Færsluflokkur: Bloggar
13.5.2014 | 20:34
Löngu úrelt skipting og skipulag höfuðborgarsvæðisins.
Ef litið er á kort af höfuðborgarsvæðinu sést að hverfin þrjú, Grafarvogur, Árbær og Breiðholt ættu miklu frekar að vera saman í sérstöku, stóru sveitarfélagi því að Kópavogur liggur nær Reykjavík.
Þyngdarmiðja íbúðabyggðar höfuðborgarsvæðisins er aðeins nokkur hundruð metra fyrir norðvestan Skemmuhverfið í Kópavogi.
1954 gafst gullið tækifæri til að sameina Reykjavík og Kópavog en eingöngu þröngir pólitískir hagsmunir tveggja flokka, Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokksins, komu í veg fyrir það.
Í Reykjavík voru Sjálfstæðismenn með meirihluta í bæjarstjórn en "kommarnir" voru í meirihluta í Kópavogi.
Sameining hefði þýtt að báðir þessir flokkar hefðu misst bæjarstjórnarmeirihluta, kommarnir vegna þess að þeir réðu ekki lengur sem meirihlutaafl í sérstöku sveitarfélagi, og Sjallar hefðu misst meirihlutann í Reykjavík við það að fá hina vinstri sinnuðu kjósendur í Kópavogi inn á kjörskrá í Reykjavík.
Að vísu hefði verið hægt að koma í veg fyrir þau skipulagsslys, sem síðan hafa orðið á þessu svæði með því að drífa í því að nota lagasetningu til að skapa sérstakt sameiginlegt skipulagsvald fyrir höfuðborgarsvæðið, en það var aldrei gert.
Gott dæmi um ruglið er það, að til þess að komast á bíl hundrað metra vegalengd milli húsa, sem eru annars vegar í Salahverfinu í Kópavogi og hins vegar í Seljahverfinu í Breiðholtinu, þarf að aka fjögurra kílómetra vegalengd !
Milli landamerkjum þessara tveggja hverfa liggur sem sé á stærstum kafla svæði, sem líkist helst einskis manns hlutlausu svæði á milli tveggja óvinaríkja !
Í græðgisbólunni í aðdraganda Hrunsins ríkti stjórnlaus og skipulagslaus keppni milli sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um sölu lóða og byggingu nýrra hverfa.
Raunar hefur þetta ástand verið að miklu leyti viðvarandi árum saman á svæðinu. Þannig hefur Garðabær byggt blekkingar sínar varðandi Álftanesveg á þeirri draumsýn að reisa með hraði 20 þúsund manna byggð á Álftanesi með tilheyrandi hraðbraut og lengi vel var það draumsýn á Seltjarnarnesi að reisa stórbyggð þar til að geta selt nógu mikið af lóðum til að auglýsa "lægsta útvar á Íslandi."
Hugsunin á bak við er sú, að ef byggðin haldi ekki áfram að vaxa hratt, fækki þar yngra fólkinu og þar með myndu tekjurnar af því fyrir bæjarfélagið minnka.
Allir sjá, að á Seltjarnarnesi hlýtur að koma að því að ekki verði hægt að fjölga fólki og raunar er komið að því þegar.
En ef Seltjarnarnes væri hluti af Reykjavík og íbúar þar borguðu útsvar til Reykjavíkur, væri engin ástæða fyrir því kröfunni um hinn endalausa vöxt byggðarinnar þar.
Klaufagangur hlýtur að ráða því að framboð til borgarstjórnar í Reykjavík setji upp auglýsingu í Kópavogi og tali í henni um "hverfi borgarinnar".
Væri hins vegar höfuðborgarsvæðið eitt sveitarfélag með 3-5 nokkuð sjálfstæðum einingum drjúgrar sjálfsstjórnar, væri svona auglýsing hins vegar fullkomlega eðlileg.
![]() |
Er þetta upphaf óvinveittrar yfirtöku? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
13.5.2014 | 11:42
Er á þingi vegna þingmannseiðsins.
Pétur Blöndal hefur setið óvenju lengi á þingi miðað við umrót síðustu sjö ára. Þetta hefur honum ekki tekisti vegna þess að hann sé leiðitamur forystu síns flokks eða öflugum valdahópum innan hans heldur vegna þess, að nógu stór kjósenda hefur treyst honum í öll þessi ár til þess að efna þingmannseiðinn um að fara eingöngu eftir eigin sannfæringu.
Það getur varla verið neitt annað sem viðheldur fylgi hans, vegna þess skoðanir hans á mörgum málum eru bæði sérstakar og oft umdeilanlegar, bæði meðal almennings og meðal ráðandi afla í flokki hans.
Við Hrunið hrundi ekki aðeins bankakerfið, heldur traust fólks á stjórnmálamönnum og stjórnmálastarfi.
Traust almennings á Alþingi hefur farið vel niður fyrir 20% og er með því lægsta, sem nokkur opinber stofnun má sæta.
Í ýmsum efnum er ég innilega ósammál Pétri, til dæmis varðandi sum atriði umhverfis- og náttúruverndarmála.
Hef þó tekið eftir því að það stafar oft af því að hann virðist ekki hafa sökkt sér nægilega niður í þann málaflokk og í flestum málum erum við þó í raun sammála.
En um Pétur er hægt að segja það sem einhvern tíma var sagt um stjórnmálamann: "Ég er þér innilega ósammála um sumar þeirra skoðana, sem þú heldur fram og hef á þeim skömm, en ég mun berjast með kjafti og klóm fyrir því að þú fáir tækifæri til að láta þær í ljósi."
Ég held að það séu fáir ef nokkrir sem setið hafa á þingi jafn lengi og Pétur að því er virðist fyrir það eitt að sýna í verki að hann hefur fyrst og fremst þingmannseið sinn í heiðri.
Fyrir það á hann heiður skilinn.
![]() |
Felur í sér óásættanlega mismunun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
12.5.2014 | 20:01
Grundvallarforsenda blaðamennskunnar.
Svokallaðir "flautublístrarar" ("whistle-blowers"), fólk sem í þágu almannahagsmuna telur sig knúið til að upplýsa um alvarleg málefni, hefur ótal sinnum markað djúp spor í sögu þjóða heims.
Með slíkra má flokka leyniþjónustumenn og njósnara á borð við Richard Sorge, sem olli straumhvörfum í Heimsstyrjöldinni síðari með því að gera Rússum kleyft að flytja 300 þúsund manna vel búið og þjálfað lið, 1700 skriðdreka og 1500 flugvélar frá Síberíu tl að verja Moskvu og vinna orrustuna um hana í desember 1941.
Langoftast verður þetta fólk að treysta á nafnleynd, af því að öflin, sem það haggar við, hika ekki við að ryðja því úr vegi. Japanir hengdu Sorge 1944.
"Deep throat", heimildarmaður Washington post um Watergate innbrotið, olli falli Bandaríjaforseta.
Í blaðamennsku væri umhverfið óbærilegt, ef uppljóstrarar og heimildamenn gætu ekki treyst á þagnarheit viðkomandi blaðamanns.
Blaðamaður, sem rýfur slíkan trúnað, verður ekki langlífur í starfi, blaðamennskan yrði almennt ósönn og bitlaus.
Trúnaðarheit blaðamannsins nær ekki aðeins yfir það að upplýsa ekki um mál, sem honum hefur verið treyst fyrir, heldur getur það líka falist í því að heita því að upplýsa ekki um það, sem heimildamaðurinn hefur sagt frá, vegna þeirra afleiðinga sem það gæti haft fyrir heimildamanninn, að spjótum væri beint að honum fyrir framburð hans.
Frá ferli mínum geymi ég nokkur dæmi um slíkt, oftast vegna ummæla í einkasamtölum, og enda þótt mér kunni að þykja súrt í broti, að geta ekki komið fram með vitnisburð sem hefur mikil áhrif á viðkomandi mál, verð ég bæði að virða trúnaðarheitið og sýna heimildamanni mínum skilning.
Ég geymi til dæmis hjá mér einum mjög mikilsverða heimild varðandi grun um hleranir á Íslandi, sem heimildamaður minn einn treystir sér ekki til að láta rekja til sín.
Meðan það ástand varir er málið stopp, því miður, en ég mun virða ósk heimildamannsins í hvívetna og þess vegna fara með þetta trúnaðrmál í gröfina, ef til þess kæmi.
Þegar ég fjallaði um Kárahjúkavirkjun á sínum tíma og skrifaði bókina "Kárahnjúkar-með og á móti", sem á 10 ára afmæli í sumar, fékk ég ýmsar mikilsverðar upplýsingar frá mönnum, sem ekki aðeins óskuðu nafnleyndar, heldur óskuðu líka þess, að það sem ég birti, yrði ekki hægt að rekja til þeirra.
Ahyglisvert er að aðeins einn þessara manna, Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri, áræddi að koma í viðtal í heimildamyndinni um virkjunina.
Hjá öllum hinum gilti það, að ef hægt yrði að rekja ákveðin atriði eða staðreyndir til þeirra, óttuðust þeir að fara myndi hjá þeim á svipaðan hátt og gerðist í Austur-Þýskalandi kommúnismans, að þeir yrðu hægt og bítandi kyrktir sem fræðimenn á þann hátt að missa verkefni og vísindaheiður smám saman og þar með fjárhagslegan grundvöll til lífs og starfs.
![]() |
Fordæma aðför lögreglu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.5.2014 | 10:32
"Bitlingar" eða þegnskylduvinna?
"Stjórnmál eru list hins mögulega" segir máltækið. Þar er átt við það, að enda þótt eðlilegt sé að menn setji sér takmörk, gefi heit eða vilji að eitthvað sé öðruvísi en það er í þjóðlífi okkar, er oft hægara um að tala en í að komast.
Nokkurt rót varð í síðustu byggðakosningum 2010. Stjórnmál og stjórnmálamenn lentu í trúnaðarbresti og á nokkrum stöðum á landinu, þar á meðal í fjölmennustu byggðunum, spruttu upp ný öfl, sem nærðust á eðlilegri óánægju almennings.
Óánægja með sveitarstjórnarmenn hefur að vísu verið lengi fyrir hendi, þeir sakaðir um spillingu og að hygla sjálfum sér og öðrum. Hefur oft verið talað um laun fyrir nefndarstörf og setu í stjórnum og ráðum sem "bitlinga" handa fólki, sem vanræki þar á ofan þessi störf.
Víða um land má nú sjá merki þess að þetta tal hefur að hluta byggst á vanþekkingu.
Nú kemur í ljós að í sumum hinna nýju óánægjuframboðslista hefur orðið fólksflótti þannig að jafnvel obbinn af fulltrúunum býður sig ekki fram á ný og þetta fólk útskýrir það með því, að vinnan, sem fylgi því að vera í sveitarstjórn, sé mun meiri en ætlað var og launin fyrir hana einnig miklu minni en búast hefði mátt við.
Nú sést, að í sumum byggðalögum koma jafnvel ekki framboðslistar fram.
Ástæða þessa er sú, að í nútímaþjóðfélagi hefur starfsemi sveitarfélaga og stofnana þeirra, rétt eins og starfsemi ríkisins og stofnana þeirra, orðið æ flóknari og umfangsmeiri.
Að sjálfsögðu verða ævinlega fyrir hendi þau sannindi að allt vald sé spillandi og hugtakið "bitlingar" í neikvæðri merkingu því fjarri því að vera dautt. Þess vegna þarf sífelld aðhald.
En almenningur hefur líka vitað of lítið um það, í hverju stjórnmálastarf er fólgið og einnig það, að enda þótt búið sé að koma meira óorði á stjórnmál og stjórnmálamenn en dæmi eru áður um, er almenn þátttaka í stjórnmálum ekki einasta forsenda lýðræðisins, heldur forsenda þess að veita aðhald og stuðla að umbótum til hagsbóta fyrir allan almenning.
![]() |
Eitt framboð barst í Vesturbyggð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.5.2014 | 04:30
Óreiða á sviði atkvæðagreiðslna í tæpa öld.
Einn af 14 punktum Woodrows Wilsons, forseta Bandaríkjanna, um framtíðarskipan landamæra í Evrópu eftir Fyrri heimsstyrjöldina, var að þjóðarbrot og þjóðir skyldu ákveða sjálft á lýðræðislegan og frjálsan hátt í hvaða eða hvers konar ríki það vildi búa.
Því fór hins vegar fjarri að þetta væri gert eins og Wilson vildi, því að sigurvegararnir, Bretar og þó einkum Frakkar, stóðu aðeins fyrir þessu á tveimur landssvæðum, svo ég muni eftir, í Slésvík og Saar-héraðinu, hvort tveggja á landamærum Þýskalands.
Raunar var einnig þjóðaratkvæðagreiðsla á Íslandi um sambandslagasaming við Danmörku 1918, sem færði Íslandi frelsi og fullveldi og ákvæði um möguleikana á að slíta konungssambandinu eftir 25 ár.
Meira en ár leið frá styrjaldarlokum þar til kosið var í Slésvík og ekki var kosið í Saar-héraðinu fyrr en meira en 16 árum eftir stríðið.
Þess var vandlega gætt að nægur friður og ró ríkti til þess að kosið yrði án óeðlilegs þrýstings og þess einnig vandlega gætt að kosningarnar færu heiðarlega og rétt fram undir öflugu eftirliti.
Að öðru leyti voru landamæri ríkja ákveðin af sigurvegurunum í stríðinu og eftir Seinni heimsstyrjöldina var beitt valdi til að ákveða landamæri Þýskalands og fleiri landamæri, og 14 milljónir manna fluttir frá heimkynnum sínum.
Fyrir dyrum stendur þjóðaratkvæðagreiðsla í Skotlandi um stöðu landsins, en ekkert slíkt hefur farið fram annars staðar, þar sem hreyfingar hafa verið uppi meðal þjóða og þjóðarbrota í þá veru, svo sem í Baskalandi og Katalóníu á Spáni.
Og svipað var uppi á teningnum hjá frönskumælandi mönnum í Quebec í Kanada án þess að því væri ansað.
Í kosningunum, sem nú eru keyrðar fram í flaustri og óróa í austurhéruðum Úkraínu, fer því víðs fjarri að kosningarnar geti verið marktækar eins og ástandið er þar og auk þess er alger skortur á eftirliti og festu, sem nauðsynleg eru í lýðræðislegum kosningum.
![]() |
Stjórnleysi á kjörstað í Úkraínu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 04:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.5.2014 | 22:04
"Æ, æ, - ég er með fullan fataskáp af engu til að fara í."
Ofangreind setning minnir mig að Milton Berle hafi notað sem dæmigerða setningu fyrir konur, og hún virðist við fyrstu sýn ríma við könnun á því hve mikið af niðurpökkuðum fötum konur nota fyrir ferðalagið.
Ef ferðast á hér á landi held ég hins vegar að hlutfallið sé jafnara á milli kynjanna, því að leitun er að landi, þar sem eins tvísýnt er um veður og veðrabrigði geta verið snögg, auk þess sem Færeyjar og Ísland eru svölustu staðir Evrópu á sumrin.
![]() |
90 prósent kvenna nota ekki öll fötin sem þær pakka niður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.5.2014 | 21:58
Meðmæli ekki sama og yfirlýsing um stuðning í kosningum.
Sú var tíðin að Sjálfstæðisflokkurinn bjó yfir skrá yfir alla kjósendur í Reykjavík og voru þar færðar til bókar þær upplýsingar, sem kunnugt var um varðandi stjórnmálaskoðanir kjósendanna.
Enginn flokkur var með neitt viðlíka gott skipulag á kosningabaráttu sinni og Sjallarnir. Ég komst snemma í snertingu við þetta, því að í hverjum kosningum var kosningaskrifstofa á heimili foreldra minna og sumrin 1959 og 1960 var ég starfsmaður á aðalskrifstofu flokksins í Reykjavík, fyrra sumari í Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll og seinna sumarið í nýrri skrifstofu við Melatorg.
1959 voru tvennar Alþingiskosningar og hin smurða flokks- og kosningavél var keyrð af kunnáttu og nákvæmni.
Þessi sumur skemmti ég á öllum héraðsmótum og helstu fundum flokksins og var því á ferðalagi um landið milli héraðsmóta hálfa vikuna eða rúmlega það og gat því ekki haldist í neinni fastri vinnu, nema að flokkurinn skaffaði mér hana sjálfur.
Einu sinni í einhverjum gassagangi í fjöri á skrifstofunni við Austurvöll datt ég á borð svo að það féll um koll með uppröðuðum um 10 þúsund kjósendum, sem dreifðust um allt gólfið !
Í fyrst leit út fyrir nokkurra daga vinnutap, en í ljós kom að kjósendurnir höfðu raðast það vel út um gólfið að miklu fljótlegra var að koma þeim í rétta röð á ný en leit út fyrir.
Mér fannst þá mikil mótsögn fólgin í þvi að sá íslenski stjórnmálaflokkur sem gagnrýndi réttilega alræðið, skoðanakúgunina og persónunjósnirnar í kommúnistalöndunum skyldi um leið vera sá flokkur hér á landi, sem reyndi mest allra flokka að njósna sem allra mest um kjósendur.
Og einnig er það mikil mótsögn, að það íslenskt stjórnmálaafl, sem mest og best gagnrýndi það að félagsskírteini í kommúnistaflokki Sovétríkjanna skyldi vera skilyrði fyrir því að starfa í dómskerfinu þar í landi, skuli hafa ráðið yfir dómsmálaráðuneyti Íslands nær samfellt í bráðum heila öld og lagt á það ofuráherslu að í dómskerfið bæri merki um það.
Einn virðist eima eftir af viðleitni til sem mestra njósna um kjósendur og er þessi árátta furðu langlíf.
Nafn á meðmælendalista segir auk þess ekkert ákveðið um stuðning viðkomandi við einstök framboð, heldur einungis það að hann telji frambjóðendurna á listanum og þar með listann sjálfa boðlegan í kosningunum, burtséð frá þeim stjórnmálaskoðunum sem listinn beitir sér fyrir.
Eina skilyrðið er að meðmælandinn sé á kjörskrá í viðkomandi kjördæmi og að hverjum einum sé ekki heimilt að mæla með nema einum lista.
Í ljósi þessa finnst mér illskiljanlegt að fara að skipta sér af starfi kjörstjórnar og hnýsast í meðmælendalistana.
![]() |
Hluti af gamalli og úreltri pólitík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.5.2014 | 17:24
Yfirleitt vinnur besta liðið í svona keppni.
Þegar úrslitin í keppninni um Englandsmeistaratitilinn eru ráðin er oft mikið rætt um síðustu leikina, sem þeirra leikja sem réðu úrslitum.
Fylgjendur Liverpool horfa einnig á langvinna sigurgöngu sinna manna og þá óheppni að glutra svo glæsilegri frammistöðu niður í leik við botnlið.
Þessi nálgun felur í sér mikla einföldun. Þessi keppni er nefnilega frekar með einkenni langhlaups en einstakra spretta eða endaspretts.
Allir leikirnir frá upphafinu í haust til lokaumferðarinnar buðu nefnilega upp á jafnmörg stig í pottinum og öll mörkin hefðu verið talin saman og City unnið, ef tvö lið hefðu orðið efst og jöfn að stigum.
Í raun réðu einstök töp, jafntefli eða vinningar jafn miklu um útkomuna, hvort sem leikið var við topplið, botnlið eða miðlungslið snemma eða seint á leiktíðinni.
Í svona keppni eru úrslitin yfirleitt skýr: Besta liðið vinnur.
![]() |
Man City enskur meistari |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.5.2014 | 11:44
Aðalatriðið að vera nógu stór og skulda nógu mikið ?
Víða um lönd gilti það um svokallaðar "björgunaraðgerðir" stjórnvalda, þegar gjaldþrota stórfyrirtækjum var forðað frá gjaldþroti á kostnað skattborgara og almennings, að þær féllu undir lýsingu fyrrum fjármálaráðherra Bandaríkjanna, að vera "ósanngjarnar en nauðsynlegar."
Þetta átti einnig við í mörgum tilfellum hér á landi jafnt sem í þúsund sinnum stærra hagkerfi Bandaríkjanna, þar sem löngum hefur verið sagt, að það, sem sé gott fyrir General Motors sé gott fyrir Bandaríkin.
Hin "nauðsynlega" ósanngirni blasir við. Lítil fyrirtæki, sem höfðu jafnvel stillt sig um að belgja sig út með bruðli og óhóflegum lántökum, mega sæta því að þurfa eftir "björgunaraðgerðir" stjórnvalda að keppa við stórfyrirtæki, sem fá stórfellda, óverðskuldaða og ósanngjarna forgjöf.
Stjórnendur litlu fyrirtækjanna eru að sjálfsögðu óánægðir og hneykslaðir. Þegar þeir hugsa til baka velta þeir fyrir sér hve þeir hefðu getað orðið miklu stærri á græðgisbóluárunum og veitt stærstu fyrirtækjunum meiri samkeppnni, ef þeir hefðu hagað sér á jafn óábyrgan hátt og þau.
Og ekki síður er það blóðugt að þurfa að sæta því að vera í raun refsað fyrir ráðvendni og halda áfram að vera lítill, vegna þess að þeim stóru er hyglað og stórlega mismunað svo að þeir geti haldið áfram að vera stórir.
![]() |
Björgunaraðgerðir ósanngjarnar en nauðsynlegar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.5.2014 | 01:21
Sumargleðin 35 árum eða jafnvel enn lengra á undan !
Tímamót, skeggjuð manneskja í kjól á sviðinu sem heillar alla upp úr skónum, Austurríkismaður sem sigrar í Eurovision?
Nei.
Á facebooksíðu Þuríðar Sigurðardóttur má sjá ljósmynd, sem hún hefur legið á eins og ormur á gulli í 35 ár og sýnir eitt af eftirminnilegri atriðum Sumargleðinnar á áttunda áratugnum, skeggjaða hljómsveitarkonu.
Það var fátt sem þeim hópi datt ekki í hug. Meðal annars sumarafbrigðið af jólasveini í fullum jólasveinabúningi, svonefndur júlísveinn, látinn fara hamförum á Norðurlandi um hásumar og slær í gegn hjá Skagfirðingum, þegar hann kveðst aðspurður vera tvíburabróðir Ketkróks og heita Sauðárkrókur !
Enn er ekki runninn upp sá tími þegar hægt verður að telja árin afturábak frá júlísveini í Júróvision aftur til Sauðárkróks á Króknum ! En hver veit nema sá tími muni koma þegar júlísveinn leggur Evrópu að fótum sér.
![]() |
Skeggjaða konan sigraði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 03:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)