23.1.2007 | 21:20
VANDI FRJÁLSLYNDRA
Það mætti blogga margar síður um ástandið í Frjálslynda flokknum. Snemma síðastliðið haust hefði flokkurinn hugsanlega geta tekið það að sér að verða fyrst og fremst "Frjálslyndir grænir, "athvarf fyrir þá umhverfisvini í stjórnarflokkunum, einkum Sjálfstæðisflokknum, sem eru ósammála stefnunni þar á bæ í stóriðju- og virkjanamálum. Það hefði haft þann stóra kost að framboðslistum hefði ekki fjölgað vegna þessara mála og kjósendur í öllu litrófi stjórnmálanna frá hægri til vinstri hefðu getað kosið tvö traustvekjandi græn framboð, systurflokkana FG og VG.
Frjálslyndir grænir hefðu getað sett fram splunkunýja og skýra græna stefnu með trúverðugum frambjóðendum sem hafa staðið vaktina mun skár en meirihluti frambjóðenda Samfylkingarinnar. Meðal grænna forystumanna í flokknum í virkjanamálum (látum hvalamálin liggja milli hluta) eru að minnsta kosti þrir, Ólafur F. Magnússon, Margrét Sverrisdóttir og Magnús Þór Hafsteinsson (gekk í göngunni í haust).
Núverandi stefnuskrá flokksins er er að vísu ágæt í umhverfismálum þótt það megi teygja hana svolítið sitt á hvað eins og gengur með stefnuskrár þar sem þarf að nást samstaða. En í haust hefði mátt stefna að því að taka upp á landsþingi flokksins nýja og afdráttarlausari stefnu í umhverfismálum. En innrás Jóns Magnússonar og hans manna setti allt upp í loft eins og alþjóð hefur orðið vitni að.
Lítið hefur verið fjallað um frétt, sem virtist hálf drukkna, að borgarstjórnararmur flokksins hallaði sér að Margréti. Margir spá því að Margréti verði "slátrað" á landsþinginu en kannski er það jafn óútreiknanlegt í raun eins og það var að spá fyrir úrslit leiks Frakka og Íslendinga í handboltanum.
Engu að síður er hætta er á að átökin í flokknum og fyrirferð innflytjendamálanna muni yfirgnæfa svo allt annað á landsþinginu að umhverfismálin troðist undir.
Ég hef heyrt að reglurnar í flokknum séu þannig að hægt sé að smala inn í hann alveg fram á þingið. Ef svo er gefur það stríðandi fylkingum færi á að halda að sér spilunum alveg fram á síðustu stundu. Ef smölunin verður mjög mikil gæti niðurstaðan orðið flokkur þar sem meirihluti félaga verður nýtt fólk og þar með allt opið og óráðið um yfirbragð flokksins.
Nú er ljúka starfi eins grasrótarhópsins í Framtíðarlandinu, sem fer að skila af sér ákveðnum tillögum í framboðsmálum, og í frétt á Stöð tvö var talað um að verið væri að leita að fólki á hugsanlegan framboðslista, - einnig nefnd dagsetningin 13. febrúar um úrslitaákvörðun.
Það er ljóst að útkoma átakanna í Frjálslynda flokknum getur haft áhrif á það hvernig hið pólitíska landslag lítur út í febrúarbyrjun. Þá verður hugsanlega komin mun skýrari mynd á allt skákborð íslenskra stjórnmála en nú. Það eru því miklir óvissutímar framundan og vandteflt af hálfu þeirra sem líta til þess skákborðs sem vettvangs umhverfismála.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)