Eyjafjallajökull tók sér 11 ár. Hvað gerir Bárðarbunga?

1999 komu skjálftahringur í Eyjafjallajökli og í gang fór svipað atferli og núna, undirbúningur fyrir að gos yrði í jöklinum. 

Nokkrum sinnum eftir þetta endurtók þetta sig og ýmsum fannst viðbrögðin við þessu mjðg ýkt, líkt og að jarðvisindamenn og aðrir væru að finna sér vinnu.

Svo kom innskotið inn í Fimmvörðuháls með ferðamannagosi og í kjölfarið gosið í Eyjafjallajökli sem truflaði samgöngur um allan heim.

Enginn veit hvort Bárðarlbunga er að gera eitthvað svipað nú. En í ljósi reynslunnar eru aðgerðirnar núna réttmætar og ætti ekki að þurfa að deila um þær.  

Grímsvatnagosið ári seinna vakti meiri athygli en ella vegna þess sem gerst hafði árið áður.

Nú þarf fjölmiðlafólk víða að úr heiminum að læra enn eitt nýtt orð: Bárðarbunga.

Á Sauðárflugvelli í dag varð ég að stunda framburðarkennslu til að nýsjálensk fréttakona Al-Jazeera gæti borið nafnið rétt fram, og í ljós kom, að nafnið Kverkfjöll var enn erfiðara fyrir hana en nafn Bárðarbbugu, en óhjákvæmilegt að nefna Kverkfjöllin líka, enda blöstu þau við frá flugvellium og rétt suðaustan við hann þar sem hún stillti sér upp til að segja frá því að bak við hana væri norðurjaðar Vatnajökuls, stór eldfjöll í honum og sjá mætti öflugar jökulsár renna frá jökulsporðinum á bak við hana.

  


mbl.is Berggangur að myndast undir jökli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afrek Bárðarbungu allt frá suðurströndinni til norðurstrandarinnar

Nú sést að hinar sjóðandi heitu herdeildir Bárðarbungu sækja fram einn km á dag.  Ef Það stæðu yfir réttarhöld yfir íslenskum eldstöðvum kæmi fljótlega í ljós að Bárðarbunga væri öflugasti mafíuforinginn.

Hún hefur í gegnum aldirnar byrjað að skjálfa og síðan hafa kvikustraumarnir streymt út frá henni til beggja átta og komið upp í eldstöðvum býsna langt frá upphafinu.

Þannig ollu eldstöðvar í kerfi Bárðarbungu sem ná allt suður undir friðland að Fjallabaki stórgosum árin 870 og 1480.

En magnaðasta gosið hefur sennilga verið það sem sendi hraun alla leið niður í Flóann.  Þegar menn aka um Suðurlandsveg átta þeir sig ekki á því að þessi blómlega sveit stendur á hrauni sem Bárðarbunga ber ábyrgð á.  

Hinum megin við Öxarfjörð er sandströnd sem að stórum hluta er mynduð af hamfaraflóðum vegna eldgosa undir jökli sem Bárðarbunga ber líka ábyrgð á.  

Jarðfræðilegir leynilögreglumenn hafa nú afhjúpað þetta og það er ekki lítill ,,afrekalisti" sem Bárðarbunga er á. 


mbl.is Kvikan færist um einn kílómetra á dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bárðarbunga og Leirhnúkur: suður eða norður?

Leirhnjúkur við Kröflu minnir um margt á Bárðarbungu.  Hann er í miðju kerfis sem liggur í gegnum hann og er mikill sprungusveimur og röð eldgíga.

Í fjórtán umbrotahrinum 1975-84 var stóra spurningin ævinlega hvort kvikan, sem var að þrýstast upp á yfirborðið, kæmi beint upp við Leirkhnjúk eða hlypi annað hvort í suður eða norður.  

Einkum óttuðust menn hlaup í suður um svæði, sem í eru Bjarnarflag, Kverkfjall og gígaröðin Lútentsborgir.

Níu sinnum kom kvika upp og sem betur fór kom aðeins einu sinni kvika í suður.  Það var líkast til minnsta eldgos í heimi því að glóandi hraunmylsnan kom upp um rör í Bjarnarflagi og dreifðist um hundrað metra svæði.  

Við Bárðarbungu er sama spurningin, kvikan getur sýnst vera að fara í aðra áttina en fer svo allt í einu í hina.  

Nú hrúgast inn erlendir fjölmiðlar á höttunum eftir myndum af Báraðarbungu og umhverfi hennar og hef ég orðið var við það.

Erlendu fjölmiðlarnir vita svo lítið um málið allt að það væri algerlega fráleitt að einhverjum þeirra dytti í hug að spyrja hvort kvikan fari í suður eða norður. 


mbl.is Fjallað um Bárðarbungu erlendis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yfireldstöð Íslands.

Ef eitthvert íslenskt eldfjall ætti að fá "starfsheitið" yfireldstöð Íslands er það Bárðarbunga. Það er ekki vegna þess hve eldfjallið er umfangsmikið og um leið annað hæsta eldfjall landsins, heldur fyrst og fremst fyrir það hvernig hún virðist stjórna fjölda eldstöðva í kringum sig á um 200 kílómetra löngu svæði og láta þær framkvæma hið ógnvekjandi vald sitt.

Hún minnir á býflugnadrottningu í búi sínu eða bara einhverja af frægum drottningum í mannkynssögunni eins og Kleópötru, Elísabetu 1 eða Katrínu miklu, - allt snýst í kringum hana og allir fara eftir því sem hún skipar fyrir.

Hún er eldstöðvahershöfðinginn sem skipar kvikubrynsveitum sínum fyrir og sendir þær í mkla leiðangra.

1996 sendi hún eimyrjukvikuinnskot í suður í átt til Grímsvatna og úr varð Gjálpargosið með sínu mikla hamfaraflóði sem fór í gegnum Grímsvötn.

Nú sendir eldstöðvadrottningin eldspúandi herdeildir sínar neðanjarðar í tvær áttir, í átt til Dyngjuháls og í átt til Kverkfjalla í stað þess að spúa eimyrjunni sjálf þar sem hún kemur upp.

Og allir bíða með öndina í hálsinum. Því að Bárðarbunga ætlar að gera 21. öldina að sinni öld með því að nýta sér þá léttingu og eins konar tómarúm sem hnignun Vatnajökuls skapar.

Það er búið að vera stórkostlegt undanfarna daga og vikur að sveima í kringum drottninguna, sem vekur svona óttablandna virðingu með því að deila og drottna meðal eldstöðvanna í kringum sig án þess að hafa sig sjálf í frammi nema með því að láta alla skjálfa á beinunum.


mbl.is Sjáðu Bárðarbungu í beinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekkert að sjá úr lofti klukkan sjö í kvöld

Á flugi yfir óróasvæðið í Vatnajökli um sjö leytið í kvöld var ekki að sjá nein ummerki á yfirborði jökulsins sem óvenjuleg væru.  

Við slíku er raunar ekki að búast vegna þess að jökulísinn er mörghundruð metra þykkur.  Skyggni var mjög gott á leiðinni til Sauðárflugvallar þar sem ég hyggst dvelja um sinn.

Góð skilyrði voru til að taka myndir en af tæknilegum ástæðum er ekki hægt að koma þeim á facebook að sinni.

Það hefur gengið eftir sem vísindamenn spáðu að með minnkun jökulsins og léttingu hans myndi eldvirkni aukast undir honum.

Síðan 1996 hafa orðið fjögur eldgos á Vatnajökulssvæðinu og hið fimmta hugsanlega í uppsiglingu en áratugina á undan varð ekkert gos.

Eftir að ísaldarjökullinn hvarf snögglega varð 30 sinnum meiri eldvirkni á svæðinu norðan Vatnajökuls en dæmi eru til um annars staðar.  Þess vegna er þetta svæði magnaðasta og fjölbreyttasta eldfjallasvæði heims. 


mbl.is Engin ummerki á yfirborðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Færsla í austur. Hekla og Krafla líka óútreiknanlegar.

Í fljótu bragði sýnast skjálftarnir síðan í gærkvöldi vera minni að meðaltali en þeir voru fram að því, en þeir hafa færst austar og koma meira að segja fram í Kverkhnjúkum, norðaustur af Kverkfjöllum, en þeir eru meðal gamalla gígaraða sem ganga í norðaustur frá Kverkfjöllum. 

Er virknin þá komin í 20 kílómetra fjarlægð frá Sauðárflugvelli, sem gæti orðið mikilvægur ef eldgos yrði á þessu svæði, sjá mynd á facebook af útsýni frá flugvellinum til Kverkfjalla. 

Óvissan um eldgos núna minnir svolítið á óvissuna um eldgos úr Heklu og við Kröflu 1975-84.

Fjórtán skjálftahrinur urðu á Kröflusvæðinu á árum Kröflueldanna en í fimm skipti varð ekki gos.

Hallamælir í Stöðvarhúsinu sýndi, að land reis ævinlega hærra í hverri hrinu en það hafði komist hæst áður.

Svipað er að gerast nú við Heklu. Land hefur risið hærra við hana en fyrir síðasta gos en samt bólar ekki á gosi. Enda er fyrirvarinn víst ekki nema um klukkustund.  

 


mbl.is „Þetta er óútreiknanlegt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margar hálendisleiðir í skotlínum hamfarahlaupa.

Hamfarahlaup undan Dyngjujökli í kjölfar goss vestan við hann geta orðið gríðarstór og flæmst víða. 

Svonefndar Jökulsárflæður liggja alveg opin fyrir þeim og allt flatlendið sunnan við Öskju.  

Hlaup gæti meira að segja flætt yfir Herðubreiðarlindir og um Krepputungu. 

Engin reynsla er frá sögulegum tíma af því hvernig stórhlaup undan Dyngjujökli hegða sér, og lítil eldgos á þessu svæði gætu ýmist hafa farið alveg framhjá fólki fyrr á öldum vegna þess hve afskekkt það er, eða þá að ekki hefur þótt ástæða til að færa neitt um þau í annála.

Miðað við það að tugir eldgosa verða á hverri öld á Íslandi er merkilegt hve lítið hefur verið skráð um þau.

Ætla að setja inn tvær myndir á facebook siðu mína í tengslum við þennan pistil.  

 


mbl.is Leiðum lokað vegna skjálftaóróa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aukinn órói á þessu svæði. Misvísandi myndir.

Margar eldstöðvar eru á svæðinu norðaustur af Bárðarbungu, sem hafa mótað allt landslag þar. Í norðvesturjaðri Dyngjujökuls er Kistufell, Trölladyngja þar norður af auk nokkurra gígaraða, sem hafa gosið eftir síðustu ísöld. 

Urðarháls er magnaður gígur á Dyngjuhálsi og Kverkfjöll nokkru fyrir austan hann eru ekki þriðja hæsta fjall Íslands fyrir ekki neitt. Stefni að því að skulta inn spánnýrri mynd af þeim á facebook síðu minni nú á eftir.  

Við Öskju hafa verið viðvarandi skjálftar af og til síðustu árin og mikil skjálftahrina var við Upptyppinga, Krepputungu og Álftadalsdyngju á árunum 2007 og 2008. Kannski hafa menn orðið betur varir við þessa skjálfta en á árum áður vegna fjölgunar nákvæmra mæla, en fjölgun skjálftanna 2007 var hins vegar afar áberandi. 

Auk þess skelfur reglulega við Herðubreiðartögl og Herðubreið.

Gos á þessu svæði geta orðið mjög mismunandi, stórgos með gríðar öskufalli eins og í Öskju 1875, hraungos eins og varð þar 1961, gos sem veldur stórkostlegu hamfarahlaupi, - gos í gígaröð, - eða dyngjugos.

Skást yrði, ef um dyngjugos yrði að ræða, svo sem í Álftanesdyngju, því að það eru hæg og langvarandi gos, afar "ferðamannavæn", sem geta staðið í nokkur ár ef svo ber undir.

Það er frekar ónákvæm blaðamennska að birta myndir af öðru en því sem fjallað er um.

Mynd á mbl.is sem sögð er af norðvesturhorni Vatnajökuls, sýnir aðeins lítið brot af vesturjaðri jökulsins við fjallið Hamarinn, sem er allt annað fjall en Bárðarbunga.

Bárðarbunga er 30 kílómetrum norðar og því langt fyrir utan það svæði sem myndin sýnir og því misvísandi að segja "...af norðvesturhorni jökulsins þar sem Bárðarbunga er". 

Enn ónákvæmara er að sýna mynd af skriðjökli í sunnanverðum Vatnajökli.  

 


mbl.is Ekki hægt að útiloka eldgos
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Getur valdið hamfaraflóðum á fjórum vatnasviðum.

Undir öxlinum Bárðarbunga-Grímsvötn er miðja annars af stærstu möttulstrókum jarðar, en hinn er undir Hawai. 

Það er ekki aðeins að Bárðarbunga sé næst hæsta fjall landsins vegna þess hve mikil eldvirkni er þar, heldur tekur hún oft þátt í eldgosum sunnan og norðaustan við sig, ef svo má að orði komast, á þann hátt að mikil skjálftahrina er oft aðdragandi að þessum gosum.

Á undan Gjálpargosinu 30. september 1996 kom mikil hrina í Bárðarbungu.

Þetta minnir á miðjuhlutverk Leirhnjúks norðan Mývatns í Kröflueldum, en all urðu níu eldgos á línu, sem liggur í gegnum hnjúkinn, en aðeins eitt þeirra varð í hnjúknum sjálfum.

Hættan vegna eldgoss í og við Bárðarbungu er sú, að gjósi undir hinni þykku íshellu, getur það valdið stærstu hamfaraflóðum, sem verða á Íslandi.

1996 fór flóðið í skástu áttina, inn í Grímsvötn. Þar var fyrirstaða sem olli því að það tók nokkrar vikur að byggja upp nægilega mikið samansafnað bræðsluvatn til að það ryddist að lokum niður á Skeiðarársand.

Það var stærsta hamfararflóð hér á landi síðan í Kötlugosinu 1918.

Hamfaraflóðin af Bárðarbungu svæðinu geta farið niður í þrjú vatnasvið:

1. Undir Köldukvíslarjökul niður í vatnasvið Köldukvíslar, Tungaár og Þjórsár. Sjá mynd af Köldukvíslarjökli og Bárðabungu á facebook síðu minni. 

2. Niður í Skjálfandafljót.

3. Niður op Bárðarbunguöskjunnar og undir Dyngjujökul niður í Jökulsá á Fjöllum, en þar hafa orðið stærstu hamfaraflóð hér á landi, þó ekki eftir að land byggðist.

4. Niður í Grímsvötn og þaðan niður á Skeiðarársand.

Þrjú fyrstnefndu hamfaraflóðin eru lang varasömust og hættulegust, einkum niður um vatnasvið Jökulsár á Fjöllum.

Það er erfitt að ná góðum myndum af Bárðarbungu því að hún er svo umfangsmikil. Ég notaði því tækifærið í flugferð frá Hvolsvelli norður á Sauðárflugvöll hinn 3. ágúst síðastliðinn, eða fyrir 13 dögum, til þess að ná góðum myndum af henni.  Sennilega nýjustu myndirnar af henni. 

Er búinn að setja þrjár þeirra inn á fasbókarsíðu mína.  


mbl.is „Eitt hættulegasta eldfjall Íslands“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumt má gera betur, en sumt er ekki hægt.

Áður en Rás 2 kom til sögunnar var Rás 1 eina útvarpsrásin á Íslandi og varð því að sinna því sem er sameiginlegt hlutverk beggja rása nú. 

Ég er nógu gamall til að muna eftir því þegar beinar útsendingar voru frá Hótel Borg þar sem danshljómsveitir spiluðu, en það var popptónlist þeirra tíma.

Upp úr 1950 naut blandaður þáttur Péturs Péturssonar, "Sitt af hverju tagi" mikilla vinsælda.

Eftirminnilegast var þegar Sigfús Halldórsson frumflutti þar "smell aldarinnar", Litlu fluguna.  

Kanaútvarpið og Radíó Caroline voru fyrstu samkeppnisaðilarnir í poppinu og enda þótt Ríkisútvarpið reyndi að svara með "Þætti unga fólksins" byrjaði RÚV að dragast aftur úr á þessu sviði.

Mörg af vinsælustu lögunum í Kananum heyrðust aldrei á Gufunni og á þessum árum pikkaði maður upp mörg af þeim lögum, sem síðar rötuðu með íslenskum textum inn á Gufuna eftir að hafa farið í hring. 

Allt frá þessum tíima gildir það um Gufuna að þrátt fyrir ómetanlegt menningarlegt uppeldishlutverk hennar má ævinlega gera betur. Og það má hún eiga að þar er stunduð mjög vönduð dagskrárgerð þar sem fólk gefur sér tíma til að tvinna saman fróðleik og tónlist, sem annars væri ekki sinnt og myndi ella falla niður til mikils tjóns fyrir íslenska menningu.  

En sumt er ekki hægt að breyta: Hin hliðin að RUV snýr að tæknimálum og útsendingarbúnaði. Um það fimbulfamba margir stanslaust á vefsíðum og skamma Ríkisútvarpið blóðugum skömmum fyrir að sinna dreifingunni illa.

En RUV getur í engu haft áhrif á það lengur, því að dreifikerfið var selt á sínum tíma einkaaðilum að kröfu sömu manna og nú bölsótast mest og kenna RUV um lélegt ástand þess og klykkja út með að segja það sé dæmi um vangetu ríkisreksturs.  

Fjargviðrast er yfir því að sendingar RUV náist ekki um mestallt land og leggja eigi RUV niður vegna þess að með þessu ófremdarástandi vanræki það öryggishlutverk sitt.

Ég hef hins vegar sannreynt á ferðum mínum um landið þvert og endilang, frá útnesjum til miðhálendisins, að útsending þess á langbylgju næst um allt land.

Og til þess að ná henni þarf ekki dýran né flókinn búnað. Ég næ útsendingunni á lítið útvarpstæki, sem fellur inn í lófa manns og er aðeins 14 x 8 x 2,5 sentimetrar að stærð.  


mbl.is Rás 1 þarf að vera ákafari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband