ÞÓRUNN, - ANDÓFSMAÐUR Í RÍKISSTJÓRNINNI.

Athyglisverð voru lokaorð Þórunnar Sveinbjarnardóttur þegar hún sleit umhverfisþingi í gær og sagðist líta á sig sem andófsmann í ríkisstjórninni. Þetta hefur enginn forveri hennar sagt svo að ég viti og varpar ljósi á hvernig við erum á eftir nágrannaþjóðum okkar í þessu tilliti. Hjá þeim er litið á umhverfisráðuneytið svipað og litið er ýmsar eftirlitsstofnanir og enginn umhverifsráðherra feiminn við það að telja sig andófsmann.

Orð Þórunnar áttu þann aðdraganda að í pallborði hafði verið rætt um það hvernig búið væri að setja neikvæðan blæ á umhverfisverndarfólk með því að kalla það andófsmenn. Þessu þyrfti að breyta.

Þórunn sagðist hins vegar vera þessu ósammála, - hún teldi sig hiklaust vera andófsmann og það allt eins innan ríkisstjórnarinnar. Hún kvaðst vera stolt af því.

Hún getur verið það að mínum dómi. Umhverfisráðuneytið á ekki að vera þæg afgreiðslustofun fyrir hin ráðuneytin sem gæta hagsmuna þeirra sem vilja helst framkvæma hvaðeina sem þeim dettur í hug á sem þægilegastan hátt.

Andóf hefur í gegnum tíðina að sjálfsögðu verið misjafnlega útfært og aðferðirnar umdeildar, sumar "ólöglegar". Gandhi, Mandela og Martin Luther King notuðu "ólöglegar" aðferðir. Líka Mývetningar þegar þeir sprengdu stífluna í Miðkvísl með dínamiti. Ef þeir hefðu ekki gert það hefði risið í sveit þeirra virkjun sem væri stærsti bletturinn á framferði íslensku þjóðarinnar gagnvart landi sínu. Það er miður að svo róttæka aðgerði þyrfti að nota og vonandi þarf þess ekki aftur.

Andóf Guðmundar Páls Ólafssonar þegar hann tafði vinnuvélar með því að dreifa litlum íslenskum fánum á vegarstæði Kárahnjúkavegar var strangt til tekið "ólöglegt."

Ganga hans í fararbroddi í Jökulsárgöngunni við hlið Vígdísar var hins vegar "lögleg."

Málefnalegt andóf umhverfisráðherra í ríkisstjórn er hin ekki aðeins eðlilegt og sjálfsagt, - það er brýn nauðsyn.

Berum það saman við það hlutverk fjármálaráðherra að samþykkja ekki allar kröfur hinna ráðherranna heldur stunda "andóf" við því að fjármunum borgaranna sé ráðstafað stjórnlaust. Öllum finnst það andóf eðlilegt og sjálfsagt.

Sama á við um nauðsynlegt andóf umhverfisráðherra. Mæli Þórunn manna heilust. Svo er að sjá hvernig henni farnast við þetta andóf sitt.


"HREIN OG ENDURNÝJANLEG ORKA?"

Ítarlegar upplýsingar og skoðanaskipti eru sá grundvöllur lýðræðis og farsældar í víðum skilningi sem hefur einna mest skort á undanfarin ár og skortir enn á hér á landi. Við gerð myndarinnar "Á meðan land byggist" rak ég mig á múr í þessu efni sem sést best á því að aðeins einn þeirra sérfræðinga sem ég leitaði til um mikilsverð atriði, sem yfirvöld höfðu ekki velþóknun á, treysti sér til að koma fram í myndinni, - Sveinn Runólfsson.

Þóra Ellen Þórhallsdóttir rökstuddi vel á Umhverfisþingi skyldu þeirra sem búa yfir vitneskju að láta ekki hræða sig frá því að koma henni á framfæri.

Ástandið hefur skánað eitthvað síðustu árin en en ennþá er fyrir hendi viðleitnin til þess að hamla gegn því að óþægilegar staðreyndir og sjónarmið komi fram.

Þóra Ellen minnti á að Kárahnjúkavirkjun hefði verið kynnt sem "endurnýjanleg og hrein" þótt vitað væri að hún eins og fleiri virkjanir jökulfljóta sem fylla upp miðlunarlón með aurI skilaði ekki endurnýjanlegri orku.

En allan tímann sem virkjunin var keyrð í gegn var staglast á því hve orkan væri "hrein og endurnýjanleg" og fengin undanþága í Kyoto út á rangar upplýsingar.

En fleiri spurningar vakna um hvað sé "hrein og endurnýjanleg orka." Yoko Ono gerði að skilyrði að orkan sem notuð væri í friðarsúlunni væri hrein og endurnýjanleg. Hún er það ef við segjum að hún komi frá Sogsvirkjununum.

En hvað um orkuna frá Hellisheiðarsvæðinu? Það er vitað að vegna þess að kreist eru 600 megavött út úr svæði sem ekki getur skilað meira en 300 megavöttum til frambúðar, þá mun þessi orka verða uppurin eftir 40 ár og þá mun taka einhverja áratugi þangað til svæðið jafnar sig.

Þessa áratugi eftir að heiðin er orðin köld verður því annað hvort að loka þeim fyrirtækjum sem nota orkuna eða virkja jafn mikið annars staðar.

Nema að djúpborunartæknin geri þá kleift að taka meiri orku upp. En sú tækni er ekki fyrir hendi og óábyrgt að treysta á það að hún muni gefa þann árangur sem vonast er eftir vegna þess að enn vita menn ekki hvort hinn mikli hiti og eiturgufur sem koma munu upp af svon miklu dýpi muni gera þessa nýtingaraðferð óframkvæmanlega.

Ég hef nýlega heyrt töluna 60 þúsund tonn af útblæstri gróðurhúsalofttegunda frá Heillisheiðinni fullvirkjaðri, en það er álíka mikið og útblástur frá litlu álveri.

Útblástur brennisteinstvíildis verður meiri en frá stóru álveri.

Lyktarmengun í Reykjavík vegna virkjananna á Hellisheiðar-Henglissvæðinu fer nú þegar 40 daga á ári yfir hámarkið sem gildir í Kaliforníu.

Þegar hlutur er seldur er ekki nóg að segja kaupandanum að hann sé svona og svona og leyna mikilsverðum atriðum.

Á Umhverfisþingi fékk ég ekki svar við fyrirspurn minni um það hvort við gætum komist upp með þetta og hvort hegðun okkar gerði okkur trúverðug þegar við stöglumst á því við helstu ráðamenn heims að orkan sé undantekningarlaust algerlega endurnýjanleg og hrein.

Einn pallborðsmanna sagði að hugsanlega væri hægt að þróa tækni til að binda co2.

En meðan það liggur ekki fyrir sé ég ekki hvernig við getum haldið áfram síbyljunni um "hreina og endurnýjanlega orku" af þessu svæði án þess að greina þeim sem við skiptum við frá hinu sanna.

Það eru fleiri en vísindamenn sem ber skylda til að koma öllu því á framfæri sem skiptir máli.


mbl.is Náttúruverndarmál rædd á Umhverfisþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. október 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband