15.6.2014 | 16:32
Geta dýra er oft vanmetin.
Hundurinn Hunter er nú hugsanlega að komast á spjöld sögunnar yfir hundelt dýr á Íslandi. Nafn hans hefur nú færst yfir þá þá sem leita hans.
Geta dýra í slíkum tilfellum er oft vanmetin.
Frægast þeirra á síðari tímum er líklega Herdísarvíkur-Surtla, sem var eina kindin sem slapp undan því að vera skorin niður á sunnanverðu landinu, þegar verið var að útrýma mæðiveikinni á fyrri hluta sjöta áratugs síðustu aldar.
Ærin var hundelt vikum saman sumarið 1953 að mig minnir þangað til loks tókst að fella hana.
Þá stóðu yfir miklir flutningar fjár frá Vestfjörðum til þeirra svæða á landinu, sem þar sem átti að skipta um fjárstofn, og man ég vel eftir flutningabílunum sem brunuðu um Langadalinn þar sem ég var í sveit.
Annað dæmi um dýr, sem slapp úr vörslu, var kýrin Sæunn sem átti að flytja í sláturhús, en slapp úr gæslu og synti yfir Önundarfjörð.
Geta dýra til að bjarga sér eða brjótast undan ofurvaldi mannsins er oft vanmetin.
Ég minnist eins slíks tilfellis, sem draga má lærdóm af.
Ég var á leið fljúgandi frá Akureyri til Reykjavíkur og var beðinn um að leyfa konu að fara með mér með lítinn hund sinn.
Ég færðist undan en konan var í tímaþröng og ekki um annan ferðamöguleika að ræða fyrir hana.
Mér var sagt að hunduinn væri eitthvert gæfasta dýr á jarðarkringlunni en ég lét ekki sannfærast.
En loks lét ég undan þegar dýralæknir var fenginn til að svæfa hundinn og deyfa og hann var bundinn rækilega.
Skemmst er frá því að segja að ég var svo heppinn að strax í flugtaki rankaði kvikindið úr rotinu og var svo gjörsamlega tryllt, að bindingarnar á fótunum fór strax að losna.
Ég flýtti mér að taka hring og lenda hið bráðasta og var þeirri stund fegnastur þegar einhvert gæfasta dýr á jarðarkringlunni, sem breyst hafði í hættulegt óargadýr, var komið út úr flugvélinni.
P. S. Hábeinn hefur sent mér dýrlega athugasemd varðandi hundinn Lúkas, sem ég af óskiljanlegum ástæðum gat ekki um. En í því máli fór "homo saphiens", hinn viti borni maður, í eðli og andlegu atgerfi talsvert niður fyrir þau dýr sem lökust þykja vera á þeim sviðum.
![]() |
Allir í rútunni öskruðu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 16.6.2014 kl. 01:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.6.2014 | 10:58
1966 ævintýrið virðist fjarri.
Englendinga dreymir alltaf um annað 1966, heimsmeistaraititil þjóðarinnar sem fann upp knattspyrnuna.
Þrátt fyrir ágætan leik þeirra í gær í fjörugri viðureign við Ítali, sem hefur stærri heimsmeistarhefð en Englendingar, er ekki að sjá að enska liðið geti náð takmarki sínu. Það vantar eitthvað sem til þarf.
Englendingar áttu ágæta kafla í leiknum, fengu færi, og eftir að Ítalir komust yfir var eðlilegt að þeir pressuðu meira.
En þegar einhvert flottasta langskot að marki, sem sést hefur, small í þverslá enska marksins skömmu fyrir leikslok og Ítalir voru hársbreidd frá því að vinna 3:1, sagði maður við sjálfan sig: 1966 er ekki í loftinu.
Endursýniningin var mögnuð á skotinu, sem stefndi í fyrstu beint á enska markmanninn, en geigaði síðan um svo marga metra vegna snilldar snúings á boltanum, að markvörðurinn varð að áhorfanda, langt í frá að eiga minnstu möguleika til að ná boltanum.
Sá hefði mátt fara í netið, þessi !
![]() |
Balotelli hetja Ítalíu gegn Englandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.6.2014 | 10:19
Ómetanlegir liðsmenn.
Björk Guðmundsdóttir er líkast til þekktasti Íslendingur vorra tíma. Vigdís Finnbogadóttir er einnig vel þekkt um allan heim. Þessar tvær konur hafa unnið íslenskri náttúruvernd ómetanlegt gagn með skeleggri framkomu sinni þegar þau mál ber á góma.
Björk segist í viðtali í Guardian vonast til að málefnið berist víðar, enda ekki einkamál Íslendinga.
Hárrétt. Við eigum ekki landið heldur höfum það að láni frá komandi kynslóðum og erum vörslufólk þess fyrir þær og mannkyn allt.
Þarn kemur hún að kjarna málsins, því að þeir, sem ákafast sækja að íslenskum náttúruverðmætum í því skyni að gera dýrmætustu svæðin að iðnaðarsvæðum og virkjanasvæðum hafa kappkostað að viðhalda fáfræði um eðli þessa máls bæði innanlands og utan, - viðhalda því sem ég hef kosið að nefna áunna fáfræði.
Kárahnjúkadeilan sem snerist um margfalt stærri óafturkræf umhverfisáhrif en Altavirkjun, fór framhjá heimsbyggðinni. Um Altavirkjunina var hins vegar fjallað í fjölmiðlum um allan heim.
Svo frægt var nafn Bjarkar þó á þeim tíma, að tímabundið mótmælasvelti móður hennar var nokkurn veginn það eina sem sást eitthvað um varðandi Kárahnjúkavirkjun í erlendum fjölmiðlum. Á tímabili mátti sjá setningu um það rúlla neðst yfir skjá á einni erlendri sjónvarpsrás. Hún var þriðja konan sem reyndi að leggja málinu lið þannig að einhver tæki eftir því.
Jón Sigurðsson mun hafa sagt, að Íslendingum væri nauðsyn á að eiga stuðning erlendis fyrir sjálfstæði sínu.
Sama á við um íslenska náttúru. Þess vegna er framlag Bjarkar Guðmundsdóttur svo mikilvægt nú.
![]() |
Náttúruvernd ekki okkar einkamál |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.6.2014 | 22:48
Líka barnasprengja 1941.
Eftir mesta efnahagshrun Íslandssögunnar var kreppa óhjákvæmileg, rétt eins og kreppa var óhjákvæmileg hér eftir að heimskreppan skall upp úr 1930. Sú kreppa dýpkaði sérstaklega hér á landi við hrun saltfiskmarkaðarins á Spáni vegna borgarastyrjaldarinnar þar 1936-39 og varð dýpst árið 1939 og fyrstu mánuði ársins 1940.
Af því leiddi að árgangarnir á síðustu árum fjórða áratugarins voru frekar smáir, ekkert stærri en kreppuárgangarnir þar á undan.
Þetta sást vel á stúdentafjöldanum í M.R. 20 árum síðar, árin 1959 og 1960.
Þótt hernám Breta 10. maí færði Íslendingum bullandi atvinnu og tekjur, fór afleiðinganna hvað snerti fæðingar ekki að gæta fyrr en níu mánuðum síðar, eða á árinu 1941.
Þótt ég sé fæddur í september 1940 er ég hreinræktað kreppubarn, svo fátækir voru kornungir foreldrar mínir í desember 1939.
Innan við hundrað stúdentar voru brautskráðir frá M.R. 1960, en árið eftir og raunar eftir það varð fjölgunarsprengja.
Eðlilega voru allra fyrstu árin eftir Hrunið erfið en síðustu tvö ár hefur verið hægur efnahagsbati og er enn.
Ávextirnar af því eru hinir sömu og árið 1941, stórfjölgun fæddra barna.
![]() |
Sprengja í barneignum í sumar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
14.6.2014 | 14:39
Nauðsyn aukinna rannsókna og átaks gegn "áunnri fáfræði".
Ég heyrði á einhverri ljósvakarásinni að framlög til hafrannsókna hafi verið dregin saman á sama tíma sem brýn og ný verkefni hrannast upp.
Þótt kuldatrúarmenn haldi enn fast við það að veðurfar hafi ekki hlýnað og þvertaka fyrir að neinar breytingar í loftslagi og lífríki sé af mannavöldum horfum við upp á súrnun og hlýnun sjávar án þess að sjá megi að menn eigi nægar skýringar á þessum breytingum og afleiðingum þeirra.
Hrun sandsílastofnsins er talin meginorsök hruns lundastofnsins og fleiri strandfugla. En hvað um vaxandi súrnun sjávar?
Svo er ekki að sjá að spáð hafi verið fyrir um þessi hrun og óljóst virðist hvaða áhrif og hve mikil súrnun sjávar muni hafa á fiskistofnana og sjávarfang.
"Síldin lagðist frá" var viðkvæðið á Raufarhöfn, þegar ég kom þangað nokkrum árum eftir hrun síldarstofnsins og tók þar viðtöl við fólk.
Í þess huga var óhugsandi að veiðin á síldinni hér og í Noregi hefð átt nokkurn þátt í því að sildin hvarf skyndilega.
Flestir þekkja fyrirbærið áunna sykursýki, en það er fleira sem fólk getur áunnið.
Þeir, sem andmæla nauðsyn rannsókna virðast margir gera það til þess að firra sig allri vitneskju um orsakir og afleiðingar. Á ótal sviðum er tilhneiging til að vita sem minnst af því að það gæti verið óþægilegt.
Það má kalla þetta fyrirbæri "áunna fáfræði" og hún gagnast þeim mest sem vilja vaða áfram af sem mestri græði og ábyrgðarleysi gagnvart framtíðinni.
Þegar það kom inn á borð þingnefndar fyrir tveimur árum að jarðvarmavirkjanir væru eins og námugröftur og einungis gert það skilyrði, að varmi og virkjanir entust í 50 ár, heyrðust viðbrögð hjá þingmönnum á borð við: "Ekki vissi ég það."
Samt hafði þetta legið fyrir í áratugi.
![]() |
Líkur á að lundavarp misfarist enn á ný |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.6.2014 | 06:57
Einsdæmi: Markakóngur án þess að skora mark.
Giovanni Dos Santos er sennilega fyrsti leikmaðurinn í sögu HM sem er í hópi mestu markaskorara mótsins á ákveðnum tímapunkti í því, án þess að hafa skorað eitt einasta löglegt mark.
Ef dómararnir hefðu ekki tekið af honum tvö rétt skoruð mörk í leiknum við Kamerún, væri hann einn af þremur leikmönnum mótsins, sem hafa skorað flest mörk og hampað sem slíkum.
Atvikin varðandi Don Santos minna á það þegar Linford Christie var dæmdur úr leik fyrir þjófstart án þess að hafa þjófstartað. Hann var bara svona rosalega viðbragðsfljótur.
Don Santos var ranglega refsað fyrir þann frábæra hæfilega að vera eldsnöggur innfyrir um leið og boltinn var farinn af stað.
Mótið byrjar með látum, ekki aðeins með fjörlegum, spennandi og skemmtilegum leikjum, heldur líka með nógum deiluefnum til að rífast um, svo sem vafasömum vítaspyrnum.
Sumir sakna þess að nýja tæknin varðandi það hvort boltinn fer inn fyrir marklínuna kemur í veg fyrir að eilífðardeiluefni eins og markið, sem sneri úrslitaleiknum á HM 1966 Englendingum í vil, hafi verið löglegt eða ekki.
En nú þegar hafa dómararnir á HM í Brasilíu séð til þess að þeir geti jafnvel orðið aðalmennirnir í sumum leikjunum.
![]() |
Dómararnir stálu senunni í sigri Mexíkó |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.6.2014 | 20:08
Leikir - en brauðið vantar.
Rómversku keisararnir höfðu að leiðarljósi aðferðina "brauð og leikir" til að viðhalda stöðugleika og völdum.
Herferðir þeirra, svo sem til Egyptalands, voru farnar til að tryggja að nægilega mikið af korni væri til í Róm.
Colosseum og stórbrotnar sýningar þar voru til þess að lýðurinn gæti drepið tímann og gleymt sér við að horfa á spennu og trylling í blóðugum bardagasenum, sem jafngiltu knattspyrnleikjum og bíósýningum nútímans.
Knattspyrnan er dæmi um íþrótt sem virkar eins og segull á fólk af öllum stigum, allt frá götubörnum stórborga þriðja heimsins til ríkustu þjóðfélagshópanna í öflugustu ríkjum heims.
Hún er dæmigerð fyrir "leiki" rómversku keisaranna og sameinar oft ólíka þjóðfélagshópa í löndum, þar sem ríkir mikil óánægja með sárt misrétti, örbirgð og sult.
En rómversku keisararnir stóðu að því leyti framar ýmsum valdhöfum nútímans að hinum síðarnefndu hefur allt of oft mistekist að tryggja öllum þegnunum ígildi brauðsins hjá Rómverjum.
Og í nútíma þjóðfélagi er það fleira en fæða, sem telst nauðsyn fyrir alla. Heilbrigðisþjónusta, mannsæmandi húsnæði og lágmarks menntun eru líka hluti af því sem svo sárlega vantar í mörgum löndum eins og Brasilíu.
Þegar við bætist að í krafti auðlinda, stærðar og mannfjölda ætti Brasilía að geta staðið mun betur að vígi en raun ber vitni er skiljanlegt að ólga ríki í landinu, jafnvel þótt stærstu leikar ársins fari þar fram.
Einmitt núna voru Hollendingar að komast yfir á móti Spánverjum og þá gleymist margt á meðan. En enginn svangur fátæklingur verður saddur af því.
![]() |
Myndin sem segir allt sem segja þarf |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
13.6.2014 | 11:07
Margt enn óskýrt um vitneskju og hugarfar víkinga.
Eldgosið í Eldgjá 934 var stærsta eldgos á sögulegum tíma en ekki Skaftáreldarnir 1783. Þess vegna hefur mér lengi fundist einkennilegt að það skyldi ekki rata á síður sagnabókmennta okkar.
Og þegar eldarnir á Hellisheiði árið 1000 eða 999 eru skoðaðir er óvíst að þeirra hefði verið getið nema vegna þess að þeir voru uppi kristnitökuárið og komu því óbeint við sögu varðandi ummæli Snorra goða á Alþingi.
Ég er ekki viss um að landnámsmenn hafi ekkert vitað um eldgos. Margt af því sem var á seyði á þeim tíma í veröldinni hefur verið sýnt fram á að hafi átt uppruna allt austur til Indlands, þ. e. svonefnd minni, atriði í sögum sem ganga aftur og birtast að nýju í sögum síðari tíma.
Má þar nefna Njálsbrennu sem dæmi, en dæmin eru mun fleiri.
Ljóslega kemur fram í Landnámu og Íslendingasögunum að fornmenn voru uppteknir af sjálfum sér og sínum búksorgum en að mikilleikur landsins var algert aukaatriði.
Besta dæmið eru ummæli Gunnars á Hlíðarenda um fegurð Fljótshlíðar, sem hann útskýrir með lýsingu á bleikum ökrum og slegnum túnum.
Og fylgdarmenn Ingólfs Arnarsonar eru látnir harma það að til lítils hafi verið riðið um blómleg héruð áður en hann settist að í Reykjavík. Allt metið á mælikvarða jarðargróða.
Raunar má færa skýr rök að því að Ingólfur hafi ekki riðið um hin blómlegu héruð fyrr en eftir að hann hafði valið sér Reykjavík á fyrsta staðnum á ströndinni þar sem voru góð hafnarskilyrði og aðstæður allar sem líkastar því sem er í Dalsfirði í Noregi.
Við flæðarmál í Reykjavík varpaði hann öndvegissúlum sínum, heimilisvættum, fyrir borð og lét þær reka upp í fjöruna þar sem haldin var landnámsathöfn til sátta við landvætti.
Hefur séra Þórir Stephensein fært að þessu góð rök. Vegna hafstrauma gat súlurnar alls ekki hafa rekið fyrir Reykjanes inn til Reykjavíkur.
Kögunarhóll við Ingólfsfjall hefur líkast til heitið Inghóll í öndverðu og fjallið dregið nafn af því, Inghólsfjall, sem síðar breyttist í Ingólfsfjall. Hóllinn sá gerir fjallið ólíkt öllum öðrum á Suðurlandi.
Hafi svipað fyrirbæri verið við Ingólfshöfða, sem sjór hefur síðan eytt, gæti hann hafa heitið Inghólshöfði í öndverðu.
![]() |
Voru víkingar hræddir við eldgos? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
13.6.2014 | 10:46
23 leikmenn á vellinum.
Japanski dómarinn, sem dæmdi opnunarleik HM, var mannlegur þegar hann lét bugast gagnvart einstæðri stemmingu á troðfullum heimavelli þjóðar, sem lítur á úrslitaleik HM 1950 sem þjóðarharmleik sinn.
En þótt viðbrögð hans væru mannleg voru þau ekki stórmannleg.
Vissulega var axlarsnerting leikmannana tveggja í vítateignum staðreynd, en þó ekkert umfram það sem eðlilegt má teljast, og alls ekki var um ólöglegt peysutog að ræða.
En leikaraskapurinn, sem menn fá að komast upp með, að láta sig detta hvenær sem þeim sýnist það geta haft áhrif á leikinn, er hvimleiður.
Fílhraustur og þrautþjálfaður afreksmaður hrynur ekki niður við litla og skammvinna snertingu.
Ef eitthvað var átti dómarinn frekar að gefa honum gult spjald en að verðlauna hann með vítaspyrnu á mótherjann.
Dómarinn reyndi að gera sitt besta og tókst það yfirleitt, en maður hafði það samt allan tímann á tilfinningunni að hann væri það sem kallað er heimadómari, 23. maðurinn á vellinum.
Það bjargaði leiknum að Oscar, besti maður leiksins, skoraði 3ja mark Brassanna, en það mark og fyrra mark Neymars voru dæmi um muninn á knattspyrnusnillingum og góðum knattspyrnumönnum.
Þegar lið hefur slíka menn innanborðs er erfitt að deila um leikslok.
![]() |
Japanski dómarinn fær að heyra það |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.6.2014 | 22:10
Gefur tóninn fyrir gott HM.
Opnunarleikurinn á HM var skemmtilegur og spennandi lengst af og gefur góðar vonir um gott mót.
Króatar sýndu í þessum leik hvers vegna þeir slógu Íslendingar út úr undankeppninni, því að þeir áttu á stórum köflum alveg eins mikið og Brassarnir í leiknum.
Brassarnir voru seinir í gang og með því að skora sjálfsmark galopnuðu þeir leikinn.
Meistaraheppni var með Brössum og vítaspyrnudómurinn var að mínu mati rangur og slæmt þegar leikaraskapur blekkir reynda dómara.
Snertingin, sem dæmt var fyrir, var ekki þess eðlis að maður þyrfti að falla við hana og augljóslega ekki peysutog.
Neymar var heppinn að skora úr lélegra skoti en oftast sést frá honum í vítaspyrnum.
En ef annað liðið átti að vinna á annað borð voru það þó Brassarnir.
Króatarnir voru það góðir að það væri synd ef þeir komast ekki áfram.
![]() |
Neymar með tvö í opnunarleiknum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)