28.10.2007 | 01:14
KENNINAFNASIÐUR Í HÆTTU.
Kenninafnasiður Íslendinga er mér afar kær og ég hef fastmótaðar skoðanir á honum. Hann er jafnréttismál því mér finnst fráleitt að konur kasti helmingi nafns síns við að giftast manni með ættarnafn. Þetta er þjóðarsérkenni sem við getum verið stolt af. Ég hallast að því að fólk kenni sig við móður, - það er öruggara. Þrennt ógnar kenninafnasiðnum: 1. Íslensk ættarnöfn. 2. Innflytjendur sem vilja viðhalda ættarnafnasið sínum. 3. Tveggja nafna siðurinn. Þetta þriðja vefst kannski fyrir fólki en ég get útskýrt það að hluta með því að spyrja nokkurra spurninga:
Hvers son er Sigurður Hreiðar? Hvers son er Jón Gnarr? Hvers dóttir er Olga Guðrún? Hvers son er Sigmundur Ernir? Hvers son er séra Hjörtur Magni? Við vitum stundum ekki svarið eða gleymum föðurnöfnunum vegna þess að þeim er gjarnan sleppt í umtali um þetta fólk.
Af þessum sökum heita öll börnin mín sjö aðeins einu nafni og sex þeirra heita samt nöfnum sem enginn annar heitir og engin hætta á að þeim sé ruglað við nafna eða nöfnur.
Það var að vísu auðveldara að hafa það þannig vegna þess að lengi vel var nafnið Ómar ekki algengt sem föðurnafn.
Ég væri alveg til í það að börnin mín kenndu sig við móður sína og bættu kannski stafnum mínum við á milli eiginnafns og móðurnafns ef þau vildu.
Þetta hljómar ágætlega: Jónína Helgudóttir, Ragnar Helguson, Þorfinnur Helguson, Örn Helguson, Lára Helgudóttir, Iðunn Helgudóttir og Alma Helgudóttir.
Nú heita allmargir sama nafni og ég þótt enginn annar heiti líka Þorfinnur. Þorfinnsnafnið nota ég hins vegar nær aldrei. Ef ég væri kenndur við móður mína héti ég hins vegar Ómar Jónínuson og ætti líkast til engan alnafna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)