15.1.2007 | 23:55
GALIN VIRKJANAFÍKN - SEINNI HLUTI
Galin virkjanafíkn, - fyrir svo stórum orðum þarf rökstuðning. Lítum fyrst á niðurstöðu hans og haldið þið ykkur!
Virkjanasinnar með dollaramerki í augum stefna nú í fúlustu alvöru að nýjum álverum sem þurfa munu alla virkjanlega orku landsins á sama tíma sem þeir setja fram hugmyndir um stórfellda framleiðslu á vetni hér á landi sem skipta muni sköpum fyrir orkunotkun Evrópu. Og samt verður þessi orka ekki til ef allar álverksmiðjurnar rísa! Og orkuþörf Evrópu er hundraðfalt meiri en öll orka Íslands!
Hvað er það sem leiðir menn til að fara svona langt fram úr sjálfum sér án þess að nokkrum finnist það athugavert? Lítum nánar á feril virkjanafíkninnar.
1. Aðstæður hafa breyst síðan farið var í fyrstu stórvirkjunina á sjöunda áratug síðustu aldar. Þá bráðvantaði Íslendinga rafmagn og sagt var að ódýrara væri að virkja stórt í samvinnu við stóran erlendan kaupanda en virkja víðar og smærra. Ég keypti það. Renna þyrfti fleiri stoðum undir gjaldeyrisöflun, - 95 prósent útflutnings væru fiskur. Ég keypti það. Afleiddur úrvinnsluiðnaður áls myndi fylgja í kjölfarið. Ég keypti það, - asni, af því að það varð auðvitað ekkert úr því. Þegar Blanda var virkjuð var sagt að ekki mætti hafa öll helstu orkuverin á eldvirku svæði. Ég keypti það, - með semingi þó.
Nú er flest breytt. Við framleiðum brátt fimmfalt meira rafmagn en við þurfum til eigin nota hér heima. Gjaldeyrisöflun er orðin miklu fjölbreyttari en áður og raunar stefnt í of mikla einhæfni varðandi álútflutninginn ef halda á áfram á sama ofurhraða stóriðjustefnunnar. ´
Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins fyrir jól var sagt að sagan sýndi að úrtölur og andstaða við álver og stórvirkjun á sjöunda áratugnum hefðu ekki átt rétt á sér. Þess vegna ættu þau heldur ekki rétt á sér nú. Höfundur bréfsins er þarna að bera saman gerólíkar aðstæður, lætur sem ekkert hafi breyst á 40 árum og hefur ekkert lært. Eins og alkinn, sem minnist þess enn hvað fyrstu soparnir gáfu mikla nautn og sér ekki að neyslan er komin úr böndunum og allt hefur breyst.
2. Þegar menn gefa sér það að ekkert hafi breyst frá fyrstu álgleðinni fyrir 40 árum gleyma þeir því að það eru takmörk fyrir öllu. Virkjanafíknin hefur margfaldast, - fyrsta álverið var 33 þúsund tonn en nú eru fyrirætlanir um 800 þúsund tonna framleiðsluaukningu í nýjum eða stækkuðum álverum. Og fyrir liggja yfirlýsingar álfurstanna um þörf á minnst 1500 þúsund tonna framleiðsluaukningu ef álverin eigi að vera samkeppnishæf. Þá er sleppt 600 þúsund tonnunum sem Norsk Hydro vill fá að framleiða hér á landi.
Á málþingi Framtíðarlandsins fyrir jól færði Andri Snær Magnason að því gild rök með einfaldri samlagningu á þessari framleiðsluaukningu og þeirri orku sem til þyrfti, að til þess að fullnægja henni þyrfti að beisla alla virkjanlega orku landsins og mættu menn teljast heppnir ef Jökulsá á Fjöllum fylgdi ekki með í lokin. Ég minni á orð forsætisráðherra nýlega að "ólíklegt" væri, - takið eftir orðalaginu, - "ólíklegt væri" að aftur yrði reist jafn stór virkjun og Kárahnjúkavirkjun. Jökulsá á Fjöllum er eini vatnsaflsvirkjanakosturinn sem er jafn stór og Kárahnjúkavirkjun og Geir útilokaði ekki þennan kost.
Munið þið eftir framtíðarsýn virkjanamanna fyrir u.þ.b. 15 árum: Sæstrengur frá Íslandi flytti svo mikla orku til Evrópu að við gætum orðið í sporum olíuríkjanna og spilað á orkuverðið í Evrópu? Við sáum okkur í anda sitjandi í framtíðinni eins og olíufursta í kuflum með túrbana við ysta haf, hafandi ráð Evrópumanna í hendi okkar! Sjö árum seinna komst ég að því að þessi gríðarlega orka var vel innan við eitt prósent af orkuþörf Evrópu!
En nú er draumruglið komið á enn hærra stig: Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins nýlega er vitnað í erlendan mektarmann um hina miklu möguleika Íslendinga til að framleiða vetni til útflutnings til Evrópu og að Ísland geti orðið "Bahrain norðursins."
Enn sitja menn hér uppi á klakanum og dreymir að þeir verði í framtíðinni líkt og olíufurstar í kuflum með túrbana og spili á orkuverðið í Evrópu, - en þessi sýn er enn galnari en fyrr því að það er ekki aðeins út í hött að þessi orkuframleiðsla skipti nokkrum sköpum fremur en fyrir 15 árum, heldur eru menn í þessu delerium að ráðstafa í huganum orku sem verður ekki til ef öll álverin verða reist sem stefnt er að!
Ef þetta er ekki galið veit ég ekki hvað það orð þýðir. Eina skýringin sem ég finn á þessu er sú að í gegnum 40 ára heilaþvott og síbylju um dýrð stóriðju og virkjana séum við orðin svo heltekin af þessari virkjanafíkn að svona er komið fyrir okkur.
Maður veit ekki hvort maður á að hlæja eða gráta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)