Það þarf talsvert til.

Í tvígang hafa Íslandsvinir frá Lichtenstein flogið þaðan til Íslands á lítilli fjögurra sæta þyrlu. Hvor flugferð um sig var krefjandi viðfangsefni, einkum áfanginn milli Færeyja og Hornafjarðar.

Það þarf talsvert til til að fara í svona ferð og það meira að segja í tvígang.

Allt er þetta vegna þess hve landið heillaði þá, og lýsa þeir því best sjálfir í viðtali á mbl.is. 

Ljósmyndaviðfangsefnin eru óþrjótandi og hrifningin stanslaus, ekki bara hjá þeim, heldur fjölmörgum öðrum útlendingum sem ég hef hitt eða átt samvinnu við undanfarin fjögur ár. 

Margir þeir, sem komu hingað vegna Eyjafjallajökulsgossins 201, komu aftur til landsins árin á eftir vegna þess að þeim fannst þeim aðeins hafa smakkað á smá mola af þeirri stóru landslagstertu, sem í boði var. 

Margt af þessu fólki er sjónvarpsfólk í dagskrárgerð hér eða kvikmyndagerðarmenn og ljósmyndarar í fremstu röð. 

Þetta fólk er besta landkynningin sem land okkar og þjóð geta notið. 


mbl.is „Það er þyrla í kartöflugarðinum!“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var Lóa litla á Brú öll þar sem hún var séð ?

56 ár eru síðan Lóa litla á Brú varð öllum Íslendingum kunn. Þetta var upphaflega "feimin og rjóð og undirleit" sveitastelpa eins og segir í textanum. 

Hún gerir ekki miklar kröfur um hamingjuna í lífinu:

"Vildi fá sér vænan mann

og vera alltaf svo blíð og góð við hann." 

Í Ferðastikluferð okkar Láru varpaði hún fram áleitnum spurningum við morgunverðarborðið áðan um það hvernig bæri að skilja textann um Lóu og fyrr en varði vorum við komin á kaf í rannsóknarblaðamennsku, sem leiðir til þess að hugsanlega er hægt að upplýsa leyndarmál, sem hefur legið órannsakað í öll þessi ár.  

Því að þegar saga Lóu er rakin frekar í textanum við lagið, vakna áleitnar spurningar, og satt að segja skildi ég aldrei þennan texta almennilega á sínum tíma. 

Í textanum segir:

"Og síðan saga þeirra varð sögum margra lík.

Þau áttu börn og buru og þau búa´í Reykjavík. " 

Gott og vel. Þau urðu barnmörg og búa í Reykjavík þar sem lífsgæða- og peningakapphlaupið er einna mest á Íslandi. Og þá kemur allt í einu þessi makalausa lýsing á því hvernig þau gátu tekið þátt í þessu kapphlaupi;  lýsing á því hvernig þau gátu unnið fyrir nógum tekjum til að lifa flott: 

"Hann vinnur eins og hestur og hún hefur sjaldan frí,

því Lóa þarf að fá sér fötin ný."

Í fyrri línunni er puði hans lýst: "Hann vinnur eins og hestur..."

Þarf ekki að lýsa því frekar, vinnur mikla yfirvinnu. jafnvel á kvöldin og um helgar. 

En hvað er Lóa að puða, hvað er hún að gera á meðan, um helgar og á kvöldin, þegar maðurinn er ekki heima.

Og í hverju er það fólgið hjá Lóu, að hún hafi "sjaldan frí?"

Jú, hún þarf að "...fá sér fötin ný."

Halló. Hvers vegna?

Svarið kemur í framhaldinu í nokkrum samliggjandi ljóðlínum: 

"Lóa litla´á Brú er lagleg enn, 

og hýr á brá og heillar menn.

Ergir oft sinn eiginmann,

því hún er alltaf svo blíð við aðra´en hann."

Og þessi síðasta ljóðlína er sú síðasta í kvæðinu um þau hjón, Lóu og Svein og meira að segja endurtekin til þess að leggja sérstaka áherslu á þetta.

Bandaríska varnarliðið kom árið 1951 til Íslands. Sjö árum síðar er Lóa litla "..lagleg enn og hýr á brá og heillar menn,....og  "alltaf svo blíð við aðra en hann."  þ. e. eiginmann sinn.

Ég ólst upp við götu í Reykjavík á þessum árum og einn íbúi götunnar komst í Bíódaga, kvikmynd Friðriks Þórs Friðrikssonar og um einn íbúa götunnar gilti þetta: "...hýr á brá og heillar" erlenda "menn."  

Þess vegna finnst mér tilgátan um það hvernig Lóa lagði sitt af mörkum til heimilisins vel geta rímað við veruleika þessa tíma og gefa textanum dýpri merkingu, umhugsunarverða merkingu. 

Samkvæmt þessum skilningi á textanum lýsir hann því hvernig þau hjónin Lóa og Sveinn gátu unað því ástandi að hún væri að ergja hann með því að vera blíð við aðra en hann.

Eina ástæðan til þess að Sveinn gæti unað þessu ástandi hlaut að vera hvað hún þénaði mikið og skaffaði vel; hafði meira að segja margfalt tímakaup á við hann, - þetta virðist hafa verið svona ákveðið samkomulag um tekjuöflun fyrir stóra fjölskyldu, sem þurfti að hafa það flott í samræmi við lífsgæðakröfur þjóðfélagsins.

Textinn lýstir því hvernig saklaus sveitastelpa, sem gerir litlar og einfaldar kröfur, breytist í fatafrík við það að koma í ys, hraða og streitu borgarlífisins og gengur tekjufíkninni á hönd, jafnvel þótt miklu þurfi að fórna fyrir það, bæði átök og erfiðleika í hjónabandinu.  

Og um leið er fólgin viss ádeila í textanum sem kallar á texta um framhaldið, hvort þetta gat gengið svona áfram, - hvernig þetta fór allt saman. Maður ætti kannski að prófa að gera slíkan texta?   

 

 

 

 


mbl.is Er Ted í raun stolinn Charlie?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeir eru snemma "meðetta".

Afburða hæfileikar koma misjafnlega fram hjá snillingum. Sumir fara inn á brautir sem í ljós kemur að voru ekki þær leiðir, sem löðuðu fram það besta hjá þeim. 

Þjálfari í Reykjavík taldi austfirska drenginn Vilhjálm Einarsson kannski geta orðið liðtækan kúluvarpara og gat greinilega ekki ímyndað sér að hann gæti orðið besti íþróttamaður landsins um árabil sem langstökkvari og þrístökkvari, jafnað gildandi heimsmeit í síðarnefndu greininni og hreppt Ólympíugull.

Þegar ég var íþróttafréttaritari Sjónvarpsins ákvað ég að það gæti verið góð tilbreyting að taka mynd af einhverjum knattspyrnuleik í yngri flokkunum í Sjónvarpinu 1969 og fór vestur að Melavöll í því skyni.

Einn ungu drengjanna vakti sérstaka athygli í þessum leik því að hann var svo leikinn og fljótur að þar var augljóslega gríðarlegt efni í knattspyrnumann á ferðinni.

Sex árum síðar var hann maðurinn, sem skoraði snilldarmark í frægum sigurleik við Austur-Þjóðverja, en þeir voru þá með lið sem var eitt af þremur bestu knattspyrnulandsliðum heims.

Drengurinn er frá Vestmannaeyjum og nafn hans er Ásgeir Sigurvinsson. 

Hann var valinn besti leikmaðurinn í þýsku Bundesligunni árið 1983 og þáverandi landsliðsþjálfari Þjóðverja sagði síðar, að ef Ásgeir hefði haft þýskan ríkisborgararétt hefði hann orðið fyrirliði vestur-þýska landsliðsins. 

En það er ekki nóg að miklir hæfileikar komi snemma fram og þroskist til afreka. Að baki verður að liggja sterkur karakter sem þolir það andlega álag sem fylgir alltaf með.

Þess vegna er stundum eins og miklir hæfileikamenn hreinlega gufi upp eða fái aldrei að njóta sín þegar þennan óhjákvæmilega grunn vantar.  


mbl.is Sá hæfileikana strax í yngri flokkunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hann rignir alltaf..."

Það hefur ekki bara húðrignt á Sunnlendinga og mun halda áfram að rigna á þá, heldur hefur verið og er mígandi rigning á Norðvesturlandi þar sem ég er staddur núna. 

Spá um minni rigningu og smáskúrir í staðinn fyrir daginn í dag stóðst ekki, nema á afmörkuðum svæðum fram að kaffi.

Þar með var sú von úti.

Í fyrra söng ég inn að gamni mínu lag, sem heitir "Hann rignir alltaf", en það var eins og við manninn mælt, að það stytti upp.

Nú er spáin hins vegar þannig, að ekki er von á uppstyttu og kannski rétt að draga lagið fram aftur eða annað í svipuðum dúr.

Textinn við lagið er eftir sjálfan William Shakerspeare í þýðingu Helga Hálfdanarsonar, en það er sungið sem lokalag í leikriti meistarans,  Þrettándakvöldi.

Í sýningu Herranætur 1959 gerði Halldór Haraldsson píanóleikari þá nemandi við skólann lag við textann, en þegar ég spurði hann út í það í fyrra mundi hann ekkert eftir því.

Ég mundi hins vegar eðlilega eftir laginu, því að ég söng þetta á sínum tíma í lok hverrar sýningar.

Ég gerði nýja útsetingu við lagið og bætti við það og lét Halldór heyra.

Niðurstaðan er sú að við Halldór erum báðir skráðir höfundar.

Svona er textinn:  

 

Rignir, rignir, rignir, rignir.

Ég var lítill angi með ærsl og fjör,

hæ, hopp, út í veður og vind,

og stundaði glens og strákapör

og hann rignir alltaf dag eftir dag.

 

Rignir, rignir, rignir, rignir.

 

Ég óx úr grasi ef einhver spyr,

hæ, hopp, út í veður og vind.

En klækjarefum er kastað á dyr

og hann rignir alltaf, rignir alltaf, rignir alltaf dag eftir dag.

 

Rignir, rignir, rignir, rignir.

 

Mér varð til gamans að gifta mig,

hæ, hopp, út í veður og vind.

Nú dugar lítið að derra sig

og hann rignir alltaf rignir alltaf, rignir alltaf dag eftir dag.

 

Rignir, rignir, rignir, rignir.  

 

Ég hátta prúður í hjónasæng,

hæ, hopp, út í veður og vind,

og brennivínsnefi bregð í væng,

og hann rignir alltaf, rignir alltaf,  rignir alltaf dag eftir dag.

 

Rignir, rignir, rignir, rignir.

 

Sem veröldin forðum fór á kreik,

hæ, hopp, út í veður og vind,

enn vöðum við reyk, senn er lokið leik

og hann rignir alltaf, rignir alltaf, rignir alltaf dag eftir dag,

og hann rignir alltaf, rignir alltaf, rignir alltaf   -

dag eftir dag!   


mbl.is Enn meiri rigning sunnanlands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úrelt tæki Sovétmanna voru ógn á tímabili.

Þegar Kalda stríðið stóð sem hæst og Bandaríkjamenn voru búnir að tölvuvæða vopnabúnað sinn hrukku þeir við þegar þeim barst njósn af því hjá Sovétmönnum væri enn notuð úrelt lampatækni.

Ástæða ótta Kananna var sú, að segulhögg af kjarnorkusprengjum Sovétmanna gæti slegið út öllum tæknibúnaði sem væri í nágrenni við þær ef þær spryngju, en lampatæki og annað úrelt hjá Sovétmönnum myndi hins vegar þola "magnetic pulse" eins og það heitir á erlendu máli.

Allt þjóðlíf okkar eru orðið svo háð tölvutækni og stafrænni tækni, að hættan á að eitthvað fari illa úrskeiðis vex í stað þess að minnka.

Afturhvarf frá þessari tækni í öryggisskyni kann því að vera réttlætanleg, eins og að hætta að nota tölvupóst og taka upp notkun gömlu góðu handvirku ritvélanna.   


mbl.is Taka ritvélar aftur í notkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvöfalt fleiri Renault 4 seldust en samt er Bragginn tákn Frakklands.

Tveir álíka stórir, einfaldir og ódýrir bílar voru framleiddir í Frakklandi fram að 1990, Citroen 2CV og Renault 4, "Fjarkinn".  

Framleiðsla Braggans hófst 1948 en Fjarkans 1961, þannig að Bragginn fékk 13 ára forskot. Samt voru framleiddir tvöfalt fleiri Fjarkar en Braggar, nánar tiltekið 8 milljónir.

Frá 1946 til 1961 var Renault 4CV mest seldi bíll Frakklands og fyrsti franski bíllinn sem framleiddur var í meira en milljón eintökum.  

Einkenni Braggans og Fjarkans var það að leitun var að bílum, sem útlitinu var minna breytt á margra áratuga ramleiðsluferli, gagnstætt Volkswagen Bjöllunni sem fór í margar gluggastækkanir og andlitslyftingar á sínum ferli og fékk meira að segja alveg nýja gerð framfjöðrunar á síðustu árum sínum.

Báðir frönsku bílarnir voru það sem kallað var "sætljótir."  

En hvers vegna er Bragginn svo samofin ímynd frönsku þjóðarinnar en Fjarkinn ekki?

Tvær ástæður má nefna:

1. Bragginn átti sér lengri forsögu og fékk 13 ára forskot til þess að verða öllum kunnur.

2. Hönnun hans og smíði var sérstaklega óvenjuleg, frumleg og hámark naumhyggjunnar.

Ég átti Fjarka í nokkur ár og naut hans í botn. Myndi gjarna vilja eiga slíkan aftur og Bragga með honum.     


mbl.is Fagna Bastilludegi með Citroën-bröggum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óvenjulegt úrfelli og veðurfar norðanlands.

Veðrið er svo sannarlega skrýtið á norðvestanverðu landinu þessa dagana. Nú er kvöld í Langadalnum þar sem ég er lentur við bæinn Hvamm í 13 stiga hita og logni. Hér í gamla daga hefði þokan verið komin hingað frameftir utan af Húnaflóa í svona skilyrðum.

En sjórinn fyrir norðan land er víst óvenju hlýr svo munar nokkrum stigum.

Þess vegna var hún fjarverandi, hin hefðbundna hafgola með kaldri þoku bæði í Hrútafirði og Miðfirði á leiðinni hingað en það húðrigndi.

Hjónin í Hvammi segjast ekki muna eftir öðru eins úrfelli og varð hér í dag og svona rigningatíð án norðan nepju er eitthvað alveg nýtt.

Sólarlagið á eftir að verða fallegt og það hefur stytt upp. Sjá mynd sem ég ætla að setja inn á fésbókarsíðu mína.  


mbl.is „Þær bara drukkna“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rugl og ekki fylgst með tímanum.

Reglur um gjaldfrí stæði voru rugl frá upphafi úr því að vistvænustu bílarnir voru ekki með. Síðan hefur ruglið versnað vegna þess að þeir, sem setja þær, fylgjast ekki með þróuninni. 120 grömm af CO 2 á ekinn kílómetra var raunhæft fyrir nokkrum árum, en það hefur gerbreyst vegna tækniþróunar.

Þá voru það aðeins allra minnstu bílarnir sem voru undir 120 grömmum, en nú eru þeir bestu komnir niður fyrir 90 grömm og stór hluti innfluttra bíla undir mörkunum.

Skilyrðislaus afsláttur af ýmis konar gjöldum á tvinnbíla er ósanngjarn, vegna þess að sama stærð af dísilbílum mengar ekki meira en tvinnbílar og eru miklu einfaldari og ódýrari kostur, bæði við framleiðslu þeirra og förgun, en hvort tveggja á að taka með í þennan útreikning.    


mbl.is Tesla fær ekki að leggja frítt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ádrepa Ólafs B. Schram ætti að vera skyldulesning.

"Það er verið að gera tvö ræsi á Dómadalsleið." Þessi eina setning í viðtali við Ólaf B. Schram hringir bjöllum. Hver er að gera ræsi á þessari leið?  Varla Vegagerðin sem á ekki einu sinni pening til að viðhalda stofnvegum í byggð ? 

Dómadalsleið hefur verið dásamleg "safari" leið og fengið að vera í friði fyrir mannvirkjaáráttunni fram að þessu.

Lá eitthvert mat á umhverfisáhrifum að baki því fara að hrófla við leiðinni?  Var haft samráð við þá sem hafa viljað þessa leið óbreytta og leitað eftir áliti þeirra á því að fara að raska henni?

Er ætlunin að halda áfram í þessum dúr bæði á þessari leið og öðrum, sem eru líkar henni?

Eitt sinn bauð Kjalvegur upp á stanslaust ævintýri frá Gullfossi niður í utanverðan Blöndudal. Það þurfti að þræða vegarslóða og aka yfir ár og læki. 

Nú þarf ekki að fara yfir svo mikið sem sprænu á leiðinni. Mestöllum nyrðri hluta leiðarinnar hefur verið breytt í virkjanasvæði með upphækkuðum vegi og sama hefur verið gert við syðri hluta leiðarinnar alveg norður undir Hvítárvatn.

Gott og vel, það er búið og gert. En það virðist hvergi nærri vera nóg fyrir mannvirkjafíklana.  Þarf endilega að taka aðrar fyrrum hliðstæðar leiðir og fara eins með þær?  

Viðtalið við Ólaf B. Schram ætti að vera skyldulesning fyrir alla þá sem þurfa að dýpka og víkka skilning sinn á því hvernig við umgöngumst náttúru Íslands, því að hitt sjónarmiðið, að skapa alls staðar "fullkomið aðgengi" sem þýðir að lokum upphækkaða malbiksvegi með 90 kílómetra hámarkshraða fyrir alla bíla um óbyggðir landsins og virkjanamannvirki hvar sem litið verður, mun fella sérstöðu landsins eins og Ólafur orðar það.  

Skjaldarmerki Utah ríkis í Bandaríkjunum er steinboginn "Delicate arch" eða "Viðkvæmi bogi" í Arches þjóðgarðinum.

Ef Íslendingar væru ráðamenn í Utah væri fyrir löngu búið að leggja malbikaða hraðbraut beinustu leið að boganum.

En í staðinn hefur þess verið gætt að stórt svæði umhverfis hann sé ósnortið land.

Síðustu kílómetrana er aðeins hægt að komast gangandi eftir slóð sem fætur ferðamanna hafa búið til og liggur í byrjun fram hjá kofa, sem veiðimaður bjó í fyrrum, og sýnir hvernig fyrstu landnemarnir þarna lifðu, en síðar er gengið um klappir og óslétt land um auðnir þangað til komið er að þessu skjaldarmerki Utah. 

Hvers vegna eru jarðýturnar og stórvirku tækin ekki fyrir löngu búnar að búa til "fullkomið aðgengi"?

Af því að ferðamaðurinn á að fá að upplifa það sama og hinir fyrstu, sem komu að þessum steinboga og féllu í stafi yfir honum, svo að hann var gerður að skjaldarmerki ríkisins. 

Þetta er krafan um upplifun og ævintýri en ekki þægilega og hraða rútuferð.

Þetta virðast menn ekki skilja í hinu íslenska stjórnleysi og umgengni við náttúruna sem byggist á fyrirbærinu "áunnin fáfræði."  

Í morgun heyrði ég talað í útvarpi um skógrækt þvert yfir hálendið um Sprengisand. Það á líka að gera háspennulínu af stærstu gerð og tvær virkjanir á þeirri leið með tilheyrandi virkjanavegum.

Bara lítið dæmi um það sem er að gerast og er umræðuefni Ólafs B. Schram.  

 

 


mbl.is Ísland er að verða útjaskað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bara "væl" í vinstri mönnum ?

Sífellt koma fram fleiri og fleiri vísbendingar um ófremdarástand á húsnæðisleigumarkaðnum. Enda þótt ekki hafi tekist ao koma öllum þeim íbúðum í notkun sem byggðar voru fyrir Hrun og þær standi auðar, verður ójafnvægið milli framboðs og eftirspurnar til þess að leiguverðið fer hækkandi.

Þegar á þetta er bent heyrist það hjá þeim, sem vilja að ekkert sé gert í þessum málum, að þetta sé bara "væl í vinstri mönnum, sem séu að leita að tækifærum sem vandræði annarra gefi þeim."

Að nefna orðið "vandræði" er að vísu játað að hluta til að ástandið sé slæmt og fari versnandi, en síðan bætt við að ný könnun Landsbankans sýni, að ástandið sé verra í nokkrum löndum í Evrópu.

Og þar með er þetta bara allt í lagi og alger óþarfi að grípa inn í lögmál markaðarins á þessu sviði.

Allir stjórnmálaflokkar á Íslandi hafa einhvern tíma á ferli sínum sinnt þessum málum á einn eða annan hátt.

Það væri miður ef þeir gerðu ekkert núna, því að þeir sem verst fara út úr ástandinu á leigumarkaðnum eru einstæðir foreldrar, öryrkjar og aðrir, sem minna mega sín.   

 


mbl.is 500 vildu leigja eina íbúð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband