23.11.2007 | 17:26
HÓSTAÐ Í GEGNUM AKUREYRI.
Ég þurfti að aka í gegnum Akureyri á leið frá Egilsstöðum í fyrradag. Um leið og komið var á Drottningarbrautina var vasaklúturinn kominn upp og hóstanum linnti ekki fyrr en komið var upp í Öxnadal. Ástæðan var rykmengun sem ku vera jafnvel verri en í Reykjavík á þurrum stilludögum. Bílarnir á Akureyri eru þegar orðnir svartir af tjöru upp á miðjar hliðar margir hverjir. Djúp hjólför í malbikinu.
Akureyringar hafa samkvæmt eðli veðurfarsins meiri þörf fyrir neglda hjólbarða en Reykvíkingar. En fróðlegt væri ef hægt væri að rannsaka hér í Reykjavík hve mörgum slysum tjöruausturinn upp á rúður og rúðuþurrku, lélegri hemlunarskilyrði vegna sleiprar tjörunnar og löngu pollarnir í hjólflörunum valda á þeim 98% tímans frá október fram í apríl þar sem engin þörf er fyrir neglda hjólbarða innanbæjar.
Ég er ekki viss um að minni slysahætta með negldum börðum 2% af vetrartímanum nái að bæta hitt upp.
Ég giska á 2% því að hálkuaðstæður ríkja yfirleitt ekki í Reykjavík nema örfáar klukkustundir í hvert skipti.
Undanfarin haust hefur ætíð sama sagan gerst: Um leið og fyrsta fölin fellur í október rjúka menn tugþúsundum saman til og setja neglda hjólbarða undir bílana til þess eins að berja auðar göturnar með þeim jafnvel fram í janúar.
Menn segja að nauðsynlegt sé að vera á negldu vegna Hellisheiðarinnar. Ef grannt væri skoðað myndi þó koma í ljós að aðeins lítið brot af þessum naglaakstri gerist við skilyrði þar sem naglanna er raunveruleg þörf á heiðinni og að langflestir þurfa hvort eð er ekki að fara yfir hana á veturna.
Það myndi verða lítið dýrara að leigja sér bílaleigubíl í þau örfáu skipti sem hálka er á heiðinni heldur en að kosta fjármunum til að setja neglda hjólbarða undir. Vegagerðin er dugleg við að eyða hálku á henni þótt auðvitað komi nokkrar klukkustundir einstaka sinnum þegar hún er fyrir hendi og hliðarvindur gerir akstur erfiðan.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)