JÓN BALDVIN OG UMHVERFISMÁLIN.

Ég sé á umfjöllun fjölmiðla að ákveðins misskilings gætir um viðræður mínar við Jón Baldvin Hannibalsson að undanförnu þvi eldmessa hans í Silfri Egils virðist hafa vakið upp þær spurningar hvort í uppsiglingu sé umhverfis-krata-framboð þar sem hinn fyrrum krataforingi ætli sér að kljúfa Samfylkinguna í herðar niður. Ég lít öðrum augum á útspil Jóns hvað varðar hugsanlegt nýtt mið-hægri-umhverfisframboð og vísa um hugsanlegt eðli slíks framboðs til viðtals við okkur Andra Snæ Magnason í blaði Framtíðarlandsins.

Við Jón Baldvin höfum þekkst frá því í menntaskóla og höfum allan þennan tíma "kjaftað saman" þegar við höfum hist og haft gaman af. Þetta spjall hefur verið spjall tveggja kunningja en ekki neinar formlegar viðræður og yfirleitt höfum við hist af tilviljun. Daginn eftir spjall mitt við Egil Helgason fyrir viku hringdi hann í mig sagðist vera mér sammála í umhverfismálum.

Það er mikils virði þegar maður á borð við Jón Baldvin sér jafn mikilvægan málaflokk og umhverfismál í nýju ljósi og þegar hann kom síðan fram í Silfri Egils viku síðar kom í ljós að hann hafði unnið úr því  sem hann hafði áður gert sér grein fyrir.

Í viðtalinu við Andra Snæ og mig í blaði Framtíðarlandsins kemur skýrt fram að tilgangur nýs umhverfisframboðs yrði fyrst og fremst að frelsa það umhverfisverndarfólk sem stjórnarflokkarnir hafa jafnan læst inni eftir hverjar kosningar, en stór hópur þessa fólks er í Sjálfstæðisflokknum.

Til þess að ná í slikt fylgi þarf að höfða sterkt til þess að Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir stalinískum  ríkisþvinguðum og firnadýrum verksmiðjulausnum sem hefta með ruðningsáhrifum, þenslu og efnahagssveiflum framgang fyrirtækja sem byggjast á frumkvæði og einkaframtaki og gefa margfalt meiri arð og menntun af sér en verksmiðju- og vikjanastefnan.

Að ekki sé minnst á hin óheyrilegu spjöll á íslenskri náttúru, mestu verðmætum sem Íslendingum hefur verið falið að varðveita fyrir óbornar kynslóðir og mannkyn allt.  

Það hlýtur eitthvað mikið að vera að hjá Sjálfstæðisflokknum ef hann stendur fyrir hinum tröllkarlalegu sovésku handstýringum, til dæmis á Húsavík, - en á sama stað gefa vinstri grænir á Húsavík út plagg undir nafninu "Eitthvað annað" þar sem rakið er hvernig frumkvæði einstaklinga og hópa skópu á sínum tíma störf í staðinn fyrir þau sem fóru forgörðum við gjaldþrot staðnaðs kaupfélags á staðnum.  

Af tali Jóns Baldvins Hannibalssonar sést að hann gerir sér grein fyrir því að þungamiðja þeirrar breytingar sem þarf að verða í næstu kosningum felst í afdráttarlausri breytingu í umhverfismálum sem skila muni breytingum og lífskjarabótum út í alla kima þjóðlífsins, - hliðstætt því sem gerðist við EES-samninginn. Ég velkist ekki í vafa um að framganga hans nú helgast aðeins af hugsjón og eldmóði manns sem telur skyldu sína að láta til sín taka fyrir góðan málstað.

Jón Baldvin á glæsilegan stjórnmálaferil að baki og gæti þess vegna ornað sér við afrek sín frá fyrri árum. Hann þarf ekkert á því að halda að fara fram eða láta til sín taka til þess að öðlast vegtyllur. Ég er ekki í minnsta vafa um það að hann gerir þetta af köllun, hann skynjar kall síns tíma og kennir til í stormum sinnar tíðar.  

Þess vegna virðist hann reiðubúinn til að styðja nýtt umhverfisframboð sýnist honum það geta skipt sköpun um nauðsynlegar breytingar í næstu kosningum.

Á þessu stigi er í mínum huga aðeins hægt að segja þetta eitt um slíkt hugsanlegt framboð að því aðeins er hægt að fylkja slíku framboði inn á leikvöll stjórnmálanna að hvort tveggja sé tryggt:  

Annars vegar skýr hugsjónagrundvöllur til umbóta og nauðsynlegra breytinga, - og hins vegar getu til að framkvæma þessar hugsjónir. 

Strax sama kvöld og gangan mikla var farin í haust höfðu stjórnmálaforingjar samband við mig. Síðan þá hef ég hitt stjórnmálamenn úr öllum þremur stjórnarandstöðuflokkunum margsinnis og suma oftar en Jón Baldvin. Ævinlega var umræðuefnið það hvernig hægt yrði að fjölga grænum þingmönnum í næstu kosningum því upp úr kjörkössunum sprettur valdið sem ógnar mestu verðmætum Íslands.

Nú hefur Frjálslyndi flokkurinn gengið til liðs við stóriðjuflokkana og þar með er úr sögunni von um það hann gæti orðið umhverfisafl hægra megin við Samfylkinguna, svo að ekki þurfi að fjölga framboðum. Þess vegna er sú staða komin upp sem nú blasir við.


Bloggfærslur 30. janúar 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband