Færsluflokkur: Bloggar

Sigur vanmetinna og vanmegna fjölmiðla.

Í Hruninu hrikti í fjölmiðlum á Íslandi og stórfelld fækkun blaðamanna og uppsagnir voru hættuleg fyrir lýðræði og réttlæti, því að getuleysi fjölmiðla er vatn á myllu þeirra sem vilja fela mál, afvegaleiða umræðu og skekkja hana, og treysta á það að mál sofni eða lognist út af. 

Það er auðséð á því sem sagt var í Kastljósi í kvöld og á öllum ferli lekamálsins í heilt ár, að aðilar málsins töldu litla hættu á ferðum þótt eitthvað kæmi sem snöggvast í fjölmiðlum um þetta mál á sínum tíma.

Sennilega hefði engu verið lekið ef ekki hefðu verið höfð uppi mótmæli við meðferð ráðuneytis og undirstofnunar þess á málefnum hælisleitenda.

Það var freisting að slá á mótmælin með hæfilegum leka og síðan myndi málið sofna.

En Gísli Freyr sagði sjálfur að hann hefði algerlega vanmetið alvöru málsins og aldrei órað fyrir því að það myndi verða jafn stórt og það varð.

Ráðherrann vanmat greinilega málið líka. Ef ég man rétt hafði hún áður lýst yfir vilja til að láta málefni hælisleitenda ganga betur en áður og kannski hefur henni þess vegnan fundist hart ef þetta mál snerist henni í óhag.

Ef hún hefði strax forðast samskipti við lögreglustjórann í Reykjavík á meðan rannsókn á hans vegum stóð og sagt sig frá dómsmálunum tímabundið eins og hún neyddist til að gera síðar og allt of seint, stæði hún hugsanlega miklu betur nú en hún gerir eftir heils árs þrautagöngu.

Allan tímann sem þetta mál hefur verið á dagskrá hafa sumir húðskammað fjölmiðlana og sagt að þeir væru að blása það upp að óþörfu. Annað hefur komið í ljós. 

Mörg af stórum hneykslismálum erlendis byrjuðu næsta smátt en urðu margfalt stærri og alvarlegri eftir því sem á leið þegar fjölmiðlar köfuðu betur ofan í þau og komu aðilum málanna í bobba.

Sem dæmi má nefna mál bresku vændiskonunnar Christine Keeler 1963, sem virtist næsta smátt í byrjun en vatt upp á sig þangað til Profumo ráðherra varð að segja af sér.

Málið varð sérlega erfitt fyrir ríkissstjórnina og Íhaldsflokkinn, tók toll af heilsu Harold Macmillan, forsætisráðherra og skók flokkinn svo mjög að Verkamannaflokksstjórn Harold Wilson tók við völdum árið eftir. 

Enn betra dæmi er næsta lítilfjörlegt innbrot í stöðvar Demókrataflokksins í Watergatebyggingunni í Washington 17. júní 1972, sem fyrir dugnað tveggja hæfra blaðamanna var haldið lifandi þangað til það fór að vinda svo upp á sig, einkum vegna lyga, dómgreindarleysis og óheilinda Nixons forseta, að hann varð á endanum að segja af sér embætti.   


mbl.is Vildi ekki lifa með því að segja ósatt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vantar umræðu um eina helstu orsök svifryks.

Rannsóknir hafa sýnt svo ekki verður um villst að negldir hjólbarðar eru helsta orsök svifryks á götum borgarinnar. En nánast aldrei heyrist minnst á aðra orsök, sem er hið arfa lélega efni, sem notað er í slitlag borgarinnar og endist margfalt minna en kvarsið, sem notað er í nágrannalöndunum. 

Kvarsið er að sönnu miklu dýrara efni en grágrýtið, sem við notum, en ef allir reikningarnir væru gerðir upp, myndi lokaniðurstaðan verða sú að notkun þess er dýrari þegar allt er talið með, margfaldur kostnaður við viðhald gatnanna og hættulegar vatnsrásir, sem myndast í þeim vegna þess hvað íslenska blandan slitnar hratt. 

Hið mikla slit, tjöruelgur, svifryk og vatnsrásir eykur tíðni slysa og óhappa, sem eru firna dýr fyrir þjóðfélagið.

Það hlýtur að vera kominn tími á alvöru umræðu um þessi mál.

Ólafur Kr.Guðmundsson, sem með árunum hefur í starfi sínu öðlast einna mesta þekkingu Íslendinga á þessum málum hefur bent á þetta árum saman án þess að menn vilji hlusta.

Það er fyrir löngu kominn tími til að hlusta á rök hans.  


mbl.is Svifryk yfir heilsuverndarmörkum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig ætla menn að flytja 400 lækna frá Svíþjóð hingað heim?

Ef rétt er að 400 íslenskir læknar vinni í Svíþjóð er augljóst að allar upphrópanir sem maður les nú á netinu eru gagnslausar um að læknarnir hér heima séu óalandi og óferjandi hálauna-frekju-stétt sem eigi að skikka í krafti Hippokratesareiðsins til að vinna hér heima og sætta sig við hrun spítalanna og 3-4% launahækkun.

Enda myndi það ekki duga, því að þeir læknar sem eru hér heima eldast og detta úr skaftinu hver af öðrum. Nýliðun er hætt í stéttinni og ný þekking og færni á undanhaldi með öldrun lækna og fækkun þeirra hér heima. Engin leið er að svipta lækna frelsi til að fara úr landi eða að láta handtaka þá erlendis og flytja heim.

Ef óraunsæið sem ræður ríkjum í heilbrigðismálunum fær að ráða svona áfram mun myndast hér á undra skömmum tíma þjóðfélag þess ójafnaðar að aðeins þeir efnameiri geti veitt sér þann munað að fara til útlanda í stórar aðgerðir eða borga þær margföldu verði hér heima hjá einkareknum lækningafyrirtækjum.

Alþýða manna mun verða sett í svipaða aðstöðu og hinir fátæku í Bandaríkjunum, en það land virðast vera draumaríki ótrúlegra margra Íslendinga hvað ójöfnuð og skort á almennri velferð snertir.

Þeir sjást nú fagna sigri Republikana í þingkosningu vestra, sem geti hrundið fyrirætlunum Obama um að fara nokkur hænufet í átt til heilbrigðiskerfis Norðurlandanna og Evrópu.    


mbl.is Páll: „Nú er stund milli stríða“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Drifkraftur óánægjunnar.

Það ætti ekki að koma neinum á óvart þótt hryðjuverkasamtök af mismunandi toga taki upp samvinnu og baráttuaðferðir og stefna svona samtaka séu villimannleg.

Fyrir um 90 árum náðu fasistar völdum á Ítalíu og leiddu þá þjóð út í miklar hremmingar í Seinni heimsstyrjöldinni. 

Óánægja almennings í Þýskalandi var næg uppspretta og fóður fyrir hinn skelfilega Adolf Hitler og glæpagengi hans og er kannski eitt besta, eða eigu við að segja versta, - dæmið um það hvert drifkraftur mikillar óánægju getur leitt fólk. 

Drifkraftur óánægju hryðuverkasamtaka og villimannasamtaka í nafni trúarbragða á okkar dögum felst í uppreisn gegn arðráni og misrétti, sem uppreisnarfólkið rekur til hegðunar vestrænna stórvelda mestan part allt aftur til tíma nýlenduveldanna, sem að vísu slepptu tökum sínum á nýlendunum á yfirborðinu, en hafa síðan farið aðrar leiðir til þess að viðhalda óviðunandi heimsástandi sér í hag. 

Náskyld óánægjunni eru hefndarhugur og öfund, og er hefndarhugurinn verri, því að drifkraftur hans getur leitt jafnvel siðað fólk alveg ótrúlega langt, jafnvel til þess að hefna atburða sem gerðust fyrir mörgum öldum.  

 


mbl.is Hryðjuverkasamtök mynda bandalag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólíkt hafast menn að.

Mér er enn í minni þegar ég sem barn var að átta mig á eðli þjóðfélagsins. Ég var oft hjá ömmu minni og afa, sem bjuggu í lítilli tveggja herbergja íbúð í Verkamannabústöðunum við Ásvallagötu. 

Aðeins þurfti að ganga smáspöl suður Hofsvallagötu til að vera kominn inn i braggahverfi Kamp Knox, þar sem þeir sem minnst máttu sín í þjóðfélaginu bjuggu í húsnæði, sem ná á tímum myndu vera kölluð óíbúðarhæf hreysi. 

Í útvarpi söng Elsa Sigfúss ljóð Davíðs Stefánssonar um hlutskipti sumra í braggahverfunum, um verkamannsins kofa, þar sem bæri að lofa "dagsins þreytta barni að sofa", þar sem byggju hetjur bak við lágar dyr, þar sem "hin sjúka móðir brosti í gegnum tárin" og "börnin fá mat, en foreldrarnir svelta". 

Við Ásvallagötu bjó Þórarinn hafnarverkamaður í litlu koti, sem hét Melur, og hafði örfáar kindur þar á smábletti. 

Ofar við Hofsvallagötu voru einhver dýrustu og flottustu íbúðarhús landsins, hús manna, sem börðust fyrir félagshyggju, samvinnu og samhjálp. 

Þetta voru þeir Jónas frá Hriflu og Vilhjálmur Þór. Einkum var hús hins síðarnefnda glæsilegt, svo flott að margir kölluðu það lúxusvillu á þeirri tíð. 

Vestar við Ásvallagötu bjó Eysteinn Jónsson, einn af forystumönnum og síðar formaður flokks þessara manna, og barst lítt á í snotru og íburðarlitlu húsi, sem var smáhýsi miðað við hús hinna tveggja. 

Eysteinn virtist hugsa líkt og Warren Buffet um gildi þess, sem ekki verður metið til fjár, og lifði persónulega í samræmi við hugsjónir sínar um hófsemi. 

Kynni mín við þann mann á ferðalögum um landið voru einstaklega ánægjuleg að öllu leyti. 


mbl.is Einn ríkasti maðurinn hefur búið í sama húsinu síðan 1958
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verið að fletja út jólin.

Jólin eru afar mikilvæg fyrir sálarheill og vellíðan þjóðar sem býr við kulda og skammdegi, svo framarlega sem hátíðahaldið og umstangið í kringum það er í hófi. 

Með því að spila jólalög í sjð vikur samfleytt og byrja spilun þeirra þremur vikum fyrir aðventu eins og nú er gert á Létt-Bylgjunni, er einfaldlega verið að fletja hátíðina út að óþörfu og skapa aðstæður fyrir því, að loksins þegar hátíðin gengur í garð, sé kominn leiði í alla þessa spilun.  

 


mbl.is Beðið um jólalög fyrir nokkrum vikum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað gerist þegar gosið í Holuhrauni deyr út?

Gígurinn í Holuhrauni hækkar smátt og smátt og þrengist jafnframt. Þetta hefur sést í ferðum yfir gíginn síðustu vikurnar. 

Öll eldgos hætta um síðir, misjafnlega snemma þó, og haldi þessi þróun áfram getur hún endað á því að þetta útstreymisop kvikunnar lokist og gosið hætti þar, og þá vaknar spurningin hvað gerist þegar ekki er lengur tappað af á þessum stað. 

Byrjar að gjósa á sömu slóðum, samanber "Litla-Hraun", sem kom upp um skamma hríð suður af núverandi gosstað, eða gerist eitthvað undir Dyngjujökli eða í eða við Bárðarbungu sjálfa? 

Af skrifum Haraldar Sigurðssonar má ráða, að því lengur sem gosið í Holuhrauni treinist, því meira muni komast þar upp á yfirborðið og þess minni verði þrýstingur á gos annars staðar. 

Þess vegna sé hægt að spá goslokum í mars næstkomandi, ef menn reyna að spá fyrir um þau á annað borð. 

Ármann Höskuldsson hefur kallað á frekari rannsóknir á því hvort og þá hve mikil bein tengsl séu á milli sigsins í Bárðarbungu og kvikunnar þar undir og gosstöðvanna í Holuhrauni. 

Erfitt er að sjá hvernig hægt er að rannasaka það betur en þegar hefur verið gert, en það er vísindamanna að dæma um slíkt. 


mbl.is Jarðskjálfti af stærð 5,4 við Bárðarbungu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svona lagað heyrðist yfirleitt ekki á ljósvakanum áður fyrr.

Þegar heimsstyrjöldinni lauk 1945 fóru aftur að heyrast veðurfregnir í Ríkisútvarpinu, en þær voru bannaðar á stríðsárunum af hernaðarástæðum. 

Ég minnist þess að spurningar mínar dundu á afa mínum Ebba um þetta nýjabrum í eyrum mínum og einkum um það, þegar sagt var: "Rok undir Eyjafjöllum." 

Afi reyndi að útskýra það fyrir mér. 

Svo liðu árin og það var alveg hætt að taka það fram að rok gæti orðið undir Eyjafjöllum. 

Greinilega reiknað með því að þegar hann yrði hvass á austan á Suðurlandi yrði rok þar. 

Síðan leið ríflega hálf öld þar til að byrjað var að vara við hvössum vindi undir Kjalarnesi, Hafnarfjalli, á sunnanverðu Snæfellsnesi og undir Eyjafjöllum og í Öræfasveit þegar svo bar undir. 

Þetta er orðið svo algengt að einhverjir kunna að álykta sem svo að þetta veðdurlag sé miklu algengara en áður var. 

Hvað Öræfin snerti þurfti svosem ekki að segja fólkinu þar neitt um veðrið meðan sveitin var ekki í vegasambandi við aðra landshluta, fyrst við Austurland 1964 og síðan vestur yfir 1974.

Í gærkvöldi fór ég upp í Borgarnes til að flytja dagskrána "Unglingurinn alls staðar" og þá fór vindurinn upp í 49 m/sek í hviðum á Kjalarnesi, sem samsvarar 100 hnútum, sem er 50% meiri vindur en fárviðri.

Ekkert markvert gerðist samt þar og þetta þótti ekki fréttnæmt.

Fyrir 20 árum var oft miklu hvassara í Botnsvogi og við Hjarðarnes en var á Kjalarnesin í gærkvöldi án þess að það þætti fréttnæmt, sjórinn rauk og skrúfaðist hátt upp í loftið í hvirflum, en engir voru mælarnir sem hægt var að lesa af eins og nú eru komnir í bak og fyrir á svona roksvæðum.

Líklega er veðurfarið búið að vera nokkuð svipað í meginatriðum síðan 1945.

Umferðin er bara margfalt meiri sem og upplýsingatæknin.   


mbl.is Mikill vindur undir Vatnajökli og á Austfjörðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loforðin við Gorbatsjov voru svikin.

George Bush eldri Bandaríkjaforseti lofaði Mikhaila Gorbatsjov því að að NATO myndi ekki færa sig til austurs lengra en að taka Austur-Þýskaland með inn í Bandarlagið þegar það sameinaðist Vestur-Þýskalandi. 

Þetta var hluti af viðleitni Bush og Kohl kanslara Þýskalands til þess að koma á tryggum friði og trausti á milli áður stríðandi aðila í Kalda stríðinu. 

Að vísu er deilt um það hvort þessi loforð hafi haft nokkra tryggingu til framtíðar vegna þess að þau voru ekki innsigluð í skriflegum friðarsamningum eins oft er gert í hefðbundnum samningum eftir styrjaldarátök.

Sagt er að Vladimir Putín þáverandi yfirmaður KGB, hafi gengið vonsvikinn út af niðurlægingu Rússa af einum funda ráðamanna stórveldanna og heitið því að gera sitt til að rétta hlut þeirra, þótt síðar yrði.

Sé svo, rímar það við allar aðgerðir Pútíns nú, sem fá aukna afsökun hans vegna þess hvernig NATO lét eftir þrýstingi fyrrum leppríkja Sovétríkjanna um að komast undir verndarvæng NAT0-sáttmálans varðandi það að árás á eitt þeirra teldist árás á þau öll. 

Hins vegar er spurning hvort sú aukna spenna sem þessi vestræna sókn í austur veldur með minningu um kenningu Hitlers um "drang nach osten" sé friðvænleg eða skynsamleg. 


mbl.is Varar við öðru köldu stríði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Airwaves, eitt af mörgum dæmum dæmi um "eitthvað annað".

Það eru ekki mörg ár síðan við vorum talin galin, sem spáðum því að innan fárra ára myndi vera til gjaldeyrisskapandi listsköpun og listflutningur sem mokaði gjaldeyrisborgandi útlendingum inn í landið í tugþúsunda tali við að skapa og flytja sína list hérlendis. 

Enn fjarlægara hefði það verið talið að þúsundiir starfa myndu skapast hér heima í kringum þetta og hundruð íslenskra listamanna væru á faraldsfæti um heimsbyggðina við að kynna og markaðssetja sköpunarverk sín. Að ferðaþjónusta væri orðinn aðalatvinnugrein og mest gjaldeyrisskapandi atvinnuvegur þjóðarinnar. 

Allt slíkt tal var nefnt "bara eitthvað annað" í háðungarskyni og talað um "fjallagrasatínslu", "lopaprjón", "lattelepjandi afætur", fólk sem væri "á móti rafmagni" og "vildi fara aftur inn í torfkofana", - öll þessi ónefni og rangfærslur færðar fram til þess eins að sanna, "eitthvað annað" væri rugl, en hins vegar stóriðja, áfram stóriðja og ekkert stopp það eina sem gæti "bjargað þjóðinni" þótt aðeins 2% af vinnuafli landsmanna fengju þar vinnu við dýrustu störf, sem hægt væri að skapa og gæfu aðeins rúman þriðjung af virðisaukanum, sem skapast í sjávarútvegi og ferðaþjónustu. 


mbl.is Kraftmikið kvöld á þriðja í Airwaves
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband