HVAÐ EIGA MARGIR AÐ FARA Í FÝLU?

Bloggfærsla doktors Gunna um það hneyksli að hann skuli ekki vera boðsgestur við súluvígslu Yoko Ono litar hversdaginn skemmtilega þessa dagana því að kannski fara þá einhverjir fleiri að pæla í því af hverjum þeim var ekki boðið. "Engin vil ég hornkerling vera" sagði Hallgerður á sínum tíma og þörf fólks við að máta sig hvert við annað hefur ekkert breyst.

Ég fattaði ekki að ég hefði ekki fengið boðskort fyrr en ég sá bloggið Gunna og þá rifjaðist upp fyrir mér að ég var fyrsti Íslendingurinn sem söng Bítlalag inn á hljómplötu. Það var lagið "Twist and Shout" með íslenskum texta: "Karlarnir heyrnarlausu" líklega árið 1964 eða 65.

Sömuleiðis söng ég inn á plötu um svipað leyti fyrsta lag og texta sem gert var sérstaklega um Bítlana. Það hét "Bítilæði", því þetta var svo snemma á ferli Bítlanna að orðið Bítlaæði var ekki enn búið að ryðja sér til rúms.

Hugsanlega var það fyrsta lag gefið út á hljómplötu í heiminum sem fjallaði sérstaklega um Bítlana.

Mér nægir alveg að vita af fyrrnefndum staðreyndum og boðskort út í Viðey breytir engu um það og skiptir engu máli í því sambandi.

En ég heyri út undan mér að það er vaxandi áhugamál margra hverjir verði þarna og eigi möguleika á að komast í Séð og heyrt og baða sig í ljósi súlunnar miklu á alla lund.

Upprennandi spurning næstu daga er því hve margir eigi kröfu á því að fara í fýlu vegna þess að þeim var ekki boðið.

En hvers vegna skiptir það einhverju máli? Amma mín sem var Skaftfellingur og komst í návígi við Kötlugosið sagði mér svo margt og mikið frá því að ég hef alla tíð síðan beðið eftir því að sú gamla gysi aftur.

Þetta vita sumir mér nákomnir og spyrja mig hvort það yrði ekki agalegt ef ég væri nú erlendis þegar næsta Kötlugos dyndi yfir.

Ég svara þeim með því að þetta skipti í raun engu máli, - ég hafi hvort eð er misst af svo mörgum stóratburðum sem ég hefði viljað upplifa á staðnum.

Þannig missti ég af því þegar breski herinn sté á land 1940, missti af Kötlugosinu 1918, Jörundi hundadagakonungi 1809 og flutningi Fjallræðunnar. Og ég á hugsanlega eftir að "missa af" einhverjum stóratburðum eftir minn dag.

"Missið ekki af" heilkennið er að verða mikill streituvaldur á daglega lífinu, - í fjölmiðlum er tönnlast á setningum eins og "missið ekki af Kastljósi", missið ekki af Kompási", missið ekki af þessari sýningu eða hinni, missið ekki af tækifærinu til að kaupa þetta eða hitt.

Þetta ærir upp í okkur tómleikatilfinningu og svekkelsi að geta ekki höndlað þetta allt og getur endað með því að við missum af því stærsta, - eðlilegu lífi  og því að njóta hvers dags sem okkur er gefinn án þess að okkur finnist sífellt að við séum að missa af svo mörgu eða að við séum sífelld rænd einhverju sem skiptir í raun svo litlu máli miðað við það krefjandi og heillandi verkefni að vera bara til og reyna að gera lífið innihaldsríkara og skemmtilegra.


mbl.is Dr. Gunni fékk ekki boðskort
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

LANGLÍF YFIRBURÐASTJÓRN?

RÍkisstjórnin nýtur fylgis 70 prósenta þjóðarinnar í skoðanakönnunum og yfirburða þingfylgis. Heyra má talað um að framundan geti verið mörg kjörtímabili sterkar stjórnar og veikrar stjórnarandstöðu. En það er ekki nýtt að ríkisstjórnir hafi haft svona ríflegan meirihluta og samt ekki orðið langlífar. Stjórn Sjálfstæðis og Framsóknar 1950 með yfirburða fylgi sat ekki út tvö kjörtímabil og svipað fylgi sömu flokka dugði aðeins eitt kjörtímabil 1974 - 78.

Hér er aðeins talað um tveggja flokka stjórnir enda sátu þriggja flokka stjórnir Þorsteins Pálssonar 1987-88 og Ólafs Jóhannessonar 1978-79 aðeins rúmt ár þrátt fyrir yfirburða fylgi og margir drógu af því þá ályktun að þriggja flokka stjórnir væru í raun veikar, svo sem Stefanía 1946-49 og vinstri stjórnirnar 1956-58 og 1971-74. Alls voru þetta fimm þriggja flokka stjórnir sem sprungu með hvelli áður en kjörtímabili lauk.

Þetta er þó ekki einhlítt og besta dæmið um hið gagnstæða eru þriggja flokka stjórnir Gunnars Thoroddsen 1981-83 og þó einkum stjórn Steingríms Hermannssonar 1988-91, sem sátu út kjörtímabilið og raunar varð stjórn Steingríms fjögurra flokka stjórn undir lokin.

Stjórn Steingríms naut heppni í byrjun sem var einsdæmi. Hún fólst í því að vinna öll hlutkestin í kosningu í þingnefndir þar sem hlutkesti þurfti vegna þess að leikar stóðu jafnir.

Stjórnir sem hafa haft veikan þingmeirihluta hafa margar setið til enda kjörtimabils. Viðreisnarstjórnin sat í þrjú kjörtímabil samfleytt.

Hvað má ráða af þessu? Helst það að mikill þingmeirihluti hefur bæði kosti og galla.

Kostirnir felast í stærðinni og yfrirburðunum yfir stjórnarandstöðuna.

1. Þeim lúxus að einstakir stjórnarþingmenn geti spilað sóló í einstökum málum

2. Flokkarnir tveir geta haldið til haga sérstöðu sinni og ágreiningi við samstarfsflokkinn og slegið þannig að vissu leyti slegið á óánægjuraddir með því að skírskota til þess að víst haldi flokkurinn vöku sinni í svona málum þótt hann beygi sig fyrir því að stjórnarsamstarf byggist ævinlega á málamiðlunum, - ég fæ þetta fram, þú færð hitt og sumt látum við liggja á milli hluta.

En gallarnir eru líka fyrir hendi og það eru þeir sem geta að lokum breytt stöðunni á jafnvel ótrúlega skömmum tíma.

Ef óánægjuraddirnar eru háværar og gagnrýnin langdregin getur það farið að hafa áhrif á stjórnarsamstarfið og fylgi stjórnarflokkanna, einkum þegar á líður og kemur betur í ljós hverju hvor flokkurinn um sig hefur ekki fengið framgengt af stefnumálum sínum.

Ríkisstjórn Davíðs og Jóns Baldvins tókst furðu vel að halda saman á þeim tíma sem glímt var við samdrátt og erfitt árferði. Kratar létu sér þó vel líka að hafa fengið EES fram en eftir að það mál var í höfn fór pirringurinn á milli flokkanna vaxandi og smitaði út frá sér upp til forystunnar.

Jón Baldvin sagði í viðtali við Jónas Jónasson að metnaður hans hefði staðið til forsætisráðherraembættisins sem hann hefði einn Íslendinga lært til. En þegar valið stóð um það eða hitt að verða utanríkisráðherra og koma EES í höfn hefði hið síðarnefnda orðið yfirsterkara, - með því hefði hann gert meira gagn.

Í kosningunum 2003 og aftur 2007 var því hampað af Samfylkingunni að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gæti fyrst kvenna orðið forsætisráðherra, - greinilega mikill metnaður þar á ferð til að skrá nafn á spjöld sögunnar.

Þetta misheppnaðist 2003 þrátt fyrir að Samfylkingin hefði reynt að auglýsa það hve "stjórntæk" hún væri 2002 með því að snúa við blaðinu í Kárahnjúkamálinu.

Marga grunar að í raun hafi Samfylkingin aldrei ætlað eitthvað með það að mynda stjórn með tæpasta meirihluta í vor heldur allan tímann gælt á bak við tjöldin og jafnvel undirbúið þá niðurstöðu sem varð eftir kosningar.

Og þá er spurt í framhaldinu upphafsspurningar þessarar bloggfærslu: Á núverandi stjórnarandstaða nokkra von? Er þetta ekki tapað spil? Er til dæmis ekki réttast að tilkynna það opinberlega að Íslandshreyfingin sé lögð nður?

Svarið við því getur verið svipað og svar Garrís Kasparofs í ójöfnum leik við Putin: Við búumst ekki við því að geta unnið í kosningunum núna en ætlum samt að stimpla það inn að við séum til síðar meir þegar á þarf að halda.

Þetta er skynsamlegt svar manns sem veit vel að stjórnmálin eins og skákin geta óútreiknanleg verið og ráðist af atburðum og sviptingum sem enginn sér fyrir.

Auðvitað er ólíku saman að jafna, annars vegar um það ofríkisstjórnarfar sem sækir í sig veðrið í Rússlandi og hins vegar ástandið hér hvað helstu stoðir lýðræðis snertir, - ríkisstjórnir þessara misstóru landa eru að engu leyti sambærilegar nema tæknilega hvað snertir yfirburðastöðu yfir stjórnarandstöðuna.

Sennilega mun það ekki koma i ljós fyrr en eftir tvo þingvetur hvort stjórnarflokkarnir verða ánægðir hvor með sinn hlut í samstarfinu. Þar mun Samfylkingin eiga erfiðara en Sjálfstæðisflokkurinn vegna samkeppninnar um fylgið frá miðju út til vinstri þar sem að henni verður sótt.

Möguleikarnir eru þrír:

1. Svo mikil samheldni og eindrægni myndast milli stjórnarflokkanna, líkt og í Viðreisnarstjórninni á sínum tíma, að það haldi ekki aðeins út kjörtímabilið heldur áfram, enda nái stjórnarandstaðan ekki að höggva í raðir fylgis stjórnarinnar.

2. Smám saman fer samstaðan að veiklast og líkt of Framsókn 1953 telur Samfylkingin sig knúna til láta sverfa til stáls til hrekjast ekki um of frá stefnumálum sínum.

3. Samfylkingin tekur stjórnarstamstarfið og það að vera "stjórntæk" svo mjög fram yfir sum af stefnumálunum að stjórnarandstaðan fær byr í seglin og staðan breytist.

Þá gæti komið upp ný staða í taflinu á borð við það að jafnvel peðin fá nýtt afl og vægi, líkt og fripeð í skák.

Sem sagt: Óþarfi að henda peðum eða léttum mönnum út af borðinu í upphafi skákar sem er að hefjast og getur þróast á ýmsa vegu.


Bloggfærslur 5. október 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband