19.11.2007 | 23:22
GRETTISSAGA HIN NÝJA.
![]() |
Mike Tyson dæmdur í sólarhrings fangelsi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.11.2007 | 23:02
GRETTIR OKKAR TÍMA.
Sitt er hvað, gæfa og gjörvileiki. Illt er að eggja óbilgjarnan. Setningarnar úr Grettlu spretta fram í hvert sinn sem heyrast fréttir af Mike Tyson, alltaf slæmar. Grettir synti frækið sund úr skipi í land eftir eldi í náttmyrkri og vetrarhörku í Noregi og var dæmdur fyrir að hafa orðið mönnum að bana í kofa, sem hann fór inn í klakabrynjaður og ógurlegur og náði eldinum en dauðhræddir menn í kofanum börðu á honum með eldibröndum og við það kviknaði í kofanum og þeir brunnu inni.
Ég kom á þennan stað fyrir níu árum og einnig á kirkjustaðinn í Þrándheimi þar sem skapbræðin eyðilagði eiðstaf Grettis í sérstakri kirkjuathöfn þegar strákstauli gekk að honum og "gaf honum fingur" eins og segir í sögunni. Voru kannski "fuck-merkin" komin þá?
"Tyson óðan telja má.
Þó tel ég líklegt vera
að bullur þær er bíta og slá
brúki flestar stera "
orti Pétur Pétursson læknir á Akureyri um það þegar Tyson beit eyrað af Holyfield.
Hnefaleikasérfræðingar erlendir auka á niðurlægingu Tysons með því að skipa honum að mínum dómi alltof neðarlega á lista yfir bestu þungaviktarhnefaleikara allra tíma, - jafnvel aftarlega á lista yfir þá sem réðu yfir bestu höggunum (best puncher). Þeir hafa í huga allan feril hans en ég vil meta hann eins og hann var bestur á milli 1985 og 1988.
Ali var langhraðastur allra og hefði á hátindi sinnar getu sigrað Tyson á hátindi sinnar getu. En mér finnst óhugsandi að raða upp bestu þungaviktarhnefaleikurum allra tíma og hafa Tyson ekki meðal tólf efstu.
Enginn þungviktarmaður hefur ráðið samtímis yfir jafn miklu afli og hraða, - og Tyson var í sérflokki með það að rota menn með upphöggum. Raunar var það afar fjölbreytileg flóra af krókum og yfirhandar höggum sem hann rotaði með þessi fáu misseri sem hann var uppá sitt besta.
Síðan 1989 hefur leiðin legið niður á við og þegar hann lagði sér til munns eyrað af hinum dökka mótstöðumanni sínum óskaði ég þess að við Íslendingar gætum tekið á móti fleiri flóttamönnum en við gerum:
Ef Tyson til Íslands náum við nú í vetur, -
því norpandi í fangelsinu er ævi hans ill, -
á þorrablótum hér gæti hann bætt um betur
og borðað eins marga svarta hausa´og hann vill.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
19.11.2007 | 14:32
EKKI SEINNA VÆNNA.
Það er ekki seinna vænna að fólk á suðuvesturhorni landsins ranki við sér hvað varðar þá leið virkjanahraðlestarinnar sem liggur um Reykjanesskagann. Ályktun Hvergerðinga gegn Bitruvirkjun er því fagnaðarefni. Fyrir tæpum áratug uggðu þeir ekki að sér og leyfðu lagningu háspennulínu að óþörfu nánast yfir fallega hverasvæðið á Ölkelduhálsi. Nú hafa þeir vaknað og er það vel. Ekki skal erfa mistök fortíðar og kannski kemur sá tími sem menn muni geta fært háspennulínuna til.
Ég tel viðleitni náttúruverndarfólks til að andæfa Bitruvirkjun ekki geta talist öfgar í ljósi þess að þetta virkjunarsvæði er landfræðilega aðeins eitt af sex slíkum svæðum á Hengilssvæðinu.
Á sínum tíma voru sunnlenskar mýrar ræstar fram og framræsla hverrar einustu mýrar var þá talið þjóðþrifaverk. Svo vöknuðu menn upp við það að búið var að eyða 97% votlendis á Suðurlandi, langt umfram eðlilegar þarfir, og sjá eftir því í dag að hafa gengið svo langt fram.
Rétt eins og við, sem andæfum Bitruvirkjun, erum kölluð öfgafólk, var það sama sagt um Nóbelskáldið og aðra sem vöruðu við allsherjar útrýmingu votlendis í stórum landsfjórðungum.
Þeir sem heimta að allt virkjanlegt sé virkjað kalla sig hins vegar hófsemdar- og skynsemdarfólk.
Ég býð Hvergerðinga velkomna í hóp hins svokallaða "öfgafólks." Mæli þeir manna heilastir. Dilkadráttur virkjanasinna á fólki í hópa öfgafólks eða hófsemdarfólks dæmir sig sjálfur.
![]() |
Óábyrgt að halda áfram með Bitruvirkjun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)