TÍU NORNIR - ENGINN KARL - TILVILJUN?

Ég minnist tíu norna og illra kvenna úr eftirfarandi ævintýrum sem ég heyrði sem barn: Þyrnirós, Hans og Gréta, Öskubuska, Mjallhvít, Giltrutt, tvær skessur í þjóðsögunni um Gissur á Lækjarbotnum að ógleymdri sjálfri Grýlu. Af hverju var og er engin þessara persóna karlkyns? Getur verið að hér hafi verið um að ræða lúmskt innrætingarspil sem kynnti undir fordómum og kynjamisrétti sem þarf að stöðva? Þarf að endurmeta þessi ævintýri og jafnvel víkja þeim til hliðar í samræmi við nýja tíma?

Sex af kvenpersónunum voru ófríðar en mamma Mjallhvítar var flagð undir fögru skinni og í tilfelli Öskubusku voru mamma og systur Öskubusku vondu konurnar og sennilega ófríðari en hún og lögðu hana því í einelti.

Ég man ekki eftir neinu karlkyns orði í íslensku sem samsvarar kvenkyns orðinu "norn". Tilviljun?

Kynjajafnréttið virðist meira hvað snertir draugana hvernig sem á því stendur. Er það kannski vegna þess að það taki því ekki og hafi engan praktiskan árangur að teygja misrétti og fordóma út yfir gröf og dauða?

Til að öllu sé haldið til haga er þó rétt hjá mér að nefna að þegar ég var lítill nefndi amma mín tvær karlkyns verur sem kæmu og tæki mig ef ég hagaði mér ekki eins og til var ætlast. Þetta voru þeir "boli" og "ljóti kallinn."

Amma mín hafði alist upp í sveit og talaði því um bola þótt hún ætti heima uppi á annarri hæð í Verkó við Ásvallagötu. Ég lenti því fljótlega í rökræðum við hana um það hvernig boli gæti komist til Reykjavíkur alla leið vestur í bæ og þar upp þrönga stiga upp á aðra hæð, bara til þess að stanga mig.

"Ljóti kallinn" var hins vegar líklegri til að taka mig en þó þótti mér skrýtið að fá engar nánari upplýsingar um hann, hver hann væri, hvar hann ætti heima og hverra manna hann væri.

Allar nornirnar voru tengdar sögupersónum og fjölskyldum sem voru kunnuglegar og það virkaði lengi vel að hóta mér með Grýlu ef ég væri óþægur.

En af hverju var "ljóti kallinn", hinn illa karlpersóna "ljót"? Var það ísmeygileg tilraun til að lauma inn fordómum gagnvart ófríðu fólki?

Og var þá "ljóta kellingin" byggð á tvöföldum fordómum gagnvart ófríðu fólki og kvenkyns fólki?

Í lok þessa pistils tel ég rétt að ítreka upphafsorð mín í pistli með heitinu "Hugarfarið að baki orðunum" á dögunum, að aðgát skuli hafa í nærveru sálar og forðast allt það sem geti verið meiðandi og alið á fordómum eða misrétti og ósanngirni í garð þjóða, hópa, kynþátta og kynja.

En nauðsynlegt er að átta sig á raunverulegum áhrifum sagna og söngva, sjá ekki draug í hverju horni en vera meðvitaður um breytta tíma.


Bloggfærslur 1. nóvember 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband