26.10.2007 | 11:39
HJÓNABAND - HJÓNNABAND - HJÓNUBAND ?
Deilan um hjónabandið snýst ekki aðeins um mismunandi sjónarmið heldur líka hugtök og orð. Þetta síðastnefna á okkar dásamlega og lifandi tungumál að geta leyst með nýyrðasmíð. Hjón er fleirtöluorð og er í hvorugkyni á sama hátt og orðin barn og börn og orðið fólk því að tungan leysir vandann með hvorugkynsorðum þegar tvö kyn koma saman. Þetta liggur að mínu mati málfræðilega að baki skilnings kirkjunnar á orðinu hjón og hjónaband.
Karl og kona vígjast og bindast böndum til að geta sameiginlega af sér börn. Ég styð kröfu samkynhneigðra um að vígð sambúð þeirra séu jafnrétthá sambúð gagnkynhneigðra og að og reisn og tillfinningar aðila þeirrar sambúðar séu jafngildar og heilagar og gagnkynhneigðra.
Að öðrum kosti hefði ég ekki tekið þátt í gleðigöngu þeirra undanfarin tvö ár á þann hátt sem ég hef gert.
Það breytir ekki því að tæknilega er sá eðlismunur á þessum samböndum að í hjónabandi í skilningi kirkjunnar eru bæði hjónin kynforeldrar barna sinna en aðeins annar aðilinn í sambúð samkynhneigðra.
Ef við gerum þá kröfu að íslenskan eigi í orðaforða sínum skilgreiningar yfir sem flest má hugsa sér nýyrðasmíði sem nær þeim tilgangi að skilgreina hvert sambandi fyrir sig en kemur hins vegar eins langt til móts við sjónarmið samkynhneigðra og unnt er.
Áður en lengra er haldið er rétt að hafa það sterkt í huga að ævinlega þegar leitað er að nýyrðum virka þau brosleg og jafnvel kjánaleg í fyrstu.
Nýyrðin "þyrla" og "hyrna" virkuðu þannig á mann þegar þau komu fyrst fram, - en blærinn breyttist við notkun og kynningu.
Þetta er hið erfiða við að finna góð nýyrði í tengslum við jafn tilfinningaþrungið og alvarlegt fyrirbæri og vígð sambúð er. En hafa ber í huga að með tímanum ætti þessi blær að hverfa. Göngum þá til verks af fullri alvöru.
Ég hef leitað að orðum eins og "gumaband" hjá hommum, skylt orðinu brúðgumi, og "kvonband" hjá lesbíum, skylt orðinu kvonfang, en með þessum orðum held ég að við nálgumst ekki nóg þann vilja samkynhneigðra að orðið hjónaband gildi um öll samböndin.
En lítum þá á orðið "hjón." Það er ekki til í eintölu en vel mætti hugsa sér að búa til eintöluorð fyrir bæði kyn.
Það gæti þá orðið "hjónni" fyrir karlinn, - karlkynsorð sem beygist eins og orðið kúnni, - hjónni um hjónna frá hjónna til hjónna, og fleirtalan yrði "hjónnar", - hjónnar um hjónna frá hjónnum til hjónna.
Vígð sambúð tveggja karla yrði nefnt "hjónnaband."
Fyrir konuna yrði notað orðið "hjónna" sem beygðist eins og orðið kanna - hjónna um hjónnu frá hjónnu til hjónnu, - og fleirtalan yrði "hjónnur", - hjónnur um hjónnur frá hjónnum til hjónna.
Vígð sambúð tveggja kvenna yrði "hjónnuband."
Í texta kirkjunnar við vígslu sambúðarinnar myndi presturinn mæla fram þrjá mismunandi texta í samræmi við eðli sambandsins."
1. Karl og kona: "...þið eruð hjón fyrir Guði og mönnum..."
2. Karl og karl: "....þið eruð hjónnar fyrir Guði og mönnum..."
3. Kona og kona: "...þið eruð hjónnur fyrir Guði og mönnum..."
Til greina kemur líka að láta orðið "hjónn" um karlinn beygjast eins og orðið þjónn. Þá yrði sambúðin kölluð hjónaband, samanber orðið þjónaband.
Ef notað er orðið "hjóna" um konuna myndi það beygjast eins og orðið trjónu og sambúðin þá kölluð hjónaband, samanber "trjónaband".
Gallinn við síðustu tvo möguleikana hvað snertir hina kirkjulegu nákvæmni er sá að þá er algerlega sama orðið notað um sambúðina í öllum þremur tilvikum. Samkynhneigðir myndu hins vegar verða ánægðari með þessa lausn enda yrði eini mismunurinn í texta vígslunnar sá að presturinn myndi segja við hommana: "...þið eruð hjónar fyrir Guði og mönnum..." og við "lesbíurnar: "....þið eruð hjónur fyrir Guði og mönnum.
Kem ég þá að lokum að miliveg milli þessara tveggja tillagna minna en hann felst í því að orðið sem felur í sér "bandið" vísar til eintölu en ekki fleirtölu þ. e. til hvors um sig, samanber orðið "þjónshlutverk".
Þá lítur málið svona út:
Sambúð konu og karls: Hjónaband. "...þið eruð hjón fyrir Guði og mönnum..."
Sambúð karls og karls: Hjónsband. "...þið eruð hjónar fyrir Guði og mönnum...."
Sambúð konu og konu: Hjónuband. "...þið eruð hjónur fyrir Guði og mönnum...."
Út úr þessu fæst nákvæmari útlistun á hjónabandi karls og konu því að það verður hjónaband hjóns og hjónu.
En þá er að lokum að tilgreina þá lausn sem mér sýnist skást miðað við að nota grunnorðið "hjón"miðað við heildarsvip orðaforðans.
Þá líst mér skást á þennan milliveg:
Karl og kona: Hjónaband, samband hjónna og hjónu. "...þið eruð hjón fyrir Guði og mönnum..."
Karl og karl: Hjónnaband, samband hjónna og hjónna. "...þið eruð hjónnar fyrir Guði og mönnum..."
Kona og kona: Hjónuband, samband hjónu og hjónu. "...þið eruð hjónur fyrir Guði og mönnum..."
Þetta er mikilsvert mál og því tel ég ómaksins vert að kanna hvort frjómagn íslenskunnar geti leitt okkur til lausnar sem geti til framtíðar skapað sem víðtækasta sátt.
Við eigum ekki að vera hrædd við það þótt nýyrðin virki framandi og skrítin í fyrstu heldur minnast þess hvernig skrýtin og framandi nýyrði á sinni tíð urðu tungutöm og eðlileg með tímanum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)