28.11.2007 | 23:28
BETUR MÁ EF DUGA SKAL.
Hún er góð fréttin um að losun gróðurhúsalofttegunda í iðnaði í Bandaríkjunum hafi minnkað. En betur má ef duga skal hjá þjóð sem stendur fyrir fjórðungi allrar losunar í heiminum. Síðustu tíu ár hefur sigið mjög á ógæfuhlið hjá þeim hvað snertir bílaflotann. Þeir voru komnir vel á veg með að minnka eyðslu venjulegra fólksbíla.
Sem dæmi get ég nefnt að í hátt á annan tug þúsunda kílómetra akstri milli þjóðgarða og virkjana sem við hjónin ókum hér um árið, vorum við á 1600 kílóa bíl með sex strokka tæplega 200 hestafla vél og allan tímann í tímakapphlaupi og ókum á löngum köflum upp og niður í Klettafjöllunum, allt upp í rúmlega 4000 metra hæð yfir sjávarmál. Þrátt fyrir þetta var meðaleyðslan um 8,5 lítrar á hundraðið. Bensínið var svo ódýrt að kostnaðurinn samsvaraði 3,5 lítra eyðslu á Íslandi.
Þessir bílar höfðu og hafa litla loftmótstöðu og afar háan efsta gír.
Síðan þetta gerðist hefur "hinn ameríski lífsstíll" hins vegar fætt af sér jafn hastarlegt hestaflakapphlaup og ríkti á árunum 1955-60. Stórir fjórhjóladrifnir drekar komust í tísku og hinn dæmigerði bandaríski pallbíll, tákn frelsisins í víðáttum vestursins, rauk upp í um og yfir þrjú tonn með allt að 400 hestafla vélum, jafnvel 500 hestafla rokkum.
Á árunum eftir orkukreppuna í kringum 1980 voru settar strangar reglur í Bandaríkjunum sem þvinguðu bílaframleiðendur til að framleiða sparneytna fólksbíla.
Síðari árin hafa bílaframleiðendurnir hins vegar komist fram hjá þessu með því breyta bandaríska vinnubílnum, pallbílnum, sem var undanþeginn sparneytnisreglunni, í lúxusfarartæki með palli, jafnvel af gerðinni Cadillac.
Í útliti þessara bíla er fyrst og fremst hugsað um að gera þá verklega og hernaðarlega, með köntuðu lagi sem skapar mikla loftmótstöðu. Þetta hefur verið "karlmannatíska í stáli."
Hestaflakapphlaupið hefur hins vegar séð fyrir því að þetta kemur ekki að sök hvað snertir hraða þessara bíla, en fyrir bragðið eyða þeir tvöfalt og jafnvel þrefalt meira en fólksbílar með jafn mörg sæti gera.
Í Bandaríkjunum kostar bensínið allt að þrefalt minna en hér á landi þannig að flestum Bandaríkjamönnum er slétt sama um eyðsluna.
Ég sé engin merki um að Bandaríkjamenn ætli að hreyfa við þessu óeðlilega ástandi enda er ekki að sjá að losunin hafi minnkað þar hjá bílaflotanum.
En okkur ferst svo sem að tala um kanann. Sjálf aukum við losunina ár frá ári og bandaríski pallbílsdrekinn er að verða okkar þjóðartákn. Við nálgumst óðfluga Norður-Ameríkumenn í losuninni og samt njótum við góðs af því að geta hitað upp hús okkar að mestu leyti með mengunarlausum hitaveitum.
Betur má ef duga skal fyrir vestan, hvað þá hér heima.
![]() |
Minni losun í Bandaríkjunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
28.11.2007 | 19:02
MISMUNUN TUNGUMÁLA.
Heyrði rétt í þessu að auglýstur var í sjónvarpi bíll sem er ekki lengur fólksvagn heldur vólksvagn. Mér finnst það hart fyrir umboðið, sem selur Volkswagen, að þulurinn í auglýsingu þeirra skuli ekki getað borið svo þekkt nafn rétt fram. Þjóðverjar bera þetta nafn fram "folksvagen" og þar sem þetta nafn þýðir fólksvagn á íslensku er það enn fráleitara að bera þetta fram "volksvagen."
Enginn auglýsingaþulur kæmist upp með það að bera nafnið Range Rover fram eins og það væri íslenskt heldur myndi hann að sjálfsögðu bera það fram "reinds rover."
Ég tala um mismunun tungumála vegna þess að allir vanda sig við að bera fram ensk nöfn en sýna öðrum tungumálum, - íslenska meðtalin, - furðulega lítilsvirðingu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
28.11.2007 | 13:07
KRISTINN OG JÓNAS - EINFÖLD SNILLD.
Sperrti strax eyrun þegar síðasta lag fyrir fréttir hljómaði í útvarpinu áðan. Ekki aðeins var söngurinn afbragð heldur ekki síður undirleikurinn í laginu Hamraborginni. Píanóleikarinn sló nóturnar við kaflaskil lagsins svo ofurseint og hægt og veikt að svona nokkuð hef ég ekki áður heyrt píanóleikara voga sér að gera svona afdráttarlaust. Fyrir bragðið mynduðust dramatískar þagnir og hljóð spenna.
Eftir hendinguna "...er blundað á rósum"... komu næstu þrjár nótur ótrúlega hægt og lágt. Það lá greinilega ekkert á. Manni datt í hug að hugsun píanóleikarans væri svipuð eins og hjá manninum, sem átti að hengja, lét bíða eftir sér og rökstuddi töfina með því að það gerðist ekkert fyrr en hann kæmi.
Og hvers vegna ekki að dotta nánast við píanóið? "Blundað á rósum" táknar jú algera kyrrð.
Stemningin sem myndast við það að þessar þrjár nótur eru slegnar svona ofurhægt og hljótt gerir það að verkum að lokakaflann verður enn magnaðri og áhrifameiri: "...nóttin logar af norðurljósum!" Er hægt að biðja um betri túlkun á því að í þessu hálfmeðvitundarlausa ástandi er logandi himinninn í algerri mótsögn við hina æpandi þögn.
Það eru venjulega tenórar sem syngja Hamraborgina og einkum er það orðið "logar" í hendingunni "nóttin logar af norðurljósum" sem gefur þeim tækifæri til að þenja röddina og hálfsprengja á þann hátt sem bassar og baritónar geta ekki gert.
Söngvarinn í síðasta laginu fyrir fréttir í dag var ekki tenór en samt greip flutningur hans mann heljartökum og píanóleikarinn sýndi hvað hægt er að gera með samstilltri snilld söngvara og undirleikara.
Síðan sagði þulurinn: "Kristinn Sigmundsson söng. Jónas Ingimundarson lék á píanóið." Það hlaut að vera. Tveir snillingar leggja sama, gefa margsungnu lagi nýja vídd og frægustu tenórum langt nef.
Nú er Kvik að gera heimildarmynd um Kristin Sigmundsson og á Páll Steingrímsson miklar þakkir skildar fyrir það. Þetta hefði að vísu átt að gera strax fyrir áratug á vegum sjónvarpsstöðvanna en hinn mikli og hógværi ljúflingur Kristinn hefur aldrei kunnað að trana sér fram.
Það má aldrei gerast að dagskrárliðurinn "síðasta lag fyrir fréttir" verði lagður niður hjá Rás 1. Eftir að fréttastefinu góða var hent er þetta orðið það eina sem skapar þessum mínútum í dagskránni þá sérstöðu sem á að vera ófrávíkanleg að mínum dómi í dagskrá bestu útvarpsrásar á Íslandi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)