14.11.2007 | 22:05
BÚSETUSKYLDAN Í NOREGI.
Á ferð okkar hjóna um Noreg fyrir nokkrum árum kynntumst við því hvernig Norðmenn viðhalda því menningarlandslagi sem er í norsku fjörðunum. Þar er á vissum svæðum skylt að búa allt árið á hverri jörð og hafa þar búpening í samræmi við norska hefð. Þetta er ekki vegna landbúnaðarins heldur vegna þess að Norðmenn vilja varðveita sjálfsmynd sína og lands síns með því að geta upplifað umhverfi tónverka og bóka þeirra Griegs, Björnssons, Hamsuns og annarra stórskálda.
Dýrt, segja einhverjir, en Norðmenn sjá peninga í þessu því að þú átt bæði sem heimamaður og erlendur ferðamaður að geta upplifað til dæmis stemninguna í Sunnudegi selstúlkunnar. Með því býður ferðaþjónustan upp á sérnorskt umhverfi og stemningu sem stór hluti ferðamanna sem þekkir norska menningu sækjast eftir og er tilbúinn að borga fé fyrir.
Þetta kemur upp í hugann þegar meira umrót er á eignarhaldi á jörðum á Íslandi en nokkru sinni fyrr. Í stórri nýrri og flottri bók sem færir sérfræðingar hafa gert um hundrað undur veraldar eru undur númer 1 og 2 norsku firðirnir og eldvirka svæðið á Íslandi. Aðeins fimm önnur náttúruundur í Evrópu komast á listann.
Norðmenn eru sér meðvitaðir um gildi landslags og menningar í landi sínu. Meðal annars þess vegna er enn óvirkjað jafn mikið vatnsafl að magni til í Noregi og á Íslandi og Norðmenn myndu hlæja að þeirri röksemd Péturs Blöndals að umhverfisverndarmenn heimsins muni krefjast þess að þetta vatnsafl verði virkjað.
Ef til stæði að bræða alla góðmálma sem fáanlegir er í heiminum fyrir málmbræðslur myndu menn ekki byrja á því að bræða hvolfþök frægustu kirkna og halla í heiminum.
Norsku firðirnir og eldvirka svæðið á Íslandi eru hliðstæða glóandi hvolfþaka þeirra bygginga heims sem eru á lista yfir 100 undur veraldlar. Ef þyrfti að bræða allan góðmálminn yrðu þau brædd síðast, - ekki fyrst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
14.11.2007 | 14:18
NÚ ÞARF AÐGÁT.
Það mun væntanlega auka öryggi að Stóri bróðir geti fylgst með hvaða bíl sem er hvar sem er og hvenær sem er. En gæta þarf vel að því að þessi nýja tækni verði ekki til þess að skerða rétt hvers manns til ferðafrelsis sem meðal annars getur falist í því að þurfa ekki að óttast smásmugulegt eftirlit umfram brýnustu öryggishagsmuni. Að meðaltali er hverjum íslenkum bíl ekið í sem svarar meira en mánaðar vinnu á hverju ári, þ. e. í ca 200 klukkustundir. Meðal Íslendingurinn eyðir því ótrúlega stórum hluta ævi sinnar í bíl.
Þetta fæst út með því að nota tölur um meðalhraða, sem er 36 km/klst innanbæjar og meira en 80% alls aksturs á Íslandi er vafalaust innanbæjar þannig að meðaltalshraðinn á landinu öllu á bilinu 40- 50 km/klst. Þegar því er deilt upp í 15 þús km meðalakstur hvers bíls fæst þessi ótrúlega háa tala af viðveru ökumanns í hverjum bíl.
Ég tel mikils virði að ný staðsetningartækni geti á engan veg stuðlað að lögregluríki. Truflanir í farsíma mínum á ákveðnu tímabili síðsumars 2005 bentu til þess að hann og fleiri símar væru hleraðir og hafi svo verið skil ég ástæðu þess að þarna virtist vera upplagt tækifæri fyrir leyniþjónustu hins opinbera til að prófa búnað sem nota mætti tengslum við hættuna á hryðjuverkum ef hún dyndi yfir.
Símastöðvarnar sem sími minn og þrír aðrir símar voru í sambandi við voru annars vegar endurvarpinn á Sauðafelli við Kárahnjúka og hins vegar aðalsendir Símans í Reykjavík.
Það kom mér hins vegar mjög á óvart hvaða símar virtust tengdir inn í þetta hugsanlega "hryðjuverkamannasímatorg."
Þess vegna held ég að skoða þurfi gaumgæfilega allar hliðar þessa nýja máls áður en þessu bílaeftirlitskerfi Stóra bróður með okkur nánast öllum verður komið á.
![]() |
Allir bílar undir gervihnattaeftirliti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)