11.10.2007 | 16:51
"KOM Í LJÓS"
Í knattspyrnunni er stundum sagt "kom í ljós" t.d. þegar óverðskulduð vítaspyrna er misnotuð. Það sem ég bloggaði um næst á undan þessari bloggfærslu hefur nú "komið í ljós." Með nokkrum fundum sex borgarfulltrúa án borgarstjórans unnu Sjálfstæðismenn gegn sterkustu röksemd sinni um árabil þegar þeir buðu ævinlega upp á einn samstæðan hóp borgarfulltrúa sem stæði þétt að baki borgarstjóranum. Þar að auki gleymdu þeir því að þeir höfðu ekki átta fulltrúa eins og þeir voru vanir hér áður þegar þeir áttu borgarstjórann og settu fram "sátt" sem hvorki Framsóknarmenn né hinir flokkarnir gátu sætt sig við.
Þeir áttuðu sig ekki á hinni sterku stöðu sem bæði Björn Ingi Hrafnsson og Margrét Sverrisdóttir höfðu, ekki aðeins til að mynda meirihluta með Sjálfstæðismönnum, heldur einnig til að mynda þann meirihluta sem nú hefur verið myndaður.
Vísa að öðru leyti til fyrri bloggfærslu um þá málefnalegu samstöðu sem er með nýju meirihlutaflokkunum í því að láta auðlindirnar ekki af hendi úr almannaeigu með hraði.
Það er athyglisvert að það eru í raun umhverfismál sem skipta sköpum um það sem gerst hefur. Það sýnir enn og sannar að þau mál eru eru mál málanna á nýrri öld.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)