HINN ÓÞÆGILEGI ÍSLENSKI SANNLEIKUR.

Skoðum undir yfirborðið á eftirfarandi staðhæfingum, sem haldið er á lofti á Íslandi: 1. Íslendingar eru í fararbroddi, til fyrirmyndar og vekja aðdáun um víða veröld fyrir að útrýma orkugjöfum sem stuðla að útblæstri gróðurhúsalofttegunda. 2. Til þessa nota Íslendingar hreina og endurnýjanlega orku. 3. Íslendingar eru í fremstu röð í tæknilega hvað þetta snertir.

Af framangreindu mætti ætla að við Íslendingar séum fágætt hugsjónafólk sem er tilbúið til að fórna meiru en nokkur önnur þjóð fyrir hugsjónir sínar. Þetta stenst ekki skoðun, því miður.

1. Hvers vegna höfum við þá komist lengra en aðrir við að minnka notkun mengandi orkugjafa?

Svar: Eingöngu af hagkvæmnisástæðum. Hugsjónir vegna mengunar andrúmsloftsins hafa aldrei ráðið för. Við byrjuðum á því að virkja hveravatn í Mosfellsbæ í kringum 1940 eingöngu af hagkvæmnisástæðum. Þetta var skref byggt á framsýni og nauðsyn. Í kreppunni var skortur á gjaldeyri og notkun heita vatnsins sparaði okkur útgjöld til kolakaupa.

Ég man þá tíð þegar það var kolageymsla við húsið og þurfti bras og vesen við að moka kolum ofan hana og úr henni í kolavélina til að hita upp. Heita vatnið var bylting hagkvæmninnar og hreinna loft var bónus.

Áfram héldu gjaldeyrisskortur og hagkvæmnissjónarmið að ráða för og í kringum 1980 var gert kröftugt lokaátak í þessum efnum í ljósi stórhækkandi olíuverðs. Enn réðu hagkvæmnisástæður öllu, - innlenda orkan var einfaldlega ódýrari en sú erlenda. Það var ekki flóknara en það.

2. Hrein og endurnýjanleg orka? Lengi vel var þetta svona.

Orkan úr Sogsvirkjunum er hrein og endurnýjanleg, - ekkert set myndast þar í miðlunarlónum sem fyllir þau upp og eyðleggur miðlunina.

Hitaveiturnar til húshitunar eru með hátt hlutfall nýtingar jarðvarmaorkunnar og enginn útblástur fylgir þeim. Þó verður að fara þar að með gát til að ganga ekki of mikið á jarðvarmann, - annars kólna svæðin og orkan getur því ekki talist endurnýjanleg. En sé þessa gætt eru hitaveitur frábært dæmi um hreina, hagkvæma og mengunarlausa orkunýtingu og aðeins af hinu góða að við montum okkur af þeim og förum í útrás með þær.

En öðru máli gildir um jarðvarmavirkjanirnar, einkum þær nýjustu og að þessu leyti er ekki rétt að blanda þeim saman við húshitaveiturnar.  

Í upphafi var Nesjavallavirkjun að vísu með hátt nýtingarhlutfall vegna þess að vatnið var notað til húshitunar. Í því formi sem nú er stefnt að með virkjanir á Hengils-Hellisheiðarsvæðinu er nýtingarhlutfallið hins vegar aðeins 12%, - 88% fara ónotuð út í loftið.

Orkan þar er ekki lengur endurnýjanleg, - svæðið verður orðið kalt eftir 40 ár vegna þess að allt of hart er gengið í því að kreista út úr því hámarksorku sem miðast við skammtímasjónarmið. Hvar á að fá orku í staðinn eftir 40 ár? Þeirri spurningu hefur ekki verið svarað. Barnabörn okkar eiga að glíma við það. Þokkaleg hugsjónaþjóð sem hugsar svona.

Mengun af völdum brennisteinsvetnis verður mun meiri hjá þessum nýju jarðvarmavirkjunum en hjá öllum álverunum til samans. Það er að vísu sennilega skárra en að kolaorkuver sendi mengandi lofttegundir út í loftið, -  en óbeisluð vatnsorka í öðrum löndum heims er meira en hundrað sinnum meiri en öll orka Íslands og er bæði hreinni og endurnýjanlegri en orka nýjustu virkjanna á Íslandi.

Nýjasta stórvirkjun okkar á austurhálendinu stenst ekki einu sinni lágmarkskröfur um arðsemi og gefur ekki endurnýjalega orku heldur hefur í för með sér mestu mögulegu óafturkræfu neikvæðu umhverfisáhrif hér á landi.  

Ofan á þetta bætist að Íslendingar sýna engin raunveruleg merki um að vera fyrirmynd í orkunýtingarmálum. Þriggja tonna 300 hestafla 6,5 metra langi ameríski pallbíllinn er enn meira áberandi tákn Íslands nútímans en í nokkru ríki í Bandaríkjunum.

Við gefum sérstök tolllfríðindi á svona bíla og erum í fremstu röð við að auka útblástur.

Það væri kannski hægt að reyna að afsaka það ef við værum hrein og bein græðgisþjóð með alls kyns útskýringum á því.

Verra er að í ljósi hins óþægilega ofangreinda sannnleika erum við einstök hræsnis- og undanbragðaþjóð og flöggum hálfsannleika um virkjanir okkar.  Stundum hefur verið sagt að hálfsannleikur sé verri en hrein lygi.

3. Tæknilega forystan. Jú, loksins kemur það sem við getum þó verið stolt af. Við erum tæknilega í fararbroddi og þróunaraðstoð okkar og mikilsvert framlag okkar til orkubeislunar erlendis til þess að hjálpa öðrum þjóðum getur eflt heiður okkar og orðið fyrirmynd öðrum.

Og jafnt heima fyrir sem erlendis eigum við að leggja áherslu á þann þátt nýtingar orkunnar sem sannanlega er hrein og endurnýjanleg og hætta að ljúga að okkur sjálfum og öðrum hvað varðar orkuframkvæmdir sem standast ekki þessar kröfur. 

Þá gætum við sagt hinn þægilega íslenska sannleika og verið stolt af honum.  

 

 

 

 


Bloggfærslur 25. nóvember 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband