1.10.2007 | 20:44
HVERNIG ER "HEFÐ" LÆKNINGA METIN?
Fyrir 22 árum þurfti ég að fara til sjúkraþjálfara vegna meiðsla í sjöunda hálslið. Það hjálpaði eitthvað en ekkert afgerandi. Fyrir 13 árum fékk ég slæmt verkjakast í baki og upp komst að ég væri með svonefnt "samfall" í neðstu hryggjarliðum, ólæknandi fyrirbrigði. Þegar köstin komu missti ég mátt í fótum á svipaðan hátt og þegar maður er tognaður. Stundum í marga daga eða vikur í röð. Og verkirnir voru slæmir.
Fyrir þremur árum var svo komið að ekki varð við unað. Þrátt fyrir "hefðbundnar" aðferðir fékk ég verri og verri köst. Þá ráðlagði Bubbi Morthens að fara til nálastungulæknis sem hefði bjargað sér við svipaðar aðstæður.
Síðan þá hef ég farið í þessa meðferð af og til og ávallt hefur hún borið árangur, ekki aðeins hvað það snertir að minnka verki heldur fyrst og fremst með því að færa mér aftur máttt í fæturnar eða einstaka vöðva þeirra þegar ég var farinn að staulast um draghaltur vegna máttleysis og verkja.
Þetta er blanda af handbrögðum sjúkraþjálfara og nálastungna og vegna þess að þjálfarinn hafði langa háskólamenntun að baki í Bandaríkjunum hélt ég að hann væri bara svona góður sjúkraþjálfari, það mikið betri en aðrir, að nálastungurnar gætu varla gert svona mikið gagn, - þær væru sennilega "skottulækningar og hindurvitni og óhefðbundnar lækningaaðferðir" af svipuðu tagi og Pétur Tyrfingsson læknir lýsti nú rétt áðan í Kastljósi.
Sigmar Guðmundsson minntist á nálastungur í upptalningu á "skottulækningum" og Pétur gerði ekki athugasemd.
Pétur sagði að bein og óyggjandi sannanir með viðurkenndum rannsóknaraðferðum þyrti til að viðurkenna lækningaaðferðír.
Hvað skyldi hann þá segja um þetta og svipaðar frásagnir margra annarra: Í fyrra fékk ég versta kastið sem ég hafði fengið fram að því og ekki að ástæðulausu. Þá hafði ég um margra vikna skeið ofreynt mig illa í sviptingunum fyrir og eftir að byrjað var að hleypa í Hálslón, borið þunga hluti og lyft, setið langtímum saman í slæmum stellingum í flugvélum og bílum og gengið allt að tíu klukkustundir á dag.
Eftir ótímabært stökk ofan af Örkinni gat ég ekki staðið upp og urðu menn að bera mig inn í bíl. Þar vantaði bara snæri í fótinn til þess að ég æki eins og sagt var að Ólafur Ketilsson hefðí gert undir það síðasta.
Næstu daga nánast skreið ég inn og út úr bílnum og það tók óratíma að koma fótunum á pedalana.
Ég fór til "hefðbundins" sjúkraþjálfara en lítið breyttist. Þá varð ekki komst hjá að láta reyna á nálastungurnar. Í þetta sinn þurfti ég að koma tvisvar með þriggja daga millibili.
Í síðara skiptið sagði "skottulæknirinn" eftir að hann var búinn að koma nálunum fyrir á sínum stöðum: "Nú fer ég frá þér og kem aftur eftir kortér. Þá ætti eitthvað að hafa gerst."
Hann kom aftur og þetta hafði gerst: Nær óbærilegur verkur í vinstri mjöðm hafði horfið en um leið hafði dunið yfir sami verkurinn í vinstri ökklanum þar ég hafði ekki haft neinn verk áður.
"Þetta er á réttri leið," sagði hann. "Nú fer ég frá þér og kem aftur eftir kortér."
Þá hafði þetta gerst: "Hinn slæmi verkur í ökklanum var horfinn. Þetta lýsti sér svipað og að verkurinn hefði færst úr mjöðminni niður eftir fætinum og út úr honum í gegnum ökkla og tær.
Ég gat ekki séð annað en hið spaugilega við þetta og sagði: "Vonandi hefur verkurinn ekki haldið áfram ferð sinni og hlaupið yfir í sjúklinginn sem liggur hinum megin við tjaldið."
"Skottulæknirinn" hló. "Nei, þetta hefur tekist án þess."
"Skottulæknirinn" hefur eins og áður sagði að baki langt háskólanám í þessum fræðum. Nálastunguhlutinn er byggður á reynslu þúsunda ára í Kína. Á Íslandi heita það "óhefðbundnar" lækningar en aðferðir, sem vestrænir læknar hafa sumir verið að finna upp á síðustu árum eru kallaðar "hefðbundnar lækningar."
Mér skildist á nálastungumanninum að erfiðlega hefði gengið og gengi jafnvel enn að fá viðurkenningu hér á landi á þessum "óhefðbundnu" lækningum til jafns við "hefðbundnar lækningar."
Landlæknir hefði farið til Kína og kíkt á þetta þar og ætlunin væri að íslenskir læknar gætu farið þangað á þriggja mánaða námskeið til þess að geta moðað eitthvað úr þessu,- þ. e. náð jafnvel framar en "skottulæknirinn" sem hafði þurft margra ára háskólanám í nálastungunum.
Konan mín hefur um áraraðir haft slæma verki, eymsl og bólgur í hnjám. Loks ákvað hún að leita á náðir "hindurvitnanna" sem "óhefðbundnu" nálastungulækningarnar eiga að byggjast á. Hún lagaðist mikið.
Niðurstaða mín er spurning: Er hægt að afgreiða allt það sem ekki byggist á skilningi okkar vestrænna manna á því hvað séu "hefðbundnar" lækningar sem bull og ímyndun? Er hægt að alhæfa um þetta efni?
Ég er efasemdarmaður. Ég vil pottþéttar sannanir, - ekki neina ímyndun eða sefjun. Ég viðurkenni að varast beri raunverulegar skottulækningar, hjátrú og hindurvitni. En sagan hér að ofan segir mér hvað mig snertir persónulega að það þurfi að vanda vel til áður en endanlegir dómar eru felldir um allt það sem ekki hefur fengið vestræna stimpla sem "hefðbundnar lækningar."
Bloggar | Breytt 2.10.2007 kl. 14:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (45)
1.10.2007 | 10:18
RAGNAR REYKÁS BLÓMSTRAR.
Margt er athyglisvert við skoðanakannanir. Jón Baldvin Hannibalsson lýsti því skemmtilega í viðtali við Jónas Jónasson hvernig yfir 70 prósent þjóðarinnar hefði á sínum tíma lýst sig á móti kvótakerfinu en samt kaus yfirgnæfandi meirihluti kjósenda þá flokka sem stóðu að þessu sama kerfi og meira en 70 prósent sjómanna og fiskvinnslufólks kaus þá flokka.
Sjórnmálaflokkarnir guma mikið af lýðræðisást og mikið er talað um að gera lýðræðið beinna, þ. e. að kosið sé sérstaklega um mikilsverðustu og einföldustu málin. Samt felldi meira en 80% þingmanna tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um stærsta mál þess tíma, Kárahnjúkavirkjun. Ekki er að sjá að þessi ríkisstjórn muni setja þjóðaratkvæðagreiðslur og beint lýðræði á oddinn.
Sú var tíðin að yfirgnæfandi meirihluti í skoðanakönnunum vildi láta auka opinbera þjónustu en jafn yfirgnæfandi meirihluti vildi láta minnka útgjöld til þeirra mála.
Í vor vildi 59% þjóðarinnar stóriðjustopp í fimm ár en samt blasir við að stóriðjuáformin eru á blússandi siglingu.
Frjálslyndi flokkurinn mælist nú með 4,4% fylgi sem nægir flokknum ekki til að koma manni á þing þótt þetta ætti að vera ríflegt til að koma tveimur mönnum á þing ef ekki væri hið ósanngjarna skilyrði um 5% fylgi.
Í þessari skoðanakönnun er ekki gefið upp hve mikið fylgi flokksins er núna í einstökum kjördæmum en ljóst er að hann þyrfti 12 prósent í norðvesturkjördæmi til þess að koma inn manni þar.
Á sama tíma og þessi miklu hærri þröskuldur er settur hér en í næstu löndum er gumað af lýðræðislegum kosningareglum.
Það gæti alveg orðið inni í myndinni að tvö framboð með alls um 9% prósent atkvæða fengju engan mann kjörinn þótt fylgið ætti að nægja fyrir sex þingmenn ef fyrrnefndur þröskuldur væri ekki fyrir hendi.
Og ætli það sé ekki rétt að enda þetta eins og Ragnar Reykás: Ma..ma...ma...maður bara áttar sig ekki á þessu!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)