NÚ ÞARF AÐ META HINA NÝJU STÖÐU.

Staðan á leikvelli stjórnmálanna er að skýrast. Nú liggur vandinn í að meta hana rétt, skynja kall tímans og vinna þannig að málum að afstýrt verði þeirri martröð sem við blasir í kosningunum í vor að óbreyttu.  Eftir landsþing Frjálslyndra liggur fyrir að þótt ríkisstjórnin falli verður áfram meirihluti á þingi fyrir stóriðju ef Frjálslyndir fá það fylgi sem þeir vonast eftir að fá út á innflytjendamálin. 

Á landsþinginu gerðist það sem ég hafði óttast og búist við. Stór hluti ræðu formanns fór í innflytjendamál og hann mælti með "hóflegri stóriðju." Sem leiðir til ófarnaðar hinnar gölnu virkjanafíknar.   

Ég sagði í sjónvarpsviðtali um daginn að rétt væri að bíða eftir landsþinginu til að sjá á hvort markið inni á vellinum liðin myndu spila í kosningunum í vor. Nú er það ljóst. Allar vonir frá því í snemma í haust um "Frjálslynda - græna" og þörfina á því að fjölga ekki framboðum fuku út í veður og vind.

Þetta setur aukinn vanda á herðar þeirra sem vilja að í vor myndist þingmeirihluti fyrir því að staldra við í stóriðjumálunum og þar með verði leyst úr læðingi þau öfl til nýrrar lífskjarasóknar sem hafa liðið fyrir ruðningsáhrif stóriðju- og virkjanaframkvæmda.    

Í dag fór Jón Baldvin mikinn í Silfri Egils og hafði áhyggjur af minnkandi samanlögðu fylgi Samfylkingar og VG. Það var ekki bara athyglisvert í því ljósi að honum fyndist það slæm tilhugsun að stjórnin héldi velli út á minnkandi fylgi og lélega frammistöðu Samfylkingarinnar, heldur líka vegna þess að hann lagði því lið að stóriðju- og virkjanaframkvæmdir yrðu stöðvaðar og tók undir og útfærði frekar rökin fyrir því að það væri skynsamlegt.

Það munar um minna en að fá slíka umsögn eins helsta stjórnmálaforingja undanfarinna áratuga sem geysist nú inn á sviðið ferskari og frískari en nokkru sinni fyrr. Jón Baldvin sýnir með þessu að hann gerir sér grein fyrir breyttum aðstæðum í umhverfismálum á Íslandi og fyrir því að þau geta orðið þungamiðja breyttrar stefnu eftir kosningar.

Sú sýn í Silfri Egils fyrir viku um að Samfylkingin þurfi stuðningsaðila í umhverfismálum frá vinstri og hægri í íslenska flokkakerfinu hefur nú hlotið aukið vægi ef ekki á illa að fara í kosningunum í vor. Ofan á hinar slæmu fréttir af frjálslyndum bætast við nýjustu yfirlýsingar Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sem felast í þessu þrennu:  

1.  Fagra Ísland verður ráðandi stefna hjá Samfylkingunni: Stóriðju- og virkjanastopp.

 2. Ingibjörg Sólrún og þar með flokkur hennar munu engin afskipti hafa af aðgerðum heimamanna á hverjum stað í virkjanmálum.

3.  Ef sveitarstjórnir setja virkjanir inn á skipulag verður ekki aftur snúið.

Þetta þrennt gengur ekki upp því liður númer 2 og 3 þýðir augljóslega það að virkjað verður ef heimamenn fara er af stað með það og Fagra Ísland verður marklaust plagg, því miður. Gott dæmi um það hvernig stóriðjuboltinn rúllar óstöðvandi af stað er nýjasta yfirlýsing Árna Sigfússonar um að ómögulegt sé að hafa atkvæðagreiðslu um álver í Helguvík, - of seint vegna þess að allt sé þegar komið af stað og atkvæðisgreiðsla yrði samningsbrot.   

Ekki er hægt að sjá að Fagra Ísland geti stöðvað virkjanir úr því að Samfylkingin hefur engin ráð til að stöðva það að hennar fólk á hverjum stað hefji óstöðvandi virkjanaferli.

Er það von að Jón Baldvin hafi áhyggjur af slakri frammistöðu draumaflokks síns og gefi í skyn að þörf sé á stuðningsaðila fyrir Samfylkinguna í formi nýs framboðs? 

 

   


Bloggfærslur 28. janúar 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband