2.11.2007 | 00:12
TIBBITS OG TRUMAN - ALBANÍA OG KÍNA.
Hér um árið skömmuðu Rússar Albani þegar þeir þurftu að skamma Kína. Þótt allir séu samábyrgir fyrir stríðsaðgerðum frá yfirhershöfðingjanum niður í óbreyttan hermann stendur eitt þó upp úr: Maðurinn sem tók einn ábyrgð á og fyrirskipaði kjarnorkuárásirnar á Hiroshima og Nagasaki hét Harry S. Truman. Lítum nánar á málið.
Í ágúst 1945 voru Japanir búnir að gjörtapa striðinu og síðar hefur komið í ljós að hefðu Bandaríkjamenn vitað að vaxandi hluti japanskra ráðamanna og keisarinn vildu ræða uppgjöf en þó með því skilyrði að keisarinn sæti áfram, hefði atburðarásin getað breyst. En komandi togstreita Bandaríkjamanna og Rússa var því miður þegar farin að hafa áhrif á gerðir þeirra, því miður.
Bæði Bandaríkjamenn og Rússar voru farnir að beita kaldrifjaðri pólitík um þessar mundir gagnvart hvor öðrum. Rússar létu undir höfuð leggjast að koma skilaboðum um uppgjöf frá Japönum til Bandaríkjamanna vegna þess að þeir vildu vera komnir með her inn í Manshuriu áður en til uppgjafar kæmi svo að þeir hefðu sterkari stöðu í uppgjörinu í norðausturhluta Asíu.
Meðal bandarískra áhrifamanna mátti líka greina það kaldrifjaða viðhorf að með því að nota kjarnorkusprengjurnar styrktu þeir sína stöðu og gætu eftir stríðið komist af með minni herafla í skjóli kjarnorkuógnunarinnar. En eins og allir vita er ekki hægt að hóta nema að víst sé að hótunin verði framkvæmd.
Einu mega menn þó ekki gleyma, - hugarástandinu sem stríðið við Japani hafði skapað hjá bandamönnum. Fljótlega kom í ljós í stríðinu ótrúlega heiftarleg viðbrögð japanskra hermanna sem börðust miklu lengur í vonlausri aðstöðu en þekkst hafði fram að því. Gáfust margir hverjir aldrei upp þrátt fyrir vonlausar aðstæður heldur gengu frekar í opinn dauðann eða sviptu sig lífi.
Síðustu mánuði styrjaldarinnar gerðu Japanir kamikaze-sjálfsmorðsárásir á bandarísk herskip sem fyllti vestrænan almenning óhug.
Andrúmsloftið var litað af þessu hinar örlagaríku vikur sumarsins 1945 og ýtti undir þá skoðun að Japanir myndu berjast til síðasta manns og styrjöldin dragast fram á árið 1946 með ómældu mannfalli. Menn minntust þess hvernig Rússar börðust í rústum Stalingrad þar sem hátt á aðra milljón manna lét lífið og hvernig Þjóðverjar fórnuðu hundruðum þúsunda hermanna síðustu mánuði stríðsins þegar það var gjörtapað.
En lítum á hvernig ástandið var yfir Japan í júlí 1945. Meira en helmingur bygginga í Japönskum borgum hafði þegar verið þurrkaður út í miskunnarlausum loftárásum, enda höfðu Bandaríkjamann algjör yfirráð í lofti yfir Japan.
Yfir 75% bygginga í Fukiu, Kofu og Toyama var í rústum og 50-75% bygginga í Yokohama, Kagoshima, Uwajima, Matsuyama Kobe, Mito, Hitachi, Maebashi og Nagaoka.
Allt að helmingur bygginga í 15 borgum var í rúst, þeirra meðal í höfuðborginni Tokyo.
Ýmsar grillur voru á kreiki hjá bandarískum ráðamönnum og hershöfðingjum. Á tímabili var ætlunin að varpa kjarnorkusprengju á Kyoto með þeim rökum að borgin væri svo heilög og mikilvæg fyrir Japani og japanska þjóðarsál að með því að eyða henni myndi þeim falla allur ketill í eld.
Sem betur fer var það eitt af síðustu verkum Stimsons hershöfðingja að koma í veg fyrir þetta brjálæði því að hann sá að þetta myndi verka þveröfugt og gera Japani að eilífum hatursmönnum Bandaríkjamanna. Að eyða Kyoto var jafnvel verra en ef menn veldu Péturskirkjuna í Róm sem miðpunt kjarnorkuárásar á Ítalíu.
Því miður var skilyrðið um að handtaka keisarann lítið skárra því að hann hafði sérstaka stöðu meðal Japana líkt og Kyoto. Enda fór svo að Bandaríkjamenn féllu frá því í lokin að skella keisaranum en hugsanlega hefðu þeir náð fram uppgjöf með áframhaldandi venjulegum loftárásum og samningum um uppgjöf án þess að nota kjarnorkusprengjur ef þeir hefðu strax gefið eftir með keisarann.
Truman hafði í hendi áætlun um að 45-60 þúsund bandarískir hermenn myndu falla í innrás í Japan og margfalt fleiri Japanir. Í hans huga var svipað kalt mat og haft er eftir Tibbits: Hvorugur kosturinn góður en annar þó með minna mannfalli, þ. e. með því að varpa kjarnorkusprengjunum.
Ef Bandaríkjamenn hefðu á þessum tímapunkti átt fleiri kjarnorkusprengjur hefðu þeir kannski getað veitt sér þann "munað" að varpa sprengju á óbyggt eða dreifbýlt svæði til að sýna fram á mátt sinn án mannfalls.
En bæði sá kostur og einfaldlega að greina frá sprengjunni og hóta henni þóttu ekki fýsilegir samanber röksemdina hér að framan að hótun hefur ekki vægi nema sannað sé í verki að henni verði fylgt eftir.
Menn hafa álasað Truman fyrir að meta meira líf bandarískra hermanna en japanskra hermanna og borgara. En þá verða menn að hafa í huga að það er mjög ríkt í fari bandarískra og breskra ráðamanna að finna til ábyrgðar gagnvart þeim sem sendir eru í stríð.
1945 voru menn enn hugsi yfir þeim hrikalegu mannfórnum sem til dæmis breskir hershöfðingjar stóðu fyrir í orrustunni við Somme og fleiri orrustum fyrri heimstyrjaldarinnar og friðþægingarstefna Breta á fjórða áratugnum gagnvart Hitler byggðist á hugsuninni að slíkt mætti aldrei henda aftur.
Þýskir hershöfðingjar sögðu eftir stríðið að ef bandamenn hefðu haldið áfram hraðri sókn sinni austur yfir Frakkland í ágúst 1944 og farið hraðfari inn í Niðurlönd og Þýskaland hefði þýsk herinn verið í slíkri upplausn að endirinn hefði orðið sá að Berlín hefði fallið í hendur Bandaríkjamanna og Breta og stríðið orðið nokkrum mánuðum styttra.
Eisenhower taldi hins vegar stóra hættu á að mannfall herja sinna yrði meira í svo hraðri sókn en í hægri og bítandi og að með þessu væri tekin mun meiri áhætta en með rólegri sókn þar sem aðflutningsleiðir væru tryggar og framlínan traust.
Hann vildi ekki bera ábyrgð á því að hætta neinu, þrátt fyrir frýjunarorð Montgomerys.
Sumir hafa fært að því rök að með þessu hafi Þjóðverjar fengið ráðrúm til gagnsóknarinnar um Ardenafjöl í desember 1944 þar sem Bandaríkjamenn urðu fyrir nokkru mannfalli.
Niðurstaðan varð samt vafalaust minna mannfall bandamanna og hægfara, örugg sókn, en á móti kom að mannfall Þjóðverja varð sennilega einni til tveimur milljónum manna fleiri en orðið hefði í styttra stríði.
Þessi afstaða vestrænna ráðamanna var ólík því sem þeir Hitler og Stalín tíðkuðu. Stalín skirrðist ekki við að etja herjum sínum út í alltof ofstopakenndar sóknir, til dæmis í vetrarsókninni eftir áramótin 1941-42 sem hefði orðið mun árangursríkari og kostað miklu minni mannfórnir ef ekki hefði komið til það firrta ónæmi hans fyrir mannslífum sem lýsti sér svo skelfilega í ofsóknum hans og miskunnarlausum aðgerðum sem ollu hungursneyð og dauða milljóna manna.
Niðurstaða mín er þessi. Ef hvorki Bandaríkjamenn né Rússar hefðu verið byrjaðir að hugsa á kaldrifjaðan hátt fyrir komandi togstreitu heldur hugsað eingöngu um að liðka fyrir sem skaplegustum endalokum stríðsins, - og ef Bandaríkjamenn hefðu metið rétt möguleikana á uppgjöf Japana og ákveðið strax að þyrma keisaranum eins og þeir gerðu um síður hvort eð er, - þá hefði ekki þurft að varpa kjarnorkusprengjunum.
Komið hefur í ljós að í júlílok var vaxandi fjöldi japanskra ráðamanna og keisarinn sjálfur komir á þá skoðun að ekki væri lengur hægt að horfa upp það hvernig japanskar borgir og íbúar þeirra eyddust í eldi miskunnarlausra loftárása þar sem bandarískar flugvélar gátu athafnað sig að vild, einráðar í lofti.
Árið 1945 er letrað svörtu letri í mannkynssögunni. Takmarkalítið ofstæki nasista, sem vildu frekar að þýska þjóðin færist en að stöðva stríðið, kostaði milljónir manna lífið á útmánuðum 1945.
Mannkynið virtist þetta ár vera komið með visst ónæmi gagnvart mannfórnum. Árás bandamanna á Dresden kostaði jafnvel fleiri manns lífið en árásin á Hiroshima og verður likast til þegar fram líða stundir talin mannskæðasta hryðjuverkið og glæpurinn gegn mannkyni þetta hörmungarár.
Það mátti reyna að réttlæta kjarnorkuárásirnar á Hiroshima og Nagasaki með því að þær styttu stríðið og björgðu fleiri mannslífum en fórnað var, - en engin slík réttlæting var fyrir árásinni á Dresden.
Þar var ráðist á borg þar sem var engin hernaðarlega mikilvæg starfsemi og Dresden hafði enga hernaðarlega þýðingu heldur var hún full af flóttafólki sem þangað var meðal annars komið vegna þess að engar líkur voru á að ráðist yrði á svo þýðingarlitla borg sem var eðli málsins samkvæmt óvarin. Þetta fólk var steikt í vítislogum meira en þúsund sprengjuflugvéla og það er til marks um hina takmakalitlu eyðingu að mannfallið er áætlað einhvers staðar á milli 135 þúsund og 250 þúsund manns !
Og líkast til stytti þessi villimannlega árás ekki stríðið um einn einasta dag.
Nðurstaða mín er ennfremur sú að komast hefði mátt hjá því að varpa kjarnorkusprengjunum á Japan, - menn hefðu átt að gefa sér meiri tíma til að komast hjá því að beita þeim og þurfa samt ekki að gera innrás.
Það hefði átt að láta fólkið í Hiroshima og Nagasaki njóta vafans um það hvort Japanir ætluðu virkilega að berjast fram á næsta ár á meðan borgir þeirra eyddust í eldi.
Það hefði átt að koma hreint fram við Japani með því að gera þeim grein fyrir því að þeirra væri valið og ábyrgðin. Kostirnir væru tveir:
1. Að gefast upp og komast hjá frekari mannfórnum og eyðileggingu.
2. Að þráast við og horfa upp á að borgum þeirra yrði annað hvort eytt smám saman eytt í óstöðvandi venjulegum loftárásum eða með beitingu kjarnorkuvopna.
Þetta var ekki gert og því ber einn maður hina endanlegu ábyrgð á þeim einu tveimur skiptum í sögunni sem kjarnorkuvopnum hefur verið beitt: Hann hét Harry S. Truman, bandaríkjaforseti 1944 - 1952.
Til eru sagnfræðingar sem telja hann meðal merkustu forseta Bandaríkjanna þrátt fyrir að hann var ósköp venjulegur millistéttamaður, smákaupmaður sem varð meira að segja gjaldþrota en eyddi 15 árum við þröngan kost til að borga skuldir sínar.
Örlögin báru upp í mesta valdastól heims þar sem taka þurfti afdrifaríkar ákvarðinir í málum þar sem allir kostir voru slæmir.
Með framangreindu er ekki gert lítið úr þeirri ábyrgð sem nasistar og harðsvíraðir japanskir valdamenn bera á heimsstyrjöldinni síðari. Því miður þurftu bandamenn að heyja þessa styrjöld gegn mestu villmennsku sem mannkynsssagan kann frá að greina.
![]() |
Flugstjórinn á Enolu Gay látinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)