21.11.2007 | 21:47
MARAUTT UPP Í TOPP Á KVERKFJÖLLUM.
Ég var að koma úr ferð á Kárahnjúkasvæðið og lenti auðveldlega á Sauðármel. Landið fyrir innan Herðubreið er marautt, allt upp í topp á Kverkfjöllum, - þar var meiri snjór í ágúst. Ég hef verið að bíða í allt haust eftir tækifæri til að sigla Örkinni um Hálslón með landið hvítt í kring en það færi hefur ekki gefist.
Það hefur verið svo umhleypingasamt að í þau fáu skipti þegar landið hefur gránað, hefur strax á eftir orðið autt í hláku og jafnvel rigningu.
Lónið er enn autt að mestu en landið líka að mestu autt.
Hætt er við að lónið muni leggja áður en landið verður hvítt. Þetta tel ég til marks um hlýnun veðurfars. Aðal úrkoman fellur í hvössum suðlægum áttum og þá er yfirleitt þurrt norðan Vatnajökuls eða að úrkoman fellur sem regn. Og hitinn hefur farið yfir tíu stig í næstum 700 metra hæð.
"Stórhríðin" sem kom fyrir nokkrum dögum náði ekki þarna inn eftir og nær ströndinni féll mun minni snjór en ætla mætti. Bændur nyrðra segja mér að hlákurnar séu lengri og rigni meira en áður, og að norðanáttin færi það lítinn snjó með mér að það verði ekki sömu snjóþyngsli og áður voru algeng, jafnvel heilu veturna.
En útgerðinni á hálendinu er að ljúka hjá mér og ég er því byrjaður að "loka sjoppunni", þ. e. hætta myndatökum eftir miklu annasamara og viðburðaríkara sumar og haustien ég átti von á. Fór til Reykjavíkur með gamla, litla Toyota pallbílinn sem ég hef haft fyrir austan til að draga Örkina, því að litli Súkkujeppinn getur það ekki.
Stefni að því að taka aftur upp þráðinn næsta sumar þegar hin lónin tvö verða mynduð og tugir fossa þurrkaðir upp, þar af tveir samliggjandi á hæð við Gullfoss.
Þessi tveggja manna Toyota-pallbíll verður kannski einhvern tíma seinna hluti af hugsanlegu smábílasafni Íslands, og þá sem minnsti Toyota-jöklajeppinn, því að hann er með lækkuð drif og læst drif að framan og aftan og er það léttur (1620 kíló) og á það stórum hjólbörðum (35") að hann á að geta fylgt 38 tommu bílum auðveldlega.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)