27.1.2007 | 12:58
FRJÁLSLYNDIR - STÓRIÐJUFLOKKUR.
Stóriðjusinnar á Íslandi hafa kallað sig hófsemdarfólk en þá sem hafa viljað staldra við öfgamenn. Nú kynnir formaður Frjálsynda flokksins "hóflega" stóriðju og álverastefnu flokksins. Með því vill hann í raun skipa sér með stjórnarflokkunum í þessu máli sem hafa alltaf pakkað stóriðjustefnunni inn í snakk um hófsemd, skynsemi og virðingu fyrir náttúrunni.
Í orðinu stóriðja felst að hún sé stór. Fyrir liggja yfirlýsingar allra álfyrirtækjanna, líka Norsk Hydro, að álver séu ekki samkeppnisfær nema þau séu 5-700 þúsund tonn. Þess vegna þarf Alcan að stækka í Straumvík. Þess vegna mun Alcoa þurfa að stækka á Húsavík og álver í Helguvík verður aðeins fyrsti áfangi að risaálveri.
Einföld samlagning á orkunni sem þarf í þessi álver sýnir að þetta kostar að virkja alla orku Íslands, líka Jökulsá á Fjöllum, enda útilokar forsætisráðherra ekki það.
Guðjón Arnar segir að lausnin felist í því að hækka orkuverðið til álfyrirtækjanna, sem segja að þau séu ekki samkeppnisfær á núverndi orkuverði nema að reis risaálver. Þetta gengur augljóslega ekki upp. Forsendan fyrir veru álveranna hér er smánarlega lágt orkuverð.
Guðjón Arnar, það er ekkert "hóflegt" til við framtíðarsýn þína. Hún felst í því að fórna einu af sjö undrum veraldar, íslenskri náttúru, mesta verðmæti sem Íslensku þjóðinni hefur verið falið að varðveita fyrir mannkyn allt og milljónir óborna Íslendinga, - fórna þessu verðmæti sem dýrmætara en sjálf handritin fyrir galna virkjanafíkn sem byggist á hæpnum og staðbundnum skammgróðasjónarmiðum.
Þú getur augljóslega ekki samþykkt að hætta virkjanaframkvæmdum í þau 6-15 ár sem það tekur að bíða eftir niðurstöðum af djúpborunum sem hugsanlega gætu skilað sömu orku með fimmfalt minni umhverfisspjöllum. Nei, þú vilt halda áfram í dansinum í kringum álkálfinn og segja síðan eftirá ef djúpborarirnar heppnast: Sorrý, ákvörðunin um áframhaldandi virkjanir var rétt miðað við þær upplýsingar sem þá lágu fyrir.
Við höfum báðir heyrt svona afsakanir áður, - hjá stjórnarflokkunum um Írak, - hjá Samfylkingunni ium Kárahnjúkavirkjun. Ég skora á þig áður en það er orðið of seint að skipa flokki þínum í fylkingu með þeim sem vilja staldra við áður en anað verður áfram. Ef þú og þínn flokkur gera það ekki hefur Frjálslyndi flokkurinn skipað sér í fylkingu með stjórnarflokkunum, - stóriðjuflokkunum, með Jóni Sigurðssyni sem heldur því blákalt fram að stóriðjustefnunni sé lokið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)