Hef aldrei áður heyrt um æfingabann.

Mike Tyson beit stykki úr eyra Evenders Holyfields og hlaut verðskuldaða refsingu fyrir í formi langs keppnisbanns. Honum var þó ekki banna að æfa sig og ekki heldur bannað að horfa á hnefaleikabardaga.

Þótt margir séu yfirleitt á æfingum í knattpyrnu þurfa hnefaleikarar líka að geta æft með æfingafélögum.

Æfingabann á Suárez hefði því verið talsverð nýjung hvað refsingar varðar.  


mbl.is Suárez heimilt að æfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Förum varlega með samlíkingar við býsn.

Hitler og menn hans drápu 6 milljónir Gyðinga á svo kaldrifjaðan, úthugsaðan og tæknilegan hátt að bæði hugsunin á bak við Helförina og framkvæmdin sjálf eiga sér engan líka í mannkynssögunni.

Eichmann, handbendi Hitlers,  sagði síðar í útlegð í Suður-Ameríku að verst hefði verið að ekki hefði tekist að drepa alla Gyðinga veraldar, 10,5 milljónir alls.

Það er ekki hægt að líkja neinu við svona aðfarir og nöfn eins og Auschwitz eiga ekki við. Með slíkri líkingu er verið að gera lítið úr einstæðu haturs- og morðæði Hitlers og örlögum þeirra, sem urðu fyrir barðinu á því.

Það er að vísu hægt að taka ýmis atriði út úr sem bera má saman þegar talað er um hrikalegustu atburði sögunnar og eiginleika manna.  En fara verður varlega með samlíkingar þegar það allra svakalegasta á í hlut sem er langt umfram allt annað.

Á sjöunda áratug síðustu aldar datt nokkrum mönnum það í hug í hita leiks íslenskra stjórnmála að nefna áhrif umdeildra efnahagsaðgerða Viðreisnarstjórnarinnar "móðuharðindi af mannavöldum."  

Í móðuharðindunum dó fjórðungur þjóðarinnar og 70% búsmalans. Í öðrum heimsálfum kostuðu afleiðingar Skaftáreldanna milljónir mannslífa.

Skelfingar móðuharðindanna á Íslandi eiga sér enga hliðstæðu í sögu þjóðarinnar og það var móðgun við minningu þeirra, sem þá þjáðust og létu lífið, að taka sér þetta orð í munn um eitthvað sem ekki er einu sinni í neinni líkingu við slík ósköp, heldur voru þau ár, sem þessir menn sögðu að móðuharðindi af mannavöldum stæðu yfir, uppgangstími hér á landi.

Það er því ráðlegt að fara varlega með samlíkingar við eitthvað sem ekki er hægt að finna neinn samjöfnuð við.   


mbl.is „Auschwitz Miðjarðarhafsins“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eigum við að hætta að laða ferðafólk til landsins?

Þessari áhugaverðu spurningu var varpað upp í viðtali við Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðing í ágætum útvarpsþætti í dag, sem ber nafnið "Áfangastaður: Ísland"

Ástæðan fyrir spurningunn hefur oft heyrst: Flugvélar menga mest allra samgöngutækja og með því að bægja flugvélum og skemmtiferðaskipum frá landinu leggjum við okkar skerf til minni útblásturs gróðurhúsalofttegunda.

Þessi fullyrðing stenst enga skoðun. Í fyrsta lagi menga flugvélar aðeins 12% af mengun allra faratækja heimsins, en bílarnir blása út 74% og skipin 16%.

Í öðru lagi eiga flugvélar aðeins þátt í 2% af heildarútblæstri gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu og jafnvel þótt tekið sé með í reikninginn að þær blása þessu út ofar í loftlögunum, getur þessi prósenttala ekki samsvarað hærri tölu en 3%.

En aðalatriðið er þetta og það kom ekki fram í þættinum: Menn gefa sér það fyrirfram að ef straumur ferðamanna til landsins yrði stöðvaður myndu þeir ekki hreyfa sig spönn frá rassi í sumarleyfi sínu.

Það er fráleit forsenda. Að sjálfsögðu myndu skemmtiferðaskipin bara sigla annað og fólkið fljúga til annarra landa en Íslands eða fara í langa bílferð ef þeim væri bægt frá landinu.

Margir þeirra sem hafa horn í síður ferðamannaþjónustunnar gera það til að bægja athyglinni frá því að hér heima höfum við enn mest mengandi bílaflota Evrópu, en þar væri hægt að taka verulega til hendi, ekki hvað síst með tilliti til notkunar okkar eigin mengunarlausu orkugjafa.

Einnig gerir vöxtur ferðaþjonustunnar erfiðara fyrir um að halda fram taumlausri sókn eftir því að sem mest af "orkufrekum iðnaði" sé komið hér á þar sem ágóðinn rennur úr landi til erlendra eigenda en virðisaukinn í hagkerfinu er meira en tvöfalt minni en í sjávarútvegi og ferðaþjónustu.  


mbl.is Bílaleigan Enterprise á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einu sinni voru í gildi lög um fundarlaun.

Fyrir hálfri öld var í gildi lagagrein um fundarlaun, þess efnis, að finnandi ætti rétt á 10% af virði hins fundna.  

Ekki veit ég hvort þessi lagagrein er enn í gildi. Hún bar ekki í sér skyldu til að eigandi hins fundna greiddi fundarlaun; aðeins það að finnandinn gæti farið fram á fundarlaunin en þó ekki meira en 10% af virði hins fundna.

Og að sjálfsögðu var eigandanum heimilt að bjóða betri fundarlaun en 10%. 

Tilgangurinn með lagaákvæðinu var að virkja hvetjandi á finnendur að skila hinu fundna til eigandans ef honum fannst sanngjarnt að honum yrði launuð ráðvendnin.

Misjafnt er hvernig hlutir eða fjármunir týnast. Stundum man eigandinn vel hvar hann skildi hlutinn eftir þannig að það eru augljóslega afar fáir eða jafnvel aðeins einn maður, sem getur verið finnandinn.

Í slíku tilfelli er matsatriði hvort fundarlaun eigi við þótt að sjálfsögðu sé þakkarverður sá heiðarleiki að halda hinu fundna til haga fyrir eigandann þangað til hann vitjar þess.

Öðru máli gegnir um fund eins og þann, sem greint er frá í tengdri frétt á mbl.is.

Í því tilfelli var finnandanum í lófa lagið að grípa til hverra þeirra ráðstafana sem hann kysi án þess að upp um það kæmist.

Að lokum þetta: Bílþök eða vélarhlífar á bílum eru verstu staðir til að setja hluti á. Af því hef ég afar slæma reynslu.

 

 


mbl.is Skilaði 50.000 króna veski
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fólk á vilja flytja hingað og þangað.

Makalaust er að heyra hvernig sumir tala um það þegar fyrirtæki eða stofnanir eru fluttar á milli staða ásamt störfunum sem unnin eru þeim.

Bæði núna vegna flutnings Fiskistofu til Akureyrar og vegna flutninga fiskvinnslu frá Þingeyri, Húsavík og Djúpavogi suður til Grindavíkur hefur mátt heyra hjá sumum, að fólkinu, sem í hlut á, sé "boðið vel" varðandi flutninga fyrirtækjanna og þess vegna eigi það "að þiggja gott boð."

Má heyra á tóninum í þessum ummælum að það sé beinlínis óeðlilegt að þetta fólk vilji ekki flytja heimili sín heldur frekar búa á þeim slóðum þar sem það kaus sjálft að stofna heimili.  

Þessi forsjárhyggja, að fólk eigi að vilja eiga heima hér eða þar kemur víðar fram en í ofangreindum málum. Þannig er sagt að fólk eigi að vilja búa sem næst gömlu miðborginni í Reykjavík, sem þó er komin fjóra kílómetra í burtu frá þungamiðju íbúðabyggðar á höfuðborgarsvæðinu.

Þetta minnir svolítið á það þegar fólkinu í Austur-Þýskalandi var sagt að það ætti að vilja búa þar en ekki i Vestur-Þýskalandi.

Þar var settur upp múr til að koma í veg fyrir að fólk flytti þangað sem það vildi.

Sem betur fór var gátu valdhafarnir þó ekki flutt fólk nauðugt frá Vestur-Þýskalandi til Austur-Þýskalands.

Forsætisráðherra minntist réttilega á það í útvarpsviðtali áðan að góðir innviðir og fjölbreytni í mannlífi, menningu og þjónustu væru skilyrði fyrir búsetu á hverju svæði á landinu.

Á það skortir verulega og þar liggur hundurinn grafinn. Það er auðvelt að finna út hvar byggð er að koðna niður og hvar ekki. Fjöldi kvenna á barneignaaldri skiptir þar öllu máli en ekki bein íbúatala. Vanti þennan þjóðfélagshóp er byggðin dauðadæmd.   

Þess vegna eru grunnatriði eins og leikskólar og aðrir skólar, samgöngur og þjónusta auk skilyrða fyrir fjölbreytta menningu það sem skiptir máli. Sú hefur verið niðurstaða fjölmargra ráðstefna um byggðamál.  

Og lausnir fást ekki með tímabundnum framkvæmdum sem gefa fábreyttum hópi vinnu í stuttan tíma, en slíkar lausnir hafa íslenskir stjórnmálamenn elskað í gegnum tíðina.   

 

 


mbl.is Landmælingar fimm ár að ná fyrri styrk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svo má böl bæta að benda á annað verra.

Birtar hafa verið tölur um það að meðallaun hér á landi séu um 400 þúsund krónur á mánuði eða um 260 þúsund eftir skatt. Nú koma fram tölur í nýrri frétt frá Landsbankanum um að sjöttungur þessarar upphæðar fari í húsnæðiskostnað. Það gera um 45  þúsund krónur á mánuði. Hvað er hægt að leigja stórt húsnæði fyrir þann pening fyrir einstakling? Líklega 30 fermetra. Glæsileg afkoma það?

Fjöldi lífeyrisþega verður að láta sér nægja innan 150-300 þúsund krónur á mánuði í tekjur. 50 fermetra smáíbúð er leigð á meira en 100 þúsund krónur á mánuði. Glæsileg afkoma það?

Í fréttinni fyrrnefndu er sagt að 9% heimila búið við "verulega íþyngjandi" húsnæðiskostnað. Það eru um 20 þúsund heimili en jafnframt sagt að hlutfallið sé tvöfalt hærra í Danmörku og að Íslendingar séu í miðju róli í samanburði við önnur Evrópulönd.

20 þúsund heimili í vanda. Glæsilegt?  

Ég slæ fram spurningunnu "glæsilegt?" því að nú þegar má sjá því fagnað í bloggpistlum að raddir um háan húsnæðiskostnað sé bara ástæðulaust væl og "goðsögn", úr því að hægt sé að finna álíka slæmt eða verra ástand annars staðar.

Já, svo má lengi bæta að benda á annað verra. Allt er í þessu fína lagi.   


mbl.is Húsnæðiskostnaður ekki hár hér á landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fær hún svipuðu framgengt hér og Ali í Ameríku?

Cassius Clay, heimsmeistari í hnefaleikum, breytti nafni sínu í Muhammad Ali og þurfti að berjast gegn andstöðu stjórnvalda, almennings og fjölmiðla vegna þess í meira en þrjú ár.

Það var að mörgu leyti skrýtið því að fjölmörg dæmi voru um það að frægir listamenn, svo sem kvikmyndastjörnur, hefðu breytt nöfnum sínum í upphafi ferils síns.

En Ali var þegar orðinn heimsfrægur þegar hann breytti sínu nafni og var þar að auki líka blökkumaður og gerðist múslimi.  

Þessi nafnbreyting Alis var miklu róttækari en sú sem Birgitta Bergþórudóttir Jónsdóttir Hirt hyggst reyna.

Fróðlegt verður að sjá hvernig henni gengur og ég hvet hana til þess að fylgja ósk sinni og sannfæringu fram.  


mbl.is Birgitta vill breyta nafninu sínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Lotur meistaratignarinnar".

Fram á níunda áratug síðustu aldar gátu helstu bardagar í hnefaleikum orðið 15 lotur. Þá var slíku hætt og síðan eru 12 lotur hámarkið.´

Ýmsir voru andvígir þessari breytingu og bentu á það, að oft hefði reyndin orðið sú að síðustu þrjár loturnar í 15 lotu bardögum hefðu verið þær frægustu í íþróttinni. Þær væru kallaðar "The championship rounds" og ef þær hefðu ekki farið fram, hefði sagan misst af mörgum af frægustu atvikunum í íþróttinni .

Aragrúa dæma má nefna um þetta, svo 15. lotuna í bardaga Jack Johnsons og Jim Jeffries 1910, 13. lotuna í bardaga Rocky Marciano og Jersey Joe Walcotts 1952, 15. loturnar í bardögum Muhammads Alis við Joe Frazier 1971, Chuck Wepner 1976 Leon Spinks 1978, og 14. lotuna í bardaga Alis og Fraziers 1975.

Svipað virðist gilda um leikina í HM þessa dagana. Framlengingarnar hafa fært okkur flest mörkin, langmestu ánægjuna, spennuna og dramatíkina.

Sagt hefur verið um hnefaleikara, að bestu bardagarnir þeirra á milli séu rétt eftir að þeir voru á toppnum og eru að byrja á því að vera á niðurleið. Þá fjölgar mistökunum, fleira gerist en fyrr og keppendurinir verða að leggja sig meira fram og í raun að fara fram úr getu sinni.

Þess vegna hafi síðasti bardagi Alis og Fraziers verið sá besti þeirra í millum og mesti bardagi allra tíma.  

Svipað kann að gilda um fótboltann. Þegar menn eru búnir að hlaupa allt að 15 kílómetra í sprettum í 90 mínútur fer leikurinn að gliðna og mistökum að fjölga og þar með opnast allt.

Menn fara fram á ystu mörk þess sem hægt er að leggja á líkama og sál og jafnvel lengra en það.

Og það er svo magnað og hrífandi.  

 


mbl.is Belgía áfram eftir frábæra framlengingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Magnað hvað starinn er snjall fugl.

Ég ber mikla virðingu fyrir staraum vegna útsjónarsemi hans, dugnaðar og þrautseigju.  Ástæðan er sú að flugvélaeigendur og þar með ég þurfa að hafa sérstakan vara á varðandi þennan gáfaða fugl, sem hefur vit á að nýta sér mannvirki af öllu tagi fyrir hreiðurgerð sína og sýnir gríðarlega harðfylgi við það, hvað flugvélar varðar.

Á facebook síðu minni sýni ég dæmi um það hve erfitt er að fást við þá ást á flugvélum sem starinn hefur. Þrátt fyrir mikla viðleitni til að koma í veg fyrir að hann verpi í vélarhúsum þeirra eða annars staðar, þar sem hann getur smokrað sér inn, hefur það gerst þrisvar á flugferli mínum að starinn hefur komist í gegnum allar varnir og byggt sér hreiður langt inni í flugvélum mínum.

Starinn reynir einkum að komast inn í vélarhúsið í gegnum loftinntökin og verður því að byrgja þau vel.

En í eitt skiptið komst hann með hreiður inn í aftasta hluta flugvélarskrokksins á óskiljanlegan hátt, en þar var afar erfitt að komast að hreiðrinu innan frá.

Í ljós kom að undir afturbrún lárétta stélflatarins á vélinni var eitt lítið kringlótt loftgat, sem fuglinum tókst að troða sér inn í. Þaðan fór hann lárétt inn í miðju stélsins og síðan fram í aftasta hluta skrokksins þar sem þetta fína rými var fyrir hreiður.

Eftir þetta loka ég ævinlega þessu litla gati eins og sést á mynd á facebook síðu minni.

Ef hreiður leynist ofan á hreyflinum kviknar í því eftir flugtal, því að loftkældur hreyfillinn hitnar mikið í flugtaksklifri.

Verra er þó, að fuglinum fylgir sérstök fló, sem getur borist á menn og er illvígari hér en í nágrannalöndunum, því að þar er annað dýr, maríuhæna svonefnd, sem lifir á flónni, en er ekki til hér á landi.  

 


mbl.is Stari gaf maríuerluungum í gogginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samt of fáir nýir bílar.

Fyrri hluta þessa árs seldust um 6 þúsund nýir bílar hér á landi, og kannski eiga um 12 þúsund eftir að seljast á árinu. Þegar salan er borin saman við söluna árið 2009 og fundið út að bílasalan hafi margfaldast frá Hruni gætu einhverjir haldið að nú séu  seldir allt of margir bílar.

En svo er ekki, því að til að endurnýja bílaflotann þyrfti að flytja inn 50% fleiri bíla.

Samanburður við árið 2009 er út í höft því að það ár sker sig algerlega úr vegna þess að afleiðingar Hrunsins komu þá að fullu fram á bílasölunni.

Síðasta áratug hefur orðið bylting í öryggi bíla og sömuleiðis stórframfarir í sparneytni og minnkandi útblæstri.

Sem dæmi má nefna að aðeins örfáir minnstu bílanna 2009 náðu því takmarki að blása minna en 120 grömmum af koltvísýringi út í andrúmsloftið og fengu fríttt í bílastæði fyrir bragðið, en nú hefur þessi tala lækkað niður fyrir 90 grömm á útblástursminnstu bílunum og þúsundir bíla í smærri stærðarflokkunum leika sér að því að ná þessu marki.  

Stórbætt öryggi skilar árangri í færri banaslysum og alvarlegum bílslysum og minni útblástur er líka keppikefli.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband