HINN STÓRI DRAUMUR JÓNASAR.

Gaman er að heyra á 200 ára afmæli Jónasar Hallgrímssonar og degi íslenskrar tungu að Garðbæingar ætli að láta torg heita eftir Jónasi. En hinn stóri draumur hans um að lokið yrði til fulls ítarlegri útttekt og rannsóknum á íslenskri náttúru og gildi hennar hefur enn ekki ræst. Skerfur Jónasar í fræðigrein sinni var mun meiri en er á almanna vitorði. Hann fann það til dæmis út hvernig Landbrotshólar höfðu myndast.

Stærsti draumur hans sem fræðimanns var að ljúka sínu stóra verki um íslenska náttúru og um leið var það einn stærsti harmleikur lífs hans að falla frá langt um aldur fram og sjá þennan draum ekki rætast.

Segja má að miðað við þær aðstæður sem nú ríkja í virkjana- og orkumálum hafi draumur Jónasar ekki ræst enn því að enn brýnna er nú en á hans dögum að ljúka víðtækum rannsóknum á eðli og gildi íslenskrar náttúru áður en anað er áfram og fáu eirt í skefjalausri framkvæmda- og virkjuanagleði. 

Einn hugnæmasti staður lífs Jónasar þar sem hann greiddi elskunni sinni lokka við Galtará fór undir Blöndulón og ég held að þeim muni fjölga sem sjái að það var algerlega óþarft því að hægt hefði verið að komast af með minna lón sem ekki drekkti þessum stað.

Meðal þeirra sem börðust fyrir minna lóni var Páll Pétursson en hann og skoðanabræður hans lutu því miður í lægra haldi fyrir þeim sem af óþoli og bráðlæti gátu ekki hugsað sér annað en að virkjunin yrði eins hræódýr og hugsast gæti.

Þá einblíndu menn á þau tímabundnu uppgrip í héraði sem virkjanaframkvæmdirnar gæfu af sér en í dag er þetta svæði þar sem fólki fækkar stöðugt og Blönduvirkjun breytir engu um það.  

En áfram með skáldið Jónas. Í sumum frægustu ljóðum hans sameinast skáldið og náttúrufræðingurinn á einstakan hátt, svo sem í ljóðinu um Skjaldbreiði. Í snilldarljóðinu Gunnarshólma lyftir skáldið sér upp af láglendinu líkt og hann sé í flugvél og lofar okkur að sjá "hrafntinnuþökin" þótt þau séu langt frá hólmanum uppi á hálendinu.

Það er gott að geta notað nafn og verk Jónasar í baráttunni fyrir eflingu og viðhaldi íslenskrar tungu og ekki síður að minna okkur á gildi rannsókna á mesta verðmæti Íslands, einstæðri náttúru landsins.   


mbl.is Nýtt torg í Garðabæ nefnt Jónasartorg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ÞAR KOM AÐ ÞVÍ, ÁSGEIR ÖRN.

Ég hef lengi beðið eftir því að heyra svona gleðifrétt af Ásgeiri Erni. Mér er ógleymanlegt þegar ég var fenginn til að lýsa og dæma í lítilli hnefaleikakeppni í Versló fyrir allmörgum árum og Ásgeir Örn fór alveg óreyndur á móti strák sem virtist vera mun heppilegar vaxinn fyrir íþróttina. Ásgeir tók sér sinn tíma, lofaði hinum sækja og í annarri lotu var hann búinn að læra á hann og afgreiddi hann með skemmtilegunm gagnhöggafléttum á alveg einstaklega flottan hátt. 

Þá sá ég að Ásgeir Örn væri einn af þessu sjaldgæfu mönnum sem gætu náð langt í nánast hvaða íþróttagrein sem er og þess vegna gleður þessi góða frammistaða hans mig.  


mbl.is Ásgeir átti stórleik með GOG í jafntefli við Portland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. nóvember 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband