11.1.2014 | 18:16
Þegar fanginn skrapp örsnöggt eftir boltanum.
Það vekur athygli að lesa það sem sérstaka frétt árið 2014 að gera þurfi mannheldar girðingar í kringum ríkisfangelsi Íslands. Ráðamenn landsins hafa haft allan tímann frá byggingu fangelsins, sem nú er stjórnarráðshús, til þess að láta verða af þessu og varla seinna vænna 250 árum síðar en að fara að drífa í þessu.
Þetta vekur upp minningu um einstakan atburð á þeim tíma hópur þjóðþekktra manna með Hemma Gunn og Halldór Einarsson sem helstu forsprakka fór árlega á Hraunið til að spila vináttuleik í knattspyrnu við fangana.
Árum saman unnum við gestirnir knáu fangana auðveldlega. En eitt árið brá svo við, að í leiknum snerist allt við. Fangarnir voru svo miklu betri en við og í allt öðru og miklu betra líkamlegu formi en áður.
Þeim var auk þess stjórnað með harðri hendi og járnaga af leðurklæddum fanga, sem var í svörtum pönkaraklæðnaði með hanakamb, hringi og allt tilheyrandi.
Fangavörður, sem horfði á leikinn, sagði mér að þessi fangi hefði hrifið alla samfanga sína með sér í að byggja sig upp með hörðum líkamsæfingum, þar sem kraftur, snerpa og úthald skiluðu sér.
Og það blasti svo sannarlega við í þessum leik þar sem við fórum hinar herfilegustu hrakfarir.
Henson hafði tekið með sér bandarískan vin sinn sem horfði agndofa á leikinn.
Þegar Henson fékk boltann eitt sinn í sæmilegu færi, ætlaði hann að reyna að minnka muninn og negldi tuðruna af öllu sínu þekkta afli svo úr var þrumskot, en því miður var skotið of hátt og boltinn fór í háum boga út fyrir fangelsisgirðinguna.
Þá brá hanakambspönkarinn svartklæddi hart við, hljóp eins og eldibrandur að girðingunni, klifraði fljótar en köttur yfir hana, tók boltann, sparkaði honum til baka inn á völlinn þar sem leikurinn hófst samstundis að nýju, - en pönkaratöffarinn var kominn til baka yfir girðinguna á nokkrum sekúndum og stóð grafkyrr á sama stað og fyrr án þess að blása úr nös !
Þetta gerðist svo hratt og óvænt, að tveir fangaverðir, sem þarna voru, áttuðu sig ekki á því fyrr en gaurinn var kominn til baka og of seint að gera neitt í málinu enda leikurinn hafinn að nýju.
Bandaríski gesturinn átti ekki orð af undrun og trúði varla sínum eigin augum. Stundi bara upp að það væri ekki ofsögum sagt að Ísland og Íslendingar ættu sér enga hliðstæðu í veröldinni.
Hafði reyndar heyrt af því áður, að fulltrúar frá Amnesty International hefði nokkrum árum fyrr valið tvo fanga í slembiúrtaki til þess að heimsækja í Íslandsferð og sjá hvernig aðbúnaður þeirra væri.
Þegar þeir komu austur á Litla-Hraun gripu þeir í tómt. Annar fanginn hafði fengið leyfi til náms í skóla og var í prófi, en hinn hafði fengið leyfi til að skreppa í bíó.
![]() |
Öryggi hert á Litla-Hrauni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.1.2014 | 14:25
Ahyglisverður snjómokstur.
Síðan í desemberbyrjun hefur verið talsvert um það að snjóað hafi hér syðra og þurft að moka snjó.
Einn slíkur dagur var í gær þegar snjóaði fram yfir miðnætti.
Um eittleytið fór ég því út til snjómokstrar og tók þá meðfylgjandi myndir.
Fyrst þurfti að moka af bílum en síðan að fara vestur á flugvöll til að moka af FRÚnni, sem stendur þar yfir háveturinn eftir að hafa verið samfellt fyrir austan Fjall í bráðum fjögur ár.
Það var 10 til 12 sentimetra snjólag á bílunum og á jörðinni hér uppi í Spönginni og ég var því undir það búinn að snjómoksturinn gæti orðið drjúgur og seinlegur af flugvélinni, en á henni þarf að hreinsa um 20 fermetra.
En í staðinn kom í ljós að aðeins var þunnt skæni á vélinni og í kringum hana, eins og sést á meðfylgjandi mynd, sem ég tók áður en ég fór í það að skafa af henni.
Það tók aðeins stutta stund og brot af þeim tíma sem ég hafði búið mig undir að eyða í verkið.
Svipað hefur verið uppi á teningnum oftar í vetur og rímar vel við tölur um hita og úrkomu á höfuðborgarsvæðinu, sem eru mjög athyglisverðar og margir gera sér áreiðanlega ekki grein fyrir.
Eftir að ég flutti frá Háaleitisbraut upp í Grafarvogshverfi hefur sú staðreynd hvað eftir annað blasað við að mun meiri úrkoma er á höfuðborgarsvæðinu eftir því sem austar dregur.
Þannig er talsvert meiri ársúrkoma í Elliðaárstöð en á Öskjuhlíð, meiri úrkoma í Hafnarfirði en í vesturhluta Reykjavíkur og miklu meiri úrkoma á Sandskeiði og í Kaldárseli en Ártúnshverfi eða Hafnarfirði.
Margir þekkja hve munurinn á veðri getur verið mikill á leiðinni frá Umferðarmiðstöðinni upp að Litlu Kaffistofu, enda er úrkoman í Bláfjöllum fjórum til fimm sinnum meiri en í Reykjavík.
Eftir flug yfir Hólmsheiði og nágrenni í þúsundir skipta í hálfa öld er það ljóst fyrir mér að flugskilyrði þar uppfrá í 150 metra hæð yfir sjó og helmingi nær Reykjanesfjallgarðinum en núverandi völlur er, eru miklu lakari en á núverandi vallarstæði.
Heiðin liggur 100 metrum hærra en Spöngin og er austar.
Þar er ekki aðeins um ræða mun á úrkomu heldur einnig hitamun vegna hæðar yfir sjó og einnig misvindi og sviptivinda í aðflugi og í lendingu vegna meiri nálægðar við fjöll.
Fyrir 55 árum höfðu sumir augastað á Kapelluhrauni sem flugvelli, en sá staður er mun nær Reykjanesfjallgarðinum en Vatnsmýrin.
Agnar Koefoed-Hansen vissi vel að hvöss suðaustanátt, sem langalgengasta hvassa vindáttin við sunnanverðan Faxaflóa, gerði aðflug að austur-vesturbraut núverandi vallar oft nokkuð erfitt alveg framundir það að lent var.
Í einu slíku veðri bauð hann Flugráði og fleiri áhugamönnum um flugvöll í Kapelluhrauni í flugferð og minnir mig að Jóhannes Snorrason hafi verið flugstjóri.
Fyrst var gert aðflug að austur-vesturbrautinni og farþegar kynntust ókyrrðinni þar en síðan var farið suður að Straumsvík og gert aðflug að hugsanlegri braut í Kapelluhrauni.
Er skemmst frá því að segja að í því aðflugi var svo mikil ókyrrð að augljóst var að lending myndi ekki heppnast á braut, sem hugsanlega væri þar.
Skelfingu lostnir og ælandi farþegar voru þeirri stund fegnastir þegar lent var á Reykjavíkurflugvelli og Kapelluhraun tekið út af dagskrá næstu 35 árin, eða þangað til ný kynslóð áhugamanna um flugvöll þar var komin á kreik sem ekki hafði reynt á eigin skinni það sem prófað var forðum á tíð Agnars Koefoed-Hansens og Jóhannesar Snorrasonar.
Þess má geta að aðflug að núverandi austur-vesturbraut á Reykjavíkurflugvelli liggur allt yfir sjó en sams konar aðflug á hugsanlegum flugvelli á Hólmsheiði liggur yfir Vogahverfið, Grafarvog og Grafarholtshverfi.
![]() |
Hálkuslys við gatnamót |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)
10.1.2014 | 23:42
Tveir einstakir menn, Jónas og Kristinn.
Fyrir um aldarfjórðungi fórum við fjórir, ég, Haukur Heiðar Ingólfsson, Kristinn Sigmundsson og Jónas Ingimundarson í ferð festur á Snæfellsnes til að skemmta þar. Gott ef þetta var ekki 1. maí og á slíkum samkomum töluðu oft ræðumenn að sunnan, sem kannski er ekki hægt að skilgreina sem skemmtikrafta en verða oft samferða.
Mig minnir að Sigríður Dúna Kristmundsdóttir hafi verið ræðumaður og orðið okkur samferða til Reykjavíkur.
Skemmst er frá því að segja að að hundruðum annarra ferðafélaga ólöstuðum um ævina, Sumargleðin meðtalin, voru þessari ferðafélagar þeir skemmtilegust sem ég minnist að hafa fengið að ferðast með á þúsundum slíkra ferðalaga um landið.
Við bókstaflega lágum í hlátri alla bakaleiðina frá Ólafsvík til Reykjavíkur, og þá var farin 41 kílómetra lengri leið en nú, fyrir Hvalfjörðinn.
Kannski var þessi ferð svona einstök vegna þess, að það var ekki aðeins húmorinn og lífsgleðin sem þeir félagar miðluðu okkur hinum, heldur var unun að hlusta á hvernig þeir unnu saman á skemmtunum sjálfum sem söngvari og undirleikari.
Ekki gaf það minna af sér hve hógværir og yfirlætislausir þeir voru og eru, þessir ljúflingar og öðlingar.
Um listræna sköpun þeirra hefur oft átt við, að smáatriðin geta orðið stór, - og stundum á við erlenda orðtakið "less is more."
Ég skal nefna eitt lítið dæmi af ótal mörgum.
Hamraborgin er lag sem allir tenórar elska. Barítónbassar forðast að syngja hana, enda hái tónninn ekki eins hár hjá þeim og tenórunum. Þetta er bara fyrir tenóra, - eða hvað?
Nei, ef hlustað er á flutning þeirra Kristins og Jónasar, kemur í ljós að hárfín nákvæmni og túlkun í smáu og stóru getur vegið þyngra en átök og tónhæð. Er ástæða til að fara yfir 5 metra í stangarstökki ef einhver annar fer yfir 6 metra?
Jú, vegna þess að svona lagað er ekki hægt að mæla í mælieiningum. Listræn túlkun og efnistök í list er ekki hægt að mæla í mælieiningum.
Þetta á svo sannarlega við um flutning þeirra á Hamraborginni. Ef ég ætti að velja hvaða útgáfu af þessu lagi ég vildi hlusta á, myndu þeir Kristinn og Jónas verða fyrir valinu að þeim Einari Kristjánssyni og Kristjáni Jóhannssyni ólöstuðum.
Eitt örlítið smáatriði í flutningnum á þessu lagi vegur afar þungt. Þegar komið er að þeim stað í laginu, þar sem næsta ljóðlína er "...Nóttinn logar af norðurljósum", sjálfur hápunktur lagsins, tekur píanóleikarinn "trillu" sem er nokkurs konar tilhlaup í hetjusönginn mikla.
Í flutningi allra annarra en Kristins og Jónasar er örstutt þögn á eftir línunni "...er blundað á rósum" sem píanóleikarinn endurtekur einn áður en ballið byrjar.
En þá kemur þessi undursnjalla snilld Jónasar til skjalanna: Hann lengir þessa örstuttu þögn hárfínt en þó um næstum helming.
Með því magnar hann spennuna í þögninni, logninu á undir storminum.
Í leikhúsinu er talað um "kúnstpásur" sem eru afar vandmeðfarið fyrirbæri, því að það þarf svo lítið til þess að þær verði ekki af réttri lengd, of langar eða of stuttar. Og síðan er auk þess spurningin hvort þær eigi viðí viðkomandi tilfelli.
"Kúnstpása" Jónasar er tær snilld að mínum dómi og hún er lykillinn að því að lokahnykkurinn á laginu magnast upp í hæstu hæðir þótt tónhæðin sé ekki sú sama og hjá hetjutenórunum.
Þetta er bara eitt af hundruð og þúsundum dæma um það hverju sannir listamenn og smekkmenn eins og Jónas og Kristinnn geta áorkað í túlkun sinni í smáu og stóru.
Afrek Jónasar síðustu 15 ár eru með hreinum ólíkindum og svo sannarlega ástæða til að óska honum til hamingju og velfarnaðar við að fagna 50 ára ferli sínum sem einn af helstu listamönnum þjóðarinnar.
Og ekki síður að þakka fyrir kynnin við hann og hið mikla framlag hans til íslenskrar tónlistar.
É
![]() |
Ítrekað á mörkum lífs og dauða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.1.2014 | 19:58
Ekki var Mitterand svona viðkvæmur.
Frakkar hafa löngum verið mun hispurslausari og hreinskilnari varðandi ástamál heldur en hinir oft hræsnisfullu Bandaríkjamenn.
Heldur finnst mér núverandi Frakklandsforseti vera viðkvæmari fyrir umtali um sín mál heldur en fyrirrennarar hans voru.
Það leiðir hugann að því þegar nýliði í blaðamannastétt ætlaði að nú sér í krassandi uppsláttarfrétt á blaðamannafundi með Mitterand.
Þetta var á níunda áratugnum þegar mál Clintons Bandaríkjaforseta settu allt í uppnám í Bandaríkjunum, en samsvarandi mál höfðu þá ekki orðið að umtalsefni í Frakklandi.
Ungi blaðamaðurinn hélt hins vegar að það yrði hægt að blása mál Mitterands eitthvað upp úr því að allt lék á reiðiskjálfi hinum megin Atlantshafsins og í öllum fjölmiðlum heimsins.
Á umræddum blaðamannafundi gengu spurningar og svör greiðlega, þannig að það kom fjótlega að unga blaðamanninum, sem spurði: "Er það rétt, herra forseti, að þú eigir þér hjákonu? "
"Já, það er rétt. Gjörið svo vel, næsta spurning." svaraði Mitterand. Málið dautt.
![]() |
Forsetinn á flandri að næturlagi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
10.1.2014 | 10:55
Misjafnlega erfitt að útskýra suma drauma.
Stundum hendir það fólk sem lýst er með orðunum "að dreyma fyrir daglátum."
Í nótt dreymdi mig að padda hefði borað sér inn í eyrnasnepilinn á mér og að ég yrði að ná henni út.
Svo vakna ég og sé núna á mbl.is frétt um að kakkalakki hafi komið sér fyrir í eyra Ástrala nokkurs og hann átt í erfiðleikum með að ná honum út.
Furðuleg tilviljun?
Ætli það sé ekki allur gangur á því?
Ólafur B. Guðnason, sem var spurningameistari í spurningaþáttum, sem ég var með, hafði að ég held litla trú á "hindurvitnum". Að minnsta kosti sýnist saga, sem hann sagði okkur þegar við ræddum þau mál, vísa til þess. Sagan er svona:
Kona nokkur sagðist vera skyggn og sjá fyrir óorðna hluti. Sem dæmi um það sagði hún frá draumi, sem hana dreymdi árið 1972 og hefði verið afar merkilegur. Konunni sagðist nokkurn vegina svona frá:
"Mig dreymdi að ég stæði niðri í fjöru við Þorlákshöfn og horfði út á hafið. Skyndilega sást risastórt höfuð koma upp úr sjónum og smám saman birtisti risastór kona, já, heilt kventröll, sem kom gangandi upp úr sjónum uns hún stóð í flæðarmálin og gnæfði ógnandi yfir mig.
Hún hvessti á mig augun og sagði svo hátt að næstum bergmálaði í fjöllunum: "Ragnar Arnalds!!!"
Og það var eins og við manninn mælt að ári síðar gaus í Heimaey! "
![]() |
Kakkalakki tók sér bólfestu í eyra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
9.1.2014 | 23:09
Gefandi kynni.
Sumarið, sem ég var með Andra Frey Viðarssyni í útvarpsþáttunum "Ómar og Andri á flandri" þar sem flækst var um allt land, var afar gefandi fyrir mig af því að það var svo skemmtilegt og hressandi að kynnast honum.
Það var hreinn unaður að vinna með honum, svo duglegur, útsjónarsamur og hugmyndaríkur var hann og með nýjustu tækni alveg á hreinu.
Ég hélt fyrst að Sigrún Stefánsdóttir, þáverandi dagskrárstjóri, væri að grínast þegar hún gaukaði að mér, gamalmenninu, hugmyndinni að þessum þætti með manni sem kom úr algerlega ólíku umhverfi, en þetta var alvara hjá henni.
Það var ekki hægt annað en að slá til og gera eitthvað alveg nýtt, sem maður hafði aldrei gert áður, og það í samstarfi við miklu yngri mann, sem gat verið barnabarn manns, og hafði fengið orð á sig fyrir að vera heldur betur krassandi útvarpsmaður.
Upphaflega vinnuheitið var "Afinn og strákurinn" en ég sá strax hvað hann var með heppilegt nafn til að láta það ríma á móti því sem við ætluðum að gera, að vera á flandri.
Við sungum meira að segja heilt lag saman undir þáttaheitinu og ég man varla eftir jafn mikilli færni hjá nokkrum öðrum við að spinna undirbúningslaust og fyrirvaralaust af fingrum fram.
Ef aldrei væri nein umræða eða skiptar skoðanir um útvarpsþáttagerð Andra Freys heldur bara lognmolla, væri eitthvað mikið að.
Aðall hans er hve hann er hreinn og beinn og hreinskiptinn og frjór í hugsun. Það hleypir nauðsýnlegu lífi í þættina. Ekki vegur það minna að hann er næstum því tónlistarnörd og alæta á því sviði með afar mikla þekkingu á léttri tónlist og breitt áhugasvið.
Ég komst að því að þegar hann var í plötusnúðabransanum hefði hann verið 4000 lög fyrirvaralaust á takteinum!
Gunna Dís var nákvæmlega rétta manneskjan til að vinna með Andra Frey og saman virka þau þannig á hlustendur að þau gætu verið í fjölskyldum þeirra allra. Það er ekki lítill kostur.
![]() |
Af hverju skiptiru þá ekki um stöð? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.1.2014 | 22:44
Hreindýrið að verða elgur Íslands.
Heimsfrægt varð fyrir 18 árum þegar tveir nýir bílar sem framleiða átti á vegum Mercedes Benz verksmiðjanna, Mercedes-Benz A og Smart, ultu í svonefndu"ellgsprófi" sænskra bílasérfræðinga.
Hönnuðir beggja bíla urðu að fara á handahlaupum að teikniborðunum og breyta þeim, svo að þeir stæðust prófið.
Til þess að þeir yltu ekki varð að breikka þá báða, sem var hálf afkáralegt á Smart, og lækka fjöðrunina og gera hana grynnri og harðari á báðum bílum, sem bitnaði svo á þægindum þeirra að það háði þeim alla tíð eftir það.
Báðir bílarnir voru með tvöfaldan botn sem gerði kleyft að hafa þá um hálfum metra styttri en ella og spara rými en viðhalda hins vegar fullu öryggi í árekstrum.
Fyrir bragðið sátu farþegarnir hátt og þyngdarpunkturinn varð það hár að þeir ultu í elgsprófinu.
Elgsprófið fólst í því að aka bílnum á þjóðvegahraða og líkja eftir því að elgur hlypi fyrirvaralaust inn á veginn. Bílstjórinn reif þá í stýrið til að komast fram hjá elgnum í krappri vinstri beygju en varð strax að beygja hart í hina áttina til þess að lenda ekki út af veginum.
Seinni beygjunni tvöfaldaðist halla-miðflóttaaflið og bíllinn valt.
Nú virðist hreindýrið á góðri (slæmri?) leið með að verða elgur Íslands í þessu tilliti.
Í Svíþjóð er sérstakt aðvörunarskilti við vegi þar sem búast má við að elgur hlaupi fyrirvaralaust inn á veginni.
Þegar "elgsprófið" kom til sögunnar var það umdeilt en það hefur sannað gildi sitt og hefði betur verið komið fyrr til skjalanna til þess að bílar væru hannaðir með tilliti til þess.
Þess má geta að þegar Vilhjálmur heitinn Vilhjálmsson beið bana í umferðarslysi 1978, var hann að komast hjá árekstri við bíl sem kom á móti honum, með því að beygja fyrst snöggt til hægri og síðan strax skarpt til vinstri til að fara ekki út af veginum. En bíll hans valt út af veginum og lenti á tré.
Þetta var Citroen 2CV "braggi" sem var með svo óskaplega langri og mjúkri fjöðrun, að hann sveiflaðist svakalega til í beygjum.
Ég tel afar líklegt að "Bragginn" hefði ekki staðist elgsprófið ef hann hefði verið settur í það.
Bragginn var því mður eini bíllinn sem Vilhjálmur gat fengið á leigu í þetta skipti, nokkuð sem hugsanlega réði úrslitum um þetta hörmulega slys og missi þessa frábæra listamanns langt um aldur fram.
![]() |
20-30 hreindýr hafa drepist |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hvað klukkuna okkar snertir stöndum við frammi fyrir þremur kostum:
1. Hafa hana áfram eins og hún er núna. En færa skólastarf og ýmsa þjónustu aftur um eina klukkusund.
2. Færa klukkuna aftur um klukkustund.
3. Taka upp sérstakan vetrartíma og sérstakan sumartíma.
Af þessum þremur kostum veldur sá síðasti mestum ruglningi og var reyndar tekinn af vegna vandræðanna af völdum "hringlsins með klukkuna."
Við búum á norðlægu landi með lágan sólargang og þráum því að geta notið sólarljóssins sem best þann tíma ársins, sem það er hægt.
Ef klukkan er höfð eins og hún er nú, gagnast það best fyrir þetta.
Dimman á morgnana er ekki svo lengi á veturna. Hún fer að verða óþægileg í nóvember og morgunbirtan kemur ekki til baka fyrr en í febrúar.
Það eru aðeins þrír mánuðir þar sem morgundimman er bagaleg, og einfaldast væri að gera bregðast við því að með því að byrja skólastarf, barnastarf og ýmis konar þjónustustarf klukkustund síðar þessa mánuði til þess að draga úr leiðinlegum áhrifum dimmra morgna.
Að vísu dimmir þá klukkustund fyrr síðdegis, en sólargangurinn er hvort eð er slíkur ræfill þessa þrjá mánuði að það kemur ekki svo mjög að sök.
![]() |
Íslendingar rangt stilltir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
9.1.2014 | 09:40
Styrk til að gera þetta strax ?
Sú var tíðin að það þótti árlegt "vesen", jafnvel böl hér á landi að börnin í Evrópu skrifuðu bréf til Íslands með utanáskriftinni "Jólasveinninn á Íslandi."
Bjarni Guðmundsson, hinn víðsýni blaðafulltrúi ríkisstjórnarinnar reyndi að anna þessu eftir því sem hægt var en þeim stórkostlegu möguleikum, sem íbúar í Rovaniemi í finnska Lapplandi sáu í ferðaþjónustu í kringum jólasveininn, "stálu" Finnar frá Íslendingum, - eða réttara sagt, Íslendingar réttu þeim jólasveininn á silfurfati.
Jólin og áramótin, á Íslandi, jólasveinninn, já allir jólasveinarnir, Grýla, Leppalúði, álfarnir, tröllin og jólakötturinn hafa hingað til flokkast í "eitthvað annað" en stóriðja og verið töluð niður undir hæðnisorðunum "fjallagrös og lopi".
Þeir sem hafa mælt með "einhverju öðru" en stóriðju hafa verið sagðir vera og eru enn sagðir vera "á móti atvinnuuppbyggingu" og "lattelepjandi kaffihúsaónytjungar í 101 Reykjavík."
Nú er komið enn eitt vesenið og vandamálið. Það eru ekki til peningar til að nýta sér þá möguleika sem áramótin gefa á Skólavörðustíg og Skólavörðuholti. Enda er þetta "eitthvað annað" en ekki "atvinnuuppbygging."
Mér finnst að þetta ætti að sjálfsögðu ekki að vera mál sóknarnefndar Hallgrímskirkju eingöngu heldur kostað af almannafé. En þjóðin tímir líklega ekki að leggja í þetta tiltölulega lítið fé miðað við ávinninginn.
Þetta er að verða ákveðið vesen og tóm vandræði eins og bréf erlendu barnanna til Jólasveinsins á Íslandi voru forðum daga.
![]() |
Mætti ramma áramótin betur inn? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.1.2014 | 00:45
"Skipulögð vitfirring" 1914, - "GAGA" 2014.
Lloyd George þáverandi fjármálaráðherra Breta sagði í áramótaræðu 1. janúar 1914 að vígbúnaðarkapphlaupið, sem hafði árin á undan verið í algleymingi í Vestur-Evrópu, væri "skipulögð vitfirring".
Hann hefði ekki getað hitt á betri lýsingu og magnaðri forspá um það sem átti eftir að gerast árinu, sem var að ganga i garð.
Lloyd George hafði allt fram til 1911 verið mjög andvígur öllu því sem gæti orðið til þess að magna stríðshættuna, en eftir átök á milli Frakka og Þjóðverja í Agadir í Marokkó það ár lagðist hann á sveif með eindregnum andsvörum við stigmögnun hernaðaruppbyggingar Þjóðverja.
1914 hafði í fyrsta sinn í margar aldir ekki verið háð neitt meiri háttar stríð í 43 ár. Að vísu höfðu verið háð smærri stríð á Balkanskaga árin á undan og Balkanskaginn var kallaður "órólega hornið á Evrópu, en almennt ríkti sú trú að framundan væri áframhaldandi tíð stórkostlegra framfara og vaxandi velmegunar.
En í ljós kom að neistaflugið á "órólega horninu á Evrópu" gat orðið að ígildi neistans, sem sprengir púðutunnuna í loft upp.
Morðið á austurrísku ríkiserfingjahjónunum í Sarajevo 28. júní gat ekki komið á verri tíma. Næsta mánuð þar á eftir hamlaði það mjög yfirveguðum og markvissum viðbrögðum við atburðarásinni, sem fór í gang, að ráðamenn álfunnar voru meira og minna í sumarleyfum eða á faraldsfæti og fjarskipti á okkar tíma mælikvarða frumstæð og hæg.
En óveðursskýin höfðu hrannast upp og það sem Lloyd George var að tala um speglaðist meðal annars í því að Winston Churchill sagði, að fyrir hverja viðbót við þýska flotann þyrftu Bretar að bæta tvisvar sinnum meira við þannig að stærðarmunurinn yrði aldrei minni en 8 á móti 5.
Fyrri heimsstyrjöldin var í raun aðeins fyrsti hlutinn af þriggja kafla stríði, 1914-1918, 1937/39/41-1945 og síðan Kalda stríðsins 1945-1991. Aldrei hafa jafnmörg stórveldi hrunið og á árunum 1914-1991.
Afleiðingarnar blasa enn við. Eitt besta dæmið er hið furðulega hérað í Rússlandi, Kaliningrad, rúmlega tvisvar sinnum stærra en Ísland og með álíka marga íbúa, sem liggur afskorið 300 kílómetra frá móðurríkinu við suðausturhorn Eystrasalts.
Þetta var áður Austur-Prússland en í sviptingum Seinni heimsstyrjaldarinnar var Þýskalandi þrýst vestur fyrir Oder, þannig að austurlandamæri Þýskalands liggja nú 400 kílómetrum fyrir vestan þennan fyrrum austasta hluta Prússlands, sem margir kölluðu "vöggu þýskrar hernaðarhyggju".
14 milljónir manna alls voru fluttar með valdi frá heimkynnum sínum í stríðslok til þess að fullnægja uppgjafarskilmálum sigurvegaranna, sem krafist höfðu skilyrðislausrar uppgjafar af Þjóðverjum allan stríðstímann.
Á þessu ári eru liðin 68 ár frá lokum Seinni heimsstyrjaldarinnar og það ætti að vera orðinn nógu langur tímakafli til þess að ekki verði framað hróflað við landamærum í Evrópu.
En skefjalaus vígbúnaður er og verður áfram sama "skipulagða vitfirring" og Lloyd Georg kallað hann fyrir réttri öld.
Þrátt fyrir nokkurn samdrátt kjarnorkuvopnabúra heims eru þau jafn mikil ógn við allt líf á jörðinni og áður og tilvist þeirra ekkert annað en "skipulögð vitfirring" eins og nafn hugmyndafræðinnar að baki þeirra ber með sér: "Mutual Assured Destruction", skammstafað MAD.
Á íslensku: Gagnkvæm Altryggð Gereyðing Allra, skammstafað GAGA.
![]() |
Gefur myndir frá fyrri heimsstyrjöldinni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)