BITRUVIRKJUN - KUNNUGLEG STAÐA.

Virkjanahraðlestin heldur áfram og aðferðin er þessi: Umfjöllun um virkjanasvæðið er lítil sem engin, - engar myndir birtar af því og þvi treyst að sem allra fæstir viti hvað sé í húfi. Það fer fram hjá almenningi þegar í gang fer matsferli hjá Skipulagsstofnun sem lýkur skyndilega. Viðkomandi sveitarstjórn hefur þegar verið keypt með því að veifa framan í hana væntanlegum skyndigróða.

Svæðin falla eitt af öðru, Nesjavellir, vesturhluti Hellisheiðar, austurjaðar Svínahrauns, og næst kemur röðin að Ölkelduhálsi og nágrenni og Hverahlíð. Í lokin líta virkjanamenn yfir draumsýn sína, Hellisheiðin njörvuð niður í kraðak af borholum, gufuleiðslum, vegum, gufuleiðslum og háspennulínum. 

Auðveld framsókn virkjanafíklanna auðveldar leikinn við Mývatn því að Norðanmenn segja að ljóst sé að íbúar höfuðborgarsvæðisins andæfi bara þeim virkjunum sem séu fjærst þeim.  

Allt er þetta gert undir yfirskini beislunar "endurnýjanlegrar og hreinnar orku" þótt vitað sé að Hengils-Hellisheiðarsvæðið verði kólnað og ónýtt til orkuframleiðslu eftir 40 ár, að lyktarmengun í Reykjavík fari þegar yfir mörk Kaliforníuríkis 40 daga á ári og eigi eftir að aukast og að mengun af völdum brennisteinsvetnis verði á við mörg risaálver.

Ég birti kvikmyndir af Ölkelduhálsi í Dagsjósi fyrir áratug og margir urðu undrandi yfir fegurð svæðisins. Ég hef farið í kvikmyndaferðir um virkjanasvæði Bitruvirkjunar og Grændal en hvorki haft tíma né fé til að vinna úr þeim myndum enda brýn verkefni æpandi um allt land og enginn virðist hafa áhuga á myndum sem geti orðið til upplýsingar.

Enda best að nota aðferð strútsins sem fyrr, stinga höfðinu í sandinn og sjá ekki neitt.  

Fjölmiðlar virðast engan áhuga hafa á því að sýna almenningi svæðið sem á að fórna enda er aðeins Grændalur ofan Hveragerðis tiltekinn í listanum í "Fagra Ísland" og ekki minnst á hann í stjórnarsáttmálanum.

Morgunblaðið birti frétt um andófið í dag án nokkurra mynda. Stöð tvö fór í dag upp á heiðina í hríðarmuggu og auðvitað sást ekki neitt og allt í fína lagi. Sjónvarpið taldi önnur mál merkilegri þótt það gæti þó orðið eini fjölmiðillinn sem sýndi eitthvað með því að nota myndirnar frá Ölkelduhálsi frá því hér um árið. 

Þeir sem andæfa náttúruspjöllunum eru sakaðir um öfgar og að vera á móti öllu. Núna felast öfgar okkar andófsfólksins í því að ætla af veikum mætti að andæfa Bitruvirkjun og reyna að bjarga aðeins einu svæði af þeim fimm á þessu virkjanasvæði sem þegar eru komin á dauðalista stóriðjufíklanna.

Stóriðjufíklanna segjast vera hófsemdarmenn og hófsemdin á Hengils-Hellisheiðarsvæðinu felst í því að stóriðjan tekur allt og skilur ekkert eftir.  

 

 


GRÆNHÚFURNAR GENGNAR AFTUR ?

Á árunum 1954-66 var lagið "Green berets", lofgjörðaróður til sveita með þessu nafni, sem fóru mikinn í Vietnam, eitt vinsælasta lagið í Kanaútvarpinu, frískt áróðurslag sem gekk um nokkra hríð bara vel í mann. En  fljótlega kom annað í ljós og voðaverk liðsmanna urðu einn af þeim blettum á stríðsrekstrinum sem olli því  að  Bandaríkjamenn töpuðu þessu stríði heima fyrir ekkert síður en í Vietnam. 

Nú virðist sagan vera að endurtaka sig í Írak hjá öryggissveitum Bandaríkjamanna. Þetta er ekki nýtt. Nafnið Gestapo hafði í sjálfu sér í upphafi ekki svo slæma merkingu, "Leynilögregla ríkisins." Lögregla á að halda uppi lögum og reglu í þágu borgarana, - ekki satt?

En raunveruleikinn var annar, einkum vegna þess að liðsmenn Gestapo og SS komust upp með refsiverð verk án þess að þurfa að vera sóttir til saka. 

Nú er bara að vona að almenningur í Bandaríkjunum taki á þessu nýjasta máli frá Írak á líkan hátt og hann gerði þegar mál Green berets komu upp á sínum tíma. Minni í þessu sambandi á næstu bloggfærslu mína á undan þessari um muninn á skæruher og venjulegum her. 


mbl.is Öryggisverðir Blackwater njóta friðhelgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

MÚRAR TIL MÆÐU.

Skæruher nægir að tapa ekki, - og þá hefur hann sigrað. Venjulegur her verður að sigra, - annars hefur hann tapað. Þetta spakmæli rifjast upp þegar ég glugga í nýja og ágæta heimildarbók um styrjaldir síðustu aldar og finnst athyglisvert að rifja upp hvernig Bandaríkjamenn trúðu á það í upphafi Vietnamstríðsins að hægt væri að vinna stríðið með því að gera varnargarða umhverfis þorpin í syðri hluta landsins svo að íbúarnir yrðu einangraðir frá skæruliðum og varðir gegn árásum þeirra. 

Þetta hafði þveröfug áhrif á fólkið miðað við það sem ætlunin var,  - því fannst það vera múrað inni í stórum fangelsum og fékk aukna samúð með málstað skæruliðanna. Þeir töpuðu ekki og urðu því sigurvegarar.

Allir vita hvaða áhrif Berlínarmúrinn hafði, - enda féll hann um síðir.

Apartheid aðskilnaðurinn í Suðu-Afríku og múr Ísraelsmanna milli þeirra og Palestínumanna, - allar bjöllur hljóta að hringja þegar slíkt er gert.

Í prýðilegum Kompásþætti voru sýndar girðingarnar sem Kanar reisa nú í Írak á milli borgarhverfa með sama hugarfari og þeir gerðu í Vietnam og væntanlega með svipuðum árangri, þ. e. þveröfugum áhrifum miðað við það sem ætlunin er.

Sama kvöld var sá ég bút úr heimildarmynd sem um Írakstríðið sem sýnd var á kvikmyndahátíðinni hér. Þar kom fram að yfirleitt fjalla fréttir vestrænna fjölmiðla um árásir skæruliða á saklaust fólk þótt raunveruleikinn sé sá að 74% árásanna sé á bandaríska herinn.

Hvernig myndu Bandaríkjamenn una við það að 1,6 milljón kuflklæddra vopnaðra Araba hefðu hernumið Bandaríkin og færu þar hús úr húsi með alvæpni til að leita að hugsanlegum skæruliðum? En 1,6 milljón Arbabahermanna í BNA eru hlutfallslega jafnmargir og 160 þúsund bandarískir hermenn í Írak.

Rússar fóru inn í Afganistan og sögðust gera það vegna beiðni löglegrar stjórnar landsins sem var þó auðvitað leppstjórn þeirra en hafði lotið í lægra haldi fyrir Talibönum. 

Bandaríkin og fleiri þjóðir studdu Talibana, sendu þeim vopn og refsuðu Sovétmönnum með því að sniðganga Ólympíuleikana í Moskvu. Skæruliðar Talibana töpuðu ekki og þar með unnu þeir sigur á Sovétmönnum.

Það er erfitt að sjá hvernig Bandaríkjamönnum á að takast það sem Sovétmenn gátu ekki. Meðan Talibanar tapa ekki og geta haldið áfram skæruhernaði sínum verða þeir að öllum líkindum endanlegir sigurvegarar í stríðinu.  

 

 


mbl.is Rússar fordæma einangrun Gasa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. október 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband