19.1.2007 | 00:01
VANDI SJÁLFSTÆÐISFLOKKSINS OG ANDRI SNÆR
Ég hef frétt af hópi ungra frjálshyggjumanna sem vilja að Sjálfstæðisflokkurinn fái verðskuldaða refsingu í næstu kosningum. Það eitt geti komið honum á réttan kúrs í umhverfismálum. Fyrir hálfu ári hefði það líklega verið óhugsandi að þáverandi framkvæmdastjóri flokksins ásamt heiðbláum hægri ungliðum hampaði rithöfundi sem reis gegn stóriðju- og virkjanstefnu flokkksins. En verðlaun Kjartans Gunnarssonar og hans manna til Andra Snæs Magnasonar sýna að nýir straumar hafa myndast eftir að ægivalds Davíðs nýtur ekki lengur við.
Sumum hefur kannski þótt það misráðið hjá hinum óflokksbundna rithöfundi að taka á móti þessari verðskulduðu viðurkenningu fyrir frábæra bók. En ég held að með þessu hafi Andri Snær þvert á móti sýnt kjark og stórhug til að vinna umhverfisverndarhugsjóninni sem mest gagn með því að sýna fram á að hún er þverpólitísk og á vaxandi hljómgrunni í öllu pólitíska litrrófinu frá hægri til vinstri.
SLegið var það vopn úr hendi virkjanasinna að spyrða umhverfisverndarfólk ævinlega við vinstri stefnu. Þótt þingmenn VG, Katrín Fjeldsted og nokkrir Samfylkingarþingmenn stæðu vaktina vel í andófinu hefur stóriðjustefnan hingað til verið borin uppi af stjórnarflokkunum og meirihluta þingmanna Samfylkingar.
En nú eru stórir hópar fólks kjósenda í öllum flokkum á móti ríkjandi virkjanastefnu og 2002 var í skoðanakönnun tæpur helmingur þeirra sem vildu kjósa Sjálfstæðisflokkinn á móti Kárahnjúkavirkjun. Þessi hópur var þá tæp 20 prósent þjóðarinnar. Á sama tíma var samsvarandi hópur áhangenda VG um 12 prósent þjóðarinnar.
Það er ótrúleg mótsögn fólgin í því að flokkur frjálshyggju á Íslandi skuli hafa staðið á sovéskan hátt fyrir stærstu framkvæmd framkvæmd Íslandssögunnar, sem enginn einkarekinn aðili hefði getað farið út í vegna þess að arðsemin var of lítil og áhættan of mikil.
Vandi Sjálfstæðisflokksins felst í þeim klofningi í flokknum sem í raun ríkir um þessi mál. Ætlar hann að fara inn í Íslandssöguna með höfuðábyrgð á mestu hervirkjum á íslenskri náttúru sem framin hafa verið og verða framin?
Nú er skeggrætt um að þreifingar séu á milli Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks um stjórnarmyndun eftir kosningar og að í hinum stjórnarandstöðuflokkunum séu jafnvel þeir til sem slái ekki hendinni á móti samsvarandi bollalegginum af þeirra hálfu.
Samkvæmt þessu er það hugsanlegt að þeim stjórnarflokkanna sem ber höfuðábyrgð á virkjanafíkninni muni jafnvel eftir fylgistap i næstu kosningum og fall stjórnarinnar verða umbunað með því að gera honum kleift að framlengja 16 ára slímsetu sína í stjórn.
Það yrði dapurlegt fyrir lýðræðið í landinu. 1971, í eina skiptið sem stjórn hefur misst meirihluta sinn á lýðveldistímanum, þótti að sjálfsögðu eðlilegt að stjórnarandstaðan myndaði stjórn. Á þann hátt vita kjósendur að hverju þeir ganga þegar þeir greiða atkvæði með eða móti ríkisstjórn.
Enn eitt dæmi um mótsagnir í stjórnmálum: Í kosningabaráttunni fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar var á stað einum úti á landi lagt fram plagg þar sem það var tíundað hvernig hugvit og einkaframtak náðí að skapa ný störf í á svæðinu í staðinn fyrir 120 störf sem lögðust niður þegar fyrirtæki, sem réði lögum og lofum í bænum í sovéskum stíl, varð gjaldþrota.
Eftir það gjaldþrot sýndist mönnum landauðn blasa við. En hugvit einkaframtaksins skapaði störf í staðinn af ýmsum toga, sem mörg hver hefðu ekki orðið til undir ægishjálmi hins staðnaða stórfyrirtækis.
Maður skyldi ætla að frjálshyggjusinnaðir hægrimenn í bæjarfélaginu hefðu lagt fram þennan dýrðaróð til einkaframtaksins í kosningabaráttunni. En það var öðru nær. Það voru vinstri grænir á Húsavík sem andmæltu með þessu plaggi draumsýn Sjálfstæðismannanna um nýtt stórfyrirtæki í samræmi við viljayfirlýsingu ríkisvaldsins og Alcoa!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)