31.10.2007 | 20:36
ASKJA OG GJÁSTYKKI - TUNGLIÐ OG MARS.
Skemmtileg bloggfærsla Ágústar H. Bjarnasonar með nýjum myndum af yfirborði mars minnti mig á að í Öskju var æfingasvæði tunglfaranna og það á áreiðanlega stóran þátt í tregðu manna til að fara þar inn með jarðvarmavirkjanir og eyðileggja þannig upplifun þeirra sem koma þangað í fótspor Armstrongs og Sigurðar Þórarinssonar. Í Gjástykki völdu vísindamenn á vegum alþjóðasamtaka áhugamanna um marsferðir æfingasvæði fyrir marsfara framtíðarinnar.
Þessi ferð þeirra var farin í kjölfar könnunarferðar Bob Zubrin marsferðafrömuðar tveimur árum fyrr þar sem hann sá á Íslandi þau skilyrði sem mest líktust yfirborð mars.
En það er lýsandi fyrir virkjanagræðgi okkar Íslendinga að nú er á fullri ferð undirbúningur fyrir jarðvarmavirkjun í Gjástykki á grundvelli siðlauss og líkast til löglauss leyfis fyrrverandi iðnaðarráðherra tveimur dögum fyrir kosningar.
Þótt lengra sé kannski þangað til menn verða sendir til mars en á milli áranna 1967 og 69 ættum við að athuga að með því að eyðileggja möguleika Gjástykkis á að standa jafnfætis Öskju tökum við fram fyrir hendur afkomenda okkar.
Gjástykki er mjög viðkvæmt svæði þar sem rask af völdum jarðýtna í nýrunnu hrauni er óafturkræft.
Munurinn á að virkja eða virkja ekki er sláandi: Með því að halda landinu ósnortnu er ekki komið í veg fyrir að virkjað verði síðar.
Með því að virkja á þann hátt sem gert yrði í Gjástykki er komið í veg fyrir að svæðið og náttúra þess verði ósnortin.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)