24.11.2007 | 14:59
LÖGBRJÓTAR.
Tæknilega er Kasparof nú orðinn lögbrjótur líkt og meðlimir Saving Iceland voru í göngu sinni í Reykjavík. En munurinn á þessu tvennu í augum flestra hér er líklega sá að Kasparof sé "góður" lögbrjótur vegna þess að stjórnarfarið í Rússlandi sé verra en á Íslandi. Raunar þarf ekki lögbrjóta til hér á landi til að vera álitinn "óæskilegur". Þannig var nokkrum erlendum vélhjólamönnu vísað úr landi hér nýlega þótt þeir væru með hreint sakarvottorð. Sömuleiðis var félögum í Falun Gong meinuð landvist á ólöglegan hátt á sínum tíma á jafn hæpnum forsendum.
Í sjónvarpsfréttum í gær kom í ljós að það er ekki nóg að þú hafir greitt skuld þína við þjóðfélagið vegna yfirsjóna þinna og sért kominn aftur út í þjóðlífið með hreint mannorð að nýju. Án þess að þú vitir af því getur lögreglan samt laumað samt undir bíl þinn senditæki sem gerir henni kleift að svipta þig frelsi einkalífs og hafa þig undir smásjá.
Dómsmálaráðherra hefur sagt að þetta laumuspil lögreglunnar rjúfi meira friðhelgi einkalífs en símahleranir. Ég er ósammála því. Með því að nýta sér símakerfið getur stóri bróðir bæði fylgst með ferðum símans þíns og þar með ferðum þínum auk þess að allt sem þú segir er hlerað, jafnvel hin viðkvæmustu einkamál.
Ég undrast hve lítil og máttlaus umræðan er um þessi mál hér. Kasparoff segir að fólkið í Rússlandi verði að vinna bug á óttanum við yfirvöld. Getur verið að þessi ótti við umræðu og yfirvöld sé líka hér á landi?
Menn köfuðu nýlega bara sæmilega djúpt niður í meintar hleranir á Íslandi um miðja síðustu öld. Það er liðin tíð og ekkert verður tekið til baka. Af hverju fer enginn og kafar niður í hugsanlegar hleranir nú og á næstunni, hleranir sem skipta okkur raunverulegu máli?
Eitt fylgir ekki fréttinni frá Moskvu. Hve lengi var Kasparof haldið í fangelsi? Ég spyr bara af forvitni vegna samanburðar við það hve lengi sams konar lögbrjótum er haldið hér á landi.
![]() |
Kasparov handtekinn í Moskvu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)