Óeðlileg ráðstöfun vildarpunkta.

Það er óeðlilegt að einstakir starfsmenn hjá hinu opinbera fái persónulega til sín vildarpunktana hjá Icelandair fyrir flugmiða sem ríkið borgar fyrir ferðir þeirra á sínum vegum.

Slíkt fyrirkomulag getur virkað eins og persónulegur hvati fyrir þá sem vinna hjá opinberum fyrirtækjum til þess að fljúga sem mest með Icelandair á opinberan kostnað og uppskera jafnvel ókeypis flugfargjöld fyrir sjálfa sig síðar meir þegar þeir nýta þá í einkaerindum. 

Það má furðu gegna hve lengi þetta fyrirkomulag hefur verið í gildi án þess að nokkuð hafi verið hróflað við því. 

 


mbl.is Gæti sparað hundruð milljóna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýtt og varanlegt afbrigði af handboltafrægð Íslands?

Silfurverðlaun Íslendinga á Ólympíuleikum vakti athygli og undrun á því hvernig örþjóð getur komist svo langt í hópíþrótt þar sem tefla þarf fram á annan tug leikmanna í hæsta gæðaflokki.

Nú blæs ekki byrlega hjá íslenska landsliðinu en þá kemur upp alveg ný staða á HM, sem sé sú að fjórir af landsliðsþjálfurunum á mótinu eru íslenskir og að þrír þeirra geti fylgt liðum sínum áfram upp í úrslitakeppnina.

Raunar voru þrír af fjórum landsliðsþjálfurum einn keppnisdaginn við stjórn sinna liða á sama tíma.

Tveir þjálfaranna hafa tekið við að frægum þjálfurum hjá tveimur af helstu handboltaþjóðunum, Þýskalandi og Danmörku, og það eitt að stýra liði stórveldis á öllum sviðum segir mikið um getu og álit Dags Sigurðssonar.  

 


mbl.is Sjálfstraustið geislar af Degi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heilahristingur er ekkert grín.

Í áhugamannahnefaleikum er gert það skilyrði að leikmaður, sem er rotaður í keppni (sem er sjaldgæft vegna höfuðhlífa) megi ekki keppa aftur næstu þrjá mánuði og þurfi á að undirgangast nákvæma læknisrannsókn. 

Kinnbeinsbrot og andlitsmeiðsli Arons Pálmasonar rúmum mánuði fyrir HM hlutust af þungu höfuðhöggi, og ef til vill hafa beinbrotið og sjáanleg meiðsli dregið athyglina frá innri afleiðingum höggsins.

Í handbolta verða menn fyrir hörðum pústrum í hverjum leik og ef til vill var Aron veikur fyrir og þess vegna orðinn dasaður áður en stóra höggið kom í Tékkaleiknum. 

Hvað sem því líður er hart við það að búa að Íslendingar séu hvergi í meiri hættu en í miðborg Reykjavíkur.   


mbl.is Aron spilar ekki gegn Egyptum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Versti virkjanakostur landsins enn á dagskrá !

Skömmu áður en Alþingi samþykkti að ráðast í Kárahnjúkavirkjun lá fyrir sú bráðabirgðaniðurstaða í Rammaáætlun að tveir virkjanakostir á Íslandi hefðu mestu mögulegu óafturkræf neikvæð umhverfisáhrif, annars vegar Kárahnjúkavirkjun og hins vegar virkjun Jökulsár á Fjöllum.

Séð var til þess að þetta mat kæmist ekki í hámæli fyrr en síðar á árinu 2003 þegar Alþingi var búið að afgreiða málið.

Nú hefði maður haldið að þegar meira en hundrað virkjanakostir væru komnir á blað í allt, myndu menn láta það vera að ætla að fara út í þann ónotaða virkjanakost, sem nú er sá versti sem mögulegur er. 

Ónei. Nú er virkjun Jökulsár á Fjöllum og færsla hennar alla leið yfir í Fljótsdal sett á dagskrá eins og ekkert sé sjálfsagðara en að sökkva stórum hluta hinnar frábæru leiðar frá Möðrudal inn í Kverkfjöll og eyðileggja ásýnd og upplifun Vatnajökulsþjóðgarðs, þurrka Dettifoss upp lungann úr árinu og ljúga því að ferðamönnum á sumrin að leifarnar af honum sem fá að renna síðsumars, sé aflmesti foss Evrópu. 

Á vatnasvæði Jökulsár á Fjöllum einu og sér er magnaðasta og langfjölbreyttasta eldfjallasvæði heims, með tíu tegundum af helstu fyrirbærum eldfjallasvæða, en við samburð við tíu helstu önnur eldfjallasvæði heims kemst ekkert þeirra nema að vera rétt hálfdrættingar.

Ég vísa að öðru leyti í bloggpistil frá í fyrradag með nánari útlistun á sérstöðu Íslands, en á sama tíma og öðrum þjóðum dettur ekki í hug að svo mikið sem athuga virkjanir í þjóðgörðum sínum, eru hérlend valdaöfl á fullu við að bollaleggja hernað gegn einu af helstu náttúruundrum veraldar.  

Síðustu tveir dagar hafa verið sem martröð fyrir náttúruverndar- og umhverfisverndarfólk. 

Hafið er leifturstríð í hernaðinum gegn landinu á breiðustu víglínu, sem hægt er að skapa, bæði með takamarkalausu virkjanakappi hjá Orkustofnun og daginn eftir að ráðast til atlögu á dæmalausan hátt í boði meirihluta atvinnumálanefndar á víðernin við jaðar bæði Langjökuls og Vatnajökuls og fara fram hjá rammaáætlun og umhverfisráðherra.

Skrokkölduvirkjun þýðir einfaldlega 70 kílómetra framrás háspennulínu og upphleyptrar hraðbrautar inn að miðju hálendisins auk annarra virkjanamannvirkja svo sem stöðvarhúss, stíflu, miðlunarlóns og veituskurðar.

Í fyrra lýsti forstjóri Landsvirkjunar því yfir að það væri ekki spurning um hvort, heldur hvenær sæstrengur yrði lagður milli Íslands og Skotlands. 

Þegar strengurinn verður kominn mun hernaðurinn gegn landinu verða hertur enn frekar en nú og engu eirt í taumlausri skammtímagræðgi fyrr en gengið hefur verið milli bols og höfuðs á náttúru Íslands.

 

 

 


mbl.is Fordæmir tillögu Orkustofnunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Munaði 10 vörðum skotum í fyrri hálfleik.

Fyrri hálfleikur í leik Íslands og Tékklands í dag verður líklega í minnum hafður að endemum. 

Fyrsta þriðjung hans skoruðu Tékkar mark á hverri mínútu og hefðu með sama áframhaldi skorað 60 mörk í leiknum! 

Í hálfleik hafði tékkneski markvörðurinn varið 17 skot ef ég man rétt en hinum megin á vellinum var samsvarandi tala 10 mörkum lægri. Sá Tékkneski var þegar í fyrri hálfleik með svipaðar tölur í vörðum skotum og samanlagt í öllum leikjum liðsins fram að því! 

Ísland virðist nú vera orðinn óskaandstæðingur markvarðanna á mótinu, því að þeir eru menn leiksins í hvert sinn. 

Það þýðir ekki einungis að þetta séu góður markverðir heldur hitt að þeir fá auðveldari skot að verja en í öðrum leikjum. 

Það hefur löngum loðað við íslenska landsliðið á stórmótum að þurfa endilega að fara erfiðustu leiðina til að komast áfram. 

En sjaldan hefur sú leið orðið eins erfið og nú og í þetta sinn getur komið sér illa að hafa ekki krækt sér í bæði stigin í leiknum gegn heims- og Evrópumeisturum Frakka fyrir tveimur dögum, þar sem engu var líkara en að það væri allt annað lið inni á vellinum en nú. 

Þetta minnir á það þegar Íslendingar, alveg með óþekkt lið, unnu sjálft silfurlið Svía á HM 1964 með því að nýta sér "leynivopnið" Ingólf Óskarsson, en tapa síðan óvænt næst á eftir fyrir Ungverjum. 


mbl.is Risatap gegn Tékkum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"...stykki´ er margir fíla..."

Flík í snjónum stakk í stúf, - 

það stykki´er margir fíla, 

því brjóstahöldin létt og ljúf

losa fleira´en bíla. 


mbl.is Brjóstahald til að losa flóttabíl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki í fyrsta sinn að fjárútlát eru "falin" hjá Gæslunni.

Á yfirborðinu ríkir sú stefna stjórnvalda að fjölga opinberum störfum úti á landsbyggðinni. En í raun ríkir stjórnleysi þar sem vinstri höndin tekur meira til sín en sú hægri gefur af því að yfirsýnin skortir og þessi sömu stjórnvöld eru búin er að losa svo um tökin á opinberum rekstri með stofnun opinberra hlutafélaga að ekki ræðst neitt við neitt.

Ráðist er með offorsi í vanhugsaðar fljótræðisaðgerðir á borð við flutning Fiskistofu frá Hafnarfirði til Akureyrar sem bitna á tugum starfsfólks með stórfelldri röskun á stöðu og högum þess auk þess sem viðkomandi stofnun er lömuð árum saman eftir flutninginn, samanber flutning Landmælinga Íslands upp á Akranes á sínum tíma, sem lamaði reksturinn í fimm ár.

Á sama tíma er það látið afskiptalaust hvernig störf eru lögð niður úti á landi og þau flutt til Reykjavíkur oft með hókus pókus aðferðum.

Þegar litið er á kort yfir flugvelli á Íslandi sést glögglega að þeim er þannig raðað niður að Akureyrarflugvöllur liggur mun betur við þessu neti vallanna til flugmælinga en Reykjavík.

Auk þess hefði maður haldið að útboð væru besta leiðin til þess að laða fram sem besta hagkvæmni.

En hér gildir hins vegar fyrirbæri sem maður kynntist vel hjá opinberri stofnnun í gamla daga, að öllu skipti stundum í huga yfirmanna úr hvaða "skúffu" fjármunirnir komu en ekki hvað verkefnið kostaði.

"Hesturinn ber ekki það sem ég ber" sagði karlinn, þegar hann sat á hestinum með poka á baki sér í stað þess að reiða hann fyrir framan sig á baki hestsins.

Í því tilfelli hér um árið, sem ég vitna til, taldi yfirmaður minn nauðsynlegt að gera sjónvarpsþátt sem kostaði ekki krónu! Þetta væri nauðsynlegt til að sýna fram á hvað hans deild, FFD, væri miklu betur rekin en "hin deildin", LSD, Lista- og skemmtideild.

Það gerði hann þannig, að þátturinn fjallaði um vitavörðinn á Hornbjargsvita og yrði á dagskrá sama kvöld og hneykslanlega rándýr mynd á vegum LSD um Lénharð fógeta !

Hann fól mér að gera þáttinn af því að mín laun voru færð sem laun íþróttafréttaritara! 

Jú, farið var fljúgandi til Ísafjarðar á FRÚnni til þess að finna með erfiðismunum eitthvað smá íþróttatengt efni til að fjalla um og myndi kostnaður við þetta flug skrifast á íþróttir í Sjónvarpinu. Á Ísafirði færum við með varðskipi til Hornbjargsvita og síðan aftur með varðskipi til baka til Ísafjarðar og þaðan beint til Reykjavíkur á kostnað íþróttaumfjöllunar í sjónvarpi.

Í sjónvarpinu yrði þátturinn unninn á vinnutíma íþróttafréttamannsins og kostnaðurinn falinn í þeirri "skúffu" og öðrum skúffum Sjónvarpsins, svo sem hjá framköllunardeildinni og víðar! 

Þátturinn um vitavörðinn á Hornbjargsvita myndi ekki kosta eina einustu krónu!

Höfuðatriði væri að ekki færi króna í mat eða gistingu.

En minnstu munaði að öll fléttan félli á fjórum kjúklingjum frá Aski, sem ég neyddist til að kaupa fyrir ferðina, af því að últra hægri sinnaður kvikmyndatökumaðurinn neitaði á síðustu stundu að láta yfirlýstan kommúnista á Hornbjargsvita brasa ofan í sig á meðan við dveldumst þar ókeypis ! 

Þetta sýnir að Landhelgisgæslan er ekki í fyrsta sinn notuð til þess að fela hinn raunverulega kostnað við fjárútlát, fjárútlát sem fyrir bragðið verða jafnvel meiri en ella hefði orðið. Og skattgreiðendur um allt land borga. 

 


mbl.is Störf flutt frá Akureyri til Reykjavíkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

140 ár afturábak! Yfirgengileg þráhyggja!

Það liggur við að maður klípi sig í handlegginn til að vera viss um að það sé rétt að enn þann dag í dag eigi að fara að eyða stórfé í að undirbúa virkjanir á stöðum eins og Hveravöllum og á vatnasvæði Jökulsár á fjöllum, vatnasvæði sem býr yfir fjölbreyttasta og magnaðasta eldvirka svæði í heimi samkvæmt rannsókn Magnúsar Tuma Guðmundssonar jarðfræðings.100 Great Wonders, bók

Varla væri verið að gera þetta nema vegna þess að þeim, sem fara nú á fulla ferð við þessi ósköp, ætla sér að ganga í skrokk á hverri þeirri náttúruperlu á Íslandi sem þjónar virkjanafíkn þeirra.

Það kemur fram í því að færa hverja perluna af fætur annarri úr verndarflokki (sem ætti að heita verndarnýtingarflokkur) yfir í nýtingarflokk (sem ætti að heita orkunýtingarflokkur).North-America

Fyrir 140 árum friðlýstu Bandaríkjamenn fyrsta þjóðgarð veraldar, Yellowstone, og síðan þá hefur hin gríðarlega jarðvarma- og vatnsorka þjóðgarðsins, langstærsta orkubúnt Norður-Ameríku, verið friðhelg, "heilög vé" svo að notuð séu orð eins fremsta vísindamanns þeirrar álfu á sviði jarðvarmavirkjana.

Um aldur og ævi verður ekki virkjaður svo mikið sem einn hver af 10.000 hverum garðsins og þar að auki er boranabann á 100 þúsund ferkílómetra svæði, svonefndu Greater-Yellowstone, umhverfis sjálfan Yellowstoneþjóðgarðinn.IMG_4683

Sá Bandaríkjamaður, sem vogaði sér að leggja til virkjanainnrás í þjóðgarðinn yrði ekki talinn með réttu ráði.

 En hér á landi eru valdaöfl sem ætla sér greinilega ekki að eira neinu og engin takmörk virðast vera fyrir virkjanagræðginni. 

Yellowstone er ekki á alþjóðlegum lista yfir 40 stærstu náttúruverðmæti heims eða á listanum yfir undur Norður-Ameríku.

Það sést þegar gluggað er í vandaða bók um "100 Great Wonders of the World", þar sem 40 eru náttúrugerð en um 60 manngerð, svo sem Kínamúrinn, Stonehenge og Tach Mahal.IMG_4685

Á listanum yfir undrin í Norður-Ameríku finnst Yellowstone ekki þar.

"Does not qualify" eins og Kaninn myndi orða það.   

Af um 40 náttúruundrum bókarinnar eru aðeins sjö í Evrópu.

Þar er má sjá hinn eldvirka hluta Íslands tróna á einni opnu.

Og ekkert annað undur í bókinni fær viðlíka ummæli: "Iceland is a land like no other".IMG_4681

En innrás vinnuvélanna og skriðbeltatækjasveitanna inn í magnaðasta og fjölbreyttasta eldfjallasvæði heims til að umturna einstæðri náttúru þess, sem þar að auki er hluti af Vatnajökulsþjóðgarði, er orðinn að fáránlegri þráhyggju, sem er 140 ára afturhvarf aftur í tímann.   

 

 

 

 

 


mbl.is Segja Orkustofnun ógna friði rammaáætlunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framsókn hlýtur að ráða þessu sjálf, er það ekki?

Framsóknarmenn og flugvallarvinir ákváðu fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar hver yrði oddviti þeirra í Reykjavík. Strax kom upp andstaða ýmissa áhrifamanna í flokknum, svo sem fyrrverandi formanns flokksins, við þessa ákvörðun á þeim forsendum að stefna listans væri ekki alveg í samræmi við stefnu flokksins í mannréttindamálum, en skipan listans var ekki breytt, enda er slíkt á forræði Framsóknarmanna í Reykjavík.

Nú hafa Framsókn og flugvallavinir fengið kjörinn varamann í mannréttindaráð og þeirri stöðu sinni mun hann gegna þar til þeir hinir sömu Framsóknar og flugvallarvinir skipta um mann ef þeir kjósa svo.

Svona einfalt er þetta. Að stilla þessu máli upp sem "samræmdri aðför" og "rafrænni múgsefjum sem veki hroll" er undarleg nálgun.

Þegar það virðist vera komið í ljós að Gústaf Níelsson sé gersamlega ósammála stefnu Framsóknar í mannréttindamálum, ítreki þá afstöðu sína og sé hugsanlega félagi í Pegidasamtökunum, sem setja andúð á múslimum og innflytjendum á oddinn, hlýtur það að vera innanflokksmál Framsóknarmanna í Reykjavík að meta það hvort Gústaf geti unnið í mannréttindaráði sem fulltrúi fyrir allt önnur sjónarmið en felast í stefnu flokksins.

Og sé það rétt að hann sé hrifinn af stefnu Pegida ætti það að vera lýðræðislegur réttur hans og skoðanasystkina hans að fara í framboð fyrir þau samtök, er það ekki?

 

P.S. Ég sé því haldið fram annars staðar á netinu, að það sé ofmælt að Gústaf sé félagi í Pegida, enda séu það erlend samtök. Ástæðan fyrir því að hans nafn hafi verið nefnt sé sú, að hann hafi "lækað" á samtökin. Sé svo, er það ekki í fyrsta skipti sem það að "læka" sé túlkað sem samþykki viðkomandi við þeim skoðunum sem komi fram. En í flestum tilfellum er lækað bara til þess að lýsa yfir áhuga á umræðuefninu og geta tekið þátt í umræðunni. Hitt blasir við að bæði Pegida og Gústaf berjast gegn því sem kallað er "múslimavæðing" Evrópu og Gústaf hefur talað um innflytjendur frá múslimskum ríkjum sem eins konar dreggjar þeirra þjóðfélaga.         


mbl.is Dæmi um „rafræna múgsefjun“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kynslóðabil, sígilt fyrirbæri.

Kynslóðabil er vafalítið eitt þekktasta og algildasta fyrirbærið í menningu þjóða. 

Frank Sinatra sagði í upphafi ferils Elvis Presley, að tónlist hans væri viðbjóðsleg.

Bono sagði það sama um tónlist ABBA. Át það hraustlega ofan í sig 20 árum síðar.  

Eitthvað voru þeir Bubbi og Bo ósammmála um hlutina hér um árið en héldu þó saman tónleika nýlega. 

Í skoðanakönnun meðal skólanemenda upp úr 1950 fékk Haukur Morthens flest atkvæði sem merkasti maður heims, og Kristur og Jón Sigurðsson áttu ekki séns í Hauk. 

Í dag myndu flestir um fermingu gata á því hver Haukur Morthens hefði verið. 

Hermann Gunnarsson fékk létt sjokk 1994 þegar strákarnir á 800 stráka pollamóti á Sauðarkróki höfðu ekki minnstu hugmynd um að Hemmi hefði spilað knattspyrnu, hvað þá sem landsliðsmaður. 

Ég spurði Hemma hvort hann vissi hver Garðar Gíslason hefði verið og fyrir hvað hann hefði orðið þekktastur.

"Heildsali" svaraði Hemmi. 

"Nei, Hemmi minn, hann var besti spretthlaupari Íslands á fjórða áratugnum og Íslandsmethafi í 100 metra hlaupi", svaraði ég. 

"Hvernig á ég að vita það. Ég var ekki fæddur þá", sagði Hemmi. 

"Og strákarnir hérna voru líka ófæddir þegar þú varst í boltanum", svaraði ég.

Fyrir um tuttugu árum voru margir unglingar yfir sig hrifnir af Bogomil Font.

"Það eru svo flott lögin og textarnir sem hann hefur samið" sagði einn við pabba sinn, þegar hann kom að syni sínum við að hlusta á lagið "Pabbi kýs mambó."

"En hann gerði hvorki lögin né textana" sagði faðirinn.

"Nú, hver gerði það?" spurði strákurinn.

"Loftur Guðmundsson gerði suma, til dæmis þennan sem þú ert að hlusta á."

"Hver var Loftur Guðmundsson?"

"Hann var blaðamaður fyrir meira en 40 árum. Þetta er 40 ára gamalt lag, sem þér finnst svona flott." 

Það var létt sjokk fyrir drenginn að fá að vita að þessi "spánýju" lög væru lög afa og ömmmu. 

"En Bogomil Font er flottur", segir hann loks. 

"Hann heitir ekki Bogomil Font. Það er listamannsnafn."

"Hvað heitir hann þá?"

"Sigtryggur Baldursson." 


mbl.is Þekktu hvorki Wu Tang Clan né Prodigy
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband