5-15 ferkílómetra lón við Lönguhlíð? Varla.

Af því að aðeins rúm vika er síðan ég var á sveimi yfir gosstöðvunum í Holuhrauni er ég spurður, hvað líði átökum Jökulsár og nýja hraunsins, hvort lón sé að myndast. 

Einnig er spurt um það hvort Svartá geti stíflast.

Ég ætla að setja mynd og kort á facebook sem útskýrir ástandið en vísir að mjóu lóni sást á myndum, sem voru sýndar í fréttum Sjónvarpsins.

Á ljósmynd af norðausturenda hraunsins má sjá, að enda þótt hraunið sé búið að ýta ánni upp í hallann á vesturhlið Lönguhlíðar, er áin furðu dugleg að sverfa sig niður inn í hallann.

Þótt lítið vatn sé í ánni á þessum tíma árs tekst henni halda enn í horfinu og nýtur þess, að hraunið kólnar í snertingunni við hana og storknar fyrr en ella. Það leitast því við að flæða frekar í aðrar áttir. 

Enn er á annan kílómetra að Svartá neðst til hægri á myndinni, svo að varla er hún í bráðri hættu.  

Vinur minn sendi mér kort sem hann gerði af mögulegu lóni, sem gæti myndast milli hrauns og hlíðar ef hraunflæðið heldur áfram af óbreyttum krafti og þrengir Jökulsá upp í meiri hæð utan í halla Lönguhlíðar.

Kortið sýnir 19 ferkílómetra lón hið stærsta (merkt með rauðum lit). 

Það myndi teljst talsverð frétt en þess ber samt að gæta, að yfirleitt eiga íslensku árnar síðasta orðið í baráttu af þessu tagi.

Þegar mun meira vatn verður í Jökulsá næsta sumar en nú, mun hún verða dugleg við að grafa sig niður og hún á tímann frekar fyrir sér en hraunflæði í gosi, sem Haraldur Sigurðsson giskar á að muni verða hætt fyrir næsta vor.  

 


mbl.is Skjálftavirkni mikil í Bárðarbungu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gömlu Kveldúlfshúsin og Völundur.

Engar fjálgar yfirlýsingar um dýrmætar minjar úr atvinnusögu þjóðarinnar líkt og nú heyrast á Grandagarði heyrðust þegar gömlu Kveldúlfshúsin og hús Timburverslunarinnar Völundar við Skúlagötu voru rifin. 

Þessi hús skiptu engum sköpum um það hvort hægt yrði að reisa nýjar íbúðablokkir í Skuggahverfinu af slikum ákafa að sú nýjasta lokar fyrir dýmætt útsýni frá Klapparstíg til Esjunnar.

Háhýsin og blokkirnar gátu alveg orðið nógu margar þótt Kveldúlfshúsið og hús Völundar fengju að standa.  

Kveldúlfshúsið hlaut nafnið Skúlaskáli eftir að blómaskeiði Kveldúlfs lauk og varð í raun enn verðmætari fyrir bragðið.  Það hús og Hús Völundar voru söguleg verðmæti rétt eins og Franski spítalinn sem seinna varð að Gagnfræðaskólanum við Lindargötu, og var sem betur fór ekki rifinn.  

Hús Völundar var fallegt timburhús, sem tók sáralítið rými.  


mbl.is Gamalt hús lítur dagsins ljós
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nokia, Pontiac, Oldsmobile, Plymouth, BMC....

Það er ekki langt síðan Nokia var stolt og nokkurs konar tákn Finnlands. Á furðu skömmum tíma hefur þetta stolt hrunið. Ég var viðskiptavinur fyrirtækisins frá upphafi farsíma hér á landi, en bellibrögð varðandi ábyrgð á framleiðslunni og hröð hnignun gæða ollu fráhvarfi mínu.

Nokia er í hópi hundruða þekktra vörumerkja, sem hafa orðið andvaraleysi stjórnendanna að bráð.

Hér á landi voru mörg stöndug fyrirtæki sem hurfu undra skjótt af sjónarsviðinu á síðustu öld þegar eldmóðs, ráðvendni og dugnaðar frumherjanna naut ekki lengur við. Það er langur nafnalisti.

Sú var tið Packard og síðar Cadillac voru "Standard of the world."

Um 1990 komu hinar sigruðu þjóðir í stríðinu, Japanir og Þjóðverjar og tóku forystuna í bílaframleiðslu heimsins með Benz S, Lexus og BMW 7 sem flaggskip.

Ástæðan var einföld: Andvaraleysi, horfin vöruvöndun og of hæg framþróun hjá bandarísku framleiðendunum.

Plymouth var árum saman þriðja mest selda bíltegund heims. Nú heyrir merkið sögunni ásamt fyrrum eðalbílum á borð Oldsmobile, Pontiac og De Soto.

Saab er í dauðateygjunum.

BMC, sem var stolt bresks bílaiðnaðar, hreinlega hrundi seint á síðustu öld.

Fáa óraði fyrir því fyrir áratug að árið 2008 yrði bílarisinn General Motors tæknilega gjaldþrota.

Obama bjargaði GM af því að fyrirtækið var of stórt til að hægt væri að láta það fara í þrot.

Á svipaðan hátt var mörgum fyrirtækjum bjargað hér í Hruninu.  

 


mbl.is Framleiðslu Nokia farsíma hætt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nær aldargamalt deiluefni hér á landi.

Á fyrstu árum fullveldisins sóttu kommúnistar og róttækir verkalýðssinnar mjög í sig veðrið hér á landi og átök á milli þeirra og lögreglu urðu tíð. Í kjölfar hinna hatrömmu átaka um útlenda drenginn, sem Ólafur Friðriksson kom með til landsins vildu margir að lögreglan yrði efld á sem víðtækastan hátt. 

Á kreppuárunum urðu þessi átök algengari og hatrammari og stjórnmálamenn deildu um hve langt ætti að ganga í því að efla lögregluna, enda var harðsnúinn hópur innan raða kommúnista sem taldi að til greina kæmi að ná völdum með ofbeldi til að framkalla byltingu.

Þá, eins og nú, kom af og til upp álitaefnið um það hve langt ætti að ganga í því að vopna lögregluna og eins og nú virtust hægri menn öllu hrifnari af vígbúnaði lögreglunnar en aðrir. 

Svipað virðist þetta vera í Bandaríkjunum þar sem hægri menn eru hlynntari almennri byssueign og sterkri og öflugra lögregluvaldi og ríkisvaldi en aðir.  

Þrátt fyrir öll stóryrðin kom þó aldrei til þess þegar ófriðlegast horfði á árunum 1930 til 1950 að byltingarróttæklingar reyndu beitingu ofbeldis til að ná völdum hér á landi, en sagnfræðingar eru ekki á einu máli um það hve litlu munaði að þetta yrði framkvæmt eða hve langt þeir hörðustu voru raunverulega tilbúnir að ganga.

Síðan 1999, þegar íslenskir ráðamenn stóðu fyrir því að NATO æfði sig í viðbrögðum við ógn við íslenska ríkið á þann hátt að æfa beitingu öflugustu orrustu- og sprengjuþotna heims gegn náttúruverndarfólki á hálendi Íslands virðist hin gamla tilhneiging sumra íslenskrar ráðamanna til að heimta aukinn vígbúnað lögreglunnar vera komin hressilega á kreik að nýju.

Trúin á mátt vopnanna í samfélaginu hefur beðið skipbrot í Bandaríkjunum. Það hafa vopn kallað á vopn og hvergi í vestrænum ríkjum eru fleiri drepnir með vopnum og hvergi er ótti við ógn vopnanna meiri.

Eitt af fjórum tegundum frelsis sem Roosevelt Bandaríkjaforseti boðaði að sækja skyldi eftir, er frelsi frá ótta og í ljósi þess er ástandið í Bandaríkjunum enn nöturlegra en ella.

Undarlegt er að sumir þeirra sem réttilega gagnrýndu harðlega lögregluríki í alræðisrikjum kommúnista á dögum Kalda stríðsins virðist nú vera hlynntir því að innleiða vígbúið lögregluríki hér.  

 

  


mbl.is „Vopn kalla á vopn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Túrbínutrixin" í Gálgahrauni og Vatnsmýri.

Fyrir ári var sagt að engan tíma mætti missa við framkvæmdir við Álftanesveg vegna þess hve hann væri hættulegur, hve umferðin um hann væri orðin allt of mikil og að þarna væri að rísa 15 þúsund manna ný byggð. 

Þess vegna væri ekki hægt að bíða eftir því að útkljá þau dómsmál og kærumál sem í gangi væru, heldur yrði að byrja strax.  

Svo mikið þótti liggja við að stærsta jarðýta landsins var látin djöflast eftir endilöngu hrauninu og umbylta því sem allra mest með aðstoð 60 manna lögreglu. Vinna eins mikil og óafturkræf spjöll á hrauninu og mögulegt væri á sem allra skemmstum tíma. 

Um þessar mundir bregður hins vegar svo við að lítið sem ekkert virðist vera unnið við vegagerðina.

Allt í einu liggur ekkert á.

Sömu húsin, sem standa við núverandi Álftanesveg og voru auð í fyrra, standa ennþá auð.

Ekkert bólar á nýju stóru byggðinni sem átti að vera í heild næstum því jafn fjölmenn og Hafnarfjörður.

Enda kom í ljós við athugun að núverandi Álftanesvegur alls ekki hættulegasti vegarkaflinn á höfuðborgarsvæðinu heldur eru um 20 aðrar vegarkaflar með meiri slysatíðni.

Umferðin um veginn er enn svipuð og verið hefur, um 6000 bílar á dag, en samkvæmt viðmiðum í vegagerð er ekki ástæða til að breikka veg upp í 2 plús 1 fyrr en umferðin er orðin 15000 bílar.

Hin rosalega umferð var uppspuni einn.  

Við blasir að djöfulgangurinn í fyrra var "túrbínutrix" (sú aðferð stjórnar Laxárvirkjunar 1970 að kaupa strax stórar túrbínur í margfalt stærri virkjun áður en búið var að ganga frá þeim atriðum sem fyrst þurfti að klára).  

Svipað virðist vera freisting fyrir þá sem vilja Reykjavíkurflugvöll í burtu. Áður en Rögnunefndin er búin að ljúka sínu starfi virðist stefnt að því að eyðileggja notagildi flugvallarins á ýmsan hátt þannig að menn standi frammi fyrir gerðum hlut, rétt eins og var með túrbínurnar frægu hér um árið.  

Það er sérkennileg tilviljun að einmitt þessa dagana skulum við minnt á túrbínutrixin skæðu í þessum tveimur málum.  


mbl.is Brjóti gegn anda flugvallarsamkomulags
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Getur skapað skemmtileg orðaskipti.

Í lok fjölmenns fundar um flugvallarmál á Hótel Nordica í kvöld tók ég tal við nokkra vini mína, sem þar voru staddir.  

Fundurinn var boðaður með stuttum fyrirvara og ég var á meðal þeirra sem höfðu átt fullt í fangi með að koma vegna annarra verkefna.

Þegar við ræddum þetta og bárum saman bækur okkar upplýsti ég að þessi flugvallarfundur kæmi beint í kjölfarið á 200 manna baráttufundi náttúruverndarfólks við Gálgahraun í tilefni af ársafmæli stórkarlalegrar og fáránlegar lögregluaðgerðar þar sem ekki dugði minna en stærsti skriðdreki landsins og 60 víkingasveitarmenn búnir kylfum, handjárnum og gasbrúsum til að gera atlögu að 25 gamalmennum og skólanemum sem sátu í hrauninu til að njóta íslenskrar náttúru.

Ég var spurður hvort lögreglan hefði ekki þá komið á staðinn í dag, fyrst svona miklu fleiri voru þar í nú en fyrir ári.

"Nei", svaraði ég, "en í tilefni dagsins voru lögreglunni gefnar 150 vélbyssur til þess að nota á okkur næst."  


mbl.is „Þetta er drápstæki“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ár frá fáránlegri lögregluaðgerð.

Í dag er rétt ár síðan stærsta skriðdreka landsins og 60 manna víkingasveit lögreglunnar, vopnaðri kylfum, gasbrúsum og handjárnum var beitt gegn friðsömu náttúruverndarfólki, sem sat á opnu svæði í Gálgahrauni sem þá var öllum opið og naut íslenskrar útiveru og náttúru. 

Af því tilefni ætlar þetta fólk að minnast þessa atburðar klukkan fimm nú á eftir á sama stað við Garðastekk. Þar verða tónlist og mælt mál á dagskrá. 

25 manns voru ekki var aðeins fluttir til á svæðinu, heldur hent inn í lögreglubíla þar sem fólkin var bannað að setja á sig bílbelti og síðar flutt í fangaklefa, ákært og af einhverjum undaregum ástæðum aðeins níu ákærðir og sakfelldir, en 16 ekki.

Öll þessi aðgerð var gróft brot á reglum um meðalhóf og málið varðað blekkingum og siðleysi af hálfu þeirra sem þarna hafa vaðið fram af valdhroka og hörku.  

 

P. S. Það var ánægjulegt að hitta fyrir á þriðja hundrað manns, sem komu saman við Garðastekk nú síðdegis, (sjá mynd á facebook síðu minni ) og rifjaði upp rúmlega mánaðar langa daglega baráttu fyrir ári þegar vaktin var staðin þarna. Eftir handtökurnar voru nokkrir sem stóðu vaktina áfram. Nú er málið áfram í farvegi dómsmála, og miðað við síendurtekna ósigra hæstaréttar Íslands fyrir mannréttindadómstóli Evrópu, allt frá málum Þorgeirs Þorgeirssonar og Jóns Kristinssonar til ofanígjafarinnar í síðasta málinu í dag, verður að vona að síðan í fyrra hafi að vísu tapast orrusta en ekki stríð.  


mbl.is „Lögreglan alltaf haft vopn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það fyrsta sem er drepið í stríði er sannleikurinn.

Oft hefur verið rætt um hina brýnu skyldu hjá vestrænum lýðræðisþjóðum að tryggja að aðeins sé sagt satt og rétt frá í fjölmiðlum og að sú skylda hvíli þyngst á stjórnvöldum og valdsherrum. 

En dæmin sanna að engu máli virðist skipta hverjir stjórna eða hvernig þeir hafa verið kosnir; - hvenær, sem færi gefst er sannleikanum hagrætt, þrætt fyrir hann eða beinlínis logið að almenningi.

Vitað er að grimmir og ósvífnir valdhafar eins og Adolf Hitler svifust einskis í því að setja á svið atvik eða stunda beinar blekkingar þegar þeir réttlættu árásir sínar á aðrar þjóðir, svo sem í innrásinni í Pólland 1939.

Hitt er dapurlegra þegar leiðtogar vestrænna lýðræðisríkja hafa gert svipað og sannað með því hið nöturlega orðtak að það fyrsta, sem drepið sé í stríði, sé sannleikurinn, og raunar sé sannleikurinn strax drepinn áður en stríðið hefst. 

Dæmin eru mýmörg. Þegar Gary Powers var skotinn niður skömmu fyrir boðaðan fund æðstu manna risaveldanna 1960 harðneitaði Eisenhower Bandaríkjaforseti því að stunduð hefðu verið njósnaflug á U-2 njósnaþotum yfir Sovétríkjunum.

Eftir því sem Sovétmenn hröktu þessar lygar lið fyrir lið streittist Eisenhower þó við að spinna upp nýjar og nýjar lygar og undanbrögð.

Powers hafði fyrir flug sitt eins og aðrir njósnaflugmenn Kananna svarið að því eið að taka eigið líf frekar en að falla í hendur Rússa.

Það gerði hann ekki og þegar hann var um síðir laus úr prísund Rússa átti að refsa honum harðlega þegar hann kom til Bandaríkjanna.

Svona rétt eins og að Rússinn, sem stöðvaði kjarnorkustríð upp á eigin spýtur 1983 með því að taka ekki mark á röngum upplýsingum um kjarnorkuárás Bandaríkjamanna í biluðu tölvuknúnu aðvörunarkerfi var refsað harðlega fyrir tiltækið.

Lygar og undanfærslur Eisenhowers urðu til þess að Rússar, sem fram að því höfðu metið hann að verðleikum sem góðgjarnan yfirhershöfðingja Vesturveldanna í Seinni heimsstyrjöldinni, misstu allt traust til hans og hættu því við að fara á fyrirhugaðan leiðtogafund.

Fyrir það var Krústjoff gagnrýndur á Vesturlöndum en spurning er hvort hægt sé að lá honum það.  

Færð hafa verið að því rök að frásagnir Bandaríkjamanna af árás Norður-Vietnama á Tonkinflóa í Víetnamstríðinu hafi að mestu leyti verið uppspuni til þess að réttlæta stigmögnun stríðsins.

Saddam Hussein sagði eftir að Bandaríkjamenn náðu honum, að hann hefði ekki getað ímyndað sér að ráðist yrði á landið á þeim forsendum að þar væru gereyðingarvopn vegna þess að bandaríska leyniþjónustan hlyti að vita að engin slík vopn væru til.

Saddam drap sennilega mun fleiri Kúrda en Írana með efnavopnum, sem Bandaríkjamenn létu hann hafa meðan hann var þeim þóknanlegur. Þá höfðu Kanar ekki hátt um "gereyðingarvopn" hins spillta harðstjóra, því að hann var bandamaður þeirra. 

Ömurlegastur fyrir okkur Íslendinga er hlutur þáverandi forsætisráðherra okkar og þó enn frekar utanríkisráðherra okkar, sem einir og sér gerðu Íslendinga 2003 að einni af hinum "viljugu þjóðum" til þess að fara í ólöglegt stríð gegn fjarlægri þjóð á upplognum forsendum.

Hlutskipti utanríkisráðherrans var verra vegna þess að hann bætti um betur og trúði því að Íslendingar hefðu fundið gereyðingarvopnin sem áttu að réttlæta stríð, sem kostaði hundruð þúsunda manna lífið með afleiðingum sem enn eru að koma í ljós og sér ekki fyrir endann á.   


mbl.is Líklega sinnepsgas í vopnum sem Íslendingar fundu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju ekki hjálmaskyldu fyrir alla?

Síðan hvenær er 19 ára manneskju minna hætt við að slasa sig á höfði í óhappi á reiðhjóli heldur en 18 ára? 

Eða hvenær var minni hætta á höfuðmeiðslum á sextugum manni í reiðhjólaóhappi heldur en á 18 ára dreng eða 15 ára dreng?  

Af hverju ekki annað hvort hjálmaskyldu fyrir alla eða engan?  


mbl.is Hjálmaskyldu til 18 ára aldurs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn hægt að bjarga "neyðarbrautinni" í horn.

Í ár eru liðin 75 ár síðan ákveðið var að hafa flugvöll í Vatnsmýri og þá þegar var byrjað á framkvæmdum við flugvöll. 

Í ljósi þessa ógnarlanga tíma er fráleitur sá hraði, sem nú á að viðhafa við að skerða notagildi vallarins með skyndiákvörðunum.

Lágmarkskrafa er að svonefnd Rögnunefnd fái fyrst að ljúka sínum störfum.

Það er rangt sem haldið er fram í blöðum í dag að Rögnunefndinni komi flugvöllurinn ekki við vegna þess að hún eigi að velja nýtt svæði fyrir flugvöll. Þvert á móti á nefndin að skoða alla möguleika á flugvallarskipan í Vatnsmýri/Skildinganesmelum/Skerjafirði, og er þar með talin skoðun á "núll-lausn" sem er lögbundin í svona málum.

Þess ber og að geta að Bretar gáfu Íslendingum öllum flugvöllinn í heilu lagi eftir stríðið og að það var ekki bæjarstjóri Reykjavíkur sem tók við honum heldur Ólafur Thors, forsætis-og utanríkisráðherra fyrir hönd þjóðarinnar allrar.   

Ekki er nóg að einblína á fjölda þeirra daga sem neyðarbrautin er í notkun því að þeir eru á þeim tíma vetrarins sem veður eru einna verst og landsamgöngur ganga erfiðlegast.

Aðalatriði málsins er að ganga þannig frá hnútum að hægt sé að hafa neyðarbraut áfram í einhverri mynd þrátt fyrir uppbyggingu á svæðinu við Hlíðarenda.

Það má tryggja á nokkra vegu:

1. Með því að lækka byggingar næst brautarendanum svo að aðflug geti farið yfir þær og láta brautina óhreyfða.

2. Með því að hnika til brautarendanum við Skerjafjörð og / eða fjarlægja 2-3 íbúðarhús, sem standa þar og lengja brautina út í Skerjafjörð.

3. Með því að bíða eftir niðurstöðu málsins í heild, en ein lausn þess kynni að verða tilfærsla norður-suðurbrautarinnar þannig að verði hornréttar á núverandi austur-vestur-braut en nú er og neyðarbrautin þar með óþörf.   


mbl.is Gagnrýna leyfisveitingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband