni ekki neitt.

Í fréttum RUV í kvöld var sagt frá niðurstöðu alþjóðlegrar nefndar vísindamanna á vegum Sþ um hlýnun loftsins á jörðinni og stórfelldum neikvæðum afleiðingum þess, sem yrðu margfalt verri samanlagt en jákvæð atriði eins og aukin umsvif og siglingar á heimskautssvæðinu. 

Eins og venjulega þegar svona fréttir sjást eða heyrast, mun hópur bloggara andmæla þessu kröftuglega og meðal annars bera fyrir sig eftirtalin rök, - en svipuð rök hafa margsinnis verið endurtekin hjá þeim:

1. Hið vonda RUV sagði fréttina. Ekkert að marka þann fjölmiðil. Hann er hlutdrægur. 

2. Vísindamenn, sem halda því fram að andrúmsloft jarðar hlýni, fá borgað fyrir að komast að svona niðurstöðum og segja svona fréttir.

3. Sameinuðu þjóðirnar græða á því að fá fjárframlög til óþarfa rannsókna á þessu sviði. 

4. Fátæk lönd eins og Maldivi-eyjar sjá hagnaðarvon í því að væla út styrki vegna áhrifa meintrar hlýnunar, sem reiknuð eru út á fölskum forsendum.  

5. Umstangið, áróðurinn, "rannsóknirnar", ótal ráðstefnur, háskólastarfsemin og önnur fjárplógsstarfsemi í kringum blekkinguna um hlýnunina er hundraða-milljarða-bísniss stórs hóps umhverfisöfgamanna, sem eiga margir mikla peninga, lifir og nærist á því að halda fram svona bull og hlakkar í þeim við að ná eyrum áhrifamikils fólks. Sjáið þið bara Al Gore! 

6. Sósíalistar, múslimar og öfundsjúkar þjóðir í þriðja heiminum nota blekkingar og rangar niðurstöður um hlýnun til þess að stöðva hagvöxt og velsæld vestrænna þjóða, sem er eitur í beinum þeirra. 

7. Fyrri hluti júlí var óvenju kaldur á sunnanverðu Íslandi.

8. Snjór hefur ekki verið meiri á stórum hlutum Íslands í sumarbyrjun um langt árabil.

9. Tún á Norðurlandi eru illa leikin af kali.

10. Það snjóaði óvenju snemma í fyrrahaust.

11. Breska veðurstofan gaf það út nýlega að engin hlýnun hefði orðið síðan árið 2000.  

12. Það eru hvort eð er alltaf sveiflur í veðurfari á jörðinni og ekkert að marka það, þótt nokkurra ára sveifla hafi komið fyrir tíu árum.  

Þótt gegn þessu sé dregið fram að jöklar haldi áfram að minnka ár frá ári, að ísinn í Íshafinu minnki ár frá ári, aö stórveldin og Íslendingar séu að búa sig undir siglingar um íslaust Íshaf og að á sama tíma og það var frekar svalt á 50 þúsund ferkílómetra hluta Íslands hafi hitinn verið yfir 30 stig á 12 milljón ferkílómetra svæði í Norður-Ameríku, - að um þessar mundir fari hitabylgja um 10 milljón ferkílómetra svæði í Evrópu, sums staðar methiti, og að bylgjan ylji núna Íslendingum, halda fyrrnefndir bloggarar sínu striki.

Þeir hefðu farið létt með það á tímum Kópernikusar og Galileis að segja stanslaust: En jörðin er samt flöt.  

Þeir telja að fjárhagslegur ávinningur hjá umhverfisverndarmönnum geri staðhæfingar þeirra marklausar en gleyma því, að fjárhaglegur ávinningur stórfyrirtækja af því að halda áfram að auka losun gróðurhúsalofttegunda er margfalt meiri. 

  

 


mbl.is Norðurpóllinn ófrosinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ósiðir okkar eru margir. Furðulegir úrskurðir.

Ósiðir okkar Íslendinga í umferðinni hafa verið landlægir lengi. Og umdeilanlegt er margt í henni. 

Lítum á myndir, sem voru teknar í dag á Kringlumýrarbraut og Miklubraut.

IMG_9485

Á undan mér var vörubíll með einhvers konar hjólakrana á pallinum. Bóma hjólakranans stóð bæði langt aftur fyrir vörubílspallinn og langt upp fyrir hann eins og þessar myndir sýna. 

Þegar vörubílinn tók beygjur, til dæmis frá Kringlumýrarbraut vestur Miklubraut, sveiflaðist bóma hjólakranans langt út fyrir akrein hans og var þá tilviljun hvort það hár bíll var við hlið hans að þessi breiða karfa/pallur á bómunni rækist utan í hann.

IMG_9481

Á einum stað var ekið undir slá, og þar hægði bíllinn á sér alveg niður undir kyrrstöðu og virtist bílstjórinn ekki viss um hvort karfan/pallurinn kæmist undir hana!  

Engin veifa var á körfunni né neitt annað sem benti til annars en að bílstjóri vörubílsins teldi það hið sjálfsagðasta mál að aka um borgina og sveifla þessu hlassi sínu í allar áttir.

Furðu algengt er að sjá svipaða sjón, til dæmis stóra sendibíla, sem eru með afturhlerann standandi láréttan aftur úr bílnum á fullri ferð í umferðinni. 

IMG_9482

 

Fyrir 15 árum ók vöruflutningabíll lafhægt á undan mér á hliðargötu og fór hægt. Ekið var á móti lágri morgunsól um hávetur, engin umferð framundan, og ég hugðist fara fram úr honum.

Þá beygði flutningabíllinn skyndilega til hægri án þess að hafa gefið stefnuljós, og heyrðist þá mikill hávaði í hægri hlið bíls míns.

Kom í ljós að flutningabíllinn hafði verið með afturhlerann niðri, svo að hann skagaði langt út úr bílnum og skar upp alla hægri hlið bíls míns eins og niðursuðurdós.

Engin leið var að sjá þennan hlera þegar horft var á móti sól, enda afturbrún hans þunn eins og hnífsblað og engar veifur á bílnum, enda algerlega ólöglegt að aka með hlerann niðri.

Tryggingarfélögin skiptu tjóninu í tvennt þannig að báðir bílstjórar urðu að borga sjálfsáhættu og missa bónus! 

Talið var að ég hefði átt að vita að bíllinn fyrir framan mig myndi geta sveiflað afturhlera, sem ég gat ekki séð, út og yfir á minn götuhelming!

Þessu varð ekki hnekkt en ég sendi bréf þar sem ég sagði að tryggingarfélagið hefði verið heppið að ég hefði ekki komið akandi  á minni og lægri bíl á móti flutningabílnum, því að þá hefði hlerinn hoggið af mér hausinn, og ekki væri hægt að svipta hauslausa og dauða ökumenn bónusum. 

Ég frétti siðar að vinur minn einn hefði ekið á svona hlera og mátt þakka fyrir að drepa sig ekki, en samt dæmdur í órétti fyrir að sjá ekki hlerann !

Þetta samsvarar því að maður gengi um á fjölfarinni gangstétt með beitt sverð standandi út undan frakka og sveiflaði því í allar áttir, en ef einhver yrði fyrir því, yrði hann dæmdur sekur um slysið að hálfu fyrir að hafa ekki búist við því fyrirfram eða séð það.  

 


mbl.is Alvarleg slys rakin til símanotkunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki eins og í gamla daga.

Þegar sagt er að nýja GSR Bjallan sé "eins og í gamla daga" er það ekki rétt nema að sáralitlum hluta.

Gamla Bjallan var með vélina fyrir aftan afturhjól og afturhjóladrif. Vélin var flöt "boxaravél" og loftkæld.

Nýja Bjallan er með vélina þversum fyrir framan framhjól og framhjóladrif. Vélin er upprétt "línuvél" og vatnskæld og bíllinn nær tvöfalt þyngri og miklu stærri en gamla Bjallan.

Það eina sem er "eins og í gamla daga" er ytri útfærsla og snertir aðeins yfirborðið að innan og utan, ekki vél og drifbúnað.

Svipað má segja um nýja Fiat 500, sem er tvöfalt stærri en gamli Fiat 500, en er þó afar vel heppnaður, fæst með frábærri tveggja strokka vél og er best heppnaður "retro-bílanna" hvað útlit varðar.

Mini og Porsche 911 eru trúir uppruna sínum hvað snertir uppsetningu og staðsetningu véla og drifbúnaðar.

Um tíma var það ætlun Volkswagen að hafa vél WW Up! þversum aftast og afturdrif en þeir heyktust á því, enda afar erfitt að leysa vandamál varðandi illviðráðanlega aksturseiginleika með svo mikinn þunga aftast í bílnum.

Porsche-verksmiðjunum tókst hins vegar það sem virtist ómögulegt, að hafa meira en þriggja lítra og yfir 300 hestafla sex strokka boxaravél langt fyrir aftan afturhjól og gefa bílnum samt ótrúlega aksturseiginleika.

Þetta er tæknilegt afrek, en byggist á því að helstu kaupendur bílsins sættu sig ekki við það þegar slátra átti þessum bíl fyrir 35 árum, heimtuðu að fá að kaupa hann áfram og keyptu hann en ekki Porsche 928 og 924 sem áttu að taka við.

Það eina, sem Porsche 911 varð að beygja sig fyrir var að ekki var hægt að hafa vélina loftkælda þegar nýjar kröfur um mengun og fleira urðu harðari. Hún er því vatnskæld en gamla boxarahljóðið er þó enn við lýði, sem betur fer og bíllinn er ekki mikið þyngri eða stærri en gamli Porsche 911 var.

Mér finnst líka að útlitið mætti vera ögn líkara því sem það áður var.

Ég bíð eftir því að fram komi Volkswagen Bjalla með fjögurra strokka boxaravél afturí og afturdrif og Fiat 500 með upprétta tveggja strokka aftur í og afturdrif.

Þá fyrst verður hægt að tala um Bjöllu eins og í gamla daga.  

 


Er þetta verk Georgs sjötta ?

Það er sagt að fæðing eins barns í Bretlandi geti skapað tuga milljarða innspýtingu í hagkerfi landsins.

Konunglegt stórskotalið hleypir úr fallbyssum og allt er á öðrum endanum. Fjölmiðlar fullir af fréttum um eina fæðingu af mörgum þúsundum þennan dag í Bretaveldi.

Hvernig má þetta vera? Hvað veldur því að heil þjóð, já, heilt samveldi og heimsbyggðin öll stendur á öndinni út af þessu?

Ég og fleiri hafa lengi verið undrandi á þeim nágrannaþjóðum okkar sem viðhalda konungsveldi sem gengur í arf og öllu því prjáli og kostnaði, sem því fylgir.

En myndin "The Kings Speech" gaf svolitla innsýn inn í þetta. Georg sjötti tókst á hendur hlutverk og starf sem hann hefði helst viljað sleppa við. Hann var málhaltur og uppburðalítill og stóð lengi í skugganum af bróður sínum, sem varð kóngur á undan honum, en sagði af sér, að mörgu leyti út af fáránlegum formsatriðum.

Ofan á allt varð stamandi konunugurinn að halda ræðu fyrir þjóðina þegar hún lýsti yfir stríði, sem allir vissu að yrði hrikalegasti hildarleikur sögunnar.

En hann reis undir ábyrgðinni, bæði þá og ekki síður í loftárásunum á London, þegar hann reyndi eftir bestu getu að setja sig í spor þjóðar sinnar, ganga um í rústunum eftir árásir næturinnar og tala kjark í fólk.

Við vitunm að einhver þarf að taka það að sér að vera málsvari og fulltrúi þjóðar og alþjóðalög gera ráð fyrir því að þjóðhöfðingi annist það.

Winston Churchill átti að vísu mestan þátt í því að blása Bretum eldmóð í brjóst með framgöngu sinni og frábærum útvarpsræðum.

Slíka hæfileika og snilli hafði konungurinn ekki. En enda þótt hann væri konungur en ekki "þegn og óbreyttur borgari" eins og Churchill og stjórnmálamennirnir voru, voru það takmarkanir hæfileika hans hvað snerti málheltina og feimnina sem gerðu það líklega að verkum að hann varð samt frekar eins og einn af fólkinu heldur en ef hann hefði verið snillingur í ræðu og riti.

Fólk tók hann, þrátt fyrir tignina, sem jafningja hvað þetta snertir.

Myndin "The Kings Speech" útskýrði þetta fyrir mér. Almenningur virðist haldin þrá til að hugsa og tala um þá, sem hún þekkir eins og þeir væru nánir ættingjar eða vinir, fylgjast með þeim og því sem er að gerast hjá þeim.

Þess vegna voru Hjemmet og Famiiejournalen hvað vinsælust tímarita hér á landi á miðri öldinni sem leið. Þar var fjallað um kóngafólkið og fræga fólkið.

Í fyrsta tölublaði Morgunblaðsins fyrir öld er greint frá því sem fréttir væru, að tilteknir bændur hafi komið til Reykjavíkur og farið þaðan.

Virkaði hlálegt síðar meir, en lítið þið bara á dálkana "Fólk" í blöðum og tímaritum og á tímaritið Séð og heyrt. Þar eru það fréttir hverjir voru á hvaða veitingastað um síðustu helgi.

Kóngafólkið í Bretlandi virðist gegna því hlutverki að sameina þjóðina af því að allir þekkja það og fylgjast með því hvað er að gerast hjá því.

Elísabet önnur hefur að vísu ríkt lengi og farsællega, en sumir aðrir í fjölskyldunni hafa ekki orðið kóngaslektinu til framdráttar.

En ég held að með framgöngu sinni á hinum erfiðu stríðsárum, þegar hann snart hjörtu þegna sinna, hafi Georg sjötti lagt fram stærsta skerfinn til þess að hið forneskjulega og að því er virðist úrelta konungsveldi Breta virðist þrífast nú sem aldrei fyrr.


mbl.is Prinsinum fagnað með fallbyssum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver þarf að lágmarki 68 hestöfl ?

Skemmtileg fyrirsögn á tengdri frétt á mbl.is: "Hver þarf meira en eitt hestafl?" 

Gæti líka verið: "Hver þarf að lágmarki 68 hestöfl?"  

 Minnstu, ódýrustu og aflminnstu bílarnir, sem nú eru á markaði, eru með 64-68 hestafla vélar. 

Þetta virðist vera algert lágmark.

Nú er ég að fara af stað austur fyrir fjall á bíl, sem er með aðeins 24ra hestafla vél en tekur þó fjóra í sæti ef svo ber undir.  Ég má búast við sérlega ánægjulegum akstri í opnum bíl í bliðunni.

Þrátt fyrir vel næstum þrefalt minna vélarafl en það  sem menn telja lágmark, verð ég að passa mig á því að fá ekki sekt fyrir of hraðan akstur, rétt eins og hestöflin væru þrefalt fleiri og strokkar vélarinnar 50% fleiri.

  


mbl.is Hver þarf meira en eitt hestafl?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tíu stiga hiti á Heklutindi.

Þegar fyrst hitnaði að ráði fyrir norðan á dögunum gaf Veðurstofan það upp í flugveðurspá sinni að hitinn í 5000 feta (1500 metra) hæð yrði 8 stig. Heklutindur er 1491 metri yfir sjávarmáli. 

Í spánni í dag er þessi tala 10 stig Vegna upphitunar yfirborðsins og fyrirbærisins hnjúkaþeys getur hitinn síðan farið í meira en 20 stig á norðanverðu hálendinu, jafnvel uppi í 800 metra hæð. 

Á hádegi var kominn 18 stiga hiti í Reykjavík í sólskini og sælu. Eða eins og mig minnir að segi í ljóðinu:

                        Það er engin þörf að kvarta

                        þegar blessuð sólin skín.  


mbl.is Spá 10-24 stiga hita
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er ekki hægt að "grafa yfir" neitt.

Það má deila um málvenjur og orðanotkun, en þegar notkun orða er órökrétt getur hún varla talist verjanleg. 

Í tengdri frétt á mbl.is er sagt, að maður hafi grafið yfir bíl.  

Sögnin að grafa táknar þann verknað að færa jarðveg eða jarðefni upp á við með skóflu, höndum eða öðrum tiltækum verkfærum svo að til verður hola, skurður, lægð eða laut með lægra yfirborði en áður var.

Ef afrakstri graftarins er eytt er hins vegar mokað yfir holuna, skurðinn eða lægðina.

Grafir manna eru grafnar í kirkjugörðum en síðan er mokað ofan í gröfina.

Sagt er eftir á að viðkomandi manneskja sé grafin í kirkjugarðinum en ekki að grafið hafi verið yfir hana.  

Maðurinn í fréttinni mokaði yfir bíl sinn, svo einfalt er það.  

Ef hann gróf fyrst gröf og setti bílinn ofan í hana má lýsa því með því að segja að hann hafi grafið bílinn.  

Síðan er það möguleiki að einhver grafi bílinn upp ef hann var grafinn það langt niður að uppgröftur komi til greina.  


mbl.is Eyðilagði húsið en skuldar 96 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pylsurnar seldust upp í Staðarskála.

Hvar sem komið var á ferð um Norður- og Austurland undanfarna daga var örtröð, - í sjoppum, á tjaldstæðum, hótelum og gististöðum. Gististaðirnir fullir, biðraðir á bensínstöðvum. 

Dæmin blöstu alls staðar við.  Víðar seldust vörur upp en við Hrafnagil. Þannig frétti ég af því í kvöld að senda hefði orðið sérstaka hraðsendingu af pylsum frá Blönduósi til Staðarskála vegna þess að þar voru pylsurnar að seljast upp.

Birgðirnir bárust nokkurn veginn á sama tíma og síðasta pylsan af fyrri birgðum seldist.  


mbl.is Límónaðið selst upp í sólinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað, ef hún hefði verið heimakona?

Marte Dalelv naut þess að vera norsk, vestræn kona, þegar hún slapp frá ólögum Dubai og fékk frelsi. 

Fréttin af sakargiftum og meðferð dómskerfis Dubai á henni vakti heimsathygli vegna þess hverrar þjóðar hún var, ekki vegna málsatvika.

Því að þetta ógeðfellda mál hefði hvorki komist í hámæli á alþjóðlegum vettvangi varla endað á þennan veg ef um heimakonu hefði verið að ræða.

Það leiðir hugann að því gríðarlega verkefni sem bíður heimsbyggðarinnar að efna þau fyrirheit um mannréttindi og sanngirni sem stofnun Sameinuðu þjóðanna gáfu fyrir hartnær sjötíu árum.   


mbl.is „Nú er ég loksins frjáls“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leynd þrá eftir meiri glamúr varðandi það, sem er okkur næst.

Það má alveg gera tilraun til að sálgreina þörf þjóða fyrir því að hafa þjóðhöfðingja, sem eru konungbornir, þ. e. erfa völd sín og embætti en eru ekki kosnir eða valdir lýðræðislega.

Sú sálgreining gæti lotið að því að fólk þrái að hugsa og tala um eitthvað sem er líkt þess eigin hversdagslega lífi og kjörum, þessar litlu fréttir um heilsu, útlit, hegðun og samskipti innan fjölskyldna, sem allir þurfa að fást við daglega, en vilji í leiðinni gera það til að láta sig dreyma um betri kjör, ríkidæmi og vellystingar.

Það er þessi þrá eftir betri kjörum og stöðu, sem hefur skapað ótal ævintýri um Öskubuskur af báðum kynjum, Hans klaufa og dætur eða syni karls og kerlningar í koti, sem erfðu konungsríkið, urðu rík og valdamikil og lifðu hamingjusöm til æviloka.

Kannski endurspegluðu þessi ævintýri ákveðna kjarabaráttu alþýðunnar sem fékk óbeina útrás á þennan hátt.

Á hlaupum í gærmorgun heyrði ég glefsur úr vel unnum þætti á Rás 1 í gærmorgun þar sem Arthur Björgvin Bollason fór um víðan völl, dagskrárefni, sem varla myndi verða til á einkarekinni stöð, þar sem best virðist "selja" að þáttastjórnendur tali tímum saman í bland við oftast sundurlausa spilaða tónlist, yfirleittt valda mestan part af tölvum.  


mbl.is Staðreyndir um konungborna barnið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband