FYRSTA ELDGOS HEIMS AF MANNAVÖLDUM?

Íslenskir jarðvísindamenn telja að skjálftarnir sem hófust í tengslum við fyllingu Hálslóns í sumar geti valdið því á næsta ári að eldgos hefjist á sprungusveim Kverkfjalla sem staðið gæti í áratugi eða jafnvel aldir! Þetta gæti hleypt fjöri í svæðið vestan Hálslóns eins og Guðmundur heitinn Sigvaldason var búinn að færa rök að fyrir sex árum. Þá var ræddi hann þó meira um lónstæðið sjálft.

Þegar ég bloggaði um þetta síðsumars og reyndi að vekja athygli á þessu tóku fáir mark á því. Einn blaðamaður á DV hringdi í mig en aðrir fjölmiðlar sáu ekki ástæðu þá strax til að minnast á þetta.

Það var ekki fyrr en að Stöð tvö náði síðar í viðtal við sérfræðing á Veðurstofunni að hjólin fóru að snúast. 

Ég frétti raunar af umræðu í útvarpi þar sem menn sneru þessu upp í fögnuð yfir möguleikum á að græða á "túristagosi". Það er jú staðreynd að hægt yrði að "selja" það sem fyrsta og eina eldgosið í heimiinum af mannavöldum. Og haldið þið að það sé nú ekki munur að Landsvirkjun hefur lagt malbikaðan veg langleiðina að þessu verðandi eldgosasvæði!  

Aðrir myndu hins vegar geta bent á það að þetta væri í algeru ósamræmi við þá verðmætustu ímynd Íslands að það væri ósnortið og gæti raunar stórskaðað þessa ímynd eða eyðilagt hana.

Þessir síðastnefndu myndu hins vegar verða að láta í minnipokann fyrir því sjónarmiði að peningarnir vegna ferðamannanna sem dáðust að manngerða gosinu kæmu strax en ekki í fyllingu tímans eins og tekjur af ferðamönnum framtíðarinnar í kjölfar markvissrar uppbyggingar án stórfelldra náttúruspjalla.

Hinir nýju eldgosafagnarar eru alveg rólegir vegna Hálslóns því að það sé 20 kílómetra í burtu.

Blaðið afgreiddi málið á sínum tíma með því að færa Kárahnjúka og Snæfell til á kortinu um 40 kílómetra til þess að sýna styðja þá fullyrðingu sína að Kárahnjúkasvæðið tengdist þessu á engan hátt!  

Þegar Guðmundur Sigvaldason kom fram með kenningu sína 2001 þurfti ég að berjast fyrir því að fá að segja frá því sem mér fannst vera mikilvæg frétt og "skúbb" í 50 sekúndna frétt aftarlega í seinni fréttum. Ég gat að vísu ekki beitt mér því að nema hæfilega mikið af ótta við að vekja grunsemdir um að ég væri hlutdrægur. Enda vakti fréttin svo sem enga athygli á þessum felustað.

Alla tíð síðan þá hefur ríkt mikil feimni við að horfast í augu við það sem menn eru að gera þarna. Lengi var klifað á því að mannvirkin við Kárahnjúka væru utan við hættusvæði og horft framhjá þeirri  staðreynd að óróinn er á sprungusveim sem liggur úr Kverkfjöllum beint í Kárahnjúka.

Ég ætla að endurtaka það sem ég bloggaði í ágúst að ástæða kunni að vera að hafa meiri áhyggjur af því sem getur gerst þegar fer að lækka í Hálslóni síðla vetrar. Þar má hafa til samanburðar að gos hafa orðið í Grímsvötnum í tengslum við það að lækkað hefur í vötnunum og þrýstingur vatnsins ofan á jarðskorpuna hefur minnkað.

Spurning mín sem leikmanns er þessi: Þegar Hálslón lagðist ofan á landið sem farg, var þá ekki eðlilegt að kvika leitaði upp á við í sprungusveimnum til hliðar við fargið? Varla fór kvikan að lyfta sér beint undir farginu?

Og á sama hátt, þegar fargið léttist á útmánuðum, má þá ekki búast við að kvikan leiti þar upp, þ. e. í þeim hluta  sprungusveimsins sem liggur í gegnum stífluarnar?

Ef hún leitar þá upp t. d. um sprungurnar sem komnar verða á þurrt í Sauðárdal rétt suðvestan við Kárahnjúkastíflu, hvaða áhrif mun það hafa á stífluna? 

Ef kvikan leitar upp um sprungur sem liggja á ská undir lónið og beint undir Desjarárdalsstíflu, gæti þá orðið öskugos?  

"Skrattinn er leiðinlegt veggskraut" sagði Davíð Oddsson á sínun tíma um það að hlýnun jarðar væri af mannavöldum.

En ég segi: Ekki veldur sá er varar.  

Jón Helgason orti í ljóðinu Áföngum um "Kverkfjallavættir reiðar."

Nú hafa menn storkað Kverkfjallavættunum og sumir virðast aðeins sjá gróðavon í því ef "showið" hefst.  

 


BAULAÐU NÚ, BÚKOLLA MÍN !

Gamall kúarektor frá Hvammi í Langadal um 1950 kippist við þegar rætt er um innrás sænskra kúa. Í Hvammi voru landnámshænur og íslenskir hestar drógu sláttuvélar og rakstrarvélar. Gildi hestanna miðaðist fyrst og fremst við afköst þeirra sem dráttardýra. Ekki er að efa að sænskir hestar hefðu verið afkastameiri og hagkvæmari en sem betur fer varð innrás dráttarvéla til þess að aldrei var í umræðunni að víkja íslenska hestinum til hliðar. 

1950 hefði engum dottið í hug að einstakir skapsmunir, lipurð og nægjusemi íslenska hestsins ætti eftir að skapa milljarða verðmæti. 

Næstum tókst að útrýma landnámshænunum á Íslandi á altari hagræðingar en sem betur var síðustu eintökunum bjargað.

Við útreikninga á gróðanum af sænsku kúnum er ekkert tillit tekið til þess mikla kostnaðar sem það hefur í för með sér að breyta fjósunum eða reisa ný. Ekkert er minnst á gæði mjólkur sænsku kúnna, bragð eða hollustuna sem læknavísindi hafa nú uppgötvað að felist í mjólk íslensku kúnna. Ekki reynt að setja verðmiða á þá möguleika sem slíkt gefur. 

Heldur er ekkert minnst í fréttum af þessu máli á lund sænsku kúnna og skapferli, hvernig er að fást við þær. Ef við værum að skipta út bílaflotanum myndi það skipta máli hvernig er að umgangast bílana.

Ekkert er minnst á það í fréttum af þessu máli hvort mjólk íslensku kúnna kunni ekki að verða milljarði verðmætari við það að vera kynnt og seld sem einstök hollustuafurð.

Líklegast eru sauðkindur í löndum sem eru hlýrri en Ísland stærri og afurðarmeiri en hinar íslensku. Nú er spáð hlýnandi veðurfari hér á landi þannig að hugsanlega má reikna 11% gróða út úr því að flytja inn skoskar, sænskar eða nýsjálenskar kindur. Er það kannski næst á dagskrá?  

Baulaðu nú, Búkolla mín, segi ég nú bara, - en af því að nútímafólkið á malbikinu skilur ekki baul þitt, skal ég reyna að baula fyrir þig í þessara bloggfærslu og tjá þér virðingu mína og þökk. 

Hvernig sem allt fer er vonandi að ekki fari fyrir íslensku kúnni eins og landnámshænunni, að hún lendi í útrýmingarhættu.  

Glaður skal ég borga 11 prósent hærra verð fyrir mjólkina úr hinni íslensku Búkollu en úr hinni sænsku Gilitrutt!  


"EIGI LEIÐ ÞÚ OSS Í FREISTNI..." - RÉTT ÞÝÐING?

Umræðan og deilurnar um nýja þýðingu Biblíunnar sýnir ítök hennar hjá þjóðinni. Fyrir mörgum árum heyrði ég í útvarpsviðtali að mætur prestlærður maður hélt því fram að setningin "Eigi leið þú oss í freistni..." í Faðirvorinu væri ekki rétt þýdd ef miðað væri við upphaflega textann. Ég man ekki nákvæmlega í hverju þessi villa ætti að vera fólgin en hún gæti hafa verið falist í því að í stað þess að biðja Guð um að lokka okkur ekki í freistni væri beðið um að hann hjálpaði okkur til að forðast freistingar, en á þessu tvennu er mikill munur.

Þekkt er sú mikla áhersla sem lögð er á það í hegðun fíkla sem eru nýkomnir úr meðferð að þeir forðist umhverfi sem freisti þeirra til að falla fyrir fíkninni.

Fíkillinn fær "sponsor" eða hjálparmann sem bannar honum að vera þar á ferð þar sem freistingarnar eða neysla er mikil.

Ég man dæmi fíkils sem var bannað að fara í stórafmæli vinar síns vegna þess hve þar væru margir á ferð sem væru í neyslunni. "Viltu verða lifandi til að fara í fimmtugs- sextugs og sjötugsafmæli hans eða ekki? sagði hjálparmaðurinn.

Fíkillinn umræddi var líka að reyna að hætta að reykja en engdist sundur og saman við það að fara á gamlar bíómyndir þar sem leikararnir reyktu.

Þekkt er líka hve erfitt það er að hætt að reykja fyrir annan aðilann í hjónabandi ef hinn heldur áfram.

Alþjóðlegar rannsóknir styðja þetta og þess vegna er það líklega ávísun á meiri áfengisneyslu að selja áfengi í matvörubúðum.

Mér fyndist það vera mikil heimtufrekja að krefjast þess af Guði að hann sé ekki að setja upp freistingar fyrir áfengisfíkla í matvörubúðum þegar ljóst er að þetta gerum við sjálf ef það verður ákveðið á Alþingi.

Þess vegna gæti ég vel trúað því að umrædd setning í Faðirvorinu ætti að vera svona: "Hjálpa oss til að forðast freistingarnar."


Bloggfærslur 22. október 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband