10.3.2014 | 01:20
Afsprengi sovétkerfisins rísa gegn því.
Á tímum Sovétríkjanna sálugu framleiddi ríkiskerfið afreksfólk í íþróttum á skipulegan hátt. Leitað var að hæfileikum meðal barna og þau "prógrammeruð" til þess að verða afreksfólk, sem varpaði ljóma á Sovétríkin um allan heim í áróðurstríðinu, sem þá geysaði um þjóðfélagsskipan.
Hér á Íslandi eru tveir tónlistarsnillingar, sem teknir voru sem börn í Eistlandi og alin skipulega upp til að verða undrabörn.
Þeir fengu óbeit á þessu og una sér vel í frelsinu í Þingeyjarsýslu sem leiðbeinendur og tónlistarmenn.
Rússneska fimleikakonan Olga Korbut og hin rúmenska Nadia Comanechi lýstu því vel um síðir hvernig þær voru meðhöndlaðar eins og í þrælabúðum til að verða að alheimsstjörnum.
En þessi framleiðsla á stórstjörnum hefur í sumum tilfellum reynst vera tvíbent og snúist í höndum valdamanna.
Þannig flýði píanósnillingurinn Vladimir Askenazy til Vesturlanda og kom Ísland þar við sögu.
Hann, Garry Kasparov skáksnillingur og Vitaly Klitschko fyrrum yfirburðamaður og heimsmeistri í þungavigt í hnefaleikum, eru dæmi um afburðamenn sem hafa snúist gegn spilltum valdhöfum í fyrrum Sovétlýðveldum.
Hefur slíkt stundum verið orðað á þann hátt að segja að skepnan hafi risið gegn skapara sínum.
Þessir menn hafa komið valdhöfunum eystra í bobba, því að á sama hátt og allt hugsanlegt var gert fyrir þá til að gera þá að yfirburðaíþróttafólki, er erfitt að fara að snúa þessu alveg við.
Það er fallegt hjá Kasparov að sýna Bobby Fisher heiður, því að slíkt var ekki sjálfgefið. Á síðari árum var það margt miður fallegt sem Fisher hélt fram og sagði, en hitt verður þó ekki af honum tekið, að þegar hann stóð á hátindi getu sinnar, var hann hugsanlega öflugasti skákmaður allra tíma eða að minnsta kosti jafnoki Kasparovs þegar hann stóð á sínum hátindi.
Og á þessum blómatíma sínum bauð Fisher hinu mikla veldi Sovétríkjanna á sviði skákarinnar byrginn, nánast einn síns liðs.
Kasparov er því að heiðra fyrirrennara sinn í því að hræðast ekki hið mikla vald, heldur skora það á hólm.
Ég hef dáðst að framgöngu Vitalys Klitschko í Ukraínu, einkum vegna þess, að hann er ekki aðeins óhræddur við að ganga á hólm við spillt vald, heldur ekki síður óhræddur við að standa gegn ofstopamönnum í röðum stjórnarandstæðinga.
Hann og bróðir hans Wladimir, tveir langbestu þungavigtarboxarar heims síðustu tíu ára, hafa vakið aðdáun fyrir vitsmuni og menntun og bæði andlegt og líkamlegt atgerfi.
Þessir menn taka áhættu, sem þeir hefðu ósköp vel getað leitt hjá sér að taka með því að hvíla sig á lárviðarsveigum afreka sinna í staðinn.
Þeir vita hins vegar af því hve dýrmætu hlutverki þeir geta gegnt umfram marga aðra, því að jafnvel spilltir og valdamiklir menn hika við að ráðast að þeim vegna þess ljóma sem um þá leikur.
![]() |
Kasparov fór að leiði Fischers |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.3.2014 | 14:40
Hvaða þjóð gæti gert innrás í Noreg úr norðri?
Að æfa hernað er líkt því að æfa sig í skák. Það verður að æfa sig í að verjast en einnig að æfa sig í að sækja. Hvað hernaðarumsvif varðar er það galli, að heræfingar og gerð hernaðaráætlana geta haft ýmis áhrif á ástandið á viðkomandi svæði og skapað tortryggni og ýfingar.
Bandamenn í Seinni heimstyrjöldinni lærðu það af aðdraganda þeirra, að viðleitnig þeirra til að friðþægja mesta ofstopamanni seinni tíma höfðu þveröfug áhrif, espuðu hann aðeins til að taka áhættu í útþenslustefnu sinni.
Frakkar og Bretar höfðu til dæmis enga innrásaráætlun inn í Þýskaland tilbúna þegar Hitler tók Pólland og gat rúllað yfir það á mettíma. Þeir vanræktu líka smíði sprengjuflugvéla af ótta við að Hitler myndi túlka það sem ögrun og reyndu frekar að framleiða orrustuvélar sem varnartæki.
Það kom sér reyndar vel í orrustunni um Bretland, en þá var Frakkland líka fallið.
Hinn grimmi veruleiki hernaðarlegs valdatafls á friðartímum er óþægilegur getur út af fyrir sig aukið ýfingar og stríðshættu.
Heræfing til að æfa viðbrögð við óvæntri innrás inn í Norður-Noreg beinist augljóslega að Rússum. Varla myndu Kínverjar gera þar innrás eða hvað?
Ráðamenn heims í stjórnmálum og hernaði æfa sig svipað og skákmenn, sem liggja yfir sóknar- og varnaráætlunum og afbrigðum með ýmsum nöfnum eins og Sikileyjarvörn og Gambítur.
Munurinn á þeirri refskák og skákíþróttinni, þar sem tveim menn sitja í friðsemd við skákborð, er hins vegar sá, að allt vopnaskak veldur óróa og tortryggni.
Jafnframt því sem ís bráðnar í Íshafinu myndast þar ákveðin óvissa og tómarúm sem stórveldin reyna að sækja inn í.
Friði í Evrópu virðíst því helst ógnað á útjöðrum hennar í norðri og þó einkum í suðaustri, þar sem liggja olíurík fyrrum Sovétlýðveldi.
Þess vegna sækjast öll helstu stórveldi heims eftir því að komast þar til sem mestra áhrifa og valda og að því leyti eru Krímdeilan og fleiri upprennandi átakamál á því svæði engin tilviljun.
![]() |
16.000 hermenn við æfingar í Noregi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
9.3.2014 | 02:41
Tvennt ólíkt, óbreyttur jepplingur eða jöklajeppi.
"Jepp..". Töfraorð í huga margra, hvort sem um er að ræða jeppa, jeppling eða jöklajeppa.
En munurinn á annars vegar jöklajeppa, sem hægt er að aka um jökla og snævi þakið land á djúpum snjó, - og hins vegar óbreyttum jepplingi eða jeppa, er grundvallarmunur, sem margir gera sér ekki gein fyrir, blindaðir af töfraljóma orðsins "jeppi".
Margir jepplingar og jafnvel bílar sem kallaðir eru jeppar síga svo niður þegar þeir eru hlaðnir, að veghæðin getur farið niður í 10 sentimetra.
Í slíku ástandi eru þeir jafnvel lakari til aksturs um torfæra vegi en létthlaðnir fólksbílar með drifi á öllum hjólum.
Þetta verður fólk að hafa í huga þegar það metur möguleikana á því að fara um torfæra vegi, hvort sem þeir eru erfiðir vegna snævar eða af öðrum orsökum.
Raunveruleg veghæð í hverju tilfelli skiptir miklu máli, en þegar um snjó er að ræða skiptir flot dekkjanna sköpum.
Ég hef búið til formúlu um stærð spors dekkja af mismunandi stærðum sem er svona, og tek þá 35 tommu dekk sem dæmi:
Ytra þvermál dekks (35) x breidd (12,5) x hæð frá jörðu upp í felgu (10) x 0,28 = 1220.
Ef viðkomandi jeppi er 1220 kíló má túlka flotgetu hans á 35 tommu dekkjum sem 100% flotgetu, og hægt að reikna flotgetuna betur út með því að bera hana saman við raunverulega tómaþyngd.
Flotgetan má helst ekki vera lægri en 75% til þess að hægt sé að treysta bílnum sæmilega örugglega í akstur á djúpri snjóþekju.
Samkvæmt formúlu minni er flotgeta algengustu dekkja eftirfarandi. Fyrir aftan er þyngd bíls með 75% flotgetu og nefndir nokkrir bílar sem dæmi.
30 x 9,5 x 15 tommur = 600 kíló.
31 x 10,5 x 15 " = 730 973 Léttustu Suzuki Fox
32 x 11,5 x 15 " = 890 1190 T. d. Suzuki Fox
33 x 12,5 x 15 " = 1040 1390 " Suzuki Vitara, Feroza
35 x 12,5 x 15 " = 1220 1630 " Gamall Willys eða stuttur gamall Pajero.
36 x 14,5 x 15 " 1535 2050 " Eldri gerðir Hi-lux, 4Runner og minni pallbíla
38 x 15,5 x 15 1900 2530 Gamlir og nýir léttir pallbilar,
44 x 18,5 x 15 3305 4400 Allir nema allra stærstu jöklajeppar.
(Aths. 44 tommu dekkin eru ekki radialdekk og úrhleyping niður fyrir 3 pund nýtist ekki vel vegna aflögunar)
Set hér inn myndir af tveimur jöklajeppum sem dæmi um ólíka bíla sem báðir hafa verið notaðir í í margra daga ferðum á Vatnajökli og þar hefur formúlan um flotgetu jeppa sannað gildi sitt.
Annars vegar er minnsti jöklajeppi landsins, Suzuki Fox ´86 á 32ja tommu dekkjum og hins vegar Range Rover árg. 73 á 38 tommu dekkjum.
Foxinn er 940 kíló en Range Roverinn er 2100 kíló en flotgetan er samt álíka mikil.
Hjá Foxinum: 890 kílóa flot, 940 kílóa þyngd = 94,7% flotgeta.
Hjá Range Rover: 1900 kílóa flot, 2100 kíló þyngd = 90,5% flotgeta, minni en hjá Foxinum !
En þess ber að geta að hlutfallslega vegur þyngd hvers manns tvöfalt meira í Foxinum en Range Rovernum, enda hef ég aðeins notað Foxinn einn um borð, en gríp í Range Roverinn ef fleiri eru um borð og aðstæður kalla á stærri bíl.
P. S. Sjá nokkrar fleiri myndir á facebook-síðunni minni.
![]() |
Í forgangsakstri yfir lokaða heiðina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.3.2014 | 22:12
Frændþjóðunum til sóma.
Íslendingurinn Gunnar Nelson og Svíinn Alexander Gustavsson voru frændþjóðunm Íslendingum og Svíum til sóma í stórkostlegum bardögum frammi fyrir smekkfullum risaleikvangi í London.
Báðir áttu í höggi við stórhættulega rotara og unnu báðir á þann hátt sem lýsa má með bandaríska máltækinu "to beat them at their own game", koma þeim á óvart og fella þá á eigin bragði.
Báðir andstæðingarnir fengu aldrei ráðrúm til að nota sína eftirlætis bardagaaðferð.
Gunnar byrjaði að venju með sinni óvenjulegu hugarró og einbeitingu, hafði lag á að "skera hringinn", þ. e. að koma andstæðingnum út úr miðjunni og upp að hringnetinu, tók sér góðan tíma, beið rólega eftir því að Omari gæfi "opnun", og hana nýtti Gunnar sér meistaralega, kom frábæru beinu höggi á Rússann og í framhaldinu kom hann honum niður í gólfið þar sem Gunnar sýndi allar sínar bestu hliðar.
Alexander Gustavsson átti í aðalbardaga kvöldsins höggi við jafnvel enn hættulegri og skelfilega vöðvamassaðan andstæðing, frægan fyrir höggþunga og rothögg og ósigrandi fram að þessu.
Sallarólegur gekk Svíinn til leiksins og fjótlega sást, að hann lumaði á leynivopni, skæðu upphöggi, en gætti þess jafnframt vel að gefa hinum þunghögga mótherja ekki færi á sér.
Lokasókn Svíans var flott, byrjaði með truflandi upphöggi, sem hann fylgdi eftir þungum og hnitmiðuðum höggum og kom sér í færi í þessari leiftursókn til að beita hrikalegu hné- upphöggi ásamt höggafléttu i beinu framhaldi sem fylgdi fórnarlambinu alveg í gólfið.
Skynsemi, útsjónarsemi, markviss þjálfun og undirbúningur, úthugsuð bardagaáætlun byggð á nákvæmri greiningu á andstæðingnum og sjálfum sér, hugarró og yfirvegun hinna ljósleitu "frænda" var til sóma í kvöld. Til hamingju, Gunnar!
![]() |
Gunnar vann í fyrstu lotu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
8.3.2014 | 18:54
"Á Íslandi við getum verið kóngar allir hreint!.."
Ofangreind setning er einhver hin vinsælasta sem sungin hefur verið á Íslandi og þjónaði sínu hlutverki vel í þorskastríðunum.
Því miöur hefur hún verið ofnotuð eins og samtalið við óánægða vegfarandann vegna lokunar Hellisheiðar ber með sér.
Vegfarandinn virðist gefa sér það að hann verði fljótari yfir ófæra Hellisheiði heldur en um Þrengslin.
Dæmin um svona lagað hér á landi nema þúsundum í gegnum tíðina, stór og smá.
Og eitt og eitt hrun, stórt eða smátt eftir atvikum, virðist ekki breyta því.
![]() |
Alltaf sama ruglið í löggunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
8.3.2014 | 15:12
Þarf ekki ölvun til ?
Ölvaðir ökumenn taka upp á mörgu, til dæmis þessi sem ók á móti umferðinni á Hringbraut í nótt.
En stundum virðist ekki þurfa ölvaða til. Í fyrradag var ég á leið norður Snorrabraut og ætlaði að beygja til vinstri niður Hverfisgötu. Það var hins vegar ekki hægt því að bílar á leið austur Hverfisgötu voru á báðum akreinum og biðu við umferðarljósin, og hinn síðasti þeirra kom að gatnamótunum þegar ég var að leggja af stað frá þeim áleiðis nður Hverfisgötu.
Nýlega var Hverfisgatan opnuð alla leið eftir gagngerar breytingar og það fyrsta sem manni datt í hug var að hugsanlega væri búið að gera hana að einstefnuakstursgötu. Vildi því fara að öllu með gát.
Sá samt að ör vísaði mér veginn beint framan á bílinn sem beið hægra megin framundan.
En ekkert var hægt að gera í málinu og varð nú umferðarteppa á gatnamótunum, því að nú var ég orðinn að farartálma þar sem ég stóð kominn áleiðis í beygjunni.
Á móti mér komu bílar sem ég var nú í vegi fyrir og ég sá því ekkert annað ráð en að bakka rólega til baka og olli með því annarri umferðarteppu fyrir aftan mig þar.
Ökumaðurinn, sem sneri bíl sínum á móti umferðarstefnnunni á Hverfisgötu virtist hins vegar sallarólegur og ekkert skilja í því öngþveiti sem hann hafði valdið.
Þegar hann loksins ók af stað og gatnamótin opnuðust sá ég að hann virtist vera einn af þessum gömlu mönnum, sem eru orðnir ófærir um að aka bíl. Kannski röng ályktun, en það er synd hve lengi sumir komast upp með slíkt, því að því fer fjarri að aldurinn einn skipti máli hjá ökumönnum.
Til eru níræðir ökumenn sem eru í fullu fjöri og til dæmis efast ég ekki um að Magnús Norðdal fyrrum flugstjóri, sem verið hefur besti listflugmaður landsins fram á níræðisaldur sé ekki síðri meistaraökumaður en flugmaður.
Ég veit mörg dæmi þess að ökumenn hafi lötrað niður neðstu beygjuna á Kömbunum í þurru og björtu veðri á 40 kílómetra hraða, haldandi sig kyrfilega inn við miðju með langa röð bíla á eftir sér, að því er virðist vegna þess að þeir séu orðnir svo lélegir til aksturs, að þeir fyllist skelfingu við það eitt að sjá veginn ekki beinan fyrir framan sig.
![]() |
Ók ölvaður á móti umferð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.3.2014 | 09:27
Loksins "eðlilegur" vetur.
Eftir að austlægar vindáttir með nokkurn veginn sama veðurlaginu hafði ríkt á landinu í heila tvo mánuði, janúar og febrúar, lá fyrir Íslandsmet í þessu efni. Sömuleiðis lægsti meðalloftþrýstingur frá upphafi mælinga 1823.
Lágur loftþrýstingur á Norður-Atlantshafi er merki um eindæma hlýindi, enda var hitinn á Svalbarða hvorki meira né minna en allt að 14 stigum hærri en í meðalári.
Ég hef tekið eftir því í vetur að rússneski veturinn svonefndi hefur verið drepinn vikum saman og hitinn í Moskvu með rauðri tölu.
Tilbreytingarlítil stanslaus norðaustanátt í tvo mánðuði með einstæðum snjóþyngslum á Norðausturlandi en hitinn þar samt yfir meðallagi.
Ég heyri kvörtunarraddir yfir því að nú séu byrjaði umhleypingar með sveiflukenndum vindáttum.
Slíkar kvörtunarraddir bera vitni um mikið óraunsæi. Það er ekki hægt að ætlast til þess að íslenskt vetrarveður verði ólíkt sjálfu sér í meira en tvo heila mánuði í samfellu.
Það er loksins kominn "eðlilegur" íslenskur vetur og ekkert við því að segja að hann ríki samfellt fram í júní. Við getum ekki óskað landinu okkar suður til Kanaríeyja.
Fyrir mig þýðir þetta daglegar ferðir, jafnvel tvisvar á dag, til að losa FRÚNa, jafnvel um hánótt eins og í nótt, moka af henni allt að hálfu tonni af snjó í senn, moka þeim snjó í burtu svo að hægt sé að snúa henni og binda hana niður aftur.
Afar slæmt fyrir bakið en mjög góð líkamsæfing, jafn á nóttu sem degi. Vetur konungur loksins orðinn líkur sjálfum sér hér á suðvesturhorninu.
![]() |
Versnandi veður þegar líður á daginn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
7.3.2014 | 22:04
Dýrmætt fyrir reynslubankann.
Eitt mikilvægasta verkefni ungs fólks er að reyna að horfa nógu langt fram í tímann þegar gerð eru mistök.
Mistök í upphafi ferils geta verið svo niðurdrepandi, af því að þau verða stór í huga þess sem gerir þau vegna þess hvað þau eru stór hluti af stuttri reynslu.
Þá er gott fyrir hinn unga eða hina ungu að hugsa um það, hve mistökin eiga eftir að verða hlutfallslega miklu minni í samanburði við heilan íþróttaferil upp á allt að 20 ár eftir atvikum heldur en þau eru eftir til dæmis tveggja ára feril.
Þar að auki eru mistök dýrmæt til að setja í reynslubankann.
Og enn má nefna það að mestu meistararnir eru það ekki endilega vegna þess að þeim gekk alltaf allt í haginn heldur enn frekar vegna þess hvernig þeir unnu úr mistökum og ósigrum.
Muhammad Ali tapaði þremur bardögum á þeim tíma ferils síns sem Parkinsonsjúkdómurinn hafði ekki haft veruleg áhrif á hann og í öll skiptin afskrifuðu flestir hann sem útbrunninn íþróttamann, enda var hann orðinn 36 ára þegar hann tapaði heimsmeistaratitlinum til Leon Spninks árið 1978 og þá voru liðin 18 ár síðan hann varð Ólympíumeistari og fór eftir það út í atvinnumennsku.
Þegar hann gekk á hólm við George Foreman 1974 höfðu aðstoðarmenn hans mestar áhyggjur af því að hann yrði fluttur af vettvangi stórslasaður í sjúkrabíl. Annað kom á daginn.
Aníta Hinriksdóttir er rétt að byrja feril, sem getur orðið sérlega glæstur og hún á alla möguleika og hefur langan tíma til að sanna að hún sé sannur meistari (champion) sem eflist við mótlætið.
![]() |
Aníta er mjög svekkt út í sjálfa sig |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.3.2014 | 16:31
Er hægt að leggja sjálfan sig í einelti?
Upp hafa komið raddir um það að undanförnu að fjölmiðlar og landsmenn leggi Vigdísi Hauksdóttur í einelti með sífelldum fréttaflutningi af ummælum hennar, gersamlega að ástæðulausu.
Þegar málið er skoðað nánar er þó varla hægt að komast hjá því að velta vöngum yfir því hvort hún sé ekki að leggja sig í einelti sjálf, því að varla líður svo dagurinn sem hún segir ekki eitthvað ssvo dæmalaust og hliðstætt hefur varla heyrst áður.
Að minnsta kosti hef ég aldrei áður heyrt það að á vinnustaðnum Alþingi hafi bæði þingmenn og starfsfólk hér áður fyrr litið svo stórt á Alþingismenn að starfsfólkið leggði ekki í það að dirfast að ávarpa þessa háu, næstum guðum líka herra, hvað þá alþingiskonurnar, drottningum líkar að tign.
Lýsing Vigdísar á hinum horfnu dýrðardögum takmarkalausrar aðdáunar venjulegs fólks á þingmönnum, fær mann til að lygna augum og sjá fyrir sér starfsfólkið þar fá í hnén og vera á barmi yfirliðs þegar hátignirnar voru í nánd.
Og síðan klykkir Vígdís út með því að segja að mikil eftirsjá sé að þessu ástandi á þinginu.
Það virðist hafa verið þar gríðarleg gjá milli þings og þjóðar samkvæmt þessari lýsingu hennar sem Birkir Jón Jónsson samflokksmaður hennar segir ekki í neinu samræmi við sína upplifun af þessum vinnustað, þar sem maður hélt að starfsmenn væru í vinnu hjá þjóðinni.
Þessi ummæli eru þeim mun athyglisverðari að 17. júní hélt forsætisráðherra ræðu rétt fyrir utan þinghúsið þar sem hann mærði hinn sérstaklega litla stéttamun sem hefði löngum verið á Íslandi.
Bara þetta mikla ósamræmi gefur tilefni til umræðna án þess að þeir sem um það ræða séu vændir um einelti á hendur Vígdísi.
![]() |
Ósáttur við ummæli Vigdísar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
7.3.2014 | 07:55
Enn er von um skynsamlega lausn.
Með nýju hverfi við Hlíðarenda verður varabraut Reykjavíkurfluvallar að vísu lokað. Hún er hins vegar það lítið notuð, en samt á afar mikilvægum dögum, að verði látið staðar numið nú, er áfram möguleiki á að nota hana eða örlítið skekkta braut við lendingar til suðvesturs þannig að hún endi nokkurn veginn þar sem oliustöð hefur verið við enda hennar, enda þyrfti þá að rífa .
Miðað við að völlurinn hefur verið þarna í rúm 70 ár er furðulegur sá asi sem er á mönnum við að raska stórlega við umhverfi hans í stað þess að bíða eftir því að nefnd undir forsæti Rögnu Árnadóttur ljúki starfi sínu.
Ef brautin yrði endurbætt, þá þyrfti að lengja hana til suðvesturs um minnsta kosti 300 metra vegna þeirrar hindrunar, sem fyrirhuguð húsabyggð við norðausturenda hennar mun skapa.
Ennfremur er enn opinn möguleiki til að gera nýja norður-suðurbraut sem myndi lagfæra þann annmarka flugvallarins að hornið á milli núverandi norður-suðurbrautar og austur-vesturbrautarinnar er of stórt í suðvesturátt og þess vegna hefur verið þörf á litlu varabrautinni.
Frumskilyrði við að breyta flugvellinum í betra horf og gera hann öruggari og stuðla að minni hávaða af honum, en jafnframt að losa byggingarland ef það yrði lokalausnin, er að lengja austur-vesturbrautina til vesturs og gera hana að aðalflugbraut vallarins.
Það þarf að halda vökunni í þessu máli, því að fyrirætlanirnar um að gera nýtt hverfi þar sem suðvesturendi núverandi varabrautar er, mun eyðileggja alla möguleika á því að nefnd undir forystu Rögnu Árnadóttur hafi nauðsynlega valmöguleika í hendi og verða brot á því samkomulagi sem fólst í skipun hennar.
Þess vegna er full ástæða til að halda vöku í flugvallarmálinu.
![]() |
Borgin hafi reynst úlfur í sauðargæru |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 8.3.2014 kl. 14:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)