AF HVERJU EKKI FLEIRI VIRKJANIR Í YELLOWSTONE?

Svar: Af því að það eru engar virkjanir í Yellowstone þótt þar sé langorkumesta háhitasvæði Norður-Ameríku með mikilli vatnsorku þar að auki. Þarna eru 10 þúsund hverir og ekki einn einasti virkjaður. Á svæði umhverfis þjóðgarðinn sem er á stærð við Ísland má heldur ekki virkja. Af hverju ekki? Af því að Bandaríkjamenn geta í staðinn látið Íslendinga stúta álíka mögnuðum eða magnaðri svæðum svo að hægt sé að reisa álver á Íslandi og rífa álver í staðinn vestra.

Já, en Yellowstone er einstakt svæði, segja Íslendingar. En ég segi: Hvenær ætlum við að hætta þessari minnimáttarkennd?

Ég er með nýja og vandaða bók í höndunum þar sem færir sérfræðingar hafa valið 100 undur veraldar. Mörg þeirra eru náttúruundur en líka eru fyrirbrigði eins og Taj Mahal, Kínamúrinn, Stonehenge og Colosseum.

Af 25 undrum Evrópu eru sjö náttúrufyrirbrigði. Þegar bókin er opnuð er fyrsta undrið norsku firðirnir og annað undrið, eitt af sjö merkustu náttúruundrum álfunnar, er hinn eldvirki hluti Íslands. Ekki Vestfirðir, Miðnorðurland eða Austfirðir heldur aðeins eldvirki hlutinn.

Ég fletti upp Ameríku til að sjá hvort Yellowstone sé á listanum. Ónei, ekki.

Í áttblöðungnum "Íslands þúsund ár" færði ég rök að því að svæðið milli Suðurjökla og Vatnajökuls tæki Yellowstone langt fram.

Í þessari nýju bók um undrin hundrað er sömu skoðun haldið fram.

Í Yellowstone væri hægt að búa til Blátt lón, Gult lón, Rautt lón, - nefndu það. Ekkert slíkt er gert. Ekki einn hver er snertur, ekki einn einasti foss eða fljót.

Hugmynd sveitarstjórans í Ölfusi um að Bitruvirkjun sé nauðsynleg til þess að Hellisheiðarvirkjun geti dregið að sér 200 þúsund ferðamenn á ári er að mínum dómi fráleit.

Með sömu röksemdafærslu má halda því fram að eina ráðið til að fá ferðamenn til landsins sé að virkja öll hverasævði landsins, Torfajökulssvæðið, Kerlingarfjöll, Öskju og Kverkfjöll.

Nú þegar geta erlendir ferðamenn skoðað Svartsengisvirkjun rétt hjá alþjóðaflugvellinum og þegar og ef búið verður að virkja við Kolviðarhól, uppi á Skarðsmýrarfjalli, á vestari hluta Hellisheiðar, í Hverahlíð og í Þrengslunum hljóta allir að sjá að það þarf ekki Bitruvirkjun í viðbót til þess að fá á svæðið þá ferðamenn sem vilja sjá stærri jarðvarmavirkjanasvæði en Svartsengi.

Virkjanafíknin og virkjanatrúin eru orðin svo inngróin í fólk eftir hálfrar aldar stanslausan áróður fyrir virkjunum að ekkert annað kemst að.

Setjum sem svo að á Skólavörðuhæð væri búið að planta niður sex Hallgrímskirkjum. Myndi það laða ferðamenn til viðbótar svo tugþúsundum skipti þótt þeirri sjöundu yrði bætt við og listasafn Einars Jónssonar jafnað við jörðu svo að hún kæmist fyrir?

Verður það næsta tillaga í anda sveitarstjórans í Ölfusi að reisa annað tónlistarhús í Reykjavík við hliðina á því nýja vegna þess að tónlistarhús laði svo marga ferðamenn til sín?


RÁÐSTJÓRI ?

Lenti í gær í spjalli í síðdegisútvarpinu og var beðinn algerlega óundirbúinn um tillögur í stóra ráðherramálinu hennar Steinunnar Valdísar. Það var alveg óþarfi á seinni hluta 19. aldar að velja orð með endingunni "herra" fyrir erlenda orðið minister en við sitjum uppi með "ráð" í heitunjm ráðherra og ráðuneyti. Ef við viljum hafa þennan lið áfram á sveimi dettur mér í hug orðið ráðstjóri. Nú er í tísku að nota orðið sviðsstjóri og er notað bæði um konur og karla. Þorgerður Ingólfsdóttir og Þórunn Björnsdóttir eru kórstjórar og engum dettur í huga að breyta því.

Hægt er að nota áfram heitið ráðuneytisstjóri um þann fasta embættismann sem stýrir gangverkinu í ráðuneytinu.

Einhverjum kann að finnast heitið ráðstjóri of líkt orðinu ráðstjórn og ráðstjórnarríki sem notuð voru fyrri part aldarinnar sem leið um sovét og sovétríki en það er ekki nema lítill hluti þjóðarinnar sem man eftir því og fer fækkandi.

Ég minntist á heitið ráðsía í hálfkæringi í gær með þeim rökum að ef ráðsían stæði sig illa mætti kalla hana óráðsíu. Ég er viss um að hægt er að finna nýtt heiti. Orðið sviðsstjóri var algerlega óþekkt fyrir tiltölulega fáum árum en er nú orðið svo algengt um öll möguleg stöðuheiti að mér finnst reyndar nóg um.

Ráðstjóri yrði hins vegar aðeins notað um þá sem núna eru kallaðir ráðherrar.


Bloggfærslur 22. nóvember 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband