25.6.2013 | 23:12
Fossaþöggunin.
Hvað er hægt að gera þegar stanslaus fréttaflutningur er um Norðlingaölduveitu í fjölmiðlum án þess að minnast á stórfossana, sem þurrka á upp og alltaf látið eins og að með því að vatnsflutningarnir verði utan við Eyvaver og núverandi friðland verði engin umhverfisáhrif?
Ég var að blogga um þetta í fyrradag og hef gert það ótal sinnum áður en ætla nú fyrir mitt leyti að rjúfa þöggunina um fossana hér á þessari bloggsíðu í hvert skipti sem þagað verður um þá í fréttum fjölmiðlanna.
Þótt það kosti bloggfærslu á hverjum degi og að fjölmiðlarnir hafi yfirburði í því að ná til meira en hundrað þúsund manna á dag en þessi síða aðeins til brots af þeim fjölda, verður að hafa það.
Það verður þá varla sagt að á þessari bloggsíðu hafi verið tekið þátt í þessari þöggun.
Þó er aldrei að vita. Að ósekju er er ég iðulega sakaður um slíkt varðandi aðrar virkjanir eins og Bjarnarflagsvirkjun og Hellisheiðarvirkjun og þar með að hafa átt þátt í gerð þeirra, en jafnvel samtímis sakaður um það að "vera á móti öllu."
Nú er tíundaður sá kostnaður sem Landsvirkjun hafi gjaldfært sem kostnað vegna Norðlingaölduveitu.
Ekki er að efa að sama verður gert varðandi komandi kostnað við rannsóknir vegna virkjunar Skjálfandafljóts, svo að hægt verði þrýsta á um að þeir peningar verði ekki "ónýttir."
Athyglisverð tilviljun að strax í kjölfar fréttanna af fyrirhuguðum fjáraustri í virkjun Skjálfandafljóts kemur fréttin um hið sama vegna Norðlingaölduveitu.
En hvort tveggja má flokka undir "túrbínutrixið" sem stjórn Laxárvirkjunar beitti 1970 þegar keyptar voru allt of stórar túrbínur í virkjunina til þess að geta sagt, að þessi kaup "mættu ekki fara í súginn", heldur yrði að virkja margfalt stærra svo að túrbínurnar nýttust.
Þá var Skjálfandafljót á aftökulistanum alveg eins og nú. Það virðist lítið hafa breyst á þeim 43 árum sem liðið hafa síðan svonefnd Gljúfurversvirkjun var talin nauðsynleg.
![]() |
Búið að verja 1,3 milljörðum í Norðlingaölduveitu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 26.6.2013 kl. 10:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
25.6.2013 | 13:57
Gamalkunnugt: Fyrst litli fingurinn og svo öll höndin.
Landsvirkjun er í eigu almennings og því er það ekkert einkamál stjórnenda hennar að eyða fé almennings í rannsóknir á virkjun ofarlega í Skjálfandafljóti, sem hafa mun í för með sér eyðileggingu Aldeyjarfoss og fleiri fossa auk drekkingar á dal, sem er álíka langur og Hvalfjörður.
Dalurinn er eitt best varðveitta leyndarmál hálendisins, vegna þess að hann er að stórum hluta gróinn og einstaklega skjólgóður af því að hann liggur mun neðar en landið allt í kring og nær langt inn á það.
Sú aðferð hefur dugað vel hjá orkufyrirtækjum að eyða fyrst svo miklu fé í rannsóknir, að hægt sé að benda á að það muni verða ónýt fjárfesting ef ekki er virkjað.
Það minnir á orðtakið að ef skrattanum sé réttur litli fingurinn taki hann alla höndina.
Engum Bandaríkjamanni myndi detta í hug að veita rannsóknarleyfi í Yellowstone.
Því hefur verið lýst yfir í Noregi að tími stórra vatnsaflsvirkjana sé liðinn. Punktur.
Það á ekki að líða það að eyða fé almennings í það að valda eins gríðarlegum umhverfisspjöllum og virkjun ofarlega í Skjálfandafljóti veldur.
Ég er á ferðalagi og hef kannski ekki tíma til að birta myndir af þessu svæði en vísa á leitardálkinn vinstra megin á síðunni þar sem finna má fyrri bloggpistla mína um þetta efni.
![]() |
Rannsaka efri hluta vatnasviðs Skjálfandafljóts |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
25.6.2013 | 07:30
Ein stærsta heilbrigðisógnin, óábyrg notkun sýklalyfja.
Ofnotkun og óábyrg notkun sýklalyfja er ein stærsta heilbrigðisógn okkar tíma.
Hún tengist öðru stóru vandamáli sem er fíkniefnavandinn, á þann hátt, að fíkniefnaneytendur eru miklu líklegri til þess en aðrir að gleyma að taka lyfin eins og fyrir er lagt, en með því að gera hlé á tökunni áður en búið er að drepa sýkinguna, margfaldast hættan á því að sýklarnir, sem lifa af, myndi ónæmi gagnvart lyfjunum.
![]() |
Sýklalyf séu notuð á ábyrgan hátt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.6.2013 | 20:32
Ógleymanleg "sérleið" og "America the Beautiful."
Þegar flogið er frá Íslandi til Denver í Koloradoríki í Bandaríkjunum er ekki löng leið að aka þaðan að Pikes Peak fjallinu, sem er eitt af hæstu fjöllum Klettafjallanna, í hópi "the Forteeners", en það eru fjöll sem eru hærri en 14 þúsund fet eða 4.281 metri.
Fyrir þann sem ann háum fjallatindum, rallakstri, bröttum fjallvegum, ljóðlist og tónlist er þetta margföld pílagrímsferð því að uppi á fjallinu orti Catherine Lee Bates ljóðið "America the Beautiful" sem hefur svipaðan sess í Amaríku og "Hver á sér fegra föðurland" á Íslandi.
Það var auðvitað ógleymanlegt að aka djarflega upp þessar 156 beygjur upp á hátind og setja sig í spor bæði helstu rallkappa heims og bandarísku skáldkonunnar.
Nú má sjá á tengdri frétt að sett hafi verið hraðamet á leiðinni upp fjallið í árlegri keppni, en það hefur þá ekki verið allsherjar hraðamet, því að það met er falið í því að aka á meira en 120 km/klst meðalhraða upp fjallið 20 kílómetra vegalengd þar sem endamarkið er í 1440 metra meiri hæð en rásmarkið.
Sérbúnir Porche GT 3 og Hyoundai Genesis hafa farið þetta hraðast.
Á YouTube má setja sig í spor eins þeirra sem hafa att kappi við þessa frægustu "sérleið" heims.
Ómissandi hluti af upplifuninni fyrir ellefu árum fannst mér felast í því að aka og spóla í mölinnni upp hinn krókótta malarveg á þeim hluta hans sem var ekki malbikaður.
En nú er nýlega búið að malbika alla leiðina, því miður segi ég.
Við Helga vorum heppin með veður og sáum af tindinum langa vegur, meðal annars til borgarinnar Colorado Springs, sem liggur ca 2700 metrum neðar.
![]() |
Range Rover setur fjallaklifursmet |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.6.2013 | 10:48
Þarf að lagfæra hálendisvegina skipulega.
Ég hef í nokkrum bloggpistlum nú og í fyrra bent á að taka þurfi hálendisvegina skipulega til lagfæringar og endurskoðunar til þess að hægt sé að opna þá fyrr á sumrin.
Á einstaka stöðum nægir að vísu að ryðja burtu sköflum fyrr en nú er gert, eins og stungið er upp á í tengdri frétt á mbl.is, en þá þarf að vera tryggt að yfirborð veganna á þeim stöðum þoli ruðningstækin.
Einnig er til lítils að ryðja þar sem þannig háttar til að vegurinn verður síblautur af völdum vatns, sem lekur um hann þangað til viðkomandi skafl er allur bráðnaður.
Á sumum stöðum er brýnt að leggja nýja leið fram hjá dældum, sem fyllast af krapa og auri, og sést gott dæmi um það á myndunum, sem fylgja eiga þessum pistli, þar sem einhverjir fóru um veginn norðan við Herðubreiðarlindir þegar hlánaði í rúma viku snemma í apríl í fyrra.
Annars staðar er athugandi að aka ofaníburði ofan í suma kaflana þannig að þeir hrindi vatni af sér og undirlagið verði þéttara.
Í þetta þyrfti að verja sérstakri fjárveitingu, og miðað við stóraukna umferð ferðamanna og þar af leiðandi stórauknum tekjum upp á tugi milljarða ætti þetta ekki aðeins að vera mögulegt, heldur ber það vitni um nísku og græðgi að hirða bara hinn vaxandi gróða en gera ekkert á móti.
Helst þyrfti að fara í þessar vegabætur áður en sumarið er úti. því að annars dregst það enn eitt árið.
Að sjálfsögðu þyrftu þessar bætur að vera í algeru lágmarki til þess að skemma ekki fyrir "safari" upplifuninni sem það veitir að aka um frumstæða slóða.
Loks má geta þess, sem var bloggað um á þessari síðu fyrir nokkrum dögum varðandi það að setja sérstakar reglur um ferðir inn á vegina á jöklajeppum með ákveðnum skilyrðum og eftirliti áður en venjulegum bílum er hleypt á þá.
![]() |
Ryðja ætti hálendisvegi fyrr |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
24.6.2013 | 00:25
Geta Reykvíkingar "farið norðanlands" ?
Hvers konar spurning er þetta eiginlega?, kunna einhverjir að spyrja. Hvaða bull er þetta? Farið frá hvaða stað norðanlands til hvaða staðar norðanlands?
En það er þá líka bull að segja: Fólk "fer erlendis", þegar átt er við það að fólk fari til útlanda.
Í frétt í fjölmiðli í kvöld var sagt að frá því um ákveðinn hlut: "Hann var sendur erlendis."
Hvaðan erlendis og til hvaða staðar erlendis var hann sendur?
Það má deila um málvenjur og þróun málsins, en þegar málvenjur myndast, sem eru rökleysur, er rétt að staldra við.
Við Reykvíkingar förum til Austurlands ef svo ber undir en engum dettur í hug að segja að við "förum Austanlands". Þess vegna förum við til útlanda en förum ekki erlendis.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.6.2013 | 17:47
Í góðu lagi að STASI-kenndar njósnir viðgangist í okkar landi?
Ég hef áður sagt frá því hér á síðunni hvernig vísbendingar um hleranir síma míns og fleiri komu fram síðsumars 2005 í kjölfarið af opinberum heræfingum NATO hér á landi á viðbrögðum við aðgerðum "umhverfisverndar-hryðjuverkafólks".
Viðbrögð við þessum pistlum bentu til þess að nær öllum væri slétt sama.
Síðan þá hef ég gert ráð fyrir slíkum hlerunum, ekki aðeins hjá mér, heldur hverjum sem viðkomandi njósnayfirvöld kjósa að hafa undir smásjá eins og þau virtust gera 2005.
Upplýsingar Snowdens koma mér því ekki á óvart en hitt kom mér á óvart hve fólki virtist sama, bæði eftir að ég sagði frá rökstuddum grun um hleranir 2005 og líka núna þegar upplýst er um njósnir á okkar tímum í vestrænum samfélögum frelsis og lýðræðis í anda hinnar illræmd STASI leynilögreglu í Austur-Þýskalandi.
Þeir sömu og fordæmdu réttilega aðfarir STASI virðast láta sér grófar persónunjósnir vel líka ef það eru "rétt" vestræn yfirvöld sem þær stunda.
Það ástand ótta og skoðanakúgunar, sem njósnir vekja, er í hróplegri andstöðu við hugsjónir um frelsi, lýðræði og öryggi, sem Roosevelt orðaði svo vel þegar hann nefndi fjórar tegundir frelsis sem sækjast ætti eftir: 1. Tjáningar-og skoðanfrelsi. 2. Trúfrelsi. 3. Frelsi frá ótta. 4. Frelsi frá skorti.
STASI-kenndar njósnir vinna freklega gegn frelsi frá ótta, trúfrelsi og tjáningar- og skoðanafrelsi.
P. S. Sjá má strax í athugasemd við þennan bloggpistil, sem birtist á facebook síðu minni, að viðkomandi finnist þetta í góðu lagi og þeir sem kvarti yfir ágengum njósnum eigi skilið að njósnað sé um þá af því að þeir "hafi eitthvað að fela." Sem sagt: Í góðu lagi að afnema friðhelgi einkalífs og heimilis. Og atferli STASI hafi þá eftir allt saman verið "í góðu lagi." Athyglisvert.
![]() |
Gerir ráð fyrir að njósnað hafi verið um Ísland |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
23.6.2013 | 12:47
Glæsilegur árangur norðlenskra flugvina.
Flugdagurinn á Akureyri hefur verið ómissandi fyrir mig í áratugi, enda á ég nána flugvini nyrðra og hef hrifist af myndarskap norðanmanna sem birtist meðal annars í nöfnunum Flugsafn Íslands og Flugklúbbur Íslands auk hins glæsilega árlega flugdags.
Á hverju sumri höfum við Helga farið í ferðalag norður í tilefni flugdagsins og síðari árin oftast framlengt þá ferð austur á Sauðárflugvöll auk þess að hitta norðlenska og sunnlenska flugmenn þar.
Á myndinni má sjá nokkra þeirra, þegar þeir komu austur í fyrra, talið frá vinstri, Arngrím Jóhannsson, Gunnar Víðisson, Hörð Geirsson og Hún Snædal.
Í gær stóð þannig á að vegna tveggja háskólaútskrifta dóttur og dóttursonar varð flugdagurinn að víkja i þetta sinn.
Í hópi íslenskra flugáhugamanna hefur Arngrímur Jóhannsson flugstjóra verið fremstur meðal jafningja um árabil og hann og félagar hans geta litið stoltir um öxl yfir árangur starfs síns.
Það er því verðskuldaður heiður fyrir Arngrím þegar ein kennsluvéla Keilis í Reykjanesbæ hefur verið nefnd í höfuðið á honum og óska ég honum til hamingju með það.
![]() |
Flottur flugdagur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.6.2013 | 23:04
Af hverju gleymast alltaf stórfossarnir tveir ?
Ef litið er yfir fréttaflutning af Norðlingaölduveitu í fjölmiðlunum vekur athygli að þess er aldrei getið, að með henni verða tveimur af þeim níu stórfossum landsins, sem enn fá að lifa, þurrkaðir upp.
Þetta eru Gljúfurleitarfoss og Dynkur, en þann síðarnefnda tel vera flottasta stórfoss landsins, þegar hann fær að renna af fullu afli, enda þessir fossar báðir jafnokar Gullfoss að stærð og afli.
Þetta er svona álíka fráleitur fréttaflutningur og að fjalla um þá virkjun Hvítár sem myndi þurrka upp tvo Gullfossa en minnast aldrei á það.
Hvernig stendur á þessu? Auk fossanna tveggja sem nefndir eru er afar fallegur foss ofar, sem myndi líka þurrkast upp, Hvanngiljafoss og er með ólíkindum þessi þöggun um þessa hlið umhverfisáhrifa virkjunar við Norðlingaöldu.
![]() |
Umhverfissinnum gjörsamlega ofboðið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (40)
22.6.2013 | 15:10
Af hverju mistókst þeim "eyðileggingin" í 10 þúsund ár ?
Íslenski refurinn hafði algeran frið frá afskiptum manna í minnst 10 þúsund ár fyrir landnám til þess að "eyðileggja lífríkið" eins og sagt er að hann sé að gera núna, til dæmis á Hornströndum, þar sem hann er friðaður.
Ég velti því fyrir mér hvers vegna honum sé að takast það nú á örfáum árum, sem honum mistókst á þúsund sinnum lengri tíma, því að ekki er vitað annað en að landnámsmenn hafi sagst hafa komið að blómlegu lífríki þegar þeir námu land.
Sá eini, sem var höfðingborinn, Geirmundur Heljarskinn, nam meira að segja land á Hornströndum, þar sem lífríkið hefði átt að vera löngu dautt vegna refsins.
Þegar hvalveiðar hófust hér við land á 19. öld höfðu hvalir sömuleiðis haft gott næði í friði frá afskiptum mannsins í hundruð þúsunda ára til þess að "eyðileggja fiskistofnana". Samt hafði þeim ekki tekist það, en nú segja sumir að það verði að veiða þá hressilega til þess að bjarga fiskistofnunum.
Raunar er sá fjöldi hvala, sem nú er veiddur, svo örlítið brot af hvalastofnunum í heild, að það þyrfti að margfalda hvalveiðarnar til þess að þær hefðu einhver áhrif í þessu efni.
Fyrir 25 árum spurði ég hvalasérfræðing út í þetta, en þá höfðu hvalveiðar nýlega verið bannaðar, og svar hans var það, að náttúran leitaði yfirleitt sjálf nýs jafnvægis við aðstæður sem þessar.
Þegar hvölum hefði fjölgað upp að ákveðnu marki, myndi fæðuskortur sjá til þess að halda stærð stofnsins í skefjum.
Ég hef svosem ekkert við refaveiðar að athuga umfram aðrar nytjar manna af veiðum á dýrum og fiskum, sem samkomulag er um. Og betur gest mér að fuglasöng og fuglalífi en að vita af tilvist refsins.
En alhæfingar um "eyðileggingar"mátt refa og hvala, nánast gereyðingarmátt, sýnast vera hæpnar.
Og ef menn telja það hressa upp á mófuglana að veiða ref, þá er það mér að meinalausu að þeir geri það og segi það sama og Laddi lagði í munn norðlensku skyttunni: "Skjóta helvítið'"
![]() |
Tófan að eyðileggja lífríkið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)