26.11.2007 | 23:06
HELGI, AGNAR, BERGUR, KOLBEINN,- EKKI ÉG.
Gott og athyglisvert viðtal er við Völund Jóhannesson í Morgunblaðinu í dag. Ég hef fengið orð í eyra undanfarin ár og verið sakaður um þá ósvinnu að nefna fossinn Töfrafoss því nafni til þess að fegra hann meira en hann átti skilið áður en hann sökk í Hálslón. Var þetta nefnt sem dæmi um hlutdrægni mína. Ég hef ekki nennt að standa í þrasi yfir þessu en nafnið sást fyrst á prenti 1939 í bókinni Á hreindýraslóðum eftir Helga Valtýsson þar sem hann telur fossinn standa fyllilega undir þessu nafni. Völundur heldur þessu til haga í viðtalinu.
Fossinn var stærsti fossinn á hálendinu norðan Vatnajökuls, Hofsjökuls og Langjökuls, allt frá Snæfelli vestur á Holtavörðuheiði.
Þegar ég flaug með fólk yfir Töfrafoss á meðan hann var og hét sögðu þeir, sem áður höfðu fengið upplýsingar hjá Landsvirkjun, að lónið myndi aldrei ná lengra en upp á hann miðjan. Ekki nennti ég að standa í þrasi við þetta fólk, - vissi það sem kom í ljós furðu snemma í sumar, að fossinn færi á bólakaf.
Í þeim skýrslum um virkjunina sem ég sá fyrst var sagt að fossinn yrði kaffærður og mér fannst því undarlegt þegar öðru var haldið fram.
Ég tel rétt að bæta þessum bloggpistli við viðtalið við Völund til þess að útskýra betur hvað hann er að tala um.
Korteri fyrir kosningar var ég kærður fyrir lendingar á flugvélum þar sem nú er lónstæði Hálslóns og einnig á mel einum norðan við Brúarjökul sem ég hef nefnt Sauðármel. Lendingarnar í lónstæðinu voru raunar með sérstöku skriflegu leyfi Náttúruverndarráðs 2002 en kærandinn skellti skolleyrum við því.
Í sjónvarpsfrétt um þetta var þess sérstaklega getið að refsing við athæfi mínu gæti varðað allt að tveggja ára fangelsi. Sýnt var með fréttinni myndskeið þar sem forsætisráðherra steig út úr flugvélinni eftir hið refsiverða flug!
Þetta kærumál hefur nú staðið í sex mánuði og ég hef meðal annars verið kallaður í hálfs annars klukkustundar yfirheyrslu hjá rannsóknarlögreglunni á Egilsstöðum og skilað inn tveimur greinargerðum um málið til Umhverfisstofnunar, samtals upp á 16 blaðsíður með alls ellefu myndum.
Í greinargerðunum kom m. a. fram að rúmlega 20 lendingarstaðir fyrir flugvélar hafa verið valtaðir á hálendinu og við alla nema tvo hefur engu verið raskað á yfirborði, viðkomandi melur aðeins valtaður.
Vinnuvélar voru notaðar við gerð brautar hjá Sigurðarskála í Kverkfjöllum en áður hafði ég lent þar rétt hjá braut þar sem engu var raskað.
Landvirkjun notaði síðan vélar til að gera flugbraut og malbika hana á Auðkúluheiði.
Á engum þeirra lendingarstaða sem ég notaði á Kárahnjúkasvæðinu var nokkru raskað á yfirborði brautanna.
Hins vegar hefur nú á vegum Landsvirkjunar verið sökkt í Hálslón lendingarstöðum mínum í Hjalladal, - og auk þess hefur eldri flugbraut sem var við Kárahnjúkaveg hjá Sauðafelli undir Snæfelli, nú verið tætt í sundur af vinnuvélum.
Þar með er lendingarstaðurinn á Sauðármel eini nothæfi lendingarstaðurinn fyrir flugvélar á hálendinu allt frá Jökulsá á Fjöllum og austur úr, á alls um 5000 ferkílómetra svæði.
Ég hefði ekki leitað að þessum lendingarstað nema vegna þess að munnmæli á Jökuldal hermdu að hann væri til og að rétt fyrir stríðið hefði verið þar á ferð þýsk vísindakona, Emmy Todtmann, og merkt staðinn.
Mér var sagt að þegar stríðið hefði hafist hefðu smalamenn af Jökuldal fjarlægt vörður sem sýndu lendingarstaðinn. Þetta hefðu þeir gert vegna ótta um að sú þýska hefði merkt staðinn sem hugsanlegt flugvallarstæði Þjóðverja.
Kolbeinn Arason flugstjóri, sem flaug á vegum Flugfélags Austurlands á meðan það var og hét, kvaðst hafa lent þarna eftir að hafa heyrt þessar sögur.
Það var engin furða að Jökuldælingar væru tortryggnir 1940, því að án nokkurs rasks hef ég nú merkt þarna þrjár flugbrautir á einumm og sama melnum, 1400 metra, 1000 metra og 700 metra langar og það sýnir vel hve frábært og stórt þetta náttúrugerða flugvallarstæði er.
Ég hef líka fundið nokkrar steinahrúgur sem hljóta að hafa verið þarna sem merkingar. Einkum virtust hleðslur við austur-vestur brautina (1000m brautina) passa vel við hana.
Í Morgublaðsviðtalinu í dag upplýsir Völundur að árið 1938 hafi verið þarna á ferð Agnar Koefoed Hansen og Bergur G. Gíslason á þýskri Klemm-vél, lent á melnum og merkt hann með steinhleðslum.
Seinna var talað um þennan stað af staðkunnugum sem "flugvöllinn". En í kærunni góðu var mér að sjálfsögðu eignað þetta flugvallarstæði einum rétt eins og nafnið Töfrafoss.
Fokker 50 vél frá Flugfélagi Íslands hefur gert aðflug að lengstu flugbrautinni og um daginn þegar vélarbilun varð í slíkri vél á flugi þarna yfir, voru fyrstu viðbrögð flugmanna miðuð við að nauðlendingu á hálendinu. Þá hefði þetta verið eini staðurinn þar sem hægt væri að lenda Fokker 50 flugvél ef flugmennirnir fyndu hann.
Ég hef gefið flugmálayfirvöldum upp hnit staðarins upp og í björtu eru brautirnar á Auðkúluheiði og Sauðármelur einu staðirnir á öllu hálendinu sem koma til greina sem lendingarstaðir fyrir Fokker 50. Brautin á Auðkúluheiði er þó við það að vera of stutt en tvær af þremur brautum á Sauðarmel eru nothæfar fyrir Fokker 50.
Ef eldgos brytist út á þessu svæði eins og vísindamenn telja að geti komið til greina, er augljóst hagræði af því að eiga völ á einum svona stað.
Þegar rúta fór ofan í Hólsselskíl hér um árið fór 19 farþega flugvél frá Akureyri, lenti á braut við Grímsstaði á Fjöllum og flutti slasaða til Akureyrar.
"Flugvöllurinn" á Sauðármel getur því verið öryggisatriði ef slys ber að höndum á þessu stóra svæði.
Síðast þegar ég var þarna á ferð fyrir nokkrum dögum lenti ég á Sauðármel og veit ekki betur en að hann sé enn fær því að þarna er alveg ótrúlega snjólétt miðað við það að þetta er í 640 metra hæð yfir sjó.
Og jafnvel þótt snjór væri á vellinum er margfalt betra að lenda í snjó með sléttu undirlagi en í urð, hrauni eða grjóti.
Nýlega barst mér bréf frá sýslumanninum á Seyðisfirði þar sem sagt var að lögregluyfirvöld eystra treysti sér ekki til að taka kæruna góðu til frekari meðferðar vegna þess að ekkert saknæmt hafi fundist.
Á sínum tíma var Agnar Koefoed Hansen tortryggður vegna hinna nánu tengsla hans við Þjóðverja sem kenndu hér svifflug og létu Íslendingum í té þýskar svifflugur og flugvélarnar Súluna og Klemminn.
Það gat því verið tortryggilegt að hann merkti flugvallarstæðið á Sauðármel þar sem auðveldlega mátti gera nógu stóran flugvöll fyrir stærstu herflugvélar Þjóðverja.
Kort sem Þór Whitehead hefur grafið upp í Þýskalandi sýnir þó að þetta svæði var ekki eitt þeirra lendingarsvæða sem merkt voru þar inn.
Það hreinsar nafn Agnars Koefoed endanlega hvað snertir þjóðhollustu hans.
Ef endir kærumálanna nú verður sá að ekki verði frekar aðhafst í þeim ætti það að hreinsa líka nafn hans og Bergs G. Gíslasonar af því að hafa framið náttúruspjöll sem geti nú varðað allt að tveggja ára fangelsi.
Bloggar | Breytt 27.11.2007 kl. 10:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.11.2007 | 19:14
DRAUGAR ÓTTA OG TORTRYGGNI.
Sagan geymir dæmi um skaðsemi útþenslustefnu stórvelda og ótta og tortryggni þjóða gagnvart henni. Síðustu mánuði fyrir innrásina í Sovétríkin mynduðu Þjóðverjar svonefnt Tripartíbandalag nágrannaþjóða Sovétríkjanna og í kjölfarið fór mesta innrás sögunnar sem á endanum kostaði yfir 20 milljónir lífið í Sovétríkjunum. Þetta situr áreiðanlega í Rússum nú þegar Bandaríkjamenn "hnykla vöðvana" í nágrannaríkjum Rússa eins og Pútín orðar það.
Stjórnarfarið í Rússlandi er ekki gott en ekkert hentar betur þeim sem þar vilja auka völd sín en að geta bent á aðsteðjandi ögrun og þjappað þjóðinni saman gegn ímynduðum óvini.
Þegar NATÓ var myndað á sínum tíma var það gert á grundvelli útþenslustefnu Stalíns sem talin var ógna Vestur-Evrópu. Stalín "hnyklaði vöðvana". Vesturveldið voru þá minnug útþenslustefnu Hitlers á sínum tíma bæði í vestur, austur, norður og suður rétt eins og útþenslan til austurs það situr vafalaust enn í Rússum.
Að sjálfsögðu var sú ógnarstjórn sem Stalín kom á í leppríkjum sínum í Austur-Evrópu á engan veg sambærileg við það lýðræðisfyrirkomulag sem nú hefur breiðst út með frelsisbylgju sem skellur úr vestri á landamæri Rússlands.
Það breytir ekki því að þegar þjóðum finnst aðrar þjóðir "hnykla vöðvana" gagnvart sér á ögrandi hátt er ekki spurt um hvort þjóðskipulag útþensluþjóðanna sé gott eða lélegt.
Við getum kallað þetta þjóðasálfræði sem er að mörgu leyti lík sálfræði einstaklinga.
Einar Þveræingur lagði ekki illt til ríkjandi Noregskonungs sem vildi frá Grímsey til yfirráða heldur benti á þá óvissu sem ríkti um það hvort eftirmenn hans létu það eitt nægja að "hnykla vöðvana" án þess að nýta sér aðstöðuna sem þeir hefðu fengið.
Einar benti á að frá Grímsey gæti konungur farið með langskipum í leiðangra í hugsanlegu valdabrölti og yrði þá hætt við að "mörgun búandkarli þætti þröngt fyrir dyrum."
Nú hnykla Rússar vöðvana með flugvélum og kafbátum á Norður-Atlantshafi og afsaka það með því að það sé andsvar við hernaðaruppbyggingu NATÓ við túnfót Rússlands.
Á morgun verður málþing á Hótel Sögu um utanríkismál og fróðlegt verður að sjá hvaða sýn og stefnu íslensk stjórnvöld hafa í þessum efnum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)