Færsluflokkur: Bloggar

Fær hún svipuðu framgengt hér og Ali í Ameríku?

Cassius Clay, heimsmeistari í hnefaleikum, breytti nafni sínu í Muhammad Ali og þurfti að berjast gegn andstöðu stjórnvalda, almennings og fjölmiðla vegna þess í meira en þrjú ár.

Það var að mörgu leyti skrýtið því að fjölmörg dæmi voru um það að frægir listamenn, svo sem kvikmyndastjörnur, hefðu breytt nöfnum sínum í upphafi ferils síns.

En Ali var þegar orðinn heimsfrægur þegar hann breytti sínu nafni og var þar að auki líka blökkumaður og gerðist múslimi.  

Þessi nafnbreyting Alis var miklu róttækari en sú sem Birgitta Bergþórudóttir Jónsdóttir Hirt hyggst reyna.

Fróðlegt verður að sjá hvernig henni gengur og ég hvet hana til þess að fylgja ósk sinni og sannfæringu fram.  


mbl.is Birgitta vill breyta nafninu sínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Lotur meistaratignarinnar".

Fram á níunda áratug síðustu aldar gátu helstu bardagar í hnefaleikum orðið 15 lotur. Þá var slíku hætt og síðan eru 12 lotur hámarkið.´

Ýmsir voru andvígir þessari breytingu og bentu á það, að oft hefði reyndin orðið sú að síðustu þrjár loturnar í 15 lotu bardögum hefðu verið þær frægustu í íþróttinni. Þær væru kallaðar "The championship rounds" og ef þær hefðu ekki farið fram, hefði sagan misst af mörgum af frægustu atvikunum í íþróttinni .

Aragrúa dæma má nefna um þetta, svo 15. lotuna í bardaga Jack Johnsons og Jim Jeffries 1910, 13. lotuna í bardaga Rocky Marciano og Jersey Joe Walcotts 1952, 15. loturnar í bardögum Muhammads Alis við Joe Frazier 1971, Chuck Wepner 1976 Leon Spinks 1978, og 14. lotuna í bardaga Alis og Fraziers 1975.

Svipað virðist gilda um leikina í HM þessa dagana. Framlengingarnar hafa fært okkur flest mörkin, langmestu ánægjuna, spennuna og dramatíkina.

Sagt hefur verið um hnefaleikara, að bestu bardagarnir þeirra á milli séu rétt eftir að þeir voru á toppnum og eru að byrja á því að vera á niðurleið. Þá fjölgar mistökunum, fleira gerist en fyrr og keppendurinir verða að leggja sig meira fram og í raun að fara fram úr getu sinni.

Þess vegna hafi síðasti bardagi Alis og Fraziers verið sá besti þeirra í millum og mesti bardagi allra tíma.  

Svipað kann að gilda um fótboltann. Þegar menn eru búnir að hlaupa allt að 15 kílómetra í sprettum í 90 mínútur fer leikurinn að gliðna og mistökum að fjölga og þar með opnast allt.

Menn fara fram á ystu mörk þess sem hægt er að leggja á líkama og sál og jafnvel lengra en það.

Og það er svo magnað og hrífandi.  

 


mbl.is Belgía áfram eftir frábæra framlengingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Magnað hvað starinn er snjall fugl.

Ég ber mikla virðingu fyrir staraum vegna útsjónarsemi hans, dugnaðar og þrautseigju.  Ástæðan er sú að flugvélaeigendur og þar með ég þurfa að hafa sérstakan vara á varðandi þennan gáfaða fugl, sem hefur vit á að nýta sér mannvirki af öllu tagi fyrir hreiðurgerð sína og sýnir gríðarlega harðfylgi við það, hvað flugvélar varðar.

Á facebook síðu minni sýni ég dæmi um það hve erfitt er að fást við þá ást á flugvélum sem starinn hefur. Þrátt fyrir mikla viðleitni til að koma í veg fyrir að hann verpi í vélarhúsum þeirra eða annars staðar, þar sem hann getur smokrað sér inn, hefur það gerst þrisvar á flugferli mínum að starinn hefur komist í gegnum allar varnir og byggt sér hreiður langt inni í flugvélum mínum.

Starinn reynir einkum að komast inn í vélarhúsið í gegnum loftinntökin og verður því að byrgja þau vel.

En í eitt skiptið komst hann með hreiður inn í aftasta hluta flugvélarskrokksins á óskiljanlegan hátt, en þar var afar erfitt að komast að hreiðrinu innan frá.

Í ljós kom að undir afturbrún lárétta stélflatarins á vélinni var eitt lítið kringlótt loftgat, sem fuglinum tókst að troða sér inn í. Þaðan fór hann lárétt inn í miðju stélsins og síðan fram í aftasta hluta skrokksins þar sem þetta fína rými var fyrir hreiður.

Eftir þetta loka ég ævinlega þessu litla gati eins og sést á mynd á facebook síðu minni.

Ef hreiður leynist ofan á hreyflinum kviknar í því eftir flugtal, því að loftkældur hreyfillinn hitnar mikið í flugtaksklifri.

Verra er þó, að fuglinum fylgir sérstök fló, sem getur borist á menn og er illvígari hér en í nágrannalöndunum, því að þar er annað dýr, maríuhæna svonefnd, sem lifir á flónni, en er ekki til hér á landi.  

 


mbl.is Stari gaf maríuerluungum í gogginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samt of fáir nýir bílar.

Fyrri hluta þessa árs seldust um 6 þúsund nýir bílar hér á landi, og kannski eiga um 12 þúsund eftir að seljast á árinu. Þegar salan er borin saman við söluna árið 2009 og fundið út að bílasalan hafi margfaldast frá Hruni gætu einhverjir haldið að nú séu  seldir allt of margir bílar.

En svo er ekki, því að til að endurnýja bílaflotann þyrfti að flytja inn 50% fleiri bíla.

Samanburður við árið 2009 er út í höft því að það ár sker sig algerlega úr vegna þess að afleiðingar Hrunsins komu þá að fullu fram á bílasölunni.

Síðasta áratug hefur orðið bylting í öryggi bíla og sömuleiðis stórframfarir í sparneytni og minnkandi útblæstri.

Sem dæmi má nefna að aðeins örfáir minnstu bílanna 2009 náðu því takmarki að blása minna en 120 grömmum af koltvísýringi út í andrúmsloftið og fengu fríttt í bílastæði fyrir bragðið, en nú hefur þessi tala lækkað niður fyrir 90 grömm á útblástursminnstu bílunum og þúsundir bíla í smærri stærðarflokkunum leika sér að því að ná þessu marki.  

Stórbætt öryggi skilar árangri í færri banaslysum og alvarlegum bílslysum og minni útblástur er líka keppikefli.  


Of snemmt að afskrifa neinn.

Ef einhver hefði spáð því fyrir í upphafi árs 1967 að rúmu ári síðar fengi Kristján Eldjárn yfirburðakosningu  sem forseti Íslands, hefði sá spádómur verið talinn fjarstæðukenndur.

Árið 1979 hafði Kristján setið með reisn á forsetastóli og áunnið sér traust og virðingu þrátt fyrir að sitja árin á undan með afar erfiðar stjórnarmyndunartilraunir í fanginu.

Ásgeir Ásgeirsson hafði á undan honum setið í 16 ár í embætti og Kristján gat auðvitað gert það líka.

Ef einhver hefði spáð því haustið 1979 að aðeins rúmu hálfu ári síðar myndu Íslendingar kjósa konu sem forseta fyrstir allra í heiminum í lýðræðislegri kosningu hefði sá spádómur þótt fráleitur.

Og nafn Vigdísar Finnbogadóttur hefði lika komið mörgum á óvart.

Varasamt er því nú, tveimur árum fyrir næstu forsetakosningar, að spá fyrir um það hverjir muni bjóða sig fram eftir heil tvö ár. En einhvern veginn er samt byrjað á að gera það, og það minnir á að fljótlega eftir að Gunnar Thoroddsen hvarf úr stóli fjármálaráðherra Viðreisnarstjórnarinnar og gerðist sendiherra í Kaupmannahöfn var farið að tala um það sem lið í því fyrir hann að fara í forsetaframboð.

En það gerði hann einmitt nokkrum árum síðar.   

Hvað um það, -  úr því að svona vangaveltur hafa byrjað svona snemma hafa mér flogið sex nöfn í hug en það geta allt eins komið einhverjir allt aðrir til skjalanna.  

 Núna flögra sex nöfn í huganum:  

Fyrst þessi fjögur: Katrín Jakobsdóttir, Bogi Ágústsson, Þorsteinn Pálsson og Ari Trausti Guðmundsson.

Ég held að hægt sé að finna sterkar röksemdir fyrir því að þetta fólk gæti sinnt embættinu með sóma, en geymi það til betri tíma að rökstyðja þetta, en nefni tvö nöfn í viðbót:  

Ólafur Ragnar Grímsson og Jón Gnarr.

Já, enginn skyldi afskrifa það að ástandið fyrri hluta árs 2016 setti af stað svipaða atburðarás og 2012.

Ólafur Ragnar á mjög öflugan stuðningsmannahóp, og sumir þeirra fögnuðu yfirlýsingu forsetans á erlendum vettvangi á dögunum um það að hann myndi ekki sækjast eftir því að gegna embættinu áfram eftir 2016.

Stuðningsmennirnir fögnuðu á þeim forsendum að einmitt með sams konar yfirlýsingu og í ársbyrjun 2012 myndi fara af stað svipuð atburðarás 2016 og 2012.

Einn helsti bloggarinn sló því meira að segja upp í fyrirsögn pistils síns að Ólafur Ragnar myndi fara fram og fagnaði því mjög í pistlinum.

Ólafur Ragnar verður 73 ára 2016 og 77 ára 2020, en það hefur margsannast í sögunni að á slíkum aldri eru margir enn í fullu fjöri og eiga mikið eftir.

Hvað Jón Gnarr snertir er heldur ekki hægt að afskrifa að hann muni eftir tveggja ára hvíld frá þátttöku í stjórnmálum slá til og bjóða sig fram. Hann útilokar það sjálfur ekki.

Hann er óvenjulegur í stjórnmálasögunni á ýmsan hátt eins og öllum er kunnugt.

Leitun er að stjórnmálamanni sem hefur fengið jafn gott umtal samstarfsfólks síns og Jón hefur fengið. Þau ummæli lýsa væntumþykju vegna hreinskilni hans, einlægni, mannlegrar hlýju, jákvæðni og kímnigáfu.

 

 

         


mbl.is Fékk martraðir vegna Besta flokksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Ég skal drepa þig, helvítið þitt!"

Fyrir sjö árum lenti ég í hópi þeirra sem hafa orðið fyrir tilefnislausum árásum ókunnugra manna og sagði frá því hér á blogginu á sínum tíma.

Ég var að koma með litla gamla Prinzinn minn af sýningu í húsi Öskju og bensínbarkinn hafði slitnað þannig að ég varð að aka frekar hægt úti á kanti eftir Vesturlandsveginum, og af því að vegurinn er á þessum stað sá breiðasti á landinu og þessi örbíll þar að auki ekki fyrir neinum á neinni akrein átti ég ekki von á því sem þá gerðist.

Fram úr mér ók fremur gamall japanskur fólksbíll og stansaði allt í einu nokkurn spöl fyrir framan mig.

Út úr honum hljóp grannvaxinn maður með hnefa á lofti beint framan að mér, örlítið bílstjóramegin þó, og andlitið var .þrútið og afmyndað af heift og bræði.

Ég sá að hann ætlaði að ráðast á mig, en svo vel vildi til stýrið á þessum 480 kílóa bíl er það léttasta og snarpasta, sem til er, þannig að rétt áður en hann kom að mér, svipti ég bílnum til vinstri svo að maðurinn lenti hægra megin upp við hann, farþegamegin.

Þar kýldi hann með hnefanum í gegnum framrúðuna svo hún mölbrotnaði og glerbrot og blóð dreifðust um bílinn um leið og hann öskraði: "Ég skal drepa þig, helvítið þitt!"

Ef hann hefði kýlt í gegnum rúðuna mín megin og höggið hitt mig, hefði hann vafalaust slasað mig illa.

Ég lenti í smá sjokki og þrátt fyrir alla bíladelluna man ég ekkert af hvaða gerð bíllinn var, sem maðurinn kom úr og ég ók framhjá kyrrstæðum, og tók ekki heldur eftir því hvort nokkur annar var í honum en árásarmaðurinn.

En æðisglampanum í augum þessa manns gleymi ég aldrei.  

Eina hugsun mín var að sleppa frá honum og hringja í farsímanum mínum á hjálp.

En ég sá bílinn ekki meira og ók niður í Sjónvarpshús og hef enga hugmynd um hver þetta var.  

 

 


mbl.is Tilefnislaus árás á Egil Helgason
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Heima" getur verið álfan.

Það er stundum talað um hugtakið "heimadómari". Þá er átt við þá pressu sem heimamenn á knattspyrnuvelli geta sett á dómara leikja þannig að þeir séu ragir við að dæma á heimamenn á vellinum, ef þeir eru í vafa.

Ég held að það sé nokkuð til í því sem landsliðsþjálfari Mexíkó segir um það að hugtakið heima geti ekki aðeins átt við einstaka land heldur líka heimsálfur eða nágrannalönd.

Dæmi um það er atvikið þegar brotið var á írönskum leikmanni á fullri ferð að markinu og kominn inn í vítateig vinstra megin, en dómarinn dæmdi ekkert.

Dómarinn var að vísu í 23ja metra fjarlægð fyrir aftan leikmennina tvo en hefði séð þetta betur  ef hann hefði verið á hlið eða aðeins framar en leikmennirnir.

Ef dómarinn hefði dæmt vítaspyrnu hefði allt orðið vitlaust á leikvanginum, þar sem Brasilíumenn voru fjölmennastir og Argentínumenn inni á vellinum. Hvort tveggja Suður-Ameríkuþjóðir en Íranir hins vegar frá fjarlægu landi í Asíu.

Dómarinn var í vafa og lét "heimamennina" njóta vafans. Íranski leikmaðurinn, sem brotið var á, var skiljanlega afar sár út í dómarann og óð að honum og stjakaði hressilega við honum með öxlinni.

Undir venjulegum kringumstæðum hefði dómarinn gefið honum að minnsta kosti gult spjald, en hann sleppti því að gera neitt í málinu, - vissi sennilega upp á sig skömmina og fannst nóg komið.

Það er alger plága í knattspyrnunni hve sóknarmenn eru útsmognir við að "fiska vítaspyrnu" eða "fiska aukaspyrnu" með því að haga málum þannig að þeir fái snertingu frá mótherjanum og láta sig þá detta.

Hér fyrr á árum hefði þetta einfaldlega verið kallað aumingjaskapur. Þá "hlupu menn upp úr" tæklingum.  

Í allt of mörgum tilvikum eru leikmenn látnir komast upp með þetta í stað þess að annað hvort sé leikurinn látinn halda áfram eða leikmaðurinn áminntur eða spjaldaður fyrir leikaraskap.  

 


mbl.is „Það á að senda dómarana heim eins og okkur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

30 mínútna hraðgöngutúr er góður fyrir marga.

Öll hreyfing og öll tilbreyting frá kyrrsetu og kyrrstöðuástandi er af hinu góða. Sumum finnst skrýtinn sá siður að við kirkjulegar athafnir rjúki allir á lappir þegar ákveðnir textar eru lesnir, en þessi hreyfing er afar holl, ekki hvað síst vegna þess hve kirkjubekkirnir eru yfirleitt slæmir til setu. 

Það væri áreiðanlega hollt ef það yrði gert að skyldu, að á öllum sýningum, leikritum, bíómyndum, hljómleikum og hvers kyns samkomum, væri viðkomandi sýning hönnuð þannig að allir stæðu á fætur og settust niður aftur á ca 20 mínútna fresti.

Maður hreyfir sig ekki nógu mikið og reglulega í nútímaþjóðfélagi.  

8 mínútna ganga góð, en fyrir þá sem vilja nota göngur til að grenna sig þarf að ganga rösklega í meira en 20 mínútur, helst ekki styttra en 30, því að fitubrennslan byrjar ekki fyrr en eftir 20 mínútna puð.

Þessir helgardagar hafa verið gefandi fyrir mig vegna útivistar og hreyfingar.

Fyrir tækifæri til þess að eiga kost á slíku og geta það á maður þakka þegar komið er á minn aldur. 

 Talsverð hreyfing var fólgin í að hlaða bíla og flugvél í ferð á föstudaginn austur á Egilsstaði, og það eru talsverðar sviptingar fólgnar í því að handstarta FRÚnni, en það verð ég að gera um þessar mundir og finnst það bara hressandi, því að taka þarf rösklega á.

Í gær var stjáklað um mótssvæðið í torfærukeppni við Egilsstaði í góðu veðri og  gærkvöldi var heilmikil hreyfing fólgin í því að taka gamla skemmtiatriðið um torfærukeppnina á lokahófi torfærufólks á Egilsstöðum, en í því atriði verður að leika hamaganginn og loftköstin á sumum jeppunum.

Um miðjan dag í dag var ég síðan að færa til merkingar á Sauðárflugvelli á Brúaröræfum til að breikka eina brautina í 15 stiga hita og háfjallasól.

Alger hreinsun á sál og líkama í öræfakyrrðinni.

Samt hreyfir maður sig venulega of lítið og er með tíu aukakíló.   


mbl.is Af hverju 8 mínútna göngutúr gæti breytt lífi þínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Honda nálægt sigri í torfærukeppni.

Honda haslaði sér upphaflega völl með vélhjólum, en þegar verksmiðjan sneri sér að bílaframleiðslu urðu minnstu bílarnir fyrir valinu, Honda 360 og 600, sem eins og nafnið bendir til voru með 360cc og 600cc smávélum sem mikið afl var kreist út úr.

Bílarnir voru 5 sentimetrum styttri en Mini og 11 sentimetrum mjórri.

En aðeins stærri bíll, Honda Civic, var bílinn sem sló í gegn um allan heim. Síðar stækkaði hann og stækkaði eftir því sem tryggir eigendur urðu eldri og efnaðri. 

Honda er trú þessum uppruna með þvi að framleiða smáþotu. Lear og siðar Cessna Citation voru brautryðjendur í smíði slíkra þotna á 7. og 8. áratugnum, en Lear hvarf og Citation fór að stækka.

Fyrir um aldarfjórðungi innleiddi Árni Kópsson byltingu í torfærukeppni hér á landi með því að koma með alveg nýja hugsun í sérsmíðuðum bílum sem fékk nafnið Heimasætan.

Árni áttaði sig á gildi þess að enda þótt hátt þyrfti að vera undir bílinn væri mikilvægt að þyngdarpunktur hans væri sem neðst og næst miðjunni og sem fjærst öllum hjólunum.

Heimasætan var því með langt á milli hjóla, sem voru alveg úti í hornum bílsins og vélin var alveg fyrir aftan framöxul.

Ökumaðurinn sat lágt og nálægt afturhjóliunu og hafði því góða yfirsýn yfir stöðu bílsins en það gat bitnað á því að sjá það sem væri næst framendanum.

Vélin var í grunninn V-8 "small-block" af þrautreyndri amerískri gerð og "tjúnuð" upp í mörg hundruð hestöfl eftir bandarískri fyrirmynd eftir kúnstarinnar reglum með turbó og nítróinnspýtingu.

Sagt er að sá kraftmesti í Egilsstaðatorfærunni í gær hafi haft yfir á annað þúsund hestöflum að ráð, að vísu í stutta stund í einu.

Þegar ég kom á svæðið í fyrradag vakti hins vegar sérstaka athygli mína bíll, sem mér sýndist strax að gaman yrði að fylgjast með.

Höfuðatriði þess var gerólík uppsetning, miðjumótor fyrir aftan ökumannssætið.

Eins og glöggt sést í Formúlunni og með því að skoða frábærustu sportbíla heims er þetta besta fyrirkomulagið, af þvi að þyngstu hlutum bílsins er komið fyrir í miðju hans.

Um vélina í bílnum notuðu sumir orðið móðgun, því að hún var minna en helmingur að rúmtaki V-8 vélanna í hinum bílunum, 2,4 lítra fjögurra strokka Honda.

Margt annað var ekki frá Honda, svo sem skiptingin sem var frá Chrysler.  

Fljótlega komu í ljós kostir þessa bíls Guðna Grímssonar, sem bar nafnið Kubbur. Aðal kosturinn er léttleikinn, aðeins rúmlega 1000 kíló, en flestir hinna voru um 500 kílóum þyngri.

Þrautirnar voru sex og þegar fimm var lokið, var Hondan með nauma 20 stiga forystu, en í síðustu þrautinni, tímaþrautinni, gafst Chrysler sjálfskiptingin upp og Kubburinn og Guðni Grímsson duttu niður í annað sætið.

Sigurvegarinn, "Kórdrengurinn" sem var smíðaður með gamla laginu, var léttastur hinna bílanna og kostir þess birtust í árangrinum, auk þess sem Snorri Þór Árnason sýndi snilldartakta og sýndi, að Íslandsmeistaratilillinn í fyrra var ekki tilviljun ein.

Snorri náði langbestum tíma í hraðaþrautinni og hefði líklega komist hvort eð er upp fyrir Guðna.  

En það verður gaman að sjá hvort "Formúlu"-formúlan á torfærubíl á erindi í torfærukeppnina og byltir þar kannski álíka miklu og Heimasæta Árna Kópssonar gerði á sínum tíma.

Enn hefur ekki verið hægt að leysa það viðfangsefni að vera með sjálfstæða fjöðrun á öllum hjólum, en aldrei er að vita nema það muni gerast þótt síðar verði.  

  


mbl.is Honda framleiðir einkaþotur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guð láti gott á vita.

Það er fagnaðarefni að frestað verði lokun flugbrautanna þriggja, sem til stóð að loka í sumar og athuga þau mál betur. Guð láti gott á vita.

Sagt er að dýrt sé að viðhalda brautunum. Af því að ég hef reynslu af slíku sé ég ekki að það eigi við Kaldármela, sem eru í miðri sveit og ekki langt frá Reykjavik.

Sagt er að brautin á Sprengisandi sé í friðlandi og þess vegna verði að leggja hana niður.

Í aðeins 2ja kílómetra fjarlægð frá henni eru stór mannvirki, upphleyptur Kvíslaveitavegur og Kvislaveita 5 með sinni stóru stíflu og manngerðu lóni, auk þess sem vegarslóðar liggja inn í friðlandið.

Ég hef áður lýst því hér á síðunni hve miklu meira rask er af vegarslóðum en náttúrugerðum flugbrautum sem aðeins eru valtaðar og settar lausar merkingar á.

Ef slíkar brautir eru lagðar niður og merkingarnar teknar sér enginn árið eftir að þar hafi verið flugbraut.  

Vegarslóðarnir grafast hins vegar niður í landið, sums staðar um allt að heilan metra eins og í Veiðivötnum, en flugbrautirnar grafast ekkert niður, af því að engar tvær flugvélar lenda í sömu förunum.

Það væri því nær að leggja niður alla vegarslóða í friðlöndum sem eru mörg hundruð kílómetra langir heldur en þær tvær flugbrautir upp á 1,7 kílómetra sem eru innan marka friðlanda.  

Í Herðubreiðarlindum er flugbraut í friðland, og er þar með sagt að það eigi að leggja hana niður eða hvað?

En halda áfram að nota vegarslóðana í því friðlandi og friðlandinu norðar, þar sem eru vegarslóðar, sem grafast æ meira niður?  

Vegna radda um spjöll vegna Sauðárflugvallar er rétt að geta þess að hann er ekki inni í friðlandi og að um hann gildir það að árið eftir að merkingarnar yrðu fjarlægðar og völlurinn ekki valtaður, sæi enginn að þar hafi verið lendingarstaður.  

 


mbl.is Fresta afskráningu flugbrauta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband