Færsluflokkur: Bloggar
5.7.2014 | 08:17
"Bara einu sinni á ævinni."
Ævi okkar er safn minninga. Meira en 99% þeirra eru endurteknar í þúsundir skipta og renna saman í eitt með tímanum. En síðan er ein og ein minning þess eðlis, að hægt er að segja að við upplifum hana "bara einu sinni á ævinni."
Ein slík minning getur verið meira virði en tugir þúsunda venjulegra minninga um hversdagslega atburði og aðstæður.
Stundum byggist mikið virði einstakra minninga á því að þær voru hinar fyrstu af sínu tagi, "fyrsta ástin, fyrsti kossinn" o. s. frv.
Einnig minningar, sem voru hinar síðustu af sínu tagi.
Þetta vita slyngir sölumenn af öllu tagi.
Land okkar og náttúra þess býr yfir mörgum möguleikum til þess að ferðamenn geti upplifað eitthvað sem þeir upplifa "bara einu sinni á ævinni."
Sumir þeirra eru tilbúnir að borga hálfa milljón króna fyrir einn þyrlutúr, vegna þess að hann býður upp á eitthvað sem veitist honum "bara einu sinni á ævinni."
Sumum kann að virðast að þessir möguleikar á Íslandi séu svo margir að ekki sjái högg á vatni þótt þeim sé fækkað.
Þess vegna sé allt í lagi að láta æ fleiri þessara fyrirbæra hverfa, eins og magnaða fossa eða dali og svæði sem sökkt er í gruggug miðlunarlón.
Eða að láta háspennulínur eða virkjanamannvirki þenja sig um svæði, sem áður voru ósnortin víðerni, en slíkt fyrirbæri er að verða að fágæti í okkar heimshluta.
Kannanir sýna að erlendir ferðamenn koma fyrst og fremst til landsins til að þess að sjá og upplifa íslenska náttúru, eitthvað sem þeir sjá "bara einu sinni á ævinni."
Þeir koma ekki til landsins til þess að sjá mannvirki sem þeir þverfóta ekki fyrir í eigin löndum.
Ég hef séð erlenda ferðamenn skríða á jörðinni við að taka myndir af eyrrarrósum uppi í auðninni á Sprengisandi. "Melgrasskúfurinn harði, runninn upp þar sem Kaldakvísl kemur úr Vonarskarði" var meira virði í ljóði skáldsins en blómskrúð, "suðræn blóm, sólvermd í hlýjum garði."
"Einu sinni á ævinni" getur verið afar lítilfjörlegur hlutur í sjálfu sér.
Einn slíkur hvað mig snerti persónulega var bara einfaldur bolli af kaffi.
Hvernig mátti það vera? Mér finnst kaffi vont og drekk það helst aldrei.
En þegar Gísli á Uppsölum bauð mér kaffi í skítugum bolla sem hann þurrkaði af með ennþá skítugri klút, gerði ég undantekningu.
Ég þáði bollann og drakk þetta ógeðslega kaffi. Sömuleiðis ferðafélagar mínir, Páll Reynisson og Sverrir Kr. Bjarnason
Af hverju? Af því að svona lagað gerir maður "bara einu sinni á ævinni."
Kaffibolli Gísla varð miklu meira virði fyrir mig en tugþúsundir kaffibolla, ef ég væri mikið fyrir kaffi.
![]() |
Dýrar þyrluferðir ótrúlega vinsælar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.7.2014 | 19:52
Dýrkeypt menningarslys.
Útvarpshúsið við Efstaleiti er glæsilegt hús, ekki vantar það. En undir glæsilegu yfirbragði leynist eitthvert dýrkeyptasta menningarslys í sögu landsins.
Hrafn Gunnlaugsson og fleiri sögðu réttilega á sínum tíma að eina hlutverk útvarpshúss væri að vera verksmiðja, sem framleiddi dagskrá.
Fyrstu húsakynni Sjónvarpsins var hús, sem reist var sem bílasmiðja, og því var erfitt að laga það hús að gerólíkri starfsemi sjónvarps.
Samt var það svo að þegar til stóð að flytja starfsemina í Útvarpshúsið nýja baðst starfsmannafélagið undan því hvernig ætlunin var að reisa hið rándýra, óhentuga og allt of stóra nýja hús og flytja starfsemina þangað.
Ein ástæða þessarar andstöðu var sú staðreynd að húsið var alls ekki hannað fyrir sjónvarp !
Það átti sem sé að flytja úr húsi, sem ekki var hannað fyrir sjónvarp, í annað miklu stærra og dýrara hús sem var heldur ekki hannað fyrir sjónvarp !
Í upphaflegu teikingunum átti sjónvarpið að vera í öðru sérhönnuðu húsi fyrir það við hliðina á núverandi útvarpshúsi þar sem hljóðvarp, skrifstofur og yfirstjórn áttu að vera og einnig átti að reisa þriðja húsið fyrir tækjastarfsemina.
Þegar samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir hafnaði þessum ósköpum hefði verið eðlilegast að setjast niður og láta hanna allt upp á nýtt í minna húsnæði en i staðinn var sjónvarpi og tækjahúsi troðið inn í hljóðvarpshúsið, allri starfseminni til hreinnar bölvunar.
Ég var í svonefndri samráðsnefnd á sínum tíma um þessi endemi en engu varð um þokað.
Gæti rakið það í löngu máli.
Í ofanálag voru tekin lán á lán ofan til þess að halda vitleysunni áfram.
Sá hluti íslenskrar menningar, sem felst í ljósvakamiðlun, hefur tapaði tugum milljarða króna vegna þessa húss. Það er dýrkeypt menningarslys.
Nú er uppi nauðsynleg og lofsverð viðleitni til að reyna að bjarga því sem bjargað verður með því að leigja út fjórðu og fimmtu hæð hússins.
Þess má geta að ekki er hægt að leigja út þriðju hæðina því að alla tíð var aldrei gert ráð fyrir að hún væri nýtt fyrir skrifstofur! Hún er bara þarna og hefur alltaf verið.
Eftir sem áður hvílir stór skuldabaggi á Ríkisútvarpinu og húsið er alveg einstaklega dýrt í rekstri, alltof, alltof dýrt.
En RÚV situr áfram uppi með það allt.
Núverandi Útvarpshús mun því miður aldrei getað orðið hagkvæmt svo að þar verði framleidd sem mest og best dagskrá fyrir skaplega fjármuni.
Þetta hús verður ævinlega til vandræða meðan ekki verður hægt að komast út úr því í hús, sem hannað er frá grunni af útsjónarsemi og raunsæi.
![]() |
Efstu hæðir Útvarpshússins auglýstar til leigu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
4.7.2014 | 09:42
Er þar kona sem fór fræga hestaferð yfir þver Bandaríkin?
Landsmót hestamanna er haldið við erfið skilyrði við Hellu þessa dagana. Það er þó huggun harmi gegn að enn verr hefði farið ef það hefði verið haldið á norðanverðu landinu, svo arfaslæmt sem veðrið er þar núna.
Leit sem snöggvast á Holtavörðuheiði á vedur.is og sá að þar eru hviður upp á 23 metra á sekúndu, 100% raki og aðeins 7 stiga hiti. Spáð áfram mikilli rigningu yfir helgina.
Það sem er einna mest heillandi við landsmót hestamanna er það að þar er að finna fólk frá öllu landinu og líka útlendinga.
Meðal annars hef ég frétt af konu, sem þar er, og stóð á sínum tíma fyrir þátttöku íslenska hestsins í gríðarlegri hestaferð yfir þver Bandaríkin 1976. Í þeirri ferð stóð íslenski hesturinn sig víst alveg sérstaklega vel og sé þessi kona á landsmótinu hefur hún vafalaust frá ýmsu að segja. .
![]() |
Hestakona í löggæslu á Landsmóti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.7.2014 | 09:14
Hef aldrei áður heyrt um æfingabann.
Mike Tyson beit stykki úr eyra Evenders Holyfields og hlaut verðskuldaða refsingu fyrir í formi langs keppnisbanns. Honum var þó ekki banna að æfa sig og ekki heldur bannað að horfa á hnefaleikabardaga.
Þótt margir séu yfirleitt á æfingum í knattpyrnu þurfa hnefaleikarar líka að geta æft með æfingafélögum.
Æfingabann á Suárez hefði því verið talsverð nýjung hvað refsingar varðar.
![]() |
Suárez heimilt að æfa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.7.2014 | 22:13
Förum varlega með samlíkingar við býsn.
Hitler og menn hans drápu 6 milljónir Gyðinga á svo kaldrifjaðan, úthugsaðan og tæknilegan hátt að bæði hugsunin á bak við Helförina og framkvæmdin sjálf eiga sér engan líka í mannkynssögunni.
Eichmann, handbendi Hitlers, sagði síðar í útlegð í Suður-Ameríku að verst hefði verið að ekki hefði tekist að drepa alla Gyðinga veraldar, 10,5 milljónir alls.
Það er ekki hægt að líkja neinu við svona aðfarir og nöfn eins og Auschwitz eiga ekki við. Með slíkri líkingu er verið að gera lítið úr einstæðu haturs- og morðæði Hitlers og örlögum þeirra, sem urðu fyrir barðinu á því.
Það er að vísu hægt að taka ýmis atriði út úr sem bera má saman þegar talað er um hrikalegustu atburði sögunnar og eiginleika manna. En fara verður varlega með samlíkingar þegar það allra svakalegasta á í hlut sem er langt umfram allt annað.
Á sjöunda áratug síðustu aldar datt nokkrum mönnum það í hug í hita leiks íslenskra stjórnmála að nefna áhrif umdeildra efnahagsaðgerða Viðreisnarstjórnarinnar "móðuharðindi af mannavöldum."
Í móðuharðindunum dó fjórðungur þjóðarinnar og 70% búsmalans. Í öðrum heimsálfum kostuðu afleiðingar Skaftáreldanna milljónir mannslífa.
Skelfingar móðuharðindanna á Íslandi eiga sér enga hliðstæðu í sögu þjóðarinnar og það var móðgun við minningu þeirra, sem þá þjáðust og létu lífið, að taka sér þetta orð í munn um eitthvað sem ekki er einu sinni í neinni líkingu við slík ósköp, heldur voru þau ár, sem þessir menn sögðu að móðuharðindi af mannavöldum stæðu yfir, uppgangstími hér á landi.
Það er því ráðlegt að fara varlega með samlíkingar við eitthvað sem ekki er hægt að finna neinn samjöfnuð við.
![]() |
Auschwitz Miðjarðarhafsins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
3.7.2014 | 14:45
Eigum við að hætta að laða ferðafólk til landsins?
Þessari áhugaverðu spurningu var varpað upp í viðtali við Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðing í ágætum útvarpsþætti í dag, sem ber nafnið "Áfangastaður: Ísland"
Ástæðan fyrir spurningunn hefur oft heyrst: Flugvélar menga mest allra samgöngutækja og með því að bægja flugvélum og skemmtiferðaskipum frá landinu leggjum við okkar skerf til minni útblásturs gróðurhúsalofttegunda.
Þessi fullyrðing stenst enga skoðun. Í fyrsta lagi menga flugvélar aðeins 12% af mengun allra faratækja heimsins, en bílarnir blása út 74% og skipin 16%.
Í öðru lagi eiga flugvélar aðeins þátt í 2% af heildarútblæstri gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu og jafnvel þótt tekið sé með í reikninginn að þær blása þessu út ofar í loftlögunum, getur þessi prósenttala ekki samsvarað hærri tölu en 3%.
En aðalatriðið er þetta og það kom ekki fram í þættinum: Menn gefa sér það fyrirfram að ef straumur ferðamanna til landsins yrði stöðvaður myndu þeir ekki hreyfa sig spönn frá rassi í sumarleyfi sínu.
Það er fráleit forsenda. Að sjálfsögðu myndu skemmtiferðaskipin bara sigla annað og fólkið fljúga til annarra landa en Íslands eða fara í langa bílferð ef þeim væri bægt frá landinu.
Margir þeirra sem hafa horn í síður ferðamannaþjónustunnar gera það til að bægja athyglinni frá því að hér heima höfum við enn mest mengandi bílaflota Evrópu, en þar væri hægt að taka verulega til hendi, ekki hvað síst með tilliti til notkunar okkar eigin mengunarlausu orkugjafa.
Einnig gerir vöxtur ferðaþjonustunnar erfiðara fyrir um að halda fram taumlausri sókn eftir því að sem mest af "orkufrekum iðnaði" sé komið hér á þar sem ágóðinn rennur úr landi til erlendra eigenda en virðisaukinn í hagkerfinu er meira en tvöfalt minni en í sjávarútvegi og ferðaþjónustu.
![]() |
Bílaleigan Enterprise á Íslandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.7.2014 | 09:22
Einu sinni voru í gildi lög um fundarlaun.
Fyrir hálfri öld var í gildi lagagrein um fundarlaun, þess efnis, að finnandi ætti rétt á 10% af virði hins fundna.
Ekki veit ég hvort þessi lagagrein er enn í gildi. Hún bar ekki í sér skyldu til að eigandi hins fundna greiddi fundarlaun; aðeins það að finnandinn gæti farið fram á fundarlaunin en þó ekki meira en 10% af virði hins fundna.
Og að sjálfsögðu var eigandanum heimilt að bjóða betri fundarlaun en 10%.
Tilgangurinn með lagaákvæðinu var að virkja hvetjandi á finnendur að skila hinu fundna til eigandans ef honum fannst sanngjarnt að honum yrði launuð ráðvendnin.
Misjafnt er hvernig hlutir eða fjármunir týnast. Stundum man eigandinn vel hvar hann skildi hlutinn eftir þannig að það eru augljóslega afar fáir eða jafnvel aðeins einn maður, sem getur verið finnandinn.
Í slíku tilfelli er matsatriði hvort fundarlaun eigi við þótt að sjálfsögðu sé þakkarverður sá heiðarleiki að halda hinu fundna til haga fyrir eigandann þangað til hann vitjar þess.
Öðru máli gegnir um fund eins og þann, sem greint er frá í tengdri frétt á mbl.is.
Í því tilfelli var finnandanum í lófa lagið að grípa til hverra þeirra ráðstafana sem hann kysi án þess að upp um það kæmist.
Að lokum þetta: Bílþök eða vélarhlífar á bílum eru verstu staðir til að setja hluti á. Af því hef ég afar slæma reynslu.
![]() |
Skilaði 50.000 króna veski |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
2.7.2014 | 17:00
Fólk á vilja flytja hingað og þangað.
Makalaust er að heyra hvernig sumir tala um það þegar fyrirtæki eða stofnanir eru fluttar á milli staða ásamt störfunum sem unnin eru þeim.
Bæði núna vegna flutnings Fiskistofu til Akureyrar og vegna flutninga fiskvinnslu frá Þingeyri, Húsavík og Djúpavogi suður til Grindavíkur hefur mátt heyra hjá sumum, að fólkinu, sem í hlut á, sé "boðið vel" varðandi flutninga fyrirtækjanna og þess vegna eigi það "að þiggja gott boð."
Má heyra á tóninum í þessum ummælum að það sé beinlínis óeðlilegt að þetta fólk vilji ekki flytja heimili sín heldur frekar búa á þeim slóðum þar sem það kaus sjálft að stofna heimili.
Þessi forsjárhyggja, að fólk eigi að vilja eiga heima hér eða þar kemur víðar fram en í ofangreindum málum. Þannig er sagt að fólk eigi að vilja búa sem næst gömlu miðborginni í Reykjavík, sem þó er komin fjóra kílómetra í burtu frá þungamiðju íbúðabyggðar á höfuðborgarsvæðinu.
Þetta minnir svolítið á það þegar fólkinu í Austur-Þýskalandi var sagt að það ætti að vilja búa þar en ekki i Vestur-Þýskalandi.
Þar var settur upp múr til að koma í veg fyrir að fólk flytti þangað sem það vildi.
Sem betur fór var gátu valdhafarnir þó ekki flutt fólk nauðugt frá Vestur-Þýskalandi til Austur-Þýskalands.
Forsætisráðherra minntist réttilega á það í útvarpsviðtali áðan að góðir innviðir og fjölbreytni í mannlífi, menningu og þjónustu væru skilyrði fyrir búsetu á hverju svæði á landinu.
Á það skortir verulega og þar liggur hundurinn grafinn. Það er auðvelt að finna út hvar byggð er að koðna niður og hvar ekki. Fjöldi kvenna á barneignaaldri skiptir þar öllu máli en ekki bein íbúatala. Vanti þennan þjóðfélagshóp er byggðin dauðadæmd.
Þess vegna eru grunnatriði eins og leikskólar og aðrir skólar, samgöngur og þjónusta auk skilyrða fyrir fjölbreytta menningu það sem skiptir máli. Sú hefur verið niðurstaða fjölmargra ráðstefna um byggðamál.
Og lausnir fást ekki með tímabundnum framkvæmdum sem gefa fábreyttum hópi vinnu í stuttan tíma, en slíkar lausnir hafa íslenskir stjórnmálamenn elskað í gegnum tíðina.
![]() |
Landmælingar fimm ár að ná fyrri styrk |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
2.7.2014 | 14:24
Svo má böl bæta að benda á annað verra.
Birtar hafa verið tölur um það að meðallaun hér á landi séu um 400 þúsund krónur á mánuði eða um 260 þúsund eftir skatt. Nú koma fram tölur í nýrri frétt frá Landsbankanum um að sjöttungur þessarar upphæðar fari í húsnæðiskostnað. Það gera um 45 þúsund krónur á mánuði. Hvað er hægt að leigja stórt húsnæði fyrir þann pening fyrir einstakling? Líklega 30 fermetra. Glæsileg afkoma það?
Fjöldi lífeyrisþega verður að láta sér nægja innan 150-300 þúsund krónur á mánuði í tekjur. 50 fermetra smáíbúð er leigð á meira en 100 þúsund krónur á mánuði. Glæsileg afkoma það?
Í fréttinni fyrrnefndu er sagt að 9% heimila búið við "verulega íþyngjandi" húsnæðiskostnað. Það eru um 20 þúsund heimili en jafnframt sagt að hlutfallið sé tvöfalt hærra í Danmörku og að Íslendingar séu í miðju róli í samanburði við önnur Evrópulönd.
20 þúsund heimili í vanda. Glæsilegt?
Ég slæ fram spurningunnu "glæsilegt?" því að nú þegar má sjá því fagnað í bloggpistlum að raddir um háan húsnæðiskostnað sé bara ástæðulaust væl og "goðsögn", úr því að hægt sé að finna álíka slæmt eða verra ástand annars staðar.
Já, svo má lengi bæta að benda á annað verra. Allt er í þessu fína lagi.
![]() |
Húsnæðiskostnaður ekki hár hér á landi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
2.7.2014 | 12:12
Fær hún svipuðu framgengt hér og Ali í Ameríku?
Cassius Clay, heimsmeistari í hnefaleikum, breytti nafni sínu í Muhammad Ali og þurfti að berjast gegn andstöðu stjórnvalda, almennings og fjölmiðla vegna þess í meira en þrjú ár.
Það var að mörgu leyti skrýtið því að fjölmörg dæmi voru um það að frægir listamenn, svo sem kvikmyndastjörnur, hefðu breytt nöfnum sínum í upphafi ferils síns.
En Ali var þegar orðinn heimsfrægur þegar hann breytti sínu nafni og var þar að auki líka blökkumaður og gerðist múslimi.
Þessi nafnbreyting Alis var miklu róttækari en sú sem Birgitta Bergþórudóttir Jónsdóttir Hirt hyggst reyna.
Fróðlegt verður að sjá hvernig henni gengur og ég hvet hana til þess að fylgja ósk sinni og sannfæringu fram.
![]() |
Birgitta vill breyta nafninu sínu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)