Nýtt viðfangsefni og tilefni fyrir "læk" : Gosið í Holuhrauni.

Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur lýsir eðli eldgosanna í Holuhrauni og undir Dyngjujökli og Bárðarbungu á þann veg, að vegna þess hve hraunið er  þunnfljótandi eigi það auðvelt með að "leka" upp úr sprungum, sem myndast við gliðnun á jarðskorpunni.  

Ég tel hér komið viðfangsefni fyrir marga, meðan annars vararíkissaksóknara, ritstjóra Kjarnans og Pál Vilhjálmsson að "læka" þessa frétt af tveimur ástæðum.

1. Athyglisverð lýsing á eðli málsins.

2. Nýtt "lekamál" sem er kærkomin viðbót við það lekamál, sem hefur verið svo lengi í gangi að það fer að verða þreytandi.  

 


mbl.is Saksóknari „lækar“ ummæli um lekamálið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Er horfi ég yfir Húnaþing..."

Meðan séra Hjálmar Jónsson var alþingismaður lágu leiðir okkar stundum saman á þjóðveginum milli Reykjavíkur og Norðulands. 

Báðir könnuðumst við vel við lýsingu Emils Birnis Haukssonar, bílstjóra, á þeirri tilfinningu að aka norður af Holtavörðuheiði og horfa í áttina til Húnaþings.

Eitt sinn vorum við báðir á ferð norður að vetrarlagi og var launhált sums staðar á veginum.

Ég var í símasambandi við Hjálmar af og til og sagði honum, að ég gerði það meðal annars til þess að halda mér við efnið við aksturinn, vegna þess að ég væri allþreyttur og yrði að halda einbeitingu og þreki.  

Hjálmar var á undan á sínum bíl og þegar hann var kominn norður fyrir Hæðarstein, hringdi hann í mig og fór með þessa nýsömdu stöku sina:

 

Á Holtavörðuheiði syng

og hef ei neins að sakna.

Er horfi ég yfir Húnaþing

hendingarnar vakna.  

 

Þegar ég kom norður yfir skömmu seinna sendi ég honum þessa svarvísu: 

 

Er horfi ég yfir Húnaþing

hugurinn fer að slakna.

Bíllinn snýst í hálfan hring, -

af hendingu ég vakna.  


mbl.is Glímt við þjóðveginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ferill móðunnar í einni ökuferð. Spurning um áhrif hennar.

Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með útbreiðslu og ferli gosmóðunnar frá Holuhrauni síðustu daga. 

Í ökuferð í fyrradag frá Reykjavík norður og austur um upp á Brúaröræfi austur að gosstöðvunum í Holuhrauni, var ekið inn í mistri í Eyjafirði og verið í því það sem eftir var leiðarinnar. 

Á leiðinni til baka um kvöldið náði mistrið vestur um og var komið yfir næstum alla leiðina suður til Reykjavíkur.

Raunar var dimm þoka allt frá Skagafirði suður í Borgarfjörð, og vakti spurningu um það hvort móðan hefði áhrif á þokumyndun.  

Í dag liggur móðan yfir öllum vesturhluta landsins.

Fróðlegt verður að vita hvaða áhrif móðan hefur.

Móðan frá Skaftáreldum deyfði sólarljósið svo að það rataði ekki jafnvel og áður til jarðar. Afleiðingin varð kuldatímabil í tvö ár.

Þetta gos er margfalt minna, aðeins örfá prósent af Skaftáreldum, og því erfitt að áætla áhrif móðunnar frá því.  


mbl.is Mistur yfir borginni í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf "málsfarslögreglu" ?

Þegar Emil Björnsson var fréttastjóri og dagskárstjóri Frétta- og fræðsludeildar Sjónvarpsins hér um árið gerði hann þá kröfu, að engin málvilla heyrðist í Sjónvarpinu.

Þetta kostaði það að hann las sjálfur yfir allt sem sagt var í fréttatímanum, leiðrétti og færði til betri vegar. Ef einhver Íslendingur hefur verið uppi með óbrigðult málskyn, var það hann.

En hann gerði enn meiri kröfur. Hann krafðist þess að allur texti væri á lipru og auðskildu máli.

Þegar ég var nýbyrjaður á fréttastofunni fékk ég þá bestu kennslu í þessum efnum sem ég hef fengið.

Eftir að handrit að frétt hafði legið inni hjá honum í meira en klukkustund, kallaði hann á mig inn til sín.

Hann veifaði handritinu framan í mig og benti á það með fingrinum um leið og hann sagði með bylmingshárri röddu:

"Ég er fréttastjóri hér og hef nóg annað við tímann að gera en það sem ég er búinn að vera að strita við í langan tíma, að reyna að koma þessu bulli þínu á mannamál!  Þetta gengur ekki! Sérðu, hver afraksturinn er: Krafs með leiðréttingum mínum út um allt blað! Þetta er ónýtt! Ég hef unnið til einskis og geri þá kröfu að ég þurfi ekki að eyða dýrmætum tíma mínum í svona vitleysu!"  

Hann hækkaði róminn enn frekar og sagði með miklu þunga:

" Þetta má aldrei koma fyrir aftur! Farðu og skrifaðu þetta allt saman aftur á máli sem fólkið skilur! "

Á hverjum degi vaða málvillur, hugtakavillur, rökleysur og bull uppi í fjölmiðlum landsins.

Í gærkvöldi heyrði ég þetta á ljósvakanum:

"Aukning er á mönnum sem hjóla á reiðhjólum. "

Átta orð. Hvernig aukning á mönnum? Þyngdaraukning? Bólgur?  

Séra Emil hefði orðað þetta með því að nota tvö orð í stað átta:  

"Hjólreiðamönnum fjölgar."  

Ég er sammála séra Emil um það að íslenskir fjölmiðlar eigi að gera sömu kröfur um málfar og erlendir fjölmiðlar gera.

Til þess þyrfti að efla starf málfarsráðunauta sem væru ekki aðeins að benda eftir á á það sem betur mætti fara, heldur læsu yfir og leiðréttu texta, áður en hann er gerður opinber.  


mbl.is Málvillur í hverjum fréttatíma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Takmörk fyrir því að "gefa séns" ?

Sofandahátturinn, tilliitsleysið og eigingirnin hjá okkur Íslendingum í umferðinni er þekkt fyrirbrigði. 

Allir tapa á þessu en samt breytist lítið.

Eitt afbrigði eigingirninnar er að hvert og eitt okkar, sem venjulega sýnir ekki snefil af hugsun eða tilitssemi, geti tekið upp á því að eigin vali að að söðla alveg um einstaka sinnum og gera það sem heitir á okkar máli "að gefa séns" og þykir að sjálfsögðu afar göfugt og gott.   

En því miður má nefna dæmi má nefna um að þetta hafi þveröfug áhrif miðað við að sem hinn örláti bílstjóri ætlast til og auki enn meira á glundroðann í umferðinni. 

Á einbreiðum brúm á Íslandi gildir sú regla að sá eigi að hafa forgang sem fyrr kemur að brúnni. Þetta er svipuð regla og gildir víða í Bandaríkjunum um forgang á gatnamótum.

Sama regla gildir þar sem tvær akreinar verða að einni.

Oft gerist það hins vegar að einhver bílstjóri tekur upp hjá sér að verða örlátur og "gefa séns", stöðva "tannhjólið" eða "rennilásinn" í umferðinni, þar sem aðrein mætir akrein, og valda með því vandræðum og öryggisleysi.

Einnig að "gefa séns" á brú þannig að reglan "fyrstur kemur fyrstur fær" er brotinn og ringulreið skapast.

Eitt sinn ók ég á eftir stórum sendibíl eftir Álfheimum, þar sem græn eyja var á milli tveggja tvöfaldra akbrauta, hvorri í sina áttina.

Allt í einu hægir sendibíllinn á sér og stöðvast inni við grænu eyjuna, líkt og hann hafi orðið bensínlaus eða bilað.

Ég beygði þá til hægri og ók áfram meðfram honum. Birtist þá ekki allt í einu við hægra framhorn sendibílsins kona með barnavagn og gangandi barn á undan vagninum.

Á örskotsbragði sveigði ég til hægri og ók áfram, enda of seint að hemla.

Skömmu síðar fékk ég símtal frá öskureiðum manni, sem skammaði mig fyrir að hafa valdið lífshættulegu ástandi á götunni með því að stöðva ekki bíl minn fyrir aftan hans bíl á meðan hann var að "gefa vesalings konunni séns". 

Þetta var sendibílstjórinn góði.  

Ég benti honum á að konan hefði verið í aðeins 20 metra fjarlægð frá merktri gangbraut, sem lægi yfir götuna, en ákveðið að stytta sér leið með því að aka barnavagni yfir tvær tvöfaldar akbrautir og græna graseyju og hafa gangandi barn með sér.

Sendibíll hans hefði skyggt á konuna og börnin og mér verið ómögulegt að vita það að sendibílsstjórinn fyrir framan mig hefði tekið að sér allsherjar umferðarstjórn til að styðja konuna í lögbroti sínu.

Með framferði sínu hefði það einmitt verið konan með dyggri aðstoð hans sem hefði valdið hættu á götunni.  

En sendibílstjórinn sat fastur við sinn keip: 

"En við eigum alltaf að sýna tillitssemi og gefa séns í umferðinni þegar við getum og hjálpast öll við það í stað þess að þjösnast áfram og valda stórhættu eins og þú gerir" svaraði hann. 

Og með þeim orðum endaði samtal okkar.  

   


mbl.is Gæsir ollu fjögurra bíla árekstri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spurningin um mismunandi mikið afsal fullveldis.

Sjálfstæðissinnar í Skotlandi lögðu á það áherslu í kosningabaráttu sinni að kosningar stæðu aðeins um það hvort landið yrði áfram hluti af Stóra-Bretlandi en ekki um aðra samvinnu Skota á alþjóðavettvangi. 

Ef Skotland yrði sjálfstætt yrði það áfram í NATO, áfram í ESB, áfram með enska pundið og áfram aðilar að margvíslegum alþjóðasáttmálum, þar sem þjóðirnar afsöluðu sér ríkisvaldi að hluta til alþjóðasamtaka.

Sambandssinnar töldu sumt af þessu óvíst, eins og til dæmis með það að nota enska pundið.

Þegar við Íslendingar stofnuðum lýðveldi 1944 afsöluðum við sama ár hluta af ríkisvaldi okkar til Alþjóða flugmálastofnunarinnar, til Sameinuðu þjÓðanna 1946, NATO 1949, EFTA 1970, EES 1994.

Aðild að Sþ og Evrópuráðinu gerði það að verkum að við urðum aðilar að margvíslegum sáttmálum á sviði hafréttar-, mannréttinda- siglingamála- og dómsmála.

En rofin á þjóðhöfðingjatengslum við Danmörku og stofnun sjálfstæðs lýðveldis, sem gulltryggði þá alþjóðlegu viðurkenningu á fullveldi landsins, sem væri jafnrétthátt fullveldi annarra þjóða, var langstærsta atriðið fyrir okkur.

Sá er munurinn á nær einróma ákvörðun okkar 1918 og 1944 og úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Skotlandi.  

Þótt Skotar muni fá aukin sjálfsréttindi eftir kosningarnar nú, meðal annars með tilliti til lítils atkvæðamunar, verða þau mun minni en annars hefði orðið.  


mbl.is Skotar hafna sjálfstæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Myndi alger einangrun"bjarga öllu"?

"Gjaldeyrishöftin björguðu". Þetta ku eiga við um það að gjaldeyrishöftin "björguðu" því að erlendum tölvuþrjóti tækist að brjótast inn í viðskipti íslensks heildsala og hafa af honum 5-10 milljónir króna. 

Ályktun?:   Úr því að alls konar blekkingar og svik þrífast á netinu er best að við Íslendingar rjúfum öll tengsl okkar við umheiminn. Þá geta engir vondir útlendingar hlunnfarið okkur í viðskiptum.

Ég segi stundum í gamni þegar tölvu- og rafmagnstæknin bregst á ýmsum sviðum: "Þetta var allt saman miklu betra hér í gamla daga."

En er það nú alveg víst?   


mbl.is Gjaldeyrishöftin björguðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skotland verður annað land, hvernig sem fer.

Þjóðaratkvæðagreiðslan í Skotlandi um sjálfstæði þjóðarinnar og úrsögn úr Stóra-Bretlandi er afar merkilegur viðburður, hvernig sem fer. 

Svo mjótt er á mununum að staða þjóðarinnar og landsins verður aldrei söm eftir.

Horfa verður langt fram á veginn, til dæmis varðandi olíuauðinn á landgrunni Skotlands, sem mun ekki endast nema í nokkra áratugi. En sjálfstæðara eða alveg sjálfstætt Skotland mun vafalaust spjara sig.  

Þar að auki er það afar merkilegt að þessi viðburður skuli eiga sér stað þegar víða er ólga í álfunni vegna krafna einstakra þjóðernishópa og héraða um aukna sjálfstjórn og jafnvel sjálfstæði.

Þarf ekki annað en að nefna austurhluta Úkraínu og Katalóníu og Baskahéruð á Sopáni sem dæmi.

Á tæpri öld síðan Wilson Bandaríkjaforseti lagði það fram sem einn af 14 punktum sínum til lausnar vandamálum álfunnar að hver þjóð / þjóðarbrot fengi að ákveða það sjálfhver staðan yrði eftir Fyrri heimsstyrjöldina hafa því miður ekki orðið neinar þær framfari í þessum efnum sem hafi skýrt myndina, heldur hafa ríkt ringulreið og ósamræmi víða um álfuna.

Sum þjóðarbrot eins og Saar-búar og íbúar Slésvíkur og Holsetalands fengu að ákveða eigin stöðu en önnur, eins og Súdetaþjóðverjar, fengu það ekki.

Eftir Seinni heimsstyrjöldina voru 14 milljónir manna fluttir nauðungarflutningum eða hraktir frá heimkynnum sínum.  

Og Balkanstríðin í lok 20. aldarinnar voru dæmi um þessi vandræði, sem seint virðist vera hægt að losa álfuna við.   


mbl.is „Skotland yrði allt annað land“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Kuldinn" er raunar hlýrri en meðalhiti.

Stuttar fyrirsagnir, þar sem valin eru örfá ár til að lýsa umfjöllunarefninu, geta stundum verið misvísandi.

"Von á kulda og hvössu veðri."  Þótt segja megi að sannleikskorn sé að finna í þessari fyrirsögn á mbl.is gefur þessi fyrirsögn ekki alveg rétta mynd af veðurfarinu næstu vikuna. Skoðum málið. 

Þegar litið er á spá Veðurstofu Íslands fram til þriðjudags 23. september, en þá verður aðeins vika eftir af mánuðinu, sést að hitinn næstu sex daga verður nálægt meðalhita septembermánaðar. 

Meðalhiti septembermánaðar er 7,4 stig en meðalhiti októbermánaðar 4,4 stig. Munurinn er 3,0 stig, en það þýðir að meðalhitinn felllur um 0,1 stig á dag.

Samkvæmt því ætti meðalhiiti 23. september að vera 6,6 stig, en spáð er svipuðum hita þá daga og er meðalhiti. 

Þess ber þó að geta að meðalhitinn miðast við allan sólarhringinn samkvæmt ákveðinni formúlu, þar sem hitinn yfir daginn vegur þó öllu þyngra en hiti næturinnar.

Því er óhætt að bæta 2-3 stigum við meðalhitann hvað miðjan daginn snertir.

Sunnan hvassviðrið um næstu helgi á einkum að ná sér á strik á vestanverðu landinu, en síður austanlands. 

Þó skyldi hafa varann á.

Svipuð spá var gerð fyrir hvassviðrið um daginn. Þá reyndist vindurinn hins vegar komast í meira en 20 m/sek á norðausturhálendinu, en ég hef árum saman sem "flugvallarbóndi" á Sauðárflugvelli reynt að fylgjast jafn vel með veðrinu þar og í Reykjavík. 


mbl.is Von á kulda og hvössu veðri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hermann Jónasson 1956: "Efnahagslífið er helsjúkt."

"Efnahagslíið er helsjúkt" sagði Hermann Jónasson, alþingismaður og formaður Framsóknarflokksins í útvarpsumræðum fyriri Alþingiskosningarnar 1956.

Allt frá kreppunni miklu á fjórða áratugnum og fram undir lok aldarinnar var íslenskt efnahagslíf helsjúkt hafta- og spillingarkerfi, sem fór síðan enn lengra yfir á hina hliðina eftir aldamótin 2000.  

Hermann sagði þetta 1956, enda þótt flokkur hans hefði verið í ríkisstjórn í níu ár, fyrst með Alþýðuflokki og Sjálfstæðisflokki, en síðan með Sjálfstæðisflokki síðustu sex árin. 

Milli hans og Ólafs Thors hafði verið trúnaðarbrestur í 14 ár, sem hafði haft slæm og afgerandi áhrif á íslensk stjórnmál í tvo áratugi.

Í alvarlegri stjórnarkreppu um áramótin 1949-50 kom í ljós að eini mögulegi kosturinn var samstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, en í veginum stóð að hvorki Ólafur Thors né Hermann tóku í mál að sitja í stjórn undir forsæti undir forsæti hins.

Varð úr að Steingrímur Steinþórsson myndaði stjórnina en Ólafur var sjávarútvegsráðherra og Hermann landbúnaðarráðherra.

En Hermann tók ekki í mál að sitja í samstjórninni sem Ólafur myndaði eftir kosningarnar 1953.

Á árunum 1947-56 var komið á svakalegra hafta- og skömmtunarkerfi en þekkst hafði í sögu landsins. Tekið var upp handstýrt margfalt gengi og því var lýsing Hermanns rétt 1956, að efnahagslífið var helsjúkt.

Hann myndaði stjórn 1956 sem hélt áfram á sömu helsjúku brautinni á sama tíma og nágrannaþjóðrnar brutust út úr haftafjötrunum.  

Viðreisnarstjórnin slakaði verulega á en það var ekki fyrr en á síðasta áratug aldarinnar sem loksins tókst að koma málum í svipað horf og í öðrum löndum.

En það ástand hélst ekki nema í örfá ár. Þá jvar kúrsinn tekinn í þveröfuga átt þar sem frelsið átti að vera sem allra mest og eftilitslausast en þó drifið áfram af stórkarlalegum, áhættusömum og arðlitlum ríkisframkvæmdum í sovétstíl, sem engir einkaaðilar hefðu lagt í. 

Afleiðingin var Hrunið mikla, sem auðvitað var afleiðing af því að í raun var "efnahagslífið helsjúkt" árin 2003-2008.  

 


mbl.is „Frakkland er sjúkt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband