Einu sinni flönuðu ístrur í sjónvarpsfréttum.

Það þarf ekki bein mismæli til þess að brengla merkingu orða í beinni útsendingu. 

Í sjónvarpsfréttum fyrir nokkrum áratugum var svo að skilja á fréttaþulnum að ístrur væru að flana austur við Þjórsá en það var leiðrétt eftir fréttina og beðist velvirðingar á því að þulurinn hefði haldið að orðið, sem hann var að lesa, þýddi allt annað en það þýddi.

Hann skipti orðinu þannig í atkvæði í lestrinum, að það hljóðaði eins og "ístru-flanir" en það átti að vera "ís-truflanir", skrifað "ístruflanir". 

Þessar ístruflanir voru vandamál við Búrfellsvirkjun áður en fleiri virkjanir komu þar fyrir ofan.

Ég átti afar auðvelt með að skilja og fyrirgefa þessi mistök, því að sjálfur hafði ég sem unglingur á gangi eftir Austurstræti undrast það þegar ég gekk annars hugar út úr bókaverslun Ísafoldar og sá að komin var verslun við hliðina með ensku nafni, sem mátti skilja sem svo að þar væru seldar blekfyllingar í pennana í bókaversluninni. Þótt mér það undarlegt.

Ég skipti nefnilega nafni verslunarinnar vitlaust í atkvæði þegar ég las nafnið: "Re-fill", borið fram "rí-fill" með áhersluna á seinna atkvæðinu.

Ég áttaði mig hins vegar á misskilningnum þegar ég leit inn fyrir búðargluggann og sá þar mikið af ullarvörum en engar blekfyllingar eða ritföng!

Auðvitað hét versluninn "Refill", nánar tiltekið hannyrðaverslunin Refill.   

  


mbl.is Tilnefndi kúk til Óskarsverðlauna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hinir ósnertanlegu, - "the untuchables".

Við Helga komum til bæjar í Klettafjöllum í Koloradó fyrir rúmum áratug, sem heitir Avon og setti sér það takmark með atbeina Geralds Fords, fyrrum Bandaríkjaforseta, sem þá bjó þar, að komast fram úr Aspen sem Mekka skíðamanna. 

Íbúarnir lýstu því fyrir okkur stórhneykslaðir hvernig krónsprinsinn af Sádi-Arabíu hegðaði sér í nýlegri heimsókn þangað. 

Tók hótel með 100 herbergjum á leigu fyrir sig og hirð sína, notaði þyrlur og glæsibíla í hrönnum og var í hverfi efnafólks, sem er sérstaklega afgirt með öryggisverði.

Einn Kaninn þarna svaraði spurningum mínum öðruvísi en hinir, benti á lúxusjeppana, sem stóðu í röðum á bílastæðinu þar sem við vorum og sagði:

"Þetta verður að vera svona. Hann heldur þessum bílaflota okkar og ameríska lífsstílnum uppi. Með því að hætta að fara á skíði í Alpafjöllum og koma hingað í staðinn færir hann okkur hér í Avon mikla viðurkenningu, sem við þurfum nauðsynlega á að halda til að komast í fremstu röð. Þetta eru kaup kaups, báðir aðilar græða peninga." 

Upplýst hefur verið hvernig ráðamenn í Sádi-Arabíu áttu stærstan utanaðkomandi þáttinn í að fella Sovétríkin á valdatímabili Ronalds Reagans. Þeir einfaldlega juku framboðið af olíu á heimsmarkaði nógu mikið til að verðfall á olíunni kæmi olíuútflutningsríkinu Sovétríkjunum á kné.

Þeir eru að gera nákvæmlega það sama núna fyrir Bandaríkin og Vesturlönd til að koma Pútín á kné. Að launum fá þeir afskiptaleysi okkar gagnvart stórfelldum mannréttindabrotum, alræði og kúgun í Sádi-Arabíu.

Þeir eru "The untuchables", hinir ósnertanlegu, enda af nógu að taka fyrir lýðræðisþjóðirnar að verjast hryðjuverkamönnum annars staðar og hafast lítið sem ekkert að á meðan samtök eins og Boko Haram drepa og limlesta þúsundir múslima í Nígeríu, því að eins og Einar Björn Bjarnason hefur bent á í bloggi sínu, eru nær allir þeir, sem hinir morðóðu múslimsku öfgamenn drepa í Nígeríu og í "Ríki Íslams", aðrir múslimar.   


mbl.is Kona hálshöggvin fyrir morð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spurning um eðli máls og skynsamlegar reglur.

Sú var tíðin þegar skíðafimi í formi heljarstökka og svipaðra kúnsta var að ryðja sér til rúms að háværar raddir voru uppi um að banna allt slíkt og gera refsivert vegna þess hve hættulegt þetta athæfi væri. 

Smám saman komst samt ákveðið form á þessa íþrótt og þrátt fyrir ákveðna áhættu sem tekin er, var það niðurstaðan, að slysatíðnin hjá þeim sem stóðu rétt að æfingum, þjálfun og keppni, væri ekki það meiri en af hefðbundinni skíðaiðkun að hrein boð og bönn væru réttlætanleg. 

Það tók nokkur ár að brjótast í gegnum fordómamúr varðandi keppni í bílaralli hér á landi og virtist engu skipta, þótt reynt væri að sýna fram á að í öðrum löndum væri slík keppni komin í fast og viðurkennt form sem fæli ekki í sér meiri slysatíðni en í flestum öðrum íþróttagreinum. 

Júdó varð að ganga í gegnum ákveðið fordómatímabil hér á landi og má nefna alls konar mótbárur varðandi "hengingartök" og fleira sem sagt var gefa slæmt fordæmi, auk þess sem brögð sem enduðu með því að fella andstæðinginn harkalega til jarðar voru harðlega gagnrýnd. 

Flokkur júdómanna, sem setti upp skemmtilega sýningu til að sýna íþróttina á sviði, sýndi fram á að harðir dómar á íþróttina áttu ekki við rök að styðjast.  


mbl.is Bannað í Bláfjöllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Markatölur úr fortíðinni, öfugar þó.

Eftir að reglum handboltans var breytt til að auka hraða leiksins og spennu með því skylda ekki lið, sem fær mark á sig, til þess að byrja frá miðju eftir að andstæðingarnir eru komnir til baka, hækkuðu markatölurnar um 50% að meðaltali. 

Undir venjulegum kringumstæðum á lið, sem fær aðeins á sig 24 mörk, að eiga ágæta sigurmöguleika. 

En það var svo langt frá því að það væri nóg í kvöld. Fróðlegt væri að vita hve mörg ár eða jafnvel áratugir eru síðan íslenskt handboltalandslið hefur skorað færri mörk í einum leik. 

Leikurinn í kvöld minnir óþyrmilega á landsleik í kringum 1970 þegar gerð var einhver mesta breyting allra tíma á landsliðinu, og við unnum Dani í fyrsta sinn með ótrúlegri markatölu, 15-10. 

En miðað við reglurnar, sem þá voru, og miklu færri mörk skoruð að meðaltali, er það álíka markatala og nú, og meira segja nákvæmlega sama hlutfall, 3:2.

En því miður öfug fyrir okkur, stórtap okkar manna í stað stórsigurs þá.

Stærstan þátt í 15:10 sigrinum átti nýr og kornungur landsliðsmarkvörður okkar, Ólafur Benediktsson, sem varði svo meistaralega, að hann fékk strax viðurnefni, Óliver.

 

Í leik okkar við Svía nú var það sænski markvörðurinn sem var Óliver þeirra. 

Ólafur "Óliver" var síðasti íslenski markvörðurinn, sem gat varið hörkuskot niðri við gólf út við stöng með því að kasta sér niður í hornið með höfuðið og höndina á undan skrokknum svipað og knattspyrnumarkvörður.

Mig minnir að síðasti danski markvörðurinn sem gat þetta og gerði með árangri hafi heitið Mortensen eða eitthvað líkt því.

 

 

 


mbl.is Lentum á vegg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað næst: "Vatnsskúr"?

Ætla hefði mátt að íslenska ætti nógu mörg heiti yfir það fyrirbæri þegar vatn í föstu formi fellur til jarðar, rennur með jörðinni í ýmsum myndum eða liggur á jörðinni.  

Nokkur dæmi:  Snjókoma, ofankoma, hríð, stórhríð, blindhríð, bylur, blindbylur, kafaldsbylur, hraglandi, kafald, mugga, hundslappadrífa, slydda, skafrenningur, mjöll, lausamjöll, harðfenni, fönn, skari, krap o.s.frv.

Samt linnir ekki þeirri áráttu íslensks fjölmiðlafólks að þýða beint enska orðið "snowstorm" og búa til heitin "snjóstormur" og "snjóbylur".

Hvað næst: "Snjórok"? Eða "vatnsskúr" 


mbl.is Íslenskur snjóbylur vekur heimsathygli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mesta heppni í heimi?

Það var ein af eftirminnilegustu stundunum í Súðavík eftir flóðið þar, að standa á milli rústa húsanna sem flóðið sundraði, og beina myndavélinni fyrst að húsi nágranna Tómaszar Þórs Verusonar og segja frá þvi að þegar flóðið sprengdi það hús, þeyttist vatnsrúm út úr því og beina síðan myndavélinni síðan að húsinu sem Tómazs þeyttist út úr, og sýna síðan feril rúmsins og Tómazsar sem mættust í fluginu þannig að Tómazs vafðist inn í það og þegar rúmið kom niður með Tómazs vafinn inn í sér, bjargaði það lífi hans og hélt á honum hita. 

Því miður eru ekki til neinar myndir af því þegar björgunarsveitarmenn fundu Tómazs, grófu hann upp og björguðu honum, en það var afleiðing af vanmati á gildi myndatöku af svona viðburðum, sjá pistil frá því í gær. 

Ég efast um að dæmi sé um viðlíka heppni í veröldinni og fólst í þessu einstæða atviki í Súðavík fyrir 20 árum. 


mbl.is Vatnsrúmið bjargaði lífinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlýrri sjór veldur verri vetrarveðrum.

Sú ímynd hefur fest á fyrri part vetrar að hann sé einmuna kaldur og illviðrasamur með meiri snjúum og ófærð en dæmi eru um lengi. 

Þetta með snjóinn er rétt og sömuleiðis hefur verið illviðrasamt og mikið um slæm vetrarveður með tilheyrandi samgöngutruflunum og útköllum björgunarsveita. 

Hins vegar syna hitatölur að fyrstu tvo vetrarmánuðina var meðalhiti hærri á norðanverðu landinu en í meðalári. 

Nvernig má þetta vera? 

Dagskíman er lítil yfir Vaðlaheiðinni þegar þessi orð eru skrifuð um níuleytið á Akureyri eins og sést á meðfylgjandi mynd og snjórinn er djúpur hér nyrðra, og verður að velja sér heppilegt hlé á milli óveðra til að koma hinganð norður og fara héðan.IMG_4525

Trausti Jónsson hefur bent á það í pistlum sínum, beint og óbeint, að sjórinn fyrir norðan land hefur verið miklu hlýrri síðustu misseri en venjulega og hafísinn er mun fjær og minni fyrir norðan land en nokkru sinni fyrr síðustu aldirnar. 

Það er vetrarnótt á Norðurpólsvæðinu engu að síður og sólar nýtur þar alls ekki. Þess vegna myndast þar, einkum norður af meginlöndunum í Kanada og yfir Síberíu hefðbundnir "kuldapollar" sem teygja sig mismunandi mikið suður á Norður-Atlantshafið með köldu og tiltölulega þurru lofti. 

Þegar hafísinn var meiri en nú og sjórinn kaldari, dró þetta kalda loft í sig hitann og rakann frá sjónum sem það streymdi yfir, svo að það mynduðust él og stundum snjókoma á norðanverðu landinu. 

Sjórinn var hins vegar svo nálægt frostmarki að þetta var ekki í þeim mæli sem nú er þegar hafið er mun hlýrra og rakinn því meiri, auk þess sem átökin milli kalda og heita loftsins sem berst með lægðum úr suðvestri eru meiri nú en áður. 

Þess vegna eru nú meiri stórhríðar og ill vetrarveður en fyrr og þau eru svona slæm vegna hlýnunar sjávar af völdum hlýrri lofthjúps jarðar. 

Þetta gengur harðsnúnum hópi manna, sem ég hef kallað "kuldatrúarmenn", illa að samþykkja og skrifuðu nú nýlega um það að það væri alrangt að lofthjúpur jarðar færi hlýnandi. Þvert á mót færi hann "hratt kólnandi" !  

Þeir andæða harðlega kenningum um gróðurhúsaáhrif og gefa greinilega skít í þær hnattrænu mælingar sem sýna hlýrri lofthjúp og loftslag að meðaltali á jörðinni en hefur komið síðustu þúsund árin. 


mbl.is „Kolvitlaust“ veður á Austurlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjórhjóladrifið er gott en þarf aðgæslu.

Tvö orð hafa verið felld í gildi með ofnotkun hér á landi, orðin frábær og jeppi, eins og minnst hefur verið á áður hér á síðunni. Sönghofs-dalur

Flesta svonefndra jeppa, jepplinga eða sportjeppa, sem seldir eru hér á landi, skortir veghæð þegar þeir eru hlaðnir, og þarf því sérstaka aðgæslu ef ekið er á erfiðum slóðum.  

Fjórhjóladrif er hins vegar afar nytsamlegt hér á landi á vegakerfinu sjálfu og því fagnaðarefni að bílaframleiðendur skuli ekki hörfa meira til baka en orðið er varðandi það, því að á sumum svonefndum sport"jeppum" sem nú eru í boði, er fjórhjóladrif ekki einu sinni í boði. 

Þetta kom vel í ljós á leið til Akureyrar í gærkvöldi í hálku og hríð á síðari hluta leiðarinnar. 

Á fundi Ferðafélags Akureyrar í kvöld verður brugðið upp ýmsum myndum af stöðum norðan jökla, sem eru afar vel geymd leyndarmál. 

Myndin hér á síðunni er einmitt af einum þessara staða á norðurhálendinu, sem ekki er einu sinni merktur með nafni á nokkru korti, en stendur til að gera skil í einum Ferðastikluþáttanna, sem verða á dagskrá á útmánuðum. 


mbl.is BMW X6 frumsýndur hjá BL
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Myndir eru vísindaleg og sagnfræðileg gögn.

Ragnar Axelsson lýsir vel hlutskipti fjölmiðlamanna þegar stórir atburðir verða, og varðandi öflun mynda lærðu menn fyrir vestan af mistökunum í Súðavík, þar sem engum var leyft að fara. 

Meginatriði myndatöku eru einföld og eru í tveimur skrefum:

1. Það á að taka eins mikið af myndum og mögulegt er. Enginn veit fyrirfram hverjar þeirra hafa mest gildi fyrir rannsóknir á atburðum og fyrir framtíðina. 

2. Aðalatriðið: Að taka ákvörðun um hvaða af myndir er birtar, hvernig og hvenær. Sumar er rétt að birta ekki fyrr en eftir 100 ár. 

Kvikmyndir og ljósmyndir eru ekki bara vísindaleg gögn heldur hluti af heimildum um sögu lands og þjóðar. 

Á Flateyri voru í ljósi mistakanna í Súðavík, valdir þeir reyndustu í hópi myndatökumanna, Ragnar Axelsson ljósmyndari og Friðþjófur Helgason kvikmyndatökumaður, til þess að taka myndir á vettvangi frá byrjun fyrir alla fjölmiðlana. Það reyndist vel. 

Á síðustu árum hefur orðið afturför hvað þetta varðar. Hverjum myndi detta í hug að banna vísindamönnum að fara inn á hamfarasvæði en láta í staðinn fjölmiðlamenn vinna störf þeirra? 

En það er hliðstætt því þegar björgunarsveitarmenn og vísindamenn, sem eiga alveg nóg með sín mikilvægu störf, eru einir á svæðinu en ljósmyndurum og kvikmyndatökumönnum bannaður aðgangur. 


mbl.is Verða að fá að skrá söguna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

En Íslendingar eru áfram með dollaraglampa í augunum.

Grænlendingar standa frammi fyrir nýjum veruleika í stað þess sem var nýr fyrir örfáum árum þegar þá dreymdi um að verða rík þjóð vegna gríðarlegra fjárfestinga stórra erlendra olíufyrirtækja og málmfyrirtækja. Nú kippa þessi erlendu fyrirtæki að sér hendinni. 

Á Íslandi hefur hins vegar ekki heyrst um neitt svipað. "Heimshöfn" í Finnafirði eða jafnvel Loðmundarfirði, "miðstöð sjóflutninga á Norður-Atlantshafi", jarðgöng og hraðbrautir frá olíuhöfnunum um þvert og endilangt hálendið eru enn á dagskrá hjá okkur svo að dollaraglamparnir skína úr augum hér á landi. 


mbl.is Gefast upp á olíuleit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband