Langstærsta flugvél sem hefur lent í Reykjavík.

Boeing C-17 Globemastar þotan sem lenti í gærkvöldi á Reykjavíkurflugvelli er langstærsta flugvél sem þar hefur lent, enda meira en tvöfalt þyngri og stærri en Boeing 757 vélar Icelandair.

Vegna þess að hún er hönnuð til að lenda á stuttum og ófullkomnum brautum leikur hún sér að því að lenda bæði á norður-suður brautinni og austur-vestur brautinni, en verður að vera létthlaðin til að komast í loftið.

Enn stærri herflutningavél, Lockheed Galaxy, gæti líka lent á 1100 metrum fullhlaðin ef svo bæri undir.

Lendingin sýnir gildi Reykjavíkurflugvallar sem öryggisventils í millilandafluginu, því að enda þótt þoka væri í Keflavík eins og oft er í rakri sunnan átt, sá skjólið af Reykjanesfjallgarði sem oftar til þess að gott veður væri í Reykjavík.

Ég kom akandi frá Sauðárflugvelli á Brúaröræfum til Reykjavíkur í gærkvöldi og nótt og það var þoka alla leið frá Hornafirði til Hellisheiðar, en bjart í Reykjavík.


mbl.is Herflugvél á Reykjavíkurflugvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kominn langt á heimsvísu.

Ragnar Axelsson er Íslendingur sem fyrir allnokkru er kominn langt út fyrir það að vera afburða listamaður og ljósmyndari á íslenskan mælikvarða. 

Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með frægðarferli RAXa, sem er er í fremstu röð á sínu sviði og orðinn svo þekktur, að hann getur einbeitt sér að því að ná enn lengra í list sinni á alþjóðavettvangi og vekja heimsbyggðina gagnvart þeim afleiðingum, sem útblástur gróurhúsalofttegunda hafa.

Með þeirri baráttu sem felst í verkum hans, einkum þeim sem hafa orðið til á Grænlandi, hefur RAX lyft sér upp fyrir það að vera eingöngu listamaður í fremstu röð á heimsvísu, heldur einnig einnig áhrifamaður. 


mbl.is Sýning RAX slær öll met
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn nokkrir dagar í ný tíðindi af ánni.

Misskilingur komst á kreik í fréttum gær þegar sagt var að hraunið myndi fara yfir vestasta hluta Jökulsár á Fjöllum á einum sólarhring.

Hið rétta var að um var að ræða vestustu kvíslina af mörgum í þessum hluta árinnar og að það tæki að minnsta kosti nokkra daga fyrir hraunið að komast yfir ána.

Þetta blasti við úr lofti þegar komið var að ánni í hádeginu í gær.

Auk þess kólnar hraunið við snertinguna við ána og myndast fyrirstaða þannig að hraunstraumurinn leitar að miklu leyti áfram meðfram ánni.

Hinum megin við þennan hluta árinnar er bakki, svo að hugsanlega munu sprengingar aukast og byrja að myndast gjall, ef hraunið nær að komast alla leið yfir.

En það verður ekki strax, jafnvel þótt gosið haldi áfram með sama krafti og er á því nú.


mbl.is Ekki dregur úr gosinu í Holuhrauni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einn af merkustu bílum bílasögunnar.

Á þriðja áratug síðustu aldar voru framleiddir nokkrir aldrifs fólksbílar, bæði rússneskir og japanskir.

En Willysjeppinn braut blað að því leyti að hann var fyrsti fjöldaframleiddi fólksbíllinn ef hægt var að gefa jafn litlum, höstum og grófgerðum bíl það nafn.

Á Íslandi byggðu menn furðu stór hús á þennan bíl og í nokkur ár var hann algengasti bíllinn hér á landi.

1947 hófu framleiðendur hans smíði á stærri aldrifsbil, sem var á stærð við meðalstóran fólksbíl og var lúxusbíll í 4x4 flokknum næstu ár á eftir, en hins vegar sjaldgæfur vegna tollalaga sem gáfu ríkulegan afslátt af Willysjeppanum og síðar Land Rover og Rússajeppanum vegna ákvæða um hámarks lengd á milli fram- og afturöxla.

Allir þessir bílar voru með höstum blaðfjöðrum, en Rússajeppinn var í sérflokki með það hve mjúkar blaðfjaðrir hans voru.

Næsta bylting var Ford Bronco 1966 sem var með gorma að framan og því mun þýðari en vestrænu keppinautarnir.

Áfram var haldið að smíða aldrifsbíla með blaðfjöðrum, meira að segja Jeep Wagoneer lúxusjeppann, sem var með þessar fjaðrir alla sína tíð langt fram eftir öldinni.

Range Rover var hins vegar bylting, með mjúka gormafjöðrun bæði að framan og aftan og meira að segja mýkri en flestir venjulegir fólksbílar. Lúxusfólksbíll með lygilega torfærugetu.

Hann var með læsanlegu sídrifi og til þess að auka torfærugetu hans var fjöðrunin höfð afar löng og án nokkurra jafnvægisstanga.

Þess vegna hallaðist hann geigvænlega í kröppum beygjum.

Ég prófaði nýlega torfærugetu 41. árs gamals Range Rovers á 38 tommu dekkjum, sem ég á, með því að fara með hann í torfæru þar sem leiðin var afar ójöfn svo að sums staðar stóð bíllinn að mestu á tveimur gagnstæðum hjólum horn í horn.

Síðan ók ég öðrum gömlum fornbíl, litlum 2ja manna Hilux sömu leið.

Sá bíll er með læsanlegum öxlum og í ljós kom að hann spólaði með tvö hjól á lofti og komst ekki þessa leið nema að öllum hjólum væri læst.

Ranginn át þessa leið upp til agna án slíkra driflæsinga að framan og aftan, því hann "sendi" lausu hjólin niður til jarðar svo að þau fengju grip án læsinga.

Margt fleira mætti segja um Range Rover en ég læt þetta nægja.  


mbl.is Fyrsti Range Roverinn falur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tíðindi gerast daglega.

Í flugi yfir gosstöðvunum í Holuhrauni í hádeginu í dag mátti sjá að þarna gerast tíðindi daglega.

Nýja gossprungan, sem hefur spúð hrauni síðan í fyrradag spjó engu þegar farið var þarna yfir og kunna það að vera slæm tíðindi útaf fyrir sig, vegna þess að nú léttir hún ekki lengur á þrýstingi kvikunnar neðanfrá.

Kröftuglega gaus í syðstu gígum gömlu sprungunnar þarna norður af og eins og er, er það eina útgönguleið kvikunnar um sinn.

Spurningin er hvort brottfall syðri og nýrri gosssprungunnar muni verða til þess að hraun komi upp fyrir sunnan hana og jafnvel undir Dyngjujökli eða hvort hin stóra eldfjalladrottning Bárðarbunga fari að láta til sín taka sjálf og að það sem frá henni sjálfri komi verði sjóðheit Bárðarbuna.

Sjá mynd eða myndir á ruv.is 


mbl.is Hraunið rennur út í Jökulsá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Myndast þarna gervigígar? Varla

Þegar mikið hraun rennur út í vatn myndast svokallaðir gervigígar. Þekktustu gervigígar á Íslandi eru Skútustaðagígar við Mývatn, Landbrotshólar og Rauðhólar við Elliðavatn.

Jónas Hallgrímsson var fyrstur manna til að átta sig á því Landbrotshólar væru ekki venjulegir hólar heldur gervigígar sem hefðu myndast við það að hið mikla Eldhraun lokaði Skaftá af. Skútustaðagígar mynduðust á svipaðan hátt þegar mikið hraun rann út í Mývatn og Rauðhólar mynduðust þegar mikið hraun rann úr Bláfjöllum og alla leið niður í Elliðavog.

Til þess að gervigígar myndist við Holuhraun þyrfti hraunið helst að geta króað Jökulsá af og hraunstraumurinn þyrftu sennilega að vera meiri en nú.

Því má telja líklegt að jarðfræðingar spái að ekki myndist gervigígar þarna að óbreyttu enda eru þeir kunnáttumennirnir sem einir eru færir um að spá. 


mbl.is Gufubólstrar stíga rólega upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kominn til útlanda í eigin fæðingarborg?

Kristinn R. Ólafsson kvaddi síðdegisútvarpið með stæl, að minnsta kost í bili, með snilldarlega sömdum pistli á döguknum um mótmæli íbúanna í Barcelona, sama efnið sem frétt á mbl.is fjallar um og þessi bloggpistill er tengur við. 

Mótmæli íbúanna eru umhugsunarefni fyrir okkur Íslendinga, því að hið sama gæti verið í uppsiglingu hjá okkur.

Í gamla daga sveif andi lagsins "Vorkvöld í Reykjavík" yfir vötnum í miðbænum þegar Rúnturinn var og hét og bærinn iðaði af því lífi sem texti Sigurðar Þórarinssonar lýsir.

Nú er það hins vegar orðið þannig, að suma daga og sum kvöld er eins og maður sé kominn í erlenda smáborg þegar farið er um gömlu miðborgina okkar.

Að manni sækir sú hugsun að þetta sé ekki lengur gamla fæðingarborgin manns. 

Þótt ástandið sé kannski ekki alveg sín slæmt og það er í sumum hverfum erlendis, gætum við engum kennt um nema sjálfum okkur ef það yrði það, því að árum saman hefur hið "einstaka" næturlíf borgarinnar verið kynnt sem aðdráttarafl fyrir útlendinga eins hin alræmda auglýsing um "one night stand" var gott dæmi um.

En það er víst engin leið önnur en að lifa með þessu því að hinn kosturinn er miklu verri, að hleypa stóriðjustefnunni á enn meiri hraða með tilheyrandi neikvæðum og óafturkræfum spjöllum á einstæðum íslenskjm náttúruverðmætum. 

Verst er þó sú tilhugsun, að græðgin sé svo mikil að þrátt fyrir stórvöxt ferðamannastraumsins verði samt engu eirt á neinu sviði.  

 

 

 

 


mbl.is Ekki fleiri drukkna og nakta ferðamenn takk fyrir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Móða austanlands. "Móðir íslenskra eldfjalla".

Það hefur vakið blendnar tilfinningar að vera á ferli á austurhálendinu þessa dagana.  Í gær lá ljósblá móða þar yfir og það grillti varla í helstu fjöll eins og Kverkfjöll, Snæfell og Herðubreið.

Í nótt mátti sjá móta fyrir daufum, rauðum bletti í skýjum íí suðri, séð frá Egilsstöðum og var karlinn í tunglinu ósköp daufur að sjá.

Viss tign er yfir þessari móðu en jafnframt ógn, sem ævinlega fylgir eldgosum á Íslandi, þegar í hlut eiga helstu eldstöðvar landsins, sem hafa valdið landsmönnum miklum búsifjum í gegnum aldirnar.

Meðan Bárðarbunga, sem Jón Grétar Sigurðsson flugmaður í Skaftafelli, hefur kallað móður íslenskra eldfjalla, heldur áfram  að hrista sig jafn duglega og hún gerir, verður að búast við hverju sem er.   


mbl.is Bjarminn sést úr Mývatnssveit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Geigvænlega geilin" gýs.

Ég átti að visu von á ýmsu í "geigvænlegu geilinni", sem ég nefndi svo í bloggpistli í gær. En ekki kannski alveg daginn eftir þegar kemur í ljós að geigurinn, sem greip mann við að fljúga lágt eftir henni, sem ég lýsti í gær, var á rökum reistur. 

Nú er það svo að í Kröflueldum lýsti myndun svona gígaraðar sér þannig, að eldveggurinn myndaðist ekki snögglega, heldur mjög rólega eins og sést á myndum, sem ég tók þá að næturlagi og sýndu þess vegna mjög vel, hvernig fyrst birtist í algeru myrkri eins og eldrauður hnífsoddur, sem kom upp úr myrkvaðri jörðinni, en byrjaði síðan að víkka til beggja handa og mynda líkt og skörðótt sagarblað, sem lengdist og stækkaði þangað til eldveggurinn var orðinn allt að tveggja kílómetra langur og meira en hundrað metra hár.

Ekki var vitni að svipuðu í morgun og því ekki víst að þetta hafi gerst nákvæmlega svona, en af myndum að sjá virðast líkurnar mjög miklar á þvi að yfirleitt rifni jörðin á svipaðan hátt þegar eldgos af þessu tagi koma upp.  

Á facebook síðu minni er mynd, sem tekin er á Sauðárflugvelli rétt eftir að byrjaði að gjósa í "geigvænlegu geilinni", og líklega hefur nýja gosið bætt einhverju við gosmökkinn þegar myndin er  tekin.  


mbl.is Flogið yfir gossprungur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geigvænleg geil - Gjástykki þessara elda?

Það var stórbrotið að fljúga yfir gosið í Holuhrauni í gærkvöldi, mikill kraftur í því og þurfti að gæta sín.

En þó fór meiri hrollur um mann við að fljúga eftir meira en kílómetra breiðri geil eða sigdæld sem liggur frá gígaröðinni upp í Dyngjujökul. 

Þessi dæld er eins og smækkuð útgáf af Þingvalladældinni.  Og á einum stað með gjábarma á báðar hendur. 

Í Kröflueldum gliðnaði og seig land mikið í Gjástykki og vegna jarðskjálfta þar óttuðust margir að þar myndi koma upp gos.  Raunin varð hins vegar sú að aðeins gaus í syðsta parti Gjástykkis.

Því kunna menn að spyrja núna hvort hið sama muni gilda um geilina geigvænlegu sem er sunnan við gosstöðvarnar í Holuhrauni.  Munurinn á þessum eldum og Kröflueldum er sá að nú vita menn miklu meira en þá hvar kvikan er undir yfirborði jarðar og að hún er geysmikil. 

Og þess má minnast að í miðri sigdæld Þingvalla eru tveir gígar út í Þingvallavatni, Sandey og Nesjaey og sigdældin í Holuhrauni gengur í gegnum gamla gosgíga sem gusu ösku 1797.

Stefnt er að því að sýna myndir af þessum fyrirbærum í sjónvarpsfréttum í kvöld.


mbl.is Eldgosið séð frá geimnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband