18.11.2007 | 20:17
BJART ER YFIR BETLEHEM, AFSAKIÐ, GLATT YFIR GARÐHEIMUM.
Í fyrsta skipti síðan ég byrjaði að blogga verð ég að taka pistil til endurskoðunar vegna misheyrnar. Í fyrrakvöld heyrðist mér að sagt væri í sjónvarpsauglýsingu: Bjart er yfir Garðheimum / blikar jólastjarna. Í kvöld heyrði ég þessa auglýsingu aftur og uppgötvaði að þetta var misheyrn hjá mér í fyrrakvöld. Nú hljómar þetta svona: "Glatt er yfir Garðheimum / glitrar jólastjarna." Þetta er þó skárra en það sem mér heyrðist í fyrrakvköld vegna þess að ljóðstafasetningin er rétt og því falla dauð niður ummæli mín um ranga ljóðstafasetningu og biðst ég afsökunar á því.
Að öðru leyti er eðli málsins hið sama, - að taka jólasálm sem allir þekkja og er fólki tamur á tungu og afbaka hann í gróðaskyni án þess að hafa samband við afkomendur höfundar sálmsins vegna höfundarréttar sem meðal annars felst í svonefndum sæmdarrétti.
Hvað myndi fólk segja ef þessi auglýsing færi að dynja: "Í Bónusi er barn vort klætt / barn vort klætt." Mér skilst að hægt sé að kaupa sokkaplögg í Bónusverslunum svo að þetta er ekki útilokað.
Eða ef versluninn Örninn auglýsti: "Heims um ból / helg eru hjól"...?
Ég veit það bara að mér yrði ekki sama ef auglýst væri: "Úr og klukkur klingja / kalda vetrarnótt" og síðan nefnt nafn úrsmiðsins sem auglýsti svona.
Ég verð að segja að mér finnst það ekki lýsa frumleika þegar seljendur varnings finna ekkert annað til að auglýsa varning sinn með en afbakanir á þekktum sálmum eða jólalögum. Þvert á móti finnst mér það lýsa hugmyndafátækt að ekki sé talað um smekkleysi og tillitsleysi gagnvart höfundum og rétti þeirra.
Næsta skref hjá Garðheimum gæti verið að láta syngja og spila í auglýsingu: "Allt eins og blómstrið eina / upp vex í Garðheimum."
Kannski hefði ég átt að sleppa þessu með útfararsálminn vegna þess að Hallgrímur Pétursson er svo löngu dauður að ekki er hætta á afskiptum höfundar eða erfingja hans og ég er kannski að benda eigendum Garðheima auðvelda leið til að nota sálma til að auka söluna hjá sér.
Öðru máli gildir hins vegar um Ingólf heitinn Jónsson frá Prestbakka, höfund jólasálmsins "Bjart er yfir Betlehem" sem var samtíðarmaður meirihluta Íslendinga og á nána að til að leita réttar í þessu máli ef til þess kemur.
Þar rennur mér meira að segja blóðið til skyldunnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.11.2007 | 14:02
JÖRÐIN HLÝTUR AÐ VERA FLÖT, ÓLAFUR TEITUR.
Ólafur Teitur Guðnason heldur því mjög á lofti í Silfri Egils, sem ég er að horfa á, að Hjörleifur Guttormsson, sá mæti sérfræðingur um íslenska hálendið, hafi sagt í ferðabók sinni um Kringilsárrana að þar væri ekkert merkilegt að sjá. Þessu hafa fylgismenn Kárahnjúkavirkjunar haldið mjög á lofti við að réttlæta virkjunina.
Hjörleifur Guttormsson vann afreksverk á sínum tíma með því að ganga um stóran hluta landsins sem einna erfiðastur er yfirferðar og rita um það merkar bækur.
Í mati á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar fóru hins vegar margir vísindamenn um þann hluta þessa víðfeðma ferðasvæðis Hjörleifs og afraksturinn var fjöldi nýrra vísindalegra niðurstaðna um lónstæði Hálslóns.
Ein þeirra var sú að hólaröð yfir þveran Kringilsárrana sem nefnist Hraukar ætti sé enga hliðstæðu annars staðar í veröldinni, - ekki einu sinni á Svalbarða eins og nefnt var í matsskýrslunni. Þetta gat Hjörleifur ekki vitað.
Hraukarnir eru afrakstur þess að enginn skriðjökull heims hleypur eins hratt fram og Brúarjökull, - annað einsdæmi í Kringilsárrana.
Rannsóknir á sethjöllunm í Hjalladal bentu til þess að Jökla væri afkastamesti listamaður jökulfljóta heims, - hefði grafið Hafrahvammagljúfur að mestu á aðeins 700 árum. Þetta vissi Hjörleifur ekki né nokkur annar á hans ferðatíma.
Þar sem ég lenti flugvélum á því sem sýndist vera lítill sethjalli í botni dalsins var í raun árbotninn eins og hann var fyrir fjörutíu árum því að áin hafði á þessum örfáu árum grafið sig niður í 10-15 metra djúpt gljúfur framhjá lendingarstaðnum og búið til frábær náttúrufyrirbæri, hina litfögru kletta Stapana, Rauðuflúð og Rauðagólf.
Hún hefði vafalaust haldið áfram að búa til Rauðugljúfur ef öllu þessu svæði hefði ekki verið sökkt.
Þetta vissi Hjörleifur ekki og hefur líklega ekki gengið um þennan hluta dalsins. Ég vissi þetta ekki fyrr en tíu dögum áður en dalnu var sökkt. Bændurnir á Aðalbóli í Hrafnkelsdal vissu þetta en voru aldrei spurðir.
Rauða bergtegundin sem mótaði þetta svæði og gaf Rauðuflúð, Rauðagólfir og Stöpunu litfegurðina er sjaldgæf djúpbergtegund sem sýnir að þarna er eldvirkt svæði.
Ólafur Teitur og hans skoðanasystkin vilja halda sig við hina eldri vitneskju en ekki hina nýrri.
Á sama hátt má maður búast við því að Ólafur Teitur muni telja visku færustu vísindamanna heims á fjórtándu öld sýna fram á að jörðin sé flöt og að í verkum færustu líffræðinga og dýrafræðinga heims í byrjun 19. aldar sé óyggjandi vitnisburður um það hve fráleitt sé að maðurinn sé kominn af öpum.
Hin eldri vitneskja skal blíva, hin nýrri og fullkomnari að engu höfð.
Í málflutningi Ólafs Teits eru í raun settir fram tveir kostir:
1. Hjörleifur Guttormsson er og var frábær fræðimaður og þess vegna var ekkert merkilegt að sjá í lónstæði Hálslóns og hið besta mál að sökkva Hjalladal undir leiðsögn hans.
2. Ef eitthvað merkilegt var að sjá í lónstæði Hálslóns sýnir það að ekkert var eða er að marka Hjörleif Guttormsson.
Ég hef hér að framan fært að því rök því hve ósanngjörn og grunnfærinn þessi málflutningur er af hálfu þess blaðamanns sem hefur nú sett sig á stall nokkurs konar hæstaréttardómara yfir starfsbræðrum sínum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
18.11.2007 | 12:52
"TÍÐAHVÖRF" Í MÁLFARI.
Heyrði í útvarpi í hádeginu: "..... sagði að ekki hafi verið rætt um hvað gera skyldi" og kýs að kalla þetta "tíðahvörf" í málfari. Það er algengt að menn detti í þennan pytt en minn gamli lærifaðir, Emil Björnsson, kenndi mér einfalt ráð við þessu. Ef setningin byrjar í þátíð heldur hún áfram í þátíð og ef hún byrjar í nútíð heldur hún áfram í nútíð.
Í setningunni hér að ofan er byrjað í þátíð, farið yfir í nútíð og síðan aftur yfir í þátíð.
Rétt væri setningin svona: "...sagði að ekki hefði verið rætt um hvað gera skyldi."
Ég hef hingað til ekki verið með málfarsábendingar í pistlum mínum en mér sýnast vera dagleg tilefni eftir dag íslenskrar tungu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)