NÝTT 14:2?

Eftir útreiðina í Lichtenstein í kvöld er möguleiki á að markatala Íslands í síðustu leikjum sínum nálgist 14:2 því að Danir munu varla liggja í því í næsta leik á móti því liði, sem lið skyldi kalla, sem var niðurlægt í kvöld. Ég lá á sínum tíma yfir þeim upptökum af 14:2 leiknum fræga sem til voru og niðurstaða mín var sú að 0:6 tap okkar gegn Dönum nú nýlega hafi verið verri útreið, - íslenska liðið átti aldrei glætu í sókninni í 0:6 leiknum en strákarnir okkar skoruðu þó tvö mörk á móti Dönum 1967.

Við hjónin höfum einu sinni átt leið fram hjá Lichtenstein akandi á leið til Davos í Sviss og til baka og þetta var svona eins og að aka fram hjá Hafnarfirði, - ríkið er litlu stærra og fjölmennara en Fjörðurinn.

Nú er ekki hægt að afsaka sig með smæðinni eða nokkrum sköpuðum hlut, - maður er bara í svipuðu sjokki og fyrir réttum 40 árum.

Ég spurði í sumar hvort Eyjólfur myndi hressast. Nú sýnist mér þeirri spurningu hafa verið svarað á versta veg.

Þetta er leiðinlegt þegar svona ágætis maður á í hlut en staðreyndirnar tala sínu máli, því miður.


mbl.is Ljótur skellur Íslands í Liechtenstein
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

YFIRBORÐSKENND TALA

Tölur um fleiri vinnustundir karla en kvenna á vinnumarkaðnum kunna að vera réttar en segja þó aðeins hálfa sögu og geta því gefið ranga mynd. Það er nefnilega unnið víðar en á vinnumarkaðnum, - það er vinna að ganga með börn, fæða þau og klæða og sjá um þau á heimilunum, - annast um þau og fjölskylduna. Þessi vinna kynjanna er ekki inni í tölunum um "vinnuna" og ég er ansi hræddur um að hlutföllin kynnu að breytast ef öll vinna yrði tekin með í reikninginn.

Gott dæmi um yfirborðskennda tölu er talan um þjóðarframleiðslu og þjóðartekjur og dæmisagan um ráðskonuna, sem giftist karlinum sem hafði hana í vinnu og vinnur eftir það á heimilinu sem húsmóðir án sérstakra launa fyrir það.

Við þennan eina gerning, hjónaband, minnka þjóðarframleiðsla og þjóðartekjur sem svarar launum ráðskonunnar og sömuleiðis fækkar þeim vinnustundum sem teknar eru með í reikninginn í könnunum eins og þeirri sem nú er í fréttum.

Raunveruleg vinna hennar vex við barneignir á stækkandi heimili þótt opinberu tölurnar sýni að vinnuframlag hennar hafi ekki aðeins minnkað, heldur horfið!

Hálfsannleikur getur stundum verið verri en lygi.


mbl.is Karlar vinna tíu stundum meira en konur á viku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. október 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband