Hestar eru helmingi of margir.

Mig minnir að Sigurbjörn Bárðarson hafi einhvern tíma sagt að hestar væru helmingi of margir á Íslandi. 

Helmingurinn mætti alveg verða sleginn af.

Á ferðum mínum í sumar um allt land hef ég séð slæm dæmi um gróðurspjöll vegna of margra hesta og of mikillar umferðar hesta sums staðar.

Á einum stað í nágrenni höfuðborgarinnar er afar illa farið land vegna langvarandi ofbeitar hesta.

Ég fjallaði um það í sjónvarðinu fyrir 20 árum en ástand landsins hefur bara versnað síðan þá.

Égveit um hliðstæð dæmi annars staðar, en Landgræðslan, sveitarfélög og nágrannar fá ekkert að gert vegna þess að í áratugi hefur enginn vilji verið á Alþingi til að setja lög, sem stöðva þetta landníð.

Þetta ástand er enn dapurlegra fyrir þá sök að íslenski hesturinn er eitt af því dýrmætasta sem land og þjóð á og ræktun hans og meðferð þorra hestaeigenda er til mikils sóma.

En einmitt þess vegna er meiri þörf á að þvo þennan blett af hestahaldi á Íslandi.  


mbl.is Umferð hesta takmörkuð í Reykjadal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Litli bróðir, - úti í Atlantshafinu."

Þulir norska sjónvarpsins voru búnir að vera rosalega hlutdrægir í lýsingu sinni hér um árið á leik Íslendinga og Norðmanna, sem skar úr um það hvor þjóðin héldi áfram á handboltastórmóti. 

Þeir kölluðu Robert Duranona til dæmis aldrei neitt annað en Kúbverjann, - "Kubaneren" gerði þetta og gerði hitt, þar til fjórar mínútur voru eftir af leiknum og orðið ljóst að Norðmenn voru búnir að skíttapa honum.

Þá breyttist hljóðið allt í einu í þeim. Þeir fóru að kalla Duranona nafni sínu og hæla Íslendingum fyrir góðan leik.

Hámarki náðu þessi umskipti þegar þeir sögðu það vera mikinn heiður fyrir norræna menn að "litli bróðir úti í Atlantshafinu" færi áfram og varpaði ljóma á Skandinava.

Á ferðum um þveran og endilangan Noreg finnur maður vel hug Norðmanna til okkar og sér mörg dæmi þess hve líkir þeir eru okkur í mörgu. 

Helsti munurrinn er kannski sá að þeir eru mun reglufastari en við.  

Það hefur verið orðað þannig að í Noregi sé allt bannað, nema það sé leyft, en á Íslandi sé allt leyft, nema það sé bannað.  


mbl.is Íslendingar í Noregi eru vinsælir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skella landinu í lás !

Þessa dagana les maður á fasbók og í bloggpistlum geigvænlegar upplýsingar frá mjög vel menntuðu og skynugu íslensku fólki. 

Það er víst veira út um allt sem getur breytt hegðunarmynstri fólks og jafnvel heilla þjóða. Milljón ferðamenn streyma til landsins árlega og fer fjölgandi. Þetta er svakalegt. 

Koma þarf málum þannig fyrir að hvítir menn þurfi ekki að setjast við hliðina á svörum mönnum í flugvélum, af því að þeir svörtu gætu verið með ebóluveiruna.

Þó er það svo að ekki er vitað um aðra ebólusmitaða farþega í flugvélum en hvíta.

Auk þess er stór hluti þjóðanna í kringum okkur svart fólk svo að það þarf heldur betur að vara sig.

Upplýst er að 99% kjöts í Ameríku sé fullt af sterum og aukaefnum.  

Þótt reynt sé að koma því á framfæri að þessi prósentutala sé aðeins brot af því sem haldið er fram er það eins og að stökkva vatni á gæs.  Erlenda kjötið er stórhættulegt.

Margfalt meiri tíma tekur útlenda lækna og hámenntað fólk að fá að flytja til landsins en fyrir okkur að flytja til landa þeirra.

Þetta virðist talið sjálfsagt mál, jafnvel þótt það hamli því að við fáum hingað nauðsynlegt fólk í til að sinna aðkallandi verkefnum í staðinn fyrir þá Íslendinga sem flytja úr landi vegna lélegra kjara.

Þannig mætti lengi telja varðandi þær ógnir sem steðja að okkur frá útlöndum.

Smám saman er það að renna upp fyrir okkur að það kunni að vera eina ráðið við þessari margslungnu vá að skella landinu í lás eftir því sem það er mögulegt.  

Verst væri þó ef það kæmi í ljós að farfuglarnir bæru til okkar allskyns veirur og annað skaðræði.

Þú myndi ekki duga upphrópunin fræga hins skotglaða norðlenska veiðimanns, sem Laddi gerði ódauðlegan: "Skjóta helvítin!"  

 

 


mbl.is Breytir ekki hegðun manna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geysi skemmtileg íþrótt fyrir áhorfendur.

Sé veður heppilegt er afar skemmtilegt að horfa á torfærukeppni. Þetta fékk ég að reyna fyrir nokkrum vikum þegar keppt var fyrir utan Egilsstaði í móti, sem var hluti af mótaröð, sem gefur stig til Íslandsmeistaratitils. 

Hér á landi hefur myndast harðsnúinn hópur manna sem kann vel til verka við að halda svona mót, en það er mjög flókið og vandasamt starf, og er aðdáunarvert hve langt menn hafa komist í því.

Lagning keppnisbrautanna er orðin háþróuð og býður upp á dramatíska og æsilega tilburði í akstrinum.  

Ekki þarf að fjölyrða um færni keppendanna og snilld í smíði keppnisbíla því að þar erum við Íslendingar búnir að vera í forystu um árabil, eða allt frá því er Árni Kópsson umbylti gerð bílanna með Heimasætu sinni.

Það sýnir, hve langt sá bíll var á undan samtíð sinni, að hann er enn gjaldgengur í keppni, þótt nú megi sjá merki þess að önnur bylting sé að verða í smiðinni.

Ýmis atriði má nefna, en liklega eru þrjú mikilvægust.

1.  Stórfelld létting bestu bílanna.

2. Sjálfberandi heilsoðin bygging.

3. Tilkoma nýrrar meginhönnunar, þar sem vélin er færð aftur fyrir ökumanninn inn að miðju bílsins.

Þetta síðastnefnda er svipuð hugsun og í gerð bestu formúlu kappakstursbíla, en með því að hafa vélina þétt við bakið á ökumanninum, eru þyngdarpunktar tveggja þyngsu hluta bílsins, ökumannsins og vélarinnar, færðir eins nálægt hvor öðrum og miðju bílsins og unnt er.

Í síðustu tveimur mótum hefur einn bílanna verið með þessu byggingarlagi og sannað gildi þess, bæði hvað varðar getu bílsins og það hve miklu léttari og samþjappaðri hann getur verið fyrir bragðið.

Nokkrir höfðu á orði þegar bíllinn birtist fyrst að það væri nánast móðgandi að koma með keppnisbíl með helmingi minni fjögurra strokka vél en er í hinum bílunum, en þær raddir hljóta nú að þagna, því að litlu munaði að sigur ynnist á þessum bíl.

Nú er spurningin um hvort fjórða byltingaratriðið, sjálfstæð fjöðrun, kemur til skjalanna.

En þar þarf að leysa afar erfið tæknileg vandamál, sem sennilega verður erfitt að fást við.

Sumir átelja keppni í bílasporti á þeim forsendum að þar sé bruðlað með orku i orkuþyrstum heimi.

En ef tölurnar eru skoðaðar sést að yfir 99% af eldsneytiseyðslu bílaflota heimsins felst í almennri umferð og snatti.

Bílasport felst í því að kunna að gera sér dagamun, líkt og felst í því að borða kræsingar á stórhátíðum, þótt sultur sé í heimininum.  

Árangur í orkusparnaði og nýtingu matvæla byggist á því að taka á þessum atriðum í daglega lífinu þar sem 99% af möguleikunum er að finna.   


mbl.is Stærsta torfærumót Íslandssögunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einföld sannindi sem allir ættu að þekkja.

Sykurfíknin er stórlega vanmetin þegar litið er á helstu fíkniefnavandamál nútímans. 

Það var ekki fyrr en svonefndur kolvetniskúr komst í hámæli sem það luktist endanlega upp fyrir mér hve einföld sannindi liggja að baki líkamsþyngd.

Líkamaninn notar sykur og fitu til þess að geyma orku og brenna henni. Því meiri sem brennslan er, því minni hætta á að þyngjast.

Ef kolvetni, ég tala nú ekki um hvítasykur, sem er aðal fíkniefnið, eru étin í miklum mæli, annar sú neysla brennslunni og jafnvel vel það, þannig að afgangurinn verður að fitu.

Ef engin kolvetni eru étin er fitunni brennt til að gefa orku.

Niðurstaðan er einfalt reikningsdæmi:  Engin kolvetni = fitubrennsla. Lítil kolvetni og mikil hreyfing = fitubrennsla.

Lítil kolvetni = Minni þyngdaraukning, jafnvel létting.

Þetta eru að vísu aðeins megin línurnar því dæmið er auðvitað flóknara, en samt það sem þarf að hafa í huga.   


mbl.is Sigraðist á sykurfíkninni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Græðgisæðibunugangurinn.

Græðgisæðibunugangurinn við að framkvæma stærsta "túrbínutrix" Íslandssögunnar er smám saman að koma betur fram í dagsljósið. 

Allar flóðgáttir opnuðust árið 2002 þegar ætt var af stað í risaframkvæmdum hvar sem því varð við komið.

Þrátt fyrir heitorð um það að Kárahnjúkavirkjun, stærsta framkvæmd Íslandsssögunnar, yrði eina stórframkvæmdin næstu fimm árin, var líka ætt af stað með mestu húsnæðisbólu sögunnar og stórfelldar stóriðjuframkvæmdir á Suðvesturlandi.

Reist var fáheyrt og rándýrt monthús yfir OR, og byrjaðar framkvæmdir á lóð nýs álvers í Helguvík, þótt alveg væri eftir að finna og  tryggja orku til þess og aðeins búið að semja við tvo aðila af minnst tólf, sem þurfti að semja við vegna þessarar geggjunar.

Orkuna átti auðvitað að selja í samræmi við stefnuna "lægsta orkuverð í heimi" sem var gefin í upphafi stóriðjuæðisins.  

Í því fólst þetta stóra túrbínutrix.

Reist var um það bil fimm sinnum stærri Hellisheiðarvirkjun en glóra var í, ef orkan átti að vera endurnýjanleg og standast kröfur um sjálfbæra þróun, fullyrt að búið væri að leysa öll mengunarvandamál, þótt þau séu enn óleyst, meira en áratug síðar.

Fáránlegast af öllu er að fyrsta embættisverk núverandi ráðherra orkumála á fyrsta starfsdegi sínum var að slá því föstu, að álver í Helguvík skyldi rísa, og að öll ríkisstjórnin skyldi skömmu síðar lýsa því yfir, að hún stefndi einróma að því að reisa álver þarna.   


mbl.is Vill losna undan orkusölusamningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Komið ansi langt fram úr samkomulaginu á Möltu.

George Bush eldri og Michael Gorbasjof leiddu Kalda stríðið til lykta á fundi á Möltu þar sem Gorbasjof féllst á sameiningu þýsku ríkjanna og sjálfsákvörðunarrétt Austur-Evrópuþjóðanna gegn því að NATO yrði ekki þanið út til austurs.

Austur-Evrópuþjóðirnar þrýstu hins vegar á að fá að komast undir verndarvæng NATO til þess að tryggja það að Rússar gætu ekki leikið sama leikinn aftur varðandi það að drottna yfir nágrannaríkjum sínum í vestri eins og þeir gerðu í Kalda stríðinu.

Það var að vísu eðlilegt að þær brygðust svona við því að fá frelsi frá oki kommúnismans, en  það verður að horfa á þetta tafl um Austur-Evrópu frá báðum hliðum en ekki aðeins frá hinum vestræna sjónarhóli.

Eftir afleiðingarnar af útþenslu áhrifa Þjóðverja í Austur-Evrópu fram að innrásinni miklu í Sovétríkin 1941 er ekkert óeðlilegt við það að Rússar eigi erfitt með að gleyma þessum aðdraganda þess að 20 milljónir Rússa fórust í hildarleik "Föðurlandsstríðsins mikla."

Vopnaskak og ófriðartal er ekki leiðin til þess að friður geti ríkt í þessum hluta Evrópu heldur mun það ýta undir aukna tortryggni og ótta sem er ekki það sem þessar þjóðir þurfa.  


mbl.is Evrópuríkin þurfa að efla varnir sínar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Misnotkun trúarbragða enn böl mannkynsins.

"Guð vill það!" er sagt að hafi verið heróp krossfaranna á miðöldum sem fóru í herferðir tll Miðausturlanda til "að höggva mann og annan." 

Í bjartsýni upphafs síðustu aldar héldu margir að tækniframfarir nútímans myndu þoka trúarbrögðunum og áhrifum þeirra til hliðar og að þau heyrðu að mestu sögunni til á 21. öldinni.

En nú virðast spár um að þessi öld verði jafnvel verri enn nokkur önnur í þessum efnum vera að rætast, illu heilli.

Undir yfirskini trúarbragða veður hrein villimennska haturs uppi, því að í hinum viðamiklu trúarritum er hægt að finna setningar og kenningar, sem þar komust inn að fornu og eiga alls ekki við á okkar tímum.

Í krafti þessarar harðskeyttu bókstafstrúar er síðan borist á banaspjót og verst haga sér þeir einstaklingar og hópar, sem þykjast vera öllum öðrum fremur útvaldir þjónar Guðs.  


mbl.is „Nú deyjum við. Vertu sæll.“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er sjálfum sér næstur.

Ebólufaraldurinn núna minnir um sumt á það þegar alnæmi varð fyrst vart á áttunda áratug síðustu aldar. 

Það virtist vera bundið við lítt þekkta homma og vera ólæknandi, en algerlega háð ábyrgðartilfinningu hvers og eins hvort það breiddist út. Þar með var búið að afgreiða það og málið dautt, því það snerti bara einhverja tiltölulega fáa óæskilega óreiðumenn samkvæmt almenningsálitinu.

En þegar þekktir Hollywoodleikarar létust úr sjúkdómnum vildi svo til að sjálflur forseti Bandaríkjanna var Hollywoodleikari og þá breyttist tónninn og farið var að bregðast við af krafti. 

Þetta gjörbreytti stöðunni og síðan breyttist hún enn frekar þegar í ljós kom að gagnkynhneigðir fengu líka veikina og að þetta var farið að nálgast allan almenning.

Síðan þá hefur orðið mikil breyting í baráttunni við sjúkdóminn og ótrúlegur árangur hefur náðst á Vesturlöndum miðað við það vonleysi sem var í upphafi.

Svipað gæti verið að gerast varðandi ebólufaraldurinn. Að minnsta kosti er samanburðurinn sláandi.  


mbl.is Gefa 1.000 skammta af bóluefni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenska innrásin færist í aukana. Mikill heiður.

Innrás Íslendinga í þýskan handbolta hófst fyrir nokkrum áratugum þegar Geir Hallsteinsson varð fyrstur Íslendinga til þess að gerast atvinnumaður þar í landi. 

Geir heillaði Þjóðverja upp úr skónum sem leiknasti handknattleiksmaður og snillingur, er sést hafði handleika boltann.

Síðan liðu árin og smám saman fór Íslendingum að fjölga og í kjölfarið íslenskum þjálfurum, þar sem þremenningarnir Alfreð Gíslason, Guðmundur Guðmundsson og Dagur Sigurðsson hafa heldur betur slegið í gegn. 

Það þarf ekki lítið til að útlendingur sé fenginn til þess að leiða sjálft þjóðarstoltið, landsliðið, í Þýskalandi.

Pað er fágætur heiður sem Degi Sigurðssyni og íslenskum handbolta og þjóð hefur hlotnast með ráðningu hans sem landsliðsþjálfara. 

Til hamingju, Dagur! Til hamingju, íslenskir íþróttamenn! 


mbl.is Dagur ráðinn þjálfari þýska landsliðsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband