VANDI VINSTRI GRÆNNA.

Í nafni Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs felst aðalvandi hennar gagnvart umhverfismálum. Fyrri og lengri hluti nafnsins skilgreinir flokkinn í hægra-vinstri-litrófinu og "- grænt framboð" lítur út svona eins og hali eða viðbót. Afleiðingin hefur orðið sú að í undanförnum kosningum, einkum 1999, hefur með "smjörklípuaðferð" Davíðs verið sótt að VG með því að veifa málum sem helst aðgreina vinstri menn frá hægri mönnum. VG hefur neyðst til að verjast og sækja á í þeim málum og græna umræðan liðið fyrir það.

Með þessu er ég alls ekki að gera lítið úr því feiknarlega stóra hlutverki sem þessi flokkur hefur gegnt í umhverfismálum. Þetta er fyrsti íslenski stjórnmálaflokkurinn sem tekur græna stefnu upp á sína arma og neglir það í hluta nafns síns því til staðfestingar. Vinstri grænir hafa verið í sérflokki hvað snertir það að standa vaktina í þessum málum þegar aðrir hafa brugðist. Fyrir það á flokkurinn skildar miklar þakkir og heiður í þjóðarsögunni. 

Það breytir ekki fyrrnefndum vanda VG því stjórnarflokkarnir munu vafalaust notafæra sér það bragð í aðdraganda kosninganna í vor að láta þær snúast um önnur mál en umhverfismálin, -  reyna að láta þær til dæmis snúast um mál eins og matarverðið, sem kemur daglega beint við pyngju hvers manns.

Annar Akkilesarhæll VG er sá að þótt byrinn, sem flokkurinn hefur núna sé líklega að miklu leyti sprottinn úr verðskulduðu fylgi umhverfisverndarfólks við hann, eru takmörk yfir því hve marga flokkurinn getur laðað til sín af hægri sinnuðum kjósendum. Á þessu byggist stöðugt fylgi Sjálfstæðisflokksins í skoðanakönnunum því stóriðju- og virkjanastefnan hefur fyrst og fremst bitnað á Framsóknarflokknum.  Það er furðulegt og óréttlátt því það er Sjálfstæðísflokkurinn ber höfuðábyrgð á þessari stefnu, -  svo miklu stærri sem hann er en Framsóknarflokkurinn.

Það er kominn tími til að Sjálfstæðisflokkurinn sé látinn bera þá ábyrgð á virkjanafíkninni sem hann hefur ræktað í 16 ár sem leiðandi flokkur í ríkisstjórn. Ráðamenn flokksins þurfa líka að útskýra hvernig svonefndur flokkur einkaframtaksins getur gengist fyrir sovéskri handstýringu með ríkisábyrgð til að fylla landið af stórverksmiðjum sem með ruðningsáhrifum ryðja burt vaxtarbroddum frumkvæðis, einkaframtaks og útrásar.

 En gallinn er sá að þeir, sem segjast vilja kjósa Sjálfstæðísflokkinn þrátt fyrir að vera ósammála þessari stefnu, neyðast til þess vegna þess að þeir eru bólusettir gegn vinstri stefnu og geta hvorki aðhyllst VG né Samfylkinguna með sitt "Fagra Ísland."

Vinstri græna dreymir um 25 prósent fylgi í kosningunum í vor sem umbun fyrir góða frammistöðu í baráttunni gegn stóriðjustefnunni. Steingrímur og hans fólk eiga það  fylgi fyllilega skilið að mínu mati ef umhverfismálin ein væru notuð sem mælikvarði. Ef flokkurinn lægi á miðju íslensks stjórnmálalitrófs væri raunhæft að hann næði þessu markmiði og vel það. En meðan hann liggur á vinstri jaðrinum getur hann þetta ekki og það er vandi hans gagnvart stórum hópi umhverfisverndarfólks. Því miður.   


Bloggfærslur 24. janúar 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband